Ævintýrahornið.

HANS  KLAUFI

Eftir Hans Christian Andersen - í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar

Úti á landsbyggðinni var gamalt höfuðból og á því bjó gamall herramaður, sem átti tvo sonu. Þeir voru svo gáfaðir, að það var nú sitt hvað. Þeir ætluðu sér að biðja dóttur kóngsins, og það máttu þeir, því hún hafði látið kunngjöra, að hann mundi hún kjósa sér að eiginmanni, sem henni þætti bezt koma fyrir sig orði.

Þessir tveir voru nú að búa sig undir í átta daga; það var lengsti fresturinn, sem þeir gátu haft til þess, en það nægði líka, því þeir voru vel að sér undir, og slíkt kemur alténd í góðar þarfir. Annar þeirra kunni alla latnesku orðabókina spjalda á milli og þrjá árganga af fréttablaði bæjarins, og það bæði afturábak og áfram. Hinn hafði kynnt sér öll iðnaðarfélagalög og allt, sem hver iðnaðarstjóri þurfti að vita; hann þóttist því geta rætt um landsins gagn og nauðsynjar, og í annan stað kunni hann axlabandaútsaum, því hann var laghentur og fingrafimur.

Ég fæ kóngsdótturina," sögðu þeir báðir hvor um sig, og faðir þeirra gaf þeim sinn hestinn hvorum, og voru það prýðisfallegir hestar; sá, sem kunni orðabókina og fréttablaðið, fékk brúnan hest, en hinn, sem var iðnaðarfélaga-fróður og útsauminn kunni, fékk hvítan; báru þeir síðan lifrarlýsi í munnvikin til þess að gera þau liðugri. Allt vinnufólkið var niðri í garðinum til að sjá þá stíga á bak, en í þeim svifum kom þriðji bróðirinn, því þeir voru þrír, en engum kom til hugar að telja hann með sem bróður, því hann hafði ekki lærdóminn hinna tveggja, og kölluðu þeir hann aldrei annað en "Hans klaufa".

"Hvert ætlið þið, fyrst þið eruð komnir í stássfötin?" sagði hann.

"Til hirðarinnar, til þess að kjafta út kóngsdótturina; hefurðu ekki heyrt það, sem trumbað er um í öllu landinu?" Og nú sögðu þeir honum allt, hvers kyns var.

"Hæ, hæ, þá má ég líka vera með," sagði Hans klaufi. "Það er kominn í mig giftingarhugur. Taki hún mér, þá tekur hún mér, og taki hún mér ekki, þá tek ég hana engu að síður."

"Bull og vitleysa!" sagði faðirinn; "þér gef ég engan hest. Þú hefur sem sé engan talanda. Nei, bræðurnir, það eru karlar í krapinu."

"Fái ég engan hestinn," sagði Hans klaufi, "þá tek ég geithafurinn; hann á ég sjálfur og hann getur vel borið mig." Og þar með settist hann klofvega upp á hafurinn, rak hælana í síður honum og þeysti svo hvað af tók eftir þjóðveginum. Það var sem kólfi væri skotið. "Hér er ég," sagði Hans klaufi, og söng við, svo að glumdi í honum.

En bræðurnir riðu í hægðum sínum á undan og mæltu ekki orð. Þeir voru að bollaleggja með sjálfum sér alla þá fyndni, sem þeir ætluðu að koma með; það átti nú allt að vera svo undur kænlega hugsað.

"Hæ, hæ!" kallaði Hans klaufi, "hér kem ég; sko, hvað ég fann á veginum!" Og um leið sýndi hann þeim dauða kráku, sem hann hafði fundið.

"Klaufi!" sögðu þeir, "hvað ætlarðu að gera við krákuna?"

"Ég ætla að færa kóngsdótturinni hana að gjöf."

"Já, gerðu það," sögðu þeir hlæjandi og riðu áfram.

"Hæ, hæ! hér kem ég; sko, hvað ég fann; annað eins finnur maður ekki hvern dag á götu sinni."

Og bræðurnir sneru sér við til að sjá hvað það var.

"Klaufi!" sögðu þeir, "þetta er gamall tréskór, sem efri hlutinn er dottinn af; á kóngsdóttirin líka að fá hann?"

"Já, hún á að fá hann," sagði Hans klaufi, og bræðurnir riðu hlæjandi frá honum og urðu langt á undan.

"Hæ, hæ, hér er ég," kallaði Hans klaufi; "nei, nú versnar og versnar; hæ, hæ, það er alveg makalaust!"

"Hvað hefurðu nú fundið?" sögðu bræðurnir.

"O!" sagði hans klaufi, "minnumst ekki á það! Hvað hún mun verða fegin, kóngsdóttirin!"

"O, svei!", sögðu bræðurnir, "það er forarleðja, sem mokað hefur verið upp úr gryfjunni."

"Já, það er það reyndar," sagði Hans klaufi, "og það af fínasta tagi; maður getur ekki haldið á henni." Það var orð að sönnu, og því lét hann í hana vasann.

