Hestar

Hesta fróðleikur

>Loka þessari vefsíðu<  

ATH að greinar sem hér eru birtar eru allar skrifaðar af fagaðilum.

 

Áður voru bílar ekki til á íslandi,

Betra að dreyma

Gangtegundir íslenska hestsins.

Hestaævin.

Nýtt kennslumyndband

Sjúkdómar.

Umhirða hesta.

Uppruni hesta

Þarfast þjónninn.

Þróun hestsins.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sjúkdómar.

 

Mjög mikilvægt er að fylgjast vel með hestinum sínum, hirða hann og fóðra, hvort sem hann er á húsi eða úti í haga, sumar og vetur - allt árið.
Hestar geta orðið veikir eins og við og verður hér getið helstu sjúkdóma.  Hér verður fjallað um
heymæði, hrossasótt, helti, múkk, sinaskeiðabólgu, hófsperru, hófvandamál og spatt.

Stóð í haga að hausti. Mynd: SólviegHeymæði
Hestar geta fengið lungnabólgu. Oft kemur hún í kjölfar ofkælingar og lungnakvefs. Það sama má segja um sjúkdóminn; heymæði. Þetta var fremur algengur sjúkdómur í reiðhestum og brúkunarhestum en er of algengur í hestum nú af rangri meðferð í köldum veðrum. Hestar kvefast oft á haustin ef þeim er af vangá sleppt heitum og svitarökum í kaldar haustnætur. Heyryk og hússtækja verka síðan þannig á kvefið að úr verður oft ólæknandi sjúkdómur.
Aðaleinkenni heymæðinnar er andarteppa og hósti. Oftast ber lítið sem ekkert á heymæði á sumrin. Besta ráðið gegn heymæði er að fyrirbyggja að hestar kvefist. Alls ekki sleppa hestum heitum út í köld veður. Ekki gefa sveittum og heitum hesti kalt vatn að drekka fyrr en hann hefur þornað og orðinn afmóður. Til að halda heymæði í skefjum er hægt að gefa hestum hey sem hefur legið í bleyti og hafa þá í loftgóðum húsum.

Hrossasótt
Hrossasótt er samnafn sjúkdóma í kviðarholi hrossa. Yfirleitt er orsökin truflanir í meltingarvegi, magaoffylli, stífla, vind- eða krampakveisa eða garnaflækja. Orsakir hrossasóttar má oftast rekja til snöggra breytinga á fóðrun og fóðri, t.d. þegar hestar eru teknir á hús fyrri hluta vetrar.
Hrossasótt er mjög bráður sjúkdómur. Hesturinn hættir skyndilega að éta, verður órólegur, slær til taglinu, krafsar með framfótum, slær afturfótum fram undir kvið, stjáklar um, leggst og stendur á víxl og sýnir almennt öll merki um vansæld og vanlíðan.
Við miklar kvalir getur slegið út svita á hestinum og hann fleygir sér niður og veltir sér sitt á hvað. Á miklu ríður að ná til dýralæknis sem fyrst. Ef maður kemur að hesti sem liggur en hefur einkenni hrossasóttar skal reka hann strax á fætur og reyna að láta hann hreyfa sig (gott er að teyma hann upp og niður brekku). Batamerki er þegar loft og tað fer að ganga aftur af hestinum. Þar til læknishjálp berst skal þess gætt að hesturinn skaði sig ekki í verstu verkjaflogunum.  
Meira.

Helti
Ýmis konar helti getur orðið í hestum. Má t.d. nefna sinaskeiðabólgu, hófsperru, mar í hóf, spatt eða máttleysi í vöðvum eða stirðleika í liðamótum. Einnig getur steinn sem festist milli hæls og skeifu valdið snöggri helti en lagast fljótt ef þess er gætt að taka steininn fljótt í burtu.

Múkk
Múkk er bólga og útbrot sem kemur oft í kjúkubætur á hestum á því tímabili sem hárskipti fara fram (hárlos á vetrum). Þetta er ekki hættulegur sjúkdómur en getur orðið erfiður viðureignar og veldur oft helti. Múkk lýsir sér sem hrúður af útferð úr bólginni húðinni og svo myndast oft djúp og viðkvæm sár. Ef hestur er með múkk skal sápuþvo sárið vel, leysa hrúðrið upp og þegar húðin er orðin þurr skal nudda vel inní hana múkkáburði eða öðrum súlfaáburði.

