Það var einu sinni
fyrir langa löngu að maður nokkur
sem Alexander hét bjó í borg sem var
svo lítil að nú eru menn löngu búnir
að gleyma hvað hún hét og meira að
segja í gamla daga var fólk alls
ekki visst á því, en það gerði
ekkert til því fólk talaði bara um
borgina. Einhverntíman hefði
þessi borg eflaust orðið efni í
ævintýri, en svo illa vildi til að
saga okkar gerðist eftir að tími
ævintýranna var liðinn þannig að
ekki var því til að dreifa. Hvernig
getum við verið svona viss um að
tími ævintýranna hafi í raun og veru
verið liðinn? Jú, Alexander hafði
nefnilega þann starfa að skrá
ævintýri fyrir konunginn og litlu
sætu hirðina hans og það hefði hann
ekki geta gert nema tími ævintýranna
væri liðinn.
Það eru svo sem
fleiri sannanir fyrir því að
Alexander okkar lifði ekki í neinni
ævintýraveröld. Hann átti til dæmis
hvorki þrjár dætur né þrjá syni
heldur fjórar dætur, tvo syni og
eina gamla tengdamóður, en ekki veit
ég af hverju ég er að segja ykkur
frá þessu því fæst af þessu fólki
kemur við sögu okkar. Hann bjó
heldur ekki koti sínu heldur í
hlöðnu múrsteinshúsi sem var alveg
nógu stórt fyrir Alexander, konuna
hans, börnin sex (sem voru reyndar
dálítið feit) og tengdamömmu sem var
komin í kör. Ég get svosem sagt
ykkur frá því til fróðleiks að ég
hélt alltaf að gamlar konur sem væru
komnar í kör hefðu legið í
þvottabala eða tunnu öllum stundum
en það þýðir víst eitthvað allt
annað, en þetta er nú ekki orðabók
þannig að ég segi ekki frekar af
því.
Í húsinu var svo
líka fjaðurpenninn hans Alexanders
og tromman. Þegar Alexander var ekki
að skrifa fyrir konunginn og hirðina
lék hann nefnilega á trommu í
lífvarðasveitinni. Ekki svo að
skilja að hann væri alltaf
annaðhvort að skrifa eða leika á
trommu því auðvitað þurfti hann að
borða og sofa. Svo haldið þið
kannski að Alexander hafi líka lesið
ævintýrin fyrir hirðina, en þannig
var það alls ekki. Það var nefnilega
fjarskyldur ættingi konungsins sem
las ævintýrin upp. Og hann var svo
málhaltur að þegar hann fór að lesa
veltist öll hirðin um af hlátri,
jafnvel þótt ævintýrin væru ekki
vitund skemmtileg, sum áttu meira að
segja að vera sorgleg og þá fannst
nú Alexander ekki gaman þegar hirðin
hló, því að hann hafði vandað sig
alveg sérstaklega við þau. Þá barði
hann trommuna sína alveg sérstaklega
fast, því að honum fannst frændinn
eyðileggja ævintýrin sín. En hann
gat náttúrlega ekki gert það strax
því að þá hefði enginn heyrt í
málhalta frændanum og Alexander
hefði verið hálshöggvinn á
stundinni. Það hefði nú ekki verið
skemmtilegt því að þá væri sögu
okkar lokið, en það er svolítið
eftir af henni enn. Auðvitað hefði
líka verið hægt að hætta bara við
söguna af Alexander og fara að segja
af einhverjum öðrum, en það verður
að bíða betri tíma. Nógu erfitt
virðast lesendur nú eiga með að
halda þræðinum í sögunni hans
Alexanders.
