Hann spurði mig á hvaða leið
ég væri. Ég sagði honum það. Þá spurði hann hvort ég gæti gert honum
stóran greiða. Hann væri með konuna sína, barnshafandi, nánar til tekið,
alveg komna að því að fæða. Þau hefðu komið á asnanum og það væri
fyrirsjáanlegt að þau mundu ekki ná til Betlehem í tæka tíð.
Vinafélagið, Ísland og Ísrael, auglýsti í Morgunblaðinu eftir
sjálfboðaliðum til appelsínutínslu á samyrkjubúi í Ísrael.
Við vorum aðeins tveir ævintýrafuglar, sem slógum til og ákváðum að
fórna okkur í þrjár vikur fyrir nokkur tonn af Jaffa- appelsínum.
Þennan náunga, Björn, sem átti eftir að verða samferðamaður minn, hafði
ég aldrei hitt áður. Hann sagðist vera í háskólanum, í félagsfræði og
mannfræði sem hliðargrein, "svona til að kynnast sjálfum mér," eins og
hann sagði.
Við fengum frímiða suður eftir en brennivínið urðum við að borga sjálfir
en suður eftir komumst við vel slompaðir.
Leiðina frá flugvellinum hossuðumst við aftan á vörubílspalli, ásamt
fleiri sjálfboðaliðum og tveimur stráklingum í hergöllum með byssur,
ósköp gæðaleg grey. Bjössi getur þakkað það sinni lélegu ensku, að hann
slapp heill og ógataður ofan af vörubílspallinum, svo var hann búinn að
svívirða þessa ungu pilta, sem höfðu ekkert gert á hans hlut. Þeir höfðu
verið kallaðir úr skóla til að verja landið sitt. Bjössi kenndi þeim um
upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar og allar þær hörmungar. Svo fór nú í
verra, þegar Bjössi skammaði þá fyrir að hafa krossfest Krist. Hefði ég
ekki verið betur á mig kominn en Bjössi, hefði hann fengið að fljúga út
í skógarkjarrið.
Nú var byrjað að rigna, sem betur fór vorum við komnir á leiðarenda.
Ekki beið okkar veisluborð né móttökunefnd, aðeins krús af svöru kaffi
og kex. Svo var okkur sagt að ljósn yrðu slökkt klukkan tíu og allir
vaktir klukkan sex. Þetta leist Bjössa alls ekki á og gerði uppistand,
sem varð til þess, að vínlöggin var tekin af honum ásamt kaffinu, sem
hann hafði þegar blandað víni.
Við félagarnir vorum ekki til stórræðanna klukkan sex næsta morgun. Við
breiddum upp fyrir haus, þegar við áttum að fara framúr, en það reyndist
skammgóður vermir. Einn af fyrirliðunum stóð yfir okkur og bunaði úr sér
skömmum og reif síðan teppin ofan af okkur. Allir nema við Bjössi,
virtust kunna þessum lífsmáta mjög vel. Þeir léku við hvern sinn fingur,
rauluðu og sungu, sögðu gamansögur og hlógu.
Það var hætt að rigna, en næturkulið var nöturlega kalt, þar sem við
hossuðumst á vörubílspallinum út á akurinn, til að ráðast á breiður af
fagurgulum appelsínum, sem dormuðu á trjánum.
Þegar við vorum að skreiðast ofan af vörubílnum, renndi í hlað náungi á
gömlu Harley Davidson-mótorhjóli. Nú varð ég að blanda mér í málið. Ég
hafði einu sinni átt samskonar hjól, algjöran kjörgrip. Ég rölti til
piltsins og tók hann tali, kynnti mig og sagði honum hvaðan ég væri.
Hann ljómaði allur og fagnaði mér innilega og nú fór hann að tala við
mig á íslensku. Hann sagðist heita Ísak og hann hefði verið skiptinemi á
Íslandi, í Hreppunum, í eitt ár. Hann var, eins og ég, kominn í fyrsta
sinn til Ísarel.
"Faðir minn sem er gyðingur á heima í New York og hann leyfði mér að
taka hjólið mitt með," svo bætti Ísak við á hreinni íslensku, "því
annars hefði ég hvergi farið, eins og Gunnar á Hlíðarenda sagði forðum."