Sinaskeiðabólga
Hesturinn fær stífar framfótahreyfingar, einkenni finnst ef strokið er niður eftir leggnum aftan á fætinum þá eru sinarnar fastar við legginn svo til. Sinaslíður eiga að vera laus frá leggnum. Hesturinn verður að fá algera hvíld og standa á mjúku með framfætur. Hægt er að fá áburð til lækninga og gott er að setja kalda bakstra á sinarnar. (Teyma hestinn út í læk og láta hann standa þar í svolítinn tíma, 5-10 mín og bera síðan á áburð).

Hófsperra
Hesturinn er stífur í hreyfingum, getur komið af eitrun eða of miklu kraftfóðri. Hesturinn fær oft hita með. Lækning er svipuð og með sinaskeiðabólgu en einnig gefur dýralæknir meðul og ráð.

Mar í hóf
Getur komið af steini, föstum í hóf eða höggi á hófinn. Hesturinn verður að fá algera hvíld og einnig má nota gúmmíbotna til að hlífa hófbotni.

Stig í hóf eða hófhvarf
Kemur oft á veturna þegar hestar eru skaflajárnaðir. Þeir geta stigið sig sjálfir sérstaklega ungir folar óvanir járnum, og einnig er hætta á stigi ef margir hestar eru úti saman í leik. Stig þarf oftast að tálga upp af manni sem kunnáttu hefur til þess og bera svo smyrsl og annað í sárið. Tjöru mun vera algengt að nota yst. Hesturinn þarf oftast skamma hvíld eftir því hvort stigið er mikið eða hesturinn haltur. Sprunga getur myndast af stigi og þarf að fylgjast vel með því.

Spatt
Hækilspatt þekkist á því að hesturinn verður haltur í upphafi hreyfingar. Spatt getur komið af of mikilli áreynslu eða meiðslum t.d. höggi á liðinn. Spatt er kalkmyndun í brjóskskemmdinni og beinhnúturinn sem þá myndast veldur sársaukanum og heltinni. Spatthnúturinn finnst vanalega innan á hækilliðnum. Lækning við spatti er uppskurður með mikilli þjálfun hestsins á eftir.

Sjá einnig greinar um holdshnjúska og hitasótt.

Vitnað í grein eftir:

Björn Sigurðsson og Herdís Brynjólfsdóttir.  

 

 

 

 

Umhirða hesta.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir þeirri vinnu sem fylgir því að eiga og hugsa um hest.  Hér verður fjallað stuttlega um kembingu, járnun og hesthús.  Gamalt spakmæli segir:  Góð hirða er hálf gjöf.  

Samspil manns og hest getur verið mjög náið.  Best er að ná góðu sambandi við hestinn s.s. með því að tala við hann, þ.e. beita röddinni, strjúka hestinum eftir reiðtúra (gefa honum smá nudd), kemba honum og einstaka sinnum gefa honum brauð.  Einnig ættu allir hestamenn að leitast við að skilja hestinn og setja sig inn í eðlileg viðbrögð hans.
 

Kambur og bursti. Mynd: Herdís Br.Að kemba hesti
Nauðsynlegt er að kemba hestinum vel.  Þegar kembt er, hreinsum við laus hár sem hestinn klæjar undan.  Húðin fær þannig hæfilega ertingu, sem styrkir blóðrásina.   Þegar hestinum er kembt athugum við heilsuástand hans og sjáum hvort hann er sár á einhverjum stað.  Þegar kembt er spekist hesturinn og hann fer að treysta manninum.  Rétt er að athuga að fara varlega í nárann, sérstaklega þegar um kvumpna hesta er að ræða, því eins og fólki, þá kitlar hesta þar.  
 

Gott er að setja ábreiðu á hestinn þegar hann kemur sveittur inn.  Gólfkuldi og dragsúgur er hættulegur heilsu hesta.  Hitastig þarf að vera sem jafnast í hesthúsinu, 6 - 12°C, ekki hærra svo hesturinn verði ekki þvalur í hárafari.

Skeifur - járningar
Nauðsynlegt er að hafa reglulegt eftirlit með ástandi hófa hestsins.  Það þarf að fylgjast með því að hófar haldist nægilega rakir og gæta þarf hreinlætis til að koma í veg fyrir hófrot og múkk.

Skeifur, skaflar og flatskeifa + hóffjöður. Mynd: Herdís Br.Hestinn þarf að járna reglulega meðan hann er notaður.  Áður, meðan hross lifðu frjáls, slitu þau hófunum eðlilega með hreyfingunni. En í dag slíta hrossin hófum oftast of lítið í högum, en of mikið í reið og er því nauðsynlegt að tálga hófana til að stytta þá og járna þá til að hlífa þeim við of miklu sliti.