Nú líður og bíður
eins og oft varð á þessum tíma og
ein af dætrum konungs tók svo mikla
hugsýki að hún gat ekki mælt orð frá
vörum hvernig sem við hana var
látið. Fyrst héldu menn að hún væri
í fýlu út af því að yngri systir
hennar (sem var reyndar bara
hálfsystir, því að kóngurinn hafði
átt hana með eldabuskunni, en hann
var svo mikill matmaður að hann
eyddi löngum stundum í eldhúsinu)
var miklu leiknari í skák en hún. En
það virtist nú alltaf langsótt
skýring í ljósi þess að þær hittust
nánast aldrei og þá sjaldan þær
hittust tefldu þær hreint ekki
saman. Sigfinnur seiðkarl taldi
líklegast að raddböndin hefðu lamast
þegar hún hefði ætlað að syngja
einhvern mjög háan tón, til dæmis
fís fyrir ofan háa C og af því að
við vitum alls ekki skýringuna getum
við alveg eins fallist á kenningu
Sigfinns.
Kónginum þótti hins
vegar svo vænt um þess dóttur sína
að hann tók alls ekki áhættuna að
láta Sigfinn brugga henni neina
ólyfjan, því að flestir sem höfðu
smakkað á þeim blöndum urðu ekki
frekar til frásagnar um það. Þess
vegna hugsaði hann með sér: Kannski
hefur hún gaman af tónlist og sagði
þegar í stað: „Færið mér
trommuleikarann minn“ en aðra
tónlistarmenn hafði hann nú ekki í
þjónustu sinni (ég veit satt að
segja ekki við hverju þið hafið
búist af kóngi sem leggur lag sitt
við eldabusku).
Alexander mætti á
staðinn. „Bomm, porobomm, porobomm,
bomm, bomm,“ drundi í trommunni hans
og þegar hann var búinn að lemja
trommuna stanslaust á annan
sólarhring voru allir í hirðinni
orðnir heyrnarlausir og hefðu því
alls ekki vitað þó að kónsdóttirin
hefði farið að tala aftur. Alexander
sagði við kónginn: „
“ og kóngsi
svaraði „
“, svo að þið sjáið að það er ekki
gaman að vera heyrnarlaus. En af því
að Alexander þurfti að sofa og borða
eins og ég sagði ykkur áðan kom að
því að hann varð að hætta. Þá greip
einhver til sinna ráða og faldi
trommuna, svo að Alexander fann hana
ekki þegar hann vaknaði, hvernig sem
hann leitaði.
Þá var ekki fleiri
tónlistarmönnum til að dreifa svo að
kóngsi lét Alexander koma með
glænýtt ævintýri fyrir dótturina. Og
í þetta sinn vandaði Alexander sig
alveg sérstaklega vel og skrifaði
upp alveg sérstaklega fallegt
ævintýri. En þegar málhalti frændinn
las það hló enginn, og enginn grét
heldur. Það voru nefnilega allir
orðnir heyrnarlausir eins og áður er
fram komið þannig að allt kom fyrir
ekki. Í því kom Sigfinnur seiðkarl
með sægræna blöndu og bar fyrir
konunginn, sem var orðinn svo reiður
að ef hann hefði haft stjórn á sér
hefði hann látið seiðkarlinn sjálfan
drekka af bikarnum. En þess í stað
sló hann bikarinn úr höndum Sigfinns
svo ógnarlangt að að hann sentist
yfir herbergið og hluti af
innihaldinu lenti í stórri skál á
langborði á veggnum undir
skjaldarmerkinu og sverðunum. Kemur
nú ekki eldabuskan og jós úr
skálinni stóru í staup fyrir
hirðina. Fátt er betra en góður
svaladrykkur og ekki leið á löngu
áður en öll hirðin var búin að súpa
á miðinum þeim arna. En sækir þá
þegar að þeim svo mikil syfja að þau
þykjast þvílíkt aldrei hafa fyrr
fundið og sofnar hver um annan
þveran þar sem hann stendur eða
situr. Þið haldið kannski að
kóngurinn hafi verið heppinn þar sem
hann sat í plussklæddu hásætinu, en
það var hreint ekki sérstaklega
glæsilegt. Það var fúkkalykt af
plussinu og ekki veit ég nema í því
hafi líka skriðið maurar. Þá var nú
betra að vera í ævintýri.
