Hann stendur við gluggann í
stofunni og horfir út. Honum finnst allt hafa tekið
stakkaskiptum. Allt hafa minnkað og dregist saman. Meira að
segja bæjarlækurinn er nú orðinn harla lítilmótleg spræna, þetta
ævintýralega vatnsfall sem forðum var.
Hann sér niður við lækinn nokkur tæki sem hann kannast vel
við. Þau eru í niðurníðslu og honum finnst það dapurlegt. Hann
sér gömlu sláttuvélina sem eitt sinn var rauð og gul á litin og
glampaði á. Hún var einu sinni hámark tækni og framfara. Nú er
hún ryðguð og óhrjáleg rétt eins og hún standi sem minnismerki
um hverfulleika lífsins.
Neðst við traðirnar liggur rakstrarvélin sem hann sat á og
stjórnaði og fannst hann vera kóngur í ríki sínu. Hún hefur nú
grafið tindana í moldinni og hann fær á tilfinninguna að hún
haldi dauðahaldi í þessa jörð sem hún eitt sinn þjónaði, jörðina
sem hefur nú hafnað henni eins og hverju öðru skrani.
Og amma áttræð í dag – og flúin í annan heim. – Rugluð, segja
þau. Og Árni dáinn. Og pabbi að halda ræðu – eins og venjulega.
Hann hrekkur upp frá hugleiðingum sínum við það að gripið er
mjúklega í hönd hans. Hann lítur við. Það er Soffía systir hans.
„Vaknaðu, Gestur minn. Pabbi er búinn með Einar Ben. og
Stephan G. og er nú í miðjum Erni Arnarsyni. Hann tekur aldrei
nema þrjá.“ Hún hlær lágt. „Manstu þegar ég varð stúdent og hann
fór með öll Hávamálin blaðalaust. Ég hélt ég myndi deyja.“
Gestur glotti og leit á pabba sinn. Hann stóð á miðju gólfi,
fattur með greipar spenntar á brjóstinu eins og gamall prestur.
Á meðan hann talaði horfði hann á móður sína þar sem hún lá
hreyfingarlaus í rúmi sínu út við vegg og virtist ekkert heyra.
Hún starði upp í hvítmálað loftið eins og hún sæi sýnir. Armar
hennar voru krosslagðir á sænginni sem lá undarlega flöt yfir
henni eins og hún hefði engan líkama lengur, bara höfuð og
handleggi. Hárið þunnt og hvítt breiddist yfir koddann og rann
saman við hann. Svo lygndi hún aftur augunum eins og lítið barn
sem líður inn í draumalandið. Pabbi lét sem ekkert væri:
„sæt mun hvíldin eftir vegferð stranga –
þá vildi ég, móðir mín,
að mildin þín
svæfði mig svefninum langa.“
Soffía rak olnbogann í síðuna á Gesti og hvíslaði: „Ég held
svei mér þá að dæmið hafi snúist við.“ Hann heyrði að hún átti
fullt í fangi með að hemja hláturinn. „Hann er búinn að svæfa
móður sína. Guð minn góður, þessir kennarar. Er þetta
atvinnusjúkdómur?“
Gestur gat ekki annað en brosað. „Vonandi ekki svefninum
langa,“ sagði hann við Soffíu en þagnaði þegar Ella,
föðursystir hans lagði fingur að vörum sér. Pabbi var á
lokakaflanum.
„Og nú er hún orðin áttræð. Við skulum vona að enn megi hún
lifa í mörg farsæl ár. Við, börnin hennar, tengdadóttir og
barnabörn – og nú barnabarnabarn, sem hér erum saman komin til
að samfagna henni á þessum merku tímamótum, vonum öll sem eitt
að hingað, á æskuslóðir okkar systkinanna, getum við komið lengi
enn til að endurnýja veganestið sem móðurhjartað eitt getur
gefið, eins og skáldið sagði. Við óskum þér öll, mamma mín, til
hamingju.“
Pabbi gekk til móður sinnar, beygði sig niður að henni og
kyssti hana á kinnina. Allir hinir fóru að dæmi hans og röðuðu
sér við rúmið. Amma svaf enn.