Járna skal reglulega á u.þ.b. átta vikna fresti.  Þá er miðað við slit, hófvöxt og réttleika fóta.  Við járningu þarf að taka tillit til væntanlegrar notkunar hestsins og eru ýmsar aðferðir notaðar til að "hjálpa" hestinum með gangtegundir, eftir því hvort hann er klárgengur eða skeiðlaginn.  Forðast ber að tálga/raspa hófinn að óþörfu, hlífa hófbotni og hóftungu, og skeifustæðið á að vera algjörlega slétt.  Ókostir við járningu er m.a. að ekki er um jafnt slit að ræða, heldur snögga breytingu við hverja járningu.Hestur járnaður í hestaferð.

Skeifur geta týnst og járning er fastur kostnaðarliður við hestahald.  Velja þarf skeifu af hæfilegri stærð og berja hana til svo hún passi við hófinn.  Skeifur eru valdar með sköflum þegar járnað er fyrir veturinn og stundum eru notaðar broddfjaðrir, sérstaklega ef riðið er á ís. En á sumrin er járnað með sléttum skeifum.  Framfótaskeifur geta verið þyngri (t.d. 10 mm skeifur).  Þá er verið að þyngja hestinn að framan og er það stundum þægilegt fyrir skeiðlagna hesta, þá eiga þeir auðveldara með brokk og tölt.

Hesthús
Misjafnt er hvenær hestar eru teknir á hús eftir haustbeit, en flestir gefa hestum sínum nokkura vikna frí að haustinu eða jafnvel í nokkra mánuðu.  Til að hesthús sé gott þarf að hafa góða bása eða stíur, loftræstingu, næga birtu og gerði fyrir utan svo að hestarnir geti hreyft sig frjálst.

Hestar á húsi. Mynd: SólveigSkilyrði fyrir hesta sem eru á húsi, er að þeir fái hreyfingu daglega (sé t.d. sleppt út í gerði), gjöf reglulega á ákveðnum tímum (2 - 3 sinnum á dag) og brynningu.  Þá er einnig nauðsynlegt að moka reglulega undan þeim og sjá til að almennt hreinlæti sé í góðu lagi, svo og að þeim sé kemmt og hófar hirtir.  Æskilegt er að í hesthúsinu sé vel loftræst og rakalaus reiðtygjageymsla.

Hesturinn er hópdýr og því ætti ekki að hafa hesta t.d. eina á húsi, síst í ókunnu umhverfi.

Nauðsynlegt er að gefa öllum hrossum ormalyf.  Ormalyf þarf að gefa hestum þegar þeir eru teknir á hús, en einnig er gott að gefa ormalyf þegar hestur er settur í haustbeit.

Vitnað í grein eftir:

Björn Sigurðsson og Herdís Brynjólfsdóttir.  

 

 

 

 

 

Gangtegundir íslenska hestsins.

Íslenski hesturinn hefur þann sérstakan eiginleika að hafa fimm mismunandi gangtegundir; fet, brokk, stökk, tölt og skeið.

Ekki eru þó þessar gagntegundir eðlislægar öllum hestum og er talað um tvö flokka hesta: alhlið hesta og klárhesta með tölti.  Alhliða hestar hafa allar fimm gangtegundirnar, fet, brokk, tölt, stökk og skeið.  Klárhestar með tölti eru hestar sem hafa allar gangtegundirnar nema skeið. Í raun má einnig nefna tvo aðra flokka og það eru hreinir klárhestar sem hafa grunngangtegundirnar, fet, brokk og stökk og svo lullarar sem hafa fet, stökk og skeið.  Þessir tveir flokkar hafa ekki verið eins vinsælir reiðhestar, klárhestar þykja reyndar oft góðir ferðahestar þar sem þægilegt er að ferðast á þeim yfir óslétt land.  Lullarar hafa oft verið notaðir sem barnahestar en þeir fara jafnan á skeiði á hægri ferð.  Skeiðið er ekki hreint heldur einhver blanda af skeiði og tölti sem þykir hesti til lýta.  Sú hætta fylgir því ef óvaningar eru látnir ríða alhliða hestum að lullið verði allsráðandi.  

Hjá flestum hestum er einhver ein gangtegund ríkjandi en þó eru til hestar sem eru nokkuð jafnir á allar gangtegundir.  Gangtegundir þarf að þjálfa vel, þær eru ólíkar og gera mismunandi kröfur til knapans hvað varðar ásetu, taumhald og hvatningu. Á feti.  Mynd: Herdís Br.