Verkstjórinn blés í flautu, skipulagði daginn og dreifði hópnum um
svæðið. Ekki vissi ég hvað varð af Bjössa. Mér var reyndar sama, ég var
búinn að fá alveg nóg af ruglinu í honum. Aftur á móti fylgdi Ísak mér
hvert fótmál eins og skuggi og neitaði algjörlega að tala við mig á öðru
máli en íslensku.
Hver dagur var öðrum líkur. Allir voru þreyttir og fegnir að komast í
hús á kvöldin. Eftir kvöldverð var farið í leiki og fluttir
skemmtiþættir frá hinum ýmsu löndum. Við Bjössi höfðum ekkert með svona
skríparugl að gera. Bjössi snapaði sér brennivín hvenær sem hann gat, en
ég sníkti hjólið hjá Ísak, hvenær sem tækifæri gafst og brenndi í næsta
þorp. Stundum tvímenntum við Ísak á hjólinu og rukum eitthvert út í
buskann.
Við Bjössi vorum búnir að vera tvær vikur á samyrkjubúinu og einmitt
þennan morgun mætti Bjössi ekki til vinnu. Verkstjórinn hélt mig
samsekan í hvarfi hans og vildi gera uppistand. Ég bað hann blessaðan að
gleyma þessu, Bjössi væri ekki þess virði að fara að leita hans.
"Svo ætla ég líka að láta mig hverfa næsta sunnudag og þá ætlast ég til
þess, að þú minnist mín með söknuði við matborðið." Ég tók í hendina á
verkstjóranum og við hlógum báðir innilega. En það var nokkuð, sem hann
vissi ekki. Ég var einmitt búinn að láta mig hverfa og hafði þegar samið
við Ísak, vin minn, að fá Harley Davidson hjólið hans lánað í einn dag.
Ég sagði honum, að ég myndi koma til baka fyrir kvöldmat.
Svo lítið bar á, tróð ég öllu mínu hafurtaski í ferðatuðruna mína,
laumaðist bakdyramegin út, ýtti hjólinu góðan spöl út á veginn, til að
vekja ekki athygli með hávaðanum. Síðan setti ég í gang og brunaði af
stað. Ég tók stefnuna til Betlehem. Ekki hef ég hugmynd um hvað það var
sem dró mig til Betlehem, trúlausan með öllu. Sennilega hafa það verið
uppeldisáhrif frá ömmu minni sálugu, sem móktu innra með mér. Amma mín
var einstaklega trúuð kona og samkvæmt hennar bestu vitund þá komu allar
dýrðir og dásemdir, ásamt öllum englaskara himnanna frá Betlehem. Þegar
hún kom út á hlað á morgnana, leit hún til allra átta og tautaði við
sjálfa sig, "hvar skyldi nú blessað Betlehem vera að finna þennan Guðs
þakkar dag?" Svo sneri hún sér til suðurs og signdi sig. Hún sagði mér
margar fallegar sögur, sem allar gerðust í Betlehem.
Ég var kominn góðan spöl frá samyrkjubúinu, en þorði samt ekki að gefa í
og láta vaða, vildi ekki vekja athygli lögreglunnar á ferðum mínum. Ég
var ekkert undir það búinn að svara bjánalegum spurningum.
Það var farið að halla degi og ég hafði engar áhyggjur af því að skila
ekki hjólinu um kvöldið, eins og ég hafði lofað Ísak. Það var hvort sem
er aldrei ætlunin að standa við það loforð frekar en önnur loforð.
Nú var ég orðinn nokkuð naumur á bensínið. Mælirinn var farinn að síga
og engin bensínstöð í sjónmáli. Ekki hafði ég þó ekið lengi þegar fór að
grilla í ljósglætu framundan.
Þarna voru nokkrir skúrkumbaldar og bensíndæla. Asni stóð inni á milli
skúranna, japlandi heyrudda úr poka, sem var hnýttur um hausinn á honum.
Um leið og ég renndi í hlað, kom út úr veitingaskúrnum ungur maður,
skeggjaður með fíngert andlit og blíðleg augu, mæðulegur og að sjá mjög
þreyttur. Eftir að við höfðum heilsast og kynnt okkur, gekk hann að
hjólinu og dáðist að því.
