Einu sinni var lítill hundur og stór maður. Þeir átu saman,þeir
sváfu saman og þeir voru saman bæði úti og inni. Enginn hafði séð
annan þeirra án hins.
Litli hundurinn hafði mjúkan feld og dökk barnsleg augu. Hann
hafði líka fallegt trýni og fjórar liprar lappir. Skottið var
hringað, en eyrun lafandi og slengdust til og frá, þegar hann
hljóp,uns þau urðu ljósrauð, og það gerði hann enn hugþekkari.
Börn hændust að honum og færðu honum góðgæti í laumi. Hjón lögðu
leið sína að girðingunni til þess að tala við hann, og fyrirmenn
gældu við hann á götunni. Allir elskuðu litla hundinn, en hann
elskaði engan nema stóra manninn, sem var einstæðingur með marga
augljósa galla og ýmsa dulda kosti.
Dag einn hafði litli hundurinn enga matarlyst, og næsta morgun
var hann svo veikur, að stóri maðurinn bar hann í körfu til
dýralæknis. Læknirinn skrifaði lyfseðil og gaf nokkrar ráðleggingar,
en sagði annars fátt. Þá skildi stóri maðurinn að alvara var á
ferðum.
Litli hundurinn dó um kvöldið. Æðaslög hans höfðu verið óregluleg
og ör, eins og rafstraumur í biluðum tengli, og augu hans höfðu
starað skynjunarlaust út í bláinn.
Stóri maðurinn stóð við hlið hans án þess að geta áttað sig á því
sem orðið var. Síðan tók hann honum gröf úti í trjágarðinum. En
þegar hann ætlaði að leggja þennan litla stirnaða kropp í gröfina og
höfuðið hékk þyngslalega yfir hönd hans, þá varð honum allt ljóst og
hann fékk tár í augun. Þetta var stór og hraustur maður, sem ekki
hafði grátið frá blautu barnsbeini. En litli hundurinn lifnaði ekki
við.
Þegar hundurinn hafði á þennan hátt misst af stóra manninum, tók
hann sprettinn áleiðis til himna að leita hans. Það var langur
langur vegur, því að himnaríki liggur að baki allra stjarna.
En þarna bar margt merkilegt fyrir augu. Þessa sömu leið halda
stöðugt verur úr öllum heiminum. Litli hundurinn lét samt engan
tefja för sína, því hann leitaði bara stóra mannsins. Það var
yndislegt á himnum, en litli hundurinn sá ekkert af allri þessari
dýrð. Hann hljóp aðeins nasandi í krákustígum fram hjá öllum englum
og dýrlingum og fram hjá hásæti Drottins.
- Hvers leitar þú? spurði loks lítill engill. Þá leit litli
hundurinn upp og dinglaði rófunni. - Stóri maðurinn er ekki hér
sagði engillinn, en ég vona, að honum verði hleypt inn. Og síðan
hljóp litli hundurinn alla löngu leiðina aftur til baka og ennþá
lengra,- alla leið til vítis. Þar var hræðilegt um að litast, en það
sá ekki litli hundurinn, sem stöðugt hljóp með trýnið við jörð.
Drísildjöfull einn óð að honum. - Hvað vantar þig? hvæsti hann.
Þá leit litli hundurinn upp og fitjaði upp á trýnið. - Stóri
maðurinn kemur áreiðanlega hingað innan tíðar, kvað djöfsi og hló
hæðnishlátri. Þá hljóp litli hundurinn til baka, þangað sem vegir
skiljast milli himnaríkis og vítis. Þar lagðist hann fram á lappir
sínar og beið rólegur. Að nokkrum tíma liðnum kom skrattinn og tók
sér stöðu við hlið litla hundsins, og skömmu síðar birtist engill
við hina hlið hans. Loks kom stóri maðurinn.
Litli hundurinn rauk á fætur með hringaða rófuna og hentist upp
um hann, svo að löngu eyrun slógust fram og aftur. Hann var alveg
frá sér numinn. Hann gelti og hoppaði og hringsnérist af gleði og
fögnuði. En stóri maðurinn tók litla hundinn í faðm sér, og aftur
komu tár í augu hans.
Þegar skrattinn sá tárin, hypjaði hann sig á burt. Síðan héldu
þeir með englinum áleiðis til himna.

|

|
Deila
á Facebook. |
|
|
Deila á Twitter
|
|
|
|
|