Fet
Fetið er jafn fjórtakta gangtegund og er sviflaus, tveir og jafnvel þrír fætur eru samtímis á jörðu. Á fetgangi á hesturinn að ganga slakur og frjáls, með réttum takti og lifandi fasi. Gott er að byrja og enda reiðtúra á feti svo að hesturinn nái að sveigja sig og losa sig við stirðleika sem getur þá bæði virkað sem upphitun og slökun fyrir hestinn.

BrokkhreyfingBrokk
Brokkið er tvítakta skástæð gangtegund, tveir fætur koma niður samtímis. Brokk er svifgangtegund, hesturinn spyrnir t.d. með vinstri afturfæti og hægri framfæti og lendir á hægri afturfæti og vinstri framfæti o.s.frv. Brokkið er léttasta gangtegundin, fyrir utan
fet, og við sjáum að flestir hestar kjósa sér það á ósléttu landi.

 

Á stökki.  Mynd: Herdís Br.Stökk
Stökk er þrítakta gangtegund með svifi. Gott er að slá þremur puttum í borð til að heyra taktinn.  Hesturinn getur ýmist stokkið upp á hægri eða vinstri fót og er mikilvægt að þjálfa það jafnt, sérstaklega hjá alhliða hestum því það er lykillinn að skeiðinu. Stuttir hraðir sprettir geta haft örvandi áhrif á lata hesta og allir hestar verða að kunna að hreyfa sig kröftuglega.

Á tölti. Mynd: Herdís Br.Tölt
Tölt er fjórtakta hliðarhreyfing, fjórir hófaskellir eins og fetið og því stundum líkt við hlaupandi fetgang. Tölt er sviflaus gangtegund, ýmist einn eða tveir fætur á jörðu í einu. Þegar hestur töltir hækkar hann sig að framan, gefur eftir bakið, dregur sig saman og þunginn færist meir á afturfæturna. Tölt er sérkenni íslenska hestsins og greinir hann frá flestum öðrum hrossakynjum.

 

Á skeiði.  Mynd: Herdís Br.Skeið
Skeið er (nær því) tvítakta hliðarhreyfing með svifi. Skeið er einkum riðið á stuttum sprettum með miklum hraða. Skeiðið er tilkomumesta og vandasamasta gangtegundin sem aðeins alhliða hestar búa yfir.

Vitnað í grein eftir:

Björn Sigurðsson og Herdís Brynjólfsdóttir.  

 

 

 

 

 

 

 

Hestaævin.

Þegar verið er að tala almennt um hesta er oft talað um hross.  Karldýrið er annars kallað hestur, en kvendýrið meri eða hryssa (ung meri). Afkvæmið kallast folald.  Eins til fjögra/fimm vetra hestar (og merar) eru trippi og ungir hestar eru kallaðir folar.  Einnig eru til fjölmörg önnur nöfn yfir hesta; gæðingur er t.d. góður reiðhestur en bikkja og trunta er sagt um miður góða reiðhesta. Sum nöfn koma aðalega fyrir í kveðskap, s.s. jór, jálkur, fákur og drösull.

Stóð í haga  Mynd:BjörnHryssan gengur með í 48 vikur, síðan kastar hún eins og sagt er.  Folöldin fæðast á sumrin og þegar rætt er um aldur hrossa er talað um hve margra vetra þau séu.  Folaldið fer strax á spena og fylgir hryssunni næsta hálfa árið.  Ekki er það algilt að folöldin séu tekin undan mæðrum sínum, en þeir sem gera það, taka þau oftast á hús í nóvember eða desember.  Trippin þarf að fóðra vel, gefa þeim ormalyf og sjá til þess að þau komist út undir bert loft og geti hreyft sig daglega.  Um vorið þarf að gelda folana sem ekki verða valdir sem graðhestar.

Trippi eru oftast látin ganga úti þangað til tamning hefst.  Hross sem ganga úti þurfa að hafa gott skjól, þeim þarf að gefa hey og þau verða að komast í vatn. Hvort sem hross eru úti eða inni þurfa þau gott eftirlit og umhirðu.

Mörgum þykir æskilegt að trippi hafi vanist umgengni við fólk áður en eiginleg tamning hefst, sem oftast er á 4. vetri.  Ekki borgar sig að fara of geyst af stað við tamningu, því ekki má ofgera ungum hestum.  Eftir því sem hesturinn eldist má auka brúkun hans og þjálfun.  Hestar geta orðið nokkuð gamlir, jafnvel yfir 30 vetra, en venjulega er þeim fargað áður en þeir ná svo hárri elli.  Hestar geta verið vel brúklegir til 25/27 vetra aldurs.

