Við grænt tún, gula fjöru og bláan
sjó stendur gamall viti með rauðum
röndum. Umhverfis hann sveima hvítir
gargandi fuglar. Í flæðarmálinu
undir klettunum eru margir litlir
pollar. Á kviku yfirborði þeirra
svífa sól stjörnur. Undir liggur
regnboginn á skeljabrotum.
Þarinn er háll. Allt er nýtt þrettán
ára stelpu sem horfir hugfangin á
tignarlegt lágflug súlnanna úti við
sjóndeildarhringinn. Við hvert
fótmál óvæntur fundur. Hamingjan er
olnbogaskel, kúfskel og
klettadoppur. Hamingjan er sjóslípað
glerbrot borið í ljósið og fuglsegg
í sólvolgum sandi. Hamingjan er
brúnar kýr í grænum haga innan um
sóleyjar og fífla. Hamingjan er
öðuskel í grasi og gulbrúnar flugur
á blautri skán í hlaðvarpanum.
Hamingjan hinir andstæðu litir við
þá sem finnast heima.
Hvað hefur hún gert hænunum,
stelpan? Veit hún ekki að það má
ekki elta hænur? Það má ekki stríða
hænum. Hænur eru viðkvæmar. Stelpur
eru viðkvæmar. Nærvera bóndans ein
er áminning. Orð hans athuguð betur
en annarra. Orð hans spegill
stelpunnar vísa veginn líkt og
vitinn sjófarendum.
Í fylgd hans fá dagarnir nýjan
ljóma. Hann bjargar vegvilltum ungum
úr túninu. Hann kennir stelpunni að
snúa. Hann leyfir henni að koma með
að tína kríuegg. Þau eru góð. Honum
finnst þau góð. Hann leyfir
krökkunum að liggja á heyvagninum á
leiðinni út eftir. Hann á heima í
túninu við vitann. Þar finnur hún
hann jafnan þar sem hann stendur
hæglátur við amboðin og leggur drög
að nýju ævintýri dagsins. Kjölfestan
í ráðleysislegri tilveru stelpunnar.
Sunnudagar eru öðruvísi. Þá koma
gestir í nýja vitann að virða fyrir
sér útsýnið gegn gjaldi. Þá fara
krakkarnir ekki í fjósið heldur kúra
lengur í rúmunum.
Dagurinn framundan fullur af frelsi.
Stelpan á ennþá Pedit-suðusúkkulaði
í ferðatöskunni sinni. Á sunnudögum
koma amerískir og íslenskir
elskendur og leggja bílunum sínum
úti við gamla vita. Sumir gefa sig á
tal við krakkana. Sumir bjóða
sígarettur. Þannig rjúfa
sunnudagarnir friðhelgi hvunndagsins.
Raska nýfengnu jafnvægi stelpunnar.
Kvöldin eru mild og grágræn. Stelpan
röltir heim með kýrnar. Bóndakonan
er falleg í fjósgallanum með skuplu
á höfðinu. Þannig er hún ung og
öðruvísi. Hún syngur í fjósinu.
Nálægð hennar er sterk í vitund
stelpunnar. Konan horfir í fjarskann
þegar hún syngur. Hún hefur þrá til
bernskunnar. Stelpan heyrir sönginn
bak við sönginn. Stundirnar í
fjósinu eru friðsælar, hlýjar og
brúnar. Eftir mjaltir er kvöldmatur
í eldhúsinu, afgangar með heimagerðu
brauði. Henni finnst það gott.
Mitt í hversdaglegum önnum á
friðsælu kvöldi í íslenskri sveit
kallar bóndinn krakkana til sín inn
í betri stofuna. Þar eru Armstrong
og félagar að marka spor sín í sögu
mannkynsins. Fyrir utan má sjá
grilla í fölleitan mánann á
ljósbláum kvöldhimninum. Atburðirnir
láta stelpuna ósnortna.
Vísindin settu ekki einasta mark
sitt á tunglið og útlöndin.
Þau gerðu líka íslenskan vitavörð
óþarfan. Stelpan hvarf til gráborgar
á ný með ósýnilega dýrmæta litabók í
farteskinu. Bóndinn og konan fóru
síðar þangað líka. Hann veiktist og
dó. Nú hvílir hann í sveitinni í
námunda við vitann, hefur sameinast
jörðinni í viðleitni sinni til að
gróa. Sveitin lifir í ljóðum
konunnar. Konan býr í söngnum sínum.
Í fjósinu við vitann hanga dánar
lífsmyndir af liðnum tíma, amboð,
minjar um sjósókn í Garði sem virða
má fyrir sér á sunnudögum gegn
gjaldi. Í húsinu dvelja starfsmenn
Vitamála landsins í sumarleyfum
sínum.
Elskendur koma enn og fara. Nú geta
þeir keypt sígarettur, kók og
sælgæti í söluskála við gamla
vitann.
Stundum kemur stelpan. Hún heldur
eins og fyrr á priki til að verjast
kríunni, gengur niður að
flæðarmálinu og párar misgjörðir
sínar í sandinn. Minningarnar
meitlar hún í klettinn við vitann.
Við grænt tún, gula fjöru og bláan
sjó heyrir hún enduróm af söng bak
við söng úr fjósi. Hann er nú hennar
eigin. Sem snöggvast er sem einhver
fari um túnið með ljáinn. Það er
vindurinn sem bærir grasið.
Þar sem hann gekk.

|

|
Deila
á Facebook. |
|
|
Deila á Twitter
|
|
|
|
|
|