Ævintýrahornið.

Gullgæsin

Grimmsævintýri

Einu sinni var karl sem átti þrjá syni.

Sá yngsti hét Bárður og var alltaf kallaður Klaufa-Bárður. Hann var alltaf hafður útundan og aðrir gerðu grín að honum.

Dag einn varð eldiviðarlaust í kotinu og elsti bróðirinn var sendur út í skóg að höggva við. Móðir hans fékk honum væna eggjaköku í nesti og vín á brúsa.

Þegar pilturinn var kominn út í skóg, kom til hans gamall maður, lítill og gráskeggjaður. Maðurinn heilsaði og mælti: „Ég er bæði svangur og þyrstur, og það væri vel gert ef þú gæfir mér ofurlítinn bita af eggjakökunni þinni og sopa úr brúsanum.“ Pilturinn svaraði: „Ég held nú síður. Nestið er varla nóg handa sjálfum mér.

Farðu nú burt, karltetur.“ Svo hélt hann leiðar sinnar, en karlinn stóð eftir þegjandi.

 

Nú kom pilturinn að þeim stað í skóginum sem höggva skyldi viðinn. Hann tók til starfa, en þá vildi svo óheppilega til að hann missti takið á öxinni svo hún lenti í handleggnum á honum. Þá varð hann að hætta vinnu sinni og fara heim til að láta búa um sárið. Þetta voru launin fyrir ógreiðviknina við gamla manninn.

Nú var næstelsti bróðirinn sendur af stað í sömu erindum. Móðir hans lét hann fá sams konar nesti og hinn hafði fengið, eggjaköku og vínbrúsa. Pilturinn hélt af stað og hitti einnig gamla manninn, sem bað hann um bita af eggjakökunni og sopa úr brúsanum. Pilturinn svaraði á sama hátt og elsti bróðirinn hafði gert, enda fór fyrir honum á sama hátt. Þegar hann var nýbyrjaður á verkinu, missti hann öxina sem lenti í lærinu á honum. Hann varð því að skreiðast heim, eldiviðarlaus.

Þá fór Klaufa-Bárður til föður síns og sagði: „Faðir minn, leyfðu mér að fara út í skóg og höggva við.“ En faðir hans svaraði: „Bræður þínir hafa báðir slasast við skógarhöggið og því mun ekki fara betur fyrir þér, því þú kannt ekki einu sinni að fara með öxi.“ En Bárður linnti ekki látum fyrr en faðir hans sagði að lokum: „Jæja, farðu þá. Þú lærir þá kannski eitthvað ef þér hefnist fyrir að vera svona heimskur og þrjóskur.“ En móðir hans gaf honum þurra brauðskorpu og súra mysu í nesti.

Þegar Bárður kom út í skóg, kom Gráskeggur gamli til hans, heilsaði og bað hann að gefa sér bita af nestinu og sopa úr brúsanum. Bárður sagði: „Ég hef nú ekki annað en þurrt brauð og súra mysu, en þér er guðvelkomið að njóta þess með mér.“ Svo settust þeir báðir niður. En þegar Klaufa-Bárður tók upp nestið var brauðskorpan orðin að ljúffengri eggjaköku og súra mysan að ljúffengu víni. Þeir tóku nú til snæðings og að því loknu mælti Gráskeggur: „Vegna örlætisins sem þú sýndir, með því að deila með mér því litla nesti sem þú hafðir, skal ég gera þig hamingjusaman. Þarna í skógarjaðrinum stendur gamalt tré sem þú skalt höggva. Í rótum trésins muntu finna grip sem þú skalt taka með þér og mun hann verða þér til gæfu.“ Að svo mæltu kvaddi Gráskeggur og hélt leiðar sinnar.

Bárður fann tréð sem ráskeggur hafði bent honum á og felldi það. Í rótum trésins fann hann gæs með gylltar fjaðrir og tók hana með sér. Á leiðinni kom hann að veitingahúsi og þar sem farið var að kvölda ákvað hann að fá sér gistingu þar.

Veitingamaðurinn átti þrjár dætur og þegar þær sáu gæsina með gullfjaðrirnar, skoðuðu þær hana í krók og kring og dáðust að henni. Systurnar langaði ákaflega mikið til að eignast gullfjöður úr stélinu á gæsinni og gripu tækifærið um leið og Bárður þurfti að bregða sér frá. Elsta systirin þreif í stélið á gæsinni, en þá vildi ekki betur til en svo að höndin sat föst við stélið og stúlkan gat ekki á nokkurn hátt losað sig. Önnur systirin kom þar að og ætlaði líka að reyna að ná sér í fjöður, en um leið og hún snerti systur sína sat höndin föst og hvernig sem hún reyndi gat stúlkan ekki losað sig. Loks bar þar að þriðju systurina í sömu erindum. Systur hennar kölluðu til hennar að snerta hvorki þær né gæsina, en stúlkan skildi ekki hvað þær áttu við. Hún hugsaði með sér að betra tækifæri myndi varla gefast til að ná í gullfjöður og teygði höndina í átt til þeirra, en um leið og hún snerti þær sat hún líka föst. Og þarna máttu þær híma alla nóttina hjá gæsinni.

Næsta morgun lagði Klaufa-Bárður af stað með gæsina undir handleggnum, en lét sem hann sæi ekki stelpurnar þrjár. Þær voru enn fastar við stélið á gæsinni og urðu því að elta Bárð hvert sem hann fór.