Vitnað í grein eftir:

Björn Sigurðsson og Herdís Brynjólfsdóttir.  

 

 

 

 

 

Þarfast þjónninn.

 

Um aldir var hesturinn þarfasti þjónninn en með tilkomu bílsins og véla um miðja 20. öldina, breyttist hlutverk hans.  Hesturinn losnaði undan því erfiða hlutverki að vera vinnudýr og varð þess í stað tómstundagaman.  Skipulögð hrossarækt efldist í kjölfarð og meiri áhersla var lögð á ganghæfileika og byggingu hesta en áður. Hestamannafélög spruttu upp og farið var að halda hestamannamót.  Í dag skapar hesturinn mörgum atvinnu og tekjur, m.a. þeim sem flytja út hesta.

Hesturinn sem vinnu- og samgöngutæki
Hesturinn hefur oft verið nefndur þarfasti þjónninn og bar hann það svo sannarlega með réttu þar til bíllinn kom til sögunnar.  Án hestsins hefði Ísland eflaust verið óbyggilegt.

Tveim hestum beitt fyrir sláttuvél.Ísland er erfitt yfirferðar og íslendingar urðu að treysta á hestinn. Íslenski hesturinn hefur frá upphafi byggðar lifað í nánu sambandi við þjóðina og verið ómissandi í samgöngu og atvinnumálum. Varla var til það verk sem maður og hestur fylgdust ekki að s.s. bera hey af túni og engi, reka fé af fjalli að vori og smala að hausti, draga trjávið til bygginga, fisk úr verstöðum, hitta nágranna á bæjum, ríða til hofs eða kirkju.  Öll landbúnaðarstörf voru unnin með hestum og fyrsta upplifun margra var að fá að sitja dráttarhestinn.

Landið var torvelt yfirferðar og oft var ferðin löng frá einum stað til annars. Ferðir þvert og endilangt á hestbaki eru alkunnar framan úr fornöld til okkar daga. Allur flutningur fór fram á hestum s.s. heyflutningur, skreiðflutningur, trjádráttur, búferlaflutningur, hvalflutningar og svona mætti lengi áfram telja. Þessar ferðir voru oft farnar í lestum.

Riðið yfir djúpar ár.Mánaðarmótin júní- júlí var tími helstu lestarferða.  Þá komu lestirnar úr sveitunum til að sækja vertíðaraflann til verstöðvanna. Oftast var hnýtt upp á hvern klyfjahest og þeir síðan bundnir í taglið hvern á eftir öðrum og aðeins sá fremsti teymdur. Þessar ferðir tóku oft margar vikur og jafnvel mánuði og til að sem greiðlegast gengi voru hestarnir oft mjög margir.  Ekkert af þessu var framkvæmanlegt án þarfasta þjónsins.

Hjólið kom síðar til Íslands en nokkurs annars Evrópulands. Það var einkum vegna þess hve landið var slæmt yfirferðar og hestarnir góðir. Fyrsti hestvagninn kom ekki til Íslands fyrr en 1880 eða rúmlega tuttugu árum áður en fyrsti bíllinn. Hestvögnum fjölgaði svo eitthvað en urðu aldrei vinsælir einkum vegna þess að nær einungis var hægt að aka þeim í kaupstöðum eða þar sem vegir voru.

Þrjár konur á leið í reiðtúr.Bílar og vélar fara að koma hingað til lands í kringum 1950 og leysa hestinn smám saman af hólmi í samgöngu og atvinnumálum. Þá þótti skyndilega fínt að eiga bíl þó vissara gæti verið að hafa með sér hesta til þess að draga hann upp úr ám og vötnum.  Í bæjum tók bíllinn við af vagnhestinum, póstvagnarnir hurfu, síðan komu langferðarbílar og loks traktorar.  Eftir það fór hlutverk hestsins að breytast, frá því erfiða hlutverki sem hann mátti oft þola frá upphafi tilveru sinnar í landinu, til leiks og tómstundargamans fyrir almenning.

Hestar heima á hlaði.Hesturinn var þó ekki bara vinnudýr heldur líka félagi og vinur sem oft var ort lof í ljóði, sagðar af frægðarsögur, og söngvar í taktslætti hófaglammsins.  Góður hestur var líka stöðutákn, mannvirðing bónda var hesturinn, bær og bústofn. Gæðingurinn var notaður til skemmtunar, útreiða eða til kirkjuferðar þar sem menn sýndu sig og sáu aðra.