"Það var einmitt Harley Davidson hjól, sem trésmíðameistarinn minn
átti," og hann bætti við: "Hann sendi mig oft á hjólinu eftir ýmsu
smáegis svo sem naglapakka og þess háttar." Og nú var kominn glampi í
augun, "þvílíkur gripur, samt var það mun eldra en hjólið þitt." Svo
spurði hann mig á hvaða leið ég væri. Ég sagði honum það. Þá spurði hann
hvort ég gæti gert honum stóran greiða. Hann væri með konuna sína,
barnshafandi, nánar til tekið, alveg komna að því að fæða. Þau hefðu
komið á asnanum og það væri fyrirsjáanlegt að þau myndu ekki ná til
Betlehem í tæka tíð.
Þegar inn var komið í skúrinn, sat konan þar. Hún var fremur smávaxin og
smáfríð. Hún brosti undurblítt til mín og rétti mér smágerða hönd sína.
"Ég lét mér detta í hug, hvort þú myndir gera okkur þann ómetanlega
greiða að taka konuna með á hjólinu, til Betlehem?" spurði eiginmaðurinn
og bætti við, "sennilega get ég engan veginn launað þér greiðann."
Nánast áður en hann hafði lokið við að bera upp bón sína, sagði ég háum
rómi, að ekkert væri sjálfsagðara en að lána honum hjólið. Ég greiddi
fyrir bensínið, fór út og sótti farangurinn minn, fór síðan inn og lagði
lyklana á borðið og sagði glaðklakkalega um leið, "hvar eru svo
lyklarnir að asnanum?" Ungu hjónin trúðu vart sínum eigin eyrum og nú
var þeim ekki lengur til setunnar boðið. Þau tíndu til pinkla sína og
hnýttu þá síðan upp á hjólið.
"Nú ættum við að komast til Betlehem í tæka tíð," sagði konan, um leið
og hún reis hægt og þunglamalega á fætur. Hún gekk til mín, kyssti mig á
vangann og hvíslaði í eyra mér, "nú hefur þú gert góðverk og þér mun
verða launað, þótt seinna verði," og hún brosti dulúðlegu brosi til mín.
"Bara að hún amma mín, sáluga, hefði nú heyrt þetta," sagði ég svona
eins og við sjálfan mig.
Konan þokaði sér til dyranna, þar sem maður hennar beið. Ég sýndi honum
hvernig ætti að gangsetja hjólið og stjórna því. Nú voru þau ferðbúin og
hjólið hökti af stað.
"Hvar get ég svo hitt ykkur?" kallaði ég á eftir þeim.
"Á fyrsta gistihúsinu, sem þú kemur að í Betlehem og spurðu bara eftir
Jósef." Síðan hurfu þau út í fjarskann.
Ég veifaði ósjálfrátt á eftir þeim og kallaði út í nóttina, "góða ferð,"
gekk svo aftur inn í söluskúrinn, settist niður og pantaði mér einn
skammt af kús-kús.
Hvað hafði eiginlega gerst? Af hverju gerði ég þetta og það af
yfirlögðu ráði? Mér leið eins og ég hefði elst um nokkur ár. Hugsanir
mínar voru skýrar og skilmerkilegar. Mér liggur við að segja rökvísar.
Það er langt síðan það hafði gerst, ef það hafði þá nokkurn tíma gerst.
Allt sem ég hafði gert hingað til var framkvæmt í algjöru rugli og án
hugsana.
Ég borgaði veitingar og var á leið út, þegar veitingamaðurinn spurði mig
hvort hann mætti vera svo frekur og spyrja frá hvaða landi maður kæmi,
sem skipti á Harley Davidson mótorhjóli og útslitnu asnaræksni. Ég sagði
honum hvaðan ég kæmi.
"Þar vildi ég ekki eiga heima," sagði hann og þurrkaði sér um hendurnar
á handþurrku, sem gekk úr buxnastrengnum.