Gestur leit í kringum sig í herberginu. Hér var allt eins og
var. Ekkert hafði breyst. Sömu myndirnar á veggjunum, sömu
fábreyttu húsgögnin. Allt virtist hafa staðið í stað. Allt
óbreytt – nema þau – og amma. Hér var hún einu sinni drottning.
Og Árni – dáinn.
Skyndilega sá Gestur að amma var að ranka við sér. Hún
opnaði hægt augun og horfði í kringum sig. Síðan leit hún á
pabba.
„Varstu að segja eitthvað, Áslákur? Komstu á honum Skjóna?
Metfé má sú skepna vera. – Og gangurinn...“ „Nei, mamma mín,“
greip pabbi fram í, „ég kom á Lödunni. – Svo heiti ég
Vilhjálmur, - sonur þinn.“
Gestur heyrði að rödd pabba var vandræðaleg og hann gat sér
þess til að honum hafi ekki getist að því að amma kallaði hann
Áslák. Það var greinilegt hvert hún sótti það nafn. Hann mundi
vel eftir séra Ásláki. „Pokaprestur,“ hafði Árni sagt um hann.
Og Árni sagði alltaf satt.
„Komstu á Lödu, hvaða bölvuð bikkja er það?“ Amma átti ekki
orð. „Ekki nema það þó. Hann Árni hefði seint valið reiðhesti
sínum slíkt nafn. –Það hefði líka varla hent hann Árna að láta
pranga inn á sig einhverri truntu, - það veistu Áslákur minn. Sá
maður keypti ekki köttinn í sekknum.“ Amma virtist sýnu
hressari. „Lada, - fyrr má nú vera nafnið.“
Gestur gat ekki annað en brosað með sjálfum sér. Ef nokkur
gripur átti skilið að heita Skjóni var það Ladan hans pabba.
„Þetta er hann Vilhjálmur, sonur þinn, elskan mín.“ Mamma tók
nú af skarið. „Þú hlýtur að muna eftir honum Vilhjálmi. – Og
Ladan er bíllinn okkar. Manstu ekki þegar við fórum með þig í
ferðalag í honum í fyrra - vestur.“ Mamma var mjúkmál eins og
hún væri að tala við lítið barn.
„Og hver ert þú, kindin mín,“ spurði amma og leit fast á
mömmu. Tortryggnin leyndi sér ekki í röddinni. Mamma hrökklaðist
frá rúminu og Gestur sá að augu hennar fylltust tárum. Soffía
fór á eftir henni og tók huggandi utan um axlir hennar. Soffía
mátti aldrei neitt aumt sjá.
„Hvar er Árni? Árni, hvar er hann,“ spurði amma allt í einu.
„Ég vil fá hann Árna.“
Pabbi leit vandræðalega fyrst á Ellu systur sína og síðan á
mömmu. Svo laut hann yfir ömmu og strauk henni blítt um vangana
eins og til að róa hana. „Hann Árni er dáinn. Hann dó fyrir
fimmtán árum. Ertu búin að gleyma því?“ Pabbi andvarpaði lágt.
„Nei, Áslákur minn, hann Árni deyr ekki. Hann hefur aldrei
dáið.“ Það var sigurvissa í rödd ömmu.
„Jesús minn – hún heldur að hann Vilhjálmur sé hann séra
Áslákur,“ heyrði Gestur að Ella frænka tautaði. „Það er kannski
ekki að furða.“
„Nú verður þú að fara, Áslákur minn,“ hélt amma áfram. „Ég er
að bíða eftir honum Árna mínum.“
Pabbi leit ráðþrota í kringum sig en sagði ekkert. Síðan gekk
hann til mömmu sem stóð út við gluggann.
Ella tók í höndina á Gesti og sagði klökk: „Skelfing er að
vita hvernig þetta gamla fólk verður. Börnin sín þekkir hún ekki
lengur. Hún kallar mig alltaf Röggu, - RÖGGU.“ Gestur sá að hún
var að fara að gráta. „Ragga var leiðinlegasta kerlingin í
sveitinni, manstu ekki eftir henni, síkvartandi og kveinandi.