Tveir drengir í reiðtúr.Áður fyrr var það draumur flestra barna að eignast góðan hest og reiðtygi. Draumurinn rættist oft fyrr hjá strákunum því þeir fengu hærri laun greidd fyrir útivinnu sína en stúlkur fyrir innistörfin.  Ef börn komu af ríkum fjölskyldum fengu þau stundum hesta gefins og þá jafnt strákar sem stelpur.

 

Breytt hlutverk hestsins
Mynd frá hestamannamóti.  Mynd:Sólveig.Félög hestamanna voru stofnuð og hestamannamót haldin.  Farið var að stunda markvissari kynbætur, m.a. með meira tilliti til ganghæfileika og byggingu hrossa en áður var.  Til eru þó eldri dæmi um eflingu í hrossarækt sem dæmi má nefna greinagerð frá Skagafirði 1879, en þar segir m.a.:  "Skal við slíkt taka til greina lipurð, ganglag, fjör, hörku, þol, krafta, holdafar, stærð, vaxtarlag, fríðleik, háralag, hárprýði og hófagerð".
Á þessu sést að menn voru farnir að huga að ganghæfni en af eldri heimildum virðist sem lítið hafi verið lagt upp úr því heldur aðallega vilja og fegurð.

Í dag eru mörg ræktunarbú á landinu.  Eitt af markmiðum ræktunarinnar er að efla og viðhalda sérkennum íslenska hestsins.

Útflutningur á hestum
Íslenski hesturinn hefur einnig notið mikilla vinsælda erlendis og eru árlega fluttir tugir hesta út. Erlendir hestamenn eru einnig farnir að rækta íslenska hesta þannig að margir íslenskir hestar hafa aldrei komið til Íslands.

Á söguöld voru fluttir út vígahestar og einhverjir voru gefnir höfðingjum (kónginum).
Á 19. öld var útflutningur á vinnuhestum, en síðar á reiðhestum.  Á heimstyrjaldar árunum var nánast enginn útflutningur á hestum en síðan eftir 1960 hefur mikið verið flutt út.  Mikið hefur verið selt til Þýskalands, nokkuð Norðurlandanna og fleiri landa.  Nýjasti markaðurinn fyrir íslenska hesta er í Norður-Ameríku.

 

Á Íslandi er talið að séu um 80.000 hross (2000) og eru þau einkum notuð sem reiðhross. Hestamennska er vinsæl íþrótt á Íslandi og fjölgar þeim stöðugt sem taka hana upp sem áhugamál.  Flestir hestaunnendur vilja bæta og efla íslenska hestinn, eiga hann að vini um leið og njóta kosta hans hvort heldur er í sveit eða bæ.  Magir bændur eiga hesta og sumir afla sér talsverðra tekna með hrossarækt, þjálfun reiðhesta. eða hestaleigu.

 

 

 

 

 

 

Uppruni hesta

 

Hesturinn á sína þróunarsögu rétt eins og maðurinn. Hann er talinn eiga uppruna sinn að rekja til dýrs sem lifði í Ameríku fyrir 75 milljónum ára.  Þetta dýr var álíka stórt og meðalhundur með fjórar fætur og fimm tær á hverjum fæti. Með tímanum breyttist umhverfið, frumskógar urðu að gresjum og jarðvegur var ekki eins blautur og áður.  Í kjölfarið þurftu dýr að aðlaga sig að breyttu umhverfi. Þetta áðurnefnda dýr þurfti ekki lengur á fimm tám að halda til að komast um blautlendi og fækkaði þeim smám saman og að lokum var aðeins ein tá eftir eða hófur.  Tennur urðu sterkari og hálsinn lengdist til að hann næði betur til jarðar. Á gresjunum voru dýr berskjaldaðri gagnvart rándýrum en í frumskógunum. Eitt af varnarkerfum var að staða augnanna breyttist svo þau sáu betur allan hringinn og rándýr komu síður á óvart.

Fyrir milljón árum er talið að hesturinn hafi svo verið búinn að fá á sig það útlit sem við þekkjum hann á í dag.
Hestategundum mátti skipta í þrjá meginflokka:

  • Asíuhesta,

  • Tarpana frá Austur Evrópu og

  • þungbyggða skógarhesta Equus Silvaticus.