Hersingin gekk nú fram á sýslumanninn og þegar hann sá stelpurnar hangandi aftan í gæsinni, kallaði hann til þeirra: „Skammist ykkar, stelpukindur, að elta piltinn svona!“ Um leið tók hann í höndina á yngstu systurinni og ætlaði að leiða hana heim til sín, en varð þá fastur við hana. Skömmu síðar mættu þau lögregluþjóninum sem varð alveg forviða að sjá húsbónda sinn hlaupa másandi og blásandi á eftir Bárði og systrunum. „Hvert ertu að fara, herra minn?“ Hrópaði hann. „Þú ert þó ekki búinn að gleyma réttarhaldinu sem á að vera í dag?“ Hann ætlaði svo að grípa til sýslumannsins, en festist auðvitað líka og varð að slást í förina með hinum. Nú voru þau orðin fimm í halarófunni, en Bárður skundaði áfram sem ekkert væri.

Nú gengu þau framhjá tveimur mönnum sem voru við vinnu sína í vegarkantinum. Sýslumaðurinn kallaði til þeirra og bað þá að hjálpa sér og lögregluþjóninum. Mennirnir brugðu skjótt við og tóku utan um lögregluþjóninn, en festust þá við hann. Nú voru þau orðin sjö, hlaupandi á eftir Bárði.

Klaufa-Bárður kom nú til höfuðborgarinnar með alla hersinguna í eftirdragi. Kóngurinn bjó þar í höll sinni ásamt þeirri einu dóttur sem hann átti. Kóngsdóttirin var svo alvarleg í bragði að engin leið var að fá hana til að brosa. Kóngurinn hafði miklar áhyggjur af þessu og lét það boð út ganga að hver sem gæti kætt kóngsdótturina skyldi fá hana fyrir eiginkonu. Þegar Klaufa-Bárður heyrði þetta, hélt hann rakleiðis til hallarinnar með gæsina og allt fylgdarliðið. En þegar kóngsdóttirin sá þessa skringilegu halarófu, stelpurnar þrjár, sýslumanninn, lögregluþjóninn og mennina tvo skakklappast á eftir Bárði með gæsina undir handleggnum, gat hún ekki varist hlátri. Hún hló svo hjartanlega að tárin runnu niður kinnarnar á henni og hún ætlaði aldrei að geta hætt að hlæja.

Bárður vildi nú fá að giftast kóngsdótturinni, en faðir hennar var ekki alls kostar sáttur við að þurfa að gifta dóttur sína pilti sem allir kölluðu klaufa og heimskingja. Því setti hann það skilyrði að áður en Bárður fengi kóngsdótturina yrði hann að finna mann sem gæti drukkið upp allt vínið í kjallara hallarinnar á einum degi.

Bárði varð nú hugsað til Gráskeggs gamla og þóttist viss um að hann gæti hjálpað sér. Hann fór því aftur út í skóginn, þangað sem hann hafði fundið gullgæsina. Þar sá hann mann sem sat á trjábol og virtist mjög hnugginn. Klaufa-Bárður spurði manninn hvað amaði að. Hann svaraði: „Ég er svo óskaplega þyrstur. Ég get ekki drukkið kalt vatn og nú þegar er ég búinn að klára úr heilli víntunnu, en ekkert virðist geta svalað þorstanum.“ „Ég get hjálpað þér,“ mælti Bárður og fylgdi manninum til hallarinnar. Þeim var vísað niður í vínkjallarann og þar tók maðurinn þegar til við að tæma hverja ámuna á fætur annarri, þar til þær voru allar tómar.

Klaufa-Bárður krafðist nú brúðarinnar í annað sinn. Kóngurinn reyndi enn að malda í móinn og sagði að fyrst yrði Bárður að finna mann sem gæti étið heilt fjall af brauði á einum degi. Bárður gekk þá rakleitt út í skóginn og hitti þar mann sem hafði reyrt reipi um mittið og kveinkaði sér mjög. „Nú er ég búinn að klára brauðið úr heilum bakarofni,“ sagði hann, „en ég er enn jafn svangur og fyrr.“ Klaufa-Bárður varð nú yfir sig glaður að hafa fundið slíkt átvagl og tók manninn með sér í höllina. Kóngurinn hafði látið safna saman mjöli um allt ríkið og baka feiknastórt brauðfjall. Maðurinn tók þegar til matar síns og fljótlega var allt brauðið upp étið.

 

Í þriðja sinn heimtaði Bárður nú brúðina og enn reyndi kóngur að finna þraut sem ómögulegt myndi vera að leysa. „Þú skalt færa mér skip sem siglir bæði á sjó og landi. Ef þér tekst að finna slíkt skip muntu fá dóttur mína.“

Bárður hélt nú enn á ný til skógar og hitti þar Gráskegg gamla. Gráskeggur mælti: „Það var ég sem drakk fyrir þig vínið og át brauðið og nú skal ég einnig færa þér skipið sem kóngur heimtar. En þetta geri ég allt fyrir þig vegna þess hve örlátur þú varst við mig þó þú ættir lítið sjálfur.“ Svo fékk hann Bárði skip sem gat bæði siglt á sjó og landi.

Þegar kóngur sá skipið gat hann ekki langur neitað Bárði um að fá að giftast dótturinni, svo hann lét þegar efna til veislu og var brúðkaupið haldið með glaum og gleði. Þegar gamli kóngurinn andaðist erfði Bárður ríkið og stýrði því vel ásamt drottningu sinni. Lifðu þau svo vel og lengi og áttu börn og buru. Þar með endar þessi saga.

 

 

SigfúsSig. Iceland@Internet.isSigfúsSig. Iceland@Internet.isSigfúsSig. Iceland@Internet.is

 

©2002 Sigfús Sig. Iceland@Internet.is