Klukkurnar á græna veggnum sýna
tímann í Tókýó, London, New York og
10.45 í
Reykjavík. Lyktin
á kaffihúsinu er sambland af
hreingerningarlegi, nýlöguðu kaffi
og tóbakslykt frá í gær. Ég kveiki í
fyrstu rettu dagsins.
Afgreiðslustúlkan
sem byrjaði fyrir skömmu færir mér
kaffi og klakavatn. Gott að vera á
sínu kaffihúsi, þar sem
afgreiðslufólkið veit hvað maður
vill. Hún er samt heldur feimin og
fámál, ekki alin upp á mölinni,
kemur frá litlu sveitarþorpi austur
á landi. Nú veit ég að hún býr hjá
móðursystur sinni uppi í Breiðholti
og tekur 112 á hverjum morgni. Sú er
kennari í Austurbæjarskóla og á tvo
uppkomna syni. Annar er á sjó en
hinn gengur um göturnar atvinnulaus.
Hún fær að nýta herbergi sjómannsins
að minnsta kosti út þennan mánuð.
Draumur hennar er að komast í
fósturskólann og leigja sér tveggja
herbergja íbúð. Ég persónulega tel
hana allt of feimna og hlédræga til
að valda svo ábyrgðarfullu starfi.
Ég dreg að mér
reykinn. Hvað er betra en fyrsta
rettan og kaffi? Fastagestirnir eru
ókomnir. Hlédræga skáldið sem situr
alltaf við borðið í horninu kom
ekkert í gær. Hann er vanur að sitja
afskiptur og skrifa í stílabækur
ljóðin sín um svartklæddu konuna.
Annars var hann víst virtur
bankamaður hér áður fyrr, átti konu,
börn og fallega íbúð. Svo eitt
sumarið fengu þau ódýra ferð með
starfsmannafélagi bankans til
Mallorca. Þessi ferð breytti lífi
hans. Eiginkonan kynntist
bankastjóranum mjög náið. Hún býr nú
í stórglæsilegu húsi á Arnarnesinu
og börnin fær skáldið ekki að sjá.
Afgreiðslustúlkan
færir mér meira kaffi. Klukkan
nálgast tólf. Hádegisgestirnir að
mæta. Veðrið er svo fallegt að
einhverjir gætu átt það til að
setjast út á pall. Eigandinn,
myndarlegur maður tæplega fertugur,
hefur nýlokið við að raða þar borðum
og stólum. Þarna kemur sú feita úr
stjórnarráðinu, lætur sig ekki vanta
ef matur er annars vegar. Hún hefur
víst prófað allt frá Núpolétt til að
vera fastandi í nokkra daga án
mikils árangurs. Með henni er ungur
maður, sem ég veit engin deili á.
Sennilega nýbyrjaður í starfi. Hann
hefur þó komið með henni alla
vikuna. Þau setjast inn. Hvað skyldi
hún panta sér í dag? Það var
humarsúpa í gær ásamt
kjúklingasamloku sem hún skolaði
niður með pilsner.
Svo koma alltaf um
þetta leyti tveir ungir piltar úr
Menntaskólanum í Reykjavík. Þeir eru
vanir að setjast við borðið næst
glugganum hægra megin og tefla. Afar
viðkunnanlegir báðir tveir. Þeir
hafa verið vinir alveg frá því í
barnaskóla, en koma þó úr mjög ólíku
umhverfi. Svavar, en það heitir sá
minni, fæddist með silfurskeiðina í
munninum. Mamma hans komin af einni
ríkustu ætt þessa lands og pabbinn
orðinn ráðherra. Skúli aftur á móti
hefur þurft að vinna með skólanum
til að hjálpa móður sinni eftir að
faðir hans fannst dauður í höfninni.
Talið var að hann hefði dottið milli
skips og bryggju, á einu af þessum
allsherjar fylliríum sínum sem hann
stundaði mestan part ævi sinnar. En
það virðist ekkert geta skyggt á
vináttu þeirra og ég hef heyrt að
ráðherrann ætli að halda þeim báðum
stórveislu nú í vor að loknu
stúdentsprófi. Hver segir svo að
ráðherrar láti ekkert gott af sér
leiða? Skáldið er mætt. Hann virðist
allt öðruvísi en hann á að sér að
vera, brosir og gerir að gamni sínu
við afgreiðslustúlkuna. Hvað hefur
komið fyrir? Hann kemur meira að
segja að borðinu mínu og býður mér
sígarettu.
Þá tek ég eftir
skónum, svörtum og glansandi með
hvítri tá, eins konar Fred Astair-
skór. Hvar hefur hann náð í þessa?
Þeir passa einhvern veginn ekki við
snjáðar ullarbuxurnar og
Gefjunarúlpuna. Og svei mér þá ef
hann er ekki búinn að þvo á sér
hárið. Hann rýkur að barborðinu og
talar við eigandann. Fjárinn að
heyra ekki hvað þeim fer á milli. Ég
sé bara að eigandinn brosir út að
eyrum og kinkar kolli. Nú þarf ég
meira kaffi, ég bendi stúlkunni að
koma til mín. Hún kemur með könnuna
en segist ekkert hafa heyrt hvað fór
á milli skáldsins og eigandans. Ég
dreg að mér reykinn og sötra
rjúkandi kaffið.
Skáldið stendur
enn við barborðið, hann virðist
allur svo breyttur. Hann er kominn
með bjórkönnu í staðinn fyrir sitt
venjulega vatnsglas. Ég hef aldrei
séð hann drekka bjór áður. Skyldi
hann hafa lent á fylliríi? Þar kemur
kannski skýringin á skónum. Einhver
í partýinu hefur ruglast og tekið
strigaskóna hans, sem hann hefur
gengið í alveg frá því að ég sá hann
fyrst.
Eða er skáldið
ástfangið og hættir nú að yrkja
döpur ljóð um svartklædda konu?
Kannski verða ljóðin hans björt og
full af lífi? Ég sé nú að klukkan
nálgast tvö, slæmt að geta ekki
komist að þessu með breytinguna á
skáldinu áður en ég þarf að mæta í
vinnuna. Enn verra að þurfa að bíða
til morguns. Ég gæti farið upp að
barborðinu og borgað reikninginn.
Stúlkan að austan er nýfarin út á
pall að bjóða gestunum meira kaffi.
Nú gefst mér tækifæri til að tala
aðeins við skáldið. Bara ég sé ekki
orðin of sein, hann er búinn úr
bjórkönnunni og virðist vera að
kveðja eigandann.
Æ skrambinn, nú er
hann farinn og ég bara kominn hálfa
leið að barnum. En ef hann kemur nú
ekkert á morgun? Hann settist ekkert
við borðið sitt í dag. Hann gæti
verið búinn að kollvarpa öllum sínum
venjum og það sem verra er, hann
gæti verið búinn að finna sér nýtt
kaffihús. Ég verð bara að vona það
besta. Ekkert fæ ég upp úr
eigandanum, hann er hljóður sem
gröfin þegar kúnninn á í hlut.
Prinsip segir hann.
Ég borga kaffið og
geng út á pallinn. Þarna situr hún
þessi smeðjulega kona sem hefur
verið að venja komur sínar hingað
síðustu daga. Afgreiðslustúlkan að
austan er að hella kaffi í bollann
hennar og þessi frekja er að spyrja
hana spjörunum úr um hennar hagi.
Eins og þeir komi henni eitthvað
við.
Ef það er eitthvað
sem ég þoli ekki þá er það forvitið
fólk.

|

|
Deila
á Facebook. |
|
|
Deila á Twitter
|
|
|
|
|
|