Bræðurnir riðu svo hart sem hestarnir gátu farið og urðu því heilli klukkustund á undan. Stigu þeir af baki við borgarhliðið, og var biðlunum þar raðað eftir númerum, sem þeim voru fengin jafnóðum og þeir komu. Stóðu sex í hverri röð, og var þeim skipað svo þétt, að þeir gátu ekki hreyft handleggina, en það var vel farið, því annars hefðu þeir skaðskemmt bökin hver á öðrum, einungis af því, að einn stóð öðrum framar.

Allir hinir aðrir landsbúar stóðu umhverfis höllina alla leið að gluggunum til þess að sjá kóngsdótturina taka á móti biðlunum. Í hvert skipti sem einhver biðlanna kom inn í stofuna, þá brást öll orðkingin, og stóð í honum.

"Ekki dugir hann," sagði þá kóngsdóttirin; "burt með hann!"

Þá kom sá bróðirinn, sem kunni orðabókina, en úr henni mundi hann ekkert, og kom það af því að hann hafði orðið að híma svo lengi í röðinni. Það marraði í gólfinu, og loftið var úr spegilgleri, svo að hann sá sjálfan sig á höfði; við hvern glugga stóðu þrír skrifarar og einn iðnaðarfélagsstjóri, og skyldu þeir skrifa upp allt, sem sagt var, svo að það gæti óðara komið í fréttablaðið og orðið selt fyrir tvíeyring á strætamótum. Það var ljóta gamanið, og þar við bættist, að ofninn hafði verið kynntur svo gríðarlega, að pípan var orðin eldrauð.

"Það er ljóti hitinn hérna inni," sagði biðillinn.

"Það er af því, að hann faðir minn steikir kjúklingana núna í dag," sagði kóngsdóttirin.

Be! Þarna stóð hann klumsa; þeim orðum hafði hann ekki búizt við. Hann gat ekkert sagt, því eitthvað skemmtilegt hafði hann ætlað sér að segja. Be!

"Dugir ekki!" sagði kóngsdóttirin; "Burt með hann!" Og svo varð hann að fara. Nú kom hinn bróðirinn.

"Hérna er voðalegur hiti," sagði hann.

"Já, við erum að steikja kjúklinga í dag," sagði kóngsdóttirin.

"Hvað þá? ha!"

"Dugir ekki!" sagði kóngsdóttirin; burt með hann!"

Nú kom Hans klaufi og reið á hafrinum beint inn í stofuna. "Mikill steikjandi hiti er þetta!" sagði hann.

"Það kemur af því, að ég er að steikja kjúklinga," mælti kóngsdóttirin.

"Það var ágætt," sagði Hans klaufi, "þá get ég líklega fengið kráku steikta."

"Það er guðvelkomið," sagði kóngsdóttirin, "en hefurðu nokkuð til að steikja hana í, því ég á hvorki pott né pönnu?"

"Það hef ég," sagði Hans klaufi; "hérna er suðugagn með tinkeng," og í því vindur hann fram tréskónum gamla og lætur krákuna í hann.

"Það er nóg til heillar máltíðar," sagði kóngsdóttirin, "en hvar fáum við ídýfu?"

"Hana hef ég í vasanum," sagði Hans klaufi; "ég hef svo mikið, að einu gildir, þó dálítið fari niður," og um leið hellti hann niður dálitlu af forarleðju úr vasa sínum.

"Tarna líkar mér," sagði kóngsdóttirin, "þú lætur ekki standa á svörum, þú kannt að koma fyrir þig orði, og þig kýs ég fyrir eiginmann. En veiztu það, að hvert orð, sem við segjum og sagt höfum, er skrifað upp og kemur út í fréttablaðinu á morgun? Við hvern glugga standa þrír skrifarar, eins og þú sérð, og einn iðnaðarfélagsstjóri, og iðnaðarfélagsstjórinn er verstur, því hann er skilningslaus," - en þetta sagði hún til þess að gera Hans hræddan. Og allir skrifararnir hvíuðu við og slettu blekklessu á gólfið.

"Sá mun húsbóndinn vera," sagði Hans klaufi, "og verð ég þá að gefa iðnaðarfélagsstjóranum það, sem bezt er." Og í því sneri hann um vösunum og sletti leðjunni beint framan í hann.

"Það var laglega af sér vikið," sagði kóngsdóttirin, "þetta hefði ég ekki getað gert, en sjálfsagt mun ég komast upp á það."

Og nú varð Hans klaufi konungur, fékk konu og kórónu og settist í veldisstól, - og höfum vér tekið þetta beint úr blaði iðnaðarfélagsstjórans, en það er nú ekki sem allra áreiðanlegast.

SigfúsSig. Iceland@Internet.isSigfúsSig. Iceland@Internet.isSigfúsSig. Iceland@Internet.is

 

©2002 Sigfús Sig. Iceland@Internet.is