Ég gekk brosandi út í nóttina. Það var fullt tungl og stjörnubjart. Ég
hafði aldrei áður tekið eftir því hvað himinninn gat verið bjartur og
stjarnan í austri lýsti upp leiðina til Betlehem. Ég fór að huga að
asnanum, sem stóð enn í sömu sporum og reyndi að nudda pokann fram af
sér, enda löngu búinn með heyruddann. Ég tók af honum pokann og hann
leit til mín sljóum, votum augum. Ég tók í tauminn og við röltum af
stað. Við áttum langa ferð fyrir höndum. Ýmist sat ég á asnanum og hann
skokkaði með mig á hörðu brokki eða ég hljóp með honum til að hvíla
hann.
Aldrei hafði ég upplifað slíka birtu. Það var sem um bjartan dag og
stjörnurnar virtust hafa margfalda geislun. Ég fylltist hugljómun og
hugleiddi hvort ég hefði nokkurn tíma tekið eftir slíkri dýrð eða var
ég kannski vitni að einstæðum atburði?
Og til að bæta á alla ljósadýrðina, hillti nú undir borgarljósin í
Betlehem. Asninn hafði hert brokkið, eins og hann ætti von á einhverju
óvæntu á leiðarenda og þyrfti því að hraða sér.
Nú var ég farinn að nálgast fyrstu kofana í útjaðri Betlehem. Það var
ótrúlega mikil umferð í nágrenni borgarinnar og austurstjarnan skein
skært þótt farið væri að rofa fyrir degi.
Á hægri hönd var stæðilegt hús, með borðum og stólum í garði og fólk á
rjátli allt um kring. Þetta var trúlega hið umrædda gistihús, þar sem ég
átti að spyrja um Jósef.
Gestgjafinn kannaðist við að maður á mótorhjóli hafi komið og beiðst
gistingar fyrir sig og barnshafandi konu hans, en því miður var allt
yfirfullt.
"En ég benti honum á að fara inneftir götunni til vinstri, þar væru hjón
sem stundum tækju inn á sig næturgesti."
Ég hafði ekki farið langan veg þegar ég sá mótorhjólið uppi við
kofavegg. Ég ætla ekki að lýsa því hversu mér létti við þá sjón og ég er
ég ekki frá því að asnanum hafi líka létt, alla vega heyrðist mér hann
hrína feginsamlega.
Mér tókst að ná tali af húsmóðurinni, enda þótt hún væri á hlaupum og
öll í uppnámi.
"Því miður var ekkert laust rúm fyrir konuna inn í húsinu svo ég varð að
búa um hana hérna úti í geitakofanum," og hún benti þangað sem hjólið
stóð.
"Það mátti ekki seinna vera," bætti konan við.
"Hún var ekki fyrr lögst fyrir í garðanum, en fæðingin hófst." Konan
þurrkaði svitann framan úr sér með svuntuhorninu.
Jósef hafði nú komið auga á mig og hraðaði sér til mín og faðmaði mig að
sér. Hann var með tárvot augu af einskærri gleði.
"Þú hefur fært okkur mikla gleði og hamingju. Okkur hefur fæðst sonur."
Hann leiddi mig að kofadyrunum.
"Hver heldurðu að sé kominn?" sagði hann við konu sína, um leið og hann
ýtti mér inn úr dyrunum. Ég óskaði þeim til hamingju með soninn. Konan
fagnaði mér innilega.
"Komdu nú hérna nær og sjáðu son okkar. Er hann ekki efnilegur?" sagði
Jósef.
Barnið leit til mín stórum, geislandi augum og rétti fram litlu
hendurnar sínar, sem ég snart. Á sömu stundu fann ég ofurstyrk streyma
til mín.
Ég tók af mér gullhring, sem amma mín hafði gefið mér og lagði í lófa
barnsins. Hjónin þökkuðu þessa fyrstu gjöf, sem syni þeirra hafði
hlotnast og spurðu hvort þau mættu ekki eiga mig sem þeirra fyrsta og
besta vin. Það var innsiglað með hlýjum kveðjum. Jósef fylgdi mér að
hjólinu. Ég setti í gang og stefndi í átt til samyrkjubúsins.
Ég hafði öðlast nýja trú trú á lífið.

|

|
Deila
á Facebook. |
|
|
Deila á Twitter
|
|
|
|
|