–Piparkerling – eins og ég. Hún heldur að Vilhjálmur sé séra
Áslákur, sá leiðindagemsi.- Og svo rekur hún hann burt og
heimtar Árna, alltaf Árna, - engan nema Árna.“
Gestur þrýsti hönd Ellu og fann að henni var vorkunn. Hún
hafði sjaldan farið að heiman, einhvern veginn orðið innlyksa
hjá ömmu og hugsað um búið eftir bestu getu eftir að Árni dó.
„Og hvað verður um okkur mömmu? Ég get ekki hugsað um hana
öllu lengur, - og heimilið, - og búið. Mamma var að vona að
Nonni tæki við búinu. Hann var sá eini sem hafði áhuga á
búskap.“
„Hvenær ætlaði hann Nonni að koma,“ spurði Gestur. Hann hafði
ekki séð Nonna árum saman, yngsta bróður pabba. Samt höfðu þeir
verið góðir vinir. En það var svo langt síðan. Nonni var nú
stýrimaður á skipi fyrir austan og sást sjaldan. Það var alltaf
eitthvað ævintýralegt við Nonna. Hann var ekki vitund líkur
systkinum sínum. Gestur hlakkaði til að hitta hann.
„Hann hlýtur að fara að koma,“ sagði Ella. „Ég vona að
minnsta kosti að það dragist ekki lengi. Mamma var alltaf
hrifnust af honum, - sá ekki sólina fyrir honum. Alltaf Nonni, -
og nú Árni. Hann hlýtur að fara að koma. Kannski þekkir hún hann
betur en okkur.“
„Hvar er Árni,“ kveinaði amma skyndilega hátt og skerandi.
„Viljið þið ekki ná í hann Árna.“
Gestur sá að pabbi hraðaði sér að rúmi ömmu. Hún horfði á
hann. „Áslákur minn, þú verður að fara. Ég vil fá Árna.“ Svo
leit hún á pabba og breytti um tón. „Hvernig heyjaðist hjá þér,
Áslákur minn, komstu öllu í hús?“
„Hann Árni er dáinn, mamma mín. Hann dó fyrir fimmtán árum.
Svo er ég Vilhjálmur, sonur þinn...“
En amma trúði pabba ekki. Hún teygði sig í jakkaermi hans,
leit fast framan í hann og sagði: "Hann Árni dáinn – rugl. Árni
deyr ekki.“
„Manst þú eftir Árna?“ Það var Soffía sem spurði. „Hann var
dáinn fyrir mitt minni. Amma virðist ekki hugsa um annað en
hann.“
Þau gengu saman til ömmu og hún brosti við þeim. „Ertu
giftur, Gestur minn? Ertu búinn að finna góða konu? Hefurðu
fundið réttu konuna?“ Gestur var orðinn vanur slíkum spurningum
og kunni svarið utanað. „Nei, amma mín, ég hef ekki enn fundið
þá einu réttu. En ég er ekki búinn að gefa upp alla von.“
„Það er gott, Gestur minn. Það besta kemur oft síðast. Bíddu
bara – sú rétta kemur. –En þú, Ella mín,“ sagði amma og leit á
Soffíu. Ætlar þú að pipra?“
„Nei, amma mín, ég gekk loksins út,“ sagði Soffía. „Ég á
lítinn strák. Þú ert orðin langamma. Hann heitir Vilhjálmur eins
og pabbi.“
Amma brosti. „Ég þekkti einu sinni lítinn dreng sem hét
Vilhjálmur,“ sagði hún. „Hann var fallegt barn.- Hvar er Árni?
Af hverju kemur hann Árni ekki? Geturðu ekki náð í hann Árna,
Gestur minn. Hann er ábyggilega úti við. Honum fellur aldrei
verk úr hendi. Ég þarf nauðsynlega að tala við hann Árna.“
Gestur vissi ekki hvað hann átti að segja. „Hann er ekki hér,
amma mín, hann er – dáinn.“
Amma svaraði engu en lokaði augunum og andvarpaði. Síðan
sneri hún höfðinu út að vegg. Tár streymdu niður hrukkótta
vangana.