Segja má að þeir síðast töldu hafi orðið grundvöllur hestakynja í heiminum. Nokkrar undirtegundir voru einnig til bæði úr flokki smáhesta og venjulegra hesta.

Hesturinn lifði villtur og litu menn á hann sem hvert annað veiðidýr þar til fyrir um 6000 þúsund árum þegar fyrstu mennirnir fóru að temja þá en þá voru menn löngu farnir að temja hunda, kindur og hreindýr.

Hirðingjar í Asíu sem flökkuðu um í hópum á milli svæða eru taldir fyrstir til að temja hesta. Þeir byrjuðu á að flytja búslóðina á hestunum og beita þeim fyrir tvíhjólavagna. Síðan fóru þeir að nota hestinn til reiðar sem gerði þeim m.a. kleift að fara víðar yfir.  Þessi nýja aðferð, að temja hesta, breiddist svo út um víða veröld og skipti stórum í samgöngumálum og útbreiðslu menningar frá einum stað til annars. Hesturinn var einnig mjög vinsæll í hernaði og var strax talin mjög verðmætur.  Hann var tignaður víða og iðulega grafinn með húsbændum sínum, einkum ef þeir voru höfðingjar eða konungar.

Landnámsmenn komu með hesta með sér til landsins fyrir um 1100 árum.  Síðan á 11. öld, hafa engin hross verið flutt til Íslands.  Í Íslendingasögunum kemur fram að hesturinn var veldistákn höfðingja en þar er einnig sagt frá hestavígum og trúarhefð er tengist hestum.

Uppruni íslenska hestsins
Íslenski hesturinn kom til landsins með landnámsmönnunum í kringum 900 þ.e. fyrir u.þ.b. 1100 árum síðan. Landnámsmennirnir tóku með sér hross frá heimabyggð sinni og hesturinn okkar er kominn af þeim stofni, Nordlandhestinum, sem til var í Noregi á víkingatímanum.  Sjá nánar vefnum History horse of the vikings.

Talið er að fyrstu hross á landinu hafi verið úrval gæðinga, því landnámsmenn hafa vafalaust tekið það besta með sér. Sumir landnámsmenn höfðu viðkomu á Skotlandi áður en þeir komu til Íslands og þar blönduðust hestarnir við skoska hesta. Þótt ótrúlegt megi virðast þá hefur ekkert verið flutt af hestum til Íslands frá 11 öld. Íslenska hrossakynið hefur því ræktast og þróast án blöndunar við önnur kyn í 1000 ár.

Ef við förum lengra aftur í tímann og rekjum uppruna norska stofnsins þá kemur í ljós að hann er komin af hestakyni frá Asíu sem kallast Mongólahests og er fjarskyldur Arabíska hestinum.

Íslenski hesturinn er fremur smár og aðeins þess vegna er hann stundum talinn til smáhesta. Öll önnur atriði greina hann frá smáhestum og má þá nefna getu hans og þol. Þúsund ára einangrun íslenska hestsins hefur orðið til þess að hann hefur haldið ýmsum þeim eiginleikum sem týndust hjá öðrum evrópskum hestakynjum. Meðal þeirra eru gangtegundirnar fimm og fjölbreytni í litum.

Fyrir utan fjölhæfni í gangi og fjölbreytni í litum eru einnkenni íslenska hestsins að hann er óvenju sterkbyggður, heilsuhraustur, þrautseigur og veðurþolinn. Hann er einnig mjög fjölhæfur, gerir litlar kröfur til fóðurs og húsaskjóls, nær háum aldri og hefur mjög einstaklingsbundin persónuleika.

Íslenski hesturinn til forna
Landnámsmennirnir fluttu ekki einungis með sér hestinn heldur trúarhefðina sem fylgdi honum. Í norrænum fornsögum kemur víða fram að menn lögðu mikla rækt við hesta, hann var heilagt dýr, frjósemistákn og verndari skáldskapar í norrænni goðafræði. Guðirnir áttu hesta sem voru afbragð og nægir að nefna Sleipni reiðskjóta hins æðsta, Óðins, sem var svo fótfrár að hann hafði átta fætur.

Hestum var gert hátt undir höfði í heiðni og fórnað í blótum. Það var bæði gert til blessunar fólksins sem blótið sóttu og eflingar goða sem risu upp frá dauðum eftir blótið.  