Alexander hafði hins
vegar verið önnum kafinn að leita að
trommunni sinni þannig að hann
hvorki drakk mjöðinn mengaða né
vissi hvaðan á sig stóð veðrið.
Ráfar hann nú úr einu herbergi í
annað í höllinni og af því að allir
verðirnir höfðu sofnað var hann
óáreittur við iðju sína. Kemur hann
nú í herbergi sem hann hafði aldrei
komið í áður og sér að þar er gömul
kona að spinna á snældu. Honum
virðist konan kveða eitthvað fyrir
munni sér en af því að hann heyrði
ekki svo mikið sem músartíst veit
hann ekkert hvað hún var að segja og
heldur áfram leitinni í næsta
herbergi. Þar sér hann aðra konu,
yngri en þá fyrri og heldur hún á
epli sem er rautt öðrum megin og
grænt hinum megin. Ekki sá hann
betur en að konan væri að spjalla
við spegilinn sinn, og segir
Alexander þá með sjálfum sér hve
ósköp einmana hún sé, þessi góða
kona. Í þriðja herberginu er svon
enginn nema ung kona með rauða
prjónakórónu. Sér hann að þar er
engin önnur en prinsessan, en það
höfðu verið erfiðir tímar þannig að
kóngurinn þurfti að veðsetja fínu
gullkórónuna hennar með demöntunum
gamla nirflinum honum Nikulási
nurlara. Hugsar nú Alexander að hann
geti laumað á hana kossi, kannski
yrði hún hrifin af honum og hann
gæti skilið við konuna sína, losnað
við tengdamóðurina og
krakkaskrílinn, sem hann mundi ekki
einu sinni sjálfur hversu mörg voru.
Svo fengi hann hönd dótturinnar og
hálft ríkið og þá gæti hann rekið
málhalta sögumanninn úr sínum
helmingi af ríkinu. Kannski vildi
hún bara hafa hann sem ástmann sinn
þegar hún giftist einhverjum prinsi,
fursta eða markgreifa. Ef hún tæki
kossinn illa upp gæti hún ekki
kallað á verðina, því hún var
mállaus blessunin. En honum varð
ekki kápan úr því klæðinu að kyssa
prinsessuna. Í því að hann beygði
sig fram og setti stút á munninn
fann hann að hann fékk eitthvað
ógnarþungt í höfuðið og þá gerði
hann sér grein fyrir því að tími
ástarævintýranna var liðinn líka.
Alexander vissi það
aldrei en þetta var einmitt tromman
hans sem hann fékk í höfuðið, en
prinsessan var í miðju trommusólói
þegar hann kom inn. Já, það getur
verið dýrt spaug að vera
heyrnarlaus.
Sögur geta svosem
endað á ýmsum stöðum og þessi gæti
endað hér, því þetta var áður en
allar sögur enduðu vel. Þessi fór
þannig að kóngurinn og hirðin
vöknuðu og var meira að segja batnað
í eyrunum. Prinsessan lærði að gera
sig skiljanlega með trommuslætti og
kóngurinn ákvað að gefa honum
Nikulási nurlara dóttur sína. Hún
var satt að segja ekkert sérstakt
þessi dóttir og svo fékk hann
kórónuna til baka. Þau fluttu svo út
í skóg með trommuna og trufluðu svo
sem engan. Dýralífið var fáskrúðugra
í kringum kofann þeirra eftir að
trumbuslátturinn hófst, en hvað með
það? Leyndardómur trommunnar? Ef ég
segði ykkur það væri það ekki mikill
leyndardómur lengur, eða hvað?
Hvað skyldi hafa
orðið um Alexander? Jú hann ætlaði
að halda áfram að skrifa ævintýri,
en nú hafði hann ekki hæfileika til
þess lengur og skrifaði bara sögur
án upphafs og endis og sé hann ekki
hættur því þá er hann sjálfsagt enn
að.

|

|
Deila
á Facebook. |
|
|
Deila á Twitter
|
|
|
|
|
|