„Af hverju þekkir hún þig með nafni en ekkert okkar hinna,“
hvíslaði Soffía.
En Gestur vissi að amma þekkti hann ekki. Hún var að tala við
elsta son sinn, Gest, sem dó um tvítugt. Hann var skírður í
höfuðið á honum. Honum fannst notalegt að amma skyldi tengja
hann við son sinn. Pabbi hafði oft talað fallega um hann.
„Árni – sækið þið Árna,“ stundi amma.
Gestur var feginn að Ella kom þeim til hjálpar. „Guð minn
góður, getur hún ekki hætt? Ég næ í myndina af Árna frekar en
ekkert. Kannski róar það hana eitthvað. Árni, alltaf Árni. Svo
þekkir hún okkur ekki, - börnin sín.“ Ella hljóp fram og kom að
vörmu spori aftur með gamla mynd sem hún rétti ömmu. „Hér er
Árni, mamma mín.“ Síðan fór hún fram í eldhús og Gestur heyrði
að hún fór að huga að kaffinu. Mamma fór fram til hennar.
Hann leit á myndina sem amma hélt á. Hún var af Árna yngri en
hann mundi eftir honum. Minningarnar hrönnuðust upp. Árni,
gæðakarlinn Árni, dugnaðarforkurinn Árni. Árni sem hafði verið
vinnumaður hjá afa og ömmu og séð um búið eftir að afi dó og
annast uppeldi barnanna til jafns við ömmu.
Gestur hafði aldrei séð afa. Afi var bara til á myndinni uppi
á skáp inni í stofu. Hann þekkti bara Árna afa. Hann minntist
þess hversu notalegt það var að hvíla lítil lúin bein í fanginu
á Árna, finna skeggið hans stingast niður í hálsmálið og geta
ekki annað en engst sundur og saman eins og áll og hlegið og
skríkt af því að skeggið kitlaði svo. Og Árni sem hló og hló og
lét skeggið fara upp í nefið á honum svo hann hnerraði og hló
eins og vitlaus. – Og Árni sem allt í einu varð alvarlegur,
settist með honum upp í brekku, tók af sér húfuna og strauk sér
hugsandi um hvítan og gljáandi skallann og gaf honum eitt korn í
nefið svo hann gæti orðið vitur líka og ræddi við hann um
búskapinn og landsins gagn og nauðsynjar og lánaði honum þennan
líka eldrauða tóbaksklút svo hann gæti snýtt sér eins og Árni, -
svo að fjöllin skulfu. Og Árni sem sagði honum svo hrikalegar
tröllasögur að hann þorði varla að loka augunum á kvöldin. Árni.
Árni afi.
Amma lagði myndina á sængina og horfði dreymandi upp í
loftið. „Árni minn. Árni minn.“
Nú heyrðist bankað létt á útidyrnar og einhver gekk inn og
stappaði niður fótunum. Svo birtist brosandi andlit Nonna í
dyrunum. Gestur ætlaði varla að þekkja hann. Nonni var kominn
með skegg og svarta hárið næstum horfið.
Nonni kastaði glaðlega kveðju á alla inni og gekk síðan hægt
til ömmu sem starði á hann brosandi og breiddi faðminn á móti
honum.
Það var ekki fyrr en Nonni föðurbróðir hans lagðist á hnén
við rúmið hennar ömmu og hallaði höfði sínu niður að brjósti
hennar og amma strauk blíðlega kinnar hans og höfuð og Gestur
horfði á myndina af Árna sem hafði verið vinnumaður hjá afa og
ömmu og amma sagði með grátstafinn í kverkunum: „Ertu kominn,
Árni minn,“ og Ella stundi: „Hún kallar hann Árna,“ og pabbi og
mamma litu hvort á annað að Gestur fór að skilja að Árni var
ekki dáinn, ekki aldeilis.

|

|
Deila
á Facebook. |
|
|
Deila á Twitter
|
|
|
|
|