Eftir að kristni var lögtekin á 10. öld var bannað að borða hrossakjöt, það var talið ganga glæpi næst að leggja sér það til munns. Margir dóu heldur úr hungri en gera slíka ógæfu því að hver sem það gerði fór vægðarlaust til helvítis. Þó voru einstaka fátæklingar sem notuðu það til matar og hirtu ekki um hjátrúna en þeir voru oft fyrirlitnir fyrir vikið og kallaðir hrossaketsætur og var hið mesta skammyrði. Það var líka talað um hrossaketslykt af slíku fólki og menn trúðu því að það yrði veiklulegra og skammlífara en aðrir.

Í Íslendingasögunum er víða rætt um hesta. Margar frásagnir eru af glæsilegum hestum höfðingja, hann var veldistákn sem oftar en ekki fylgdi með í gröfina altygjaður.  Hestar voru taldir meðal veglegustu gjafa og er þess víða getið að íslenskir gæðingar hafi verið sendir frá Íslandi til Noregs og annarra landa sem gjafir til konunga og fleiri fyrirmanna. Samkvæmt elstu lögbók Íslands, Grágás, var skógargangssök að stela hesti þ.e.a.s. algeran brottrekstur úr mannlegu samfélagi.

Í Íslendingasögunum eru einnig frásagnir af hestavígum eða svokölluðu hestaati.  Þar sem hestar ganga saman úti er vararsamt að hafa tvo graðhesta saman í stóði vegna baráttu þeirra um hylli stóðmera. Forfeður okkar sviðsettu þessa baráttu, létu tvo stóðhesta etja kapp saman samkvæmt ákveðnum reglum og höfðu mikla skemmtun af. Oftast lauk hestavígum með því að annar hesturinn lést í átökunum eða var mikið særður. Sá sem bar sigur úr bítum fékk mikla sæmd fyrir vikið en sæmd og virðing skipti stórum í samfélagi þess tíma.
 

 

 

 

 
 

Betra að dreyma

Yfirleitt þykir betra að dreyma ljósa hesta og albest séu þeir hvítir. Svartir hestar eru óheillatákn. Dreymi ógifta stúlku að hún stígi á bak stórum og fallegum hesti er það fyrir góðri giftingu. Hlaupandi hestar eru fyrir einhverju fljótræði. Rauður hestur: ánægja og skemmtanir. Leirljós: veikindi. Grjáskjóttur: slarksamt líf. Grár hestur boðar gleði og gæfu. Jarpur er fyrir velgengni. Að járna hest táknar erfiðleika sem dreymandinn er að fást við og bleikur hestur boðar honum veikindi og mótlæti.

 

 

 

 

 

Nýtt kennslumyndband

Á hestbaki með Eyjólfi Ísólfssyni
Hólaskóli óskar Eyjólfi Ísólfssyni yfirreiðkennara skólans til hamingju með nýtt og glæsilegt kennslumyndband sem kom út skömmu fyrir helgi. Eyjólfur Ísólfsson hefur í nokkur ár unnið að gerð kennslumyndbands um tamningu og þjálfun hesta. Myndbandið sem kom út á dögunum er hið fyrsta í röðinni, um 50 mínútur að lengd. Eyjólfur á efni í fleiri myndbönd sem stefnt er á að komi út í framhaldinu. Þetta fyrsta myndband ber heitið “Á hestbaki, nokkur grundvallaratriði”og fæst það með íslensku tali en mun síðar einnig koma út á fleiri tungumálum. Það er verslunin Ástund sem sér um dreifingu myndarinnar, en framleiðandi er Plúsfilm. Myndin hefur hlotið bestu meðmæli Félags tamningamanna.
Sjá einnig frétt á Eiðfaxa-vefnum.

 

 

 


 

 

Áður voru bílar ekki til á íslandi,

 

Áður voru engir bílar til á Íslandi. Þá ferðuðust íslendingar á hestum. Íslensku hestarnir eru komnir frá hestum, sem víkingarnir tóku með sér til Íslands fyrir ellefu hundruð árum. Þeir hafa ekki blandast öðrum hestum.
Hestarnir voru áður notaðir til að smala fé, flytja hey og vörur, en nú eru hestar á Íslandi mest notaðir sem reiðhestar eða seldir til annarra landa. 

Stundum eru hestarnir látnir ganga úti allan veturinn. Það eru fá önnur dýr sem geta lifað utanhúss á Íslandi allt árið. Þeir verða loðnir á veturna, en missa feldinn á vorin. Þá þarf að kemba þá og klippa faxið og taglið.

Það þarf að temja hesta áður en þeir vilja bera hnakk og beisli og mann. 
Íslenski hesturinn hefur fimm mismunandi ganga. Þeir heita brokk, tölt, skeið, stökk og valhopp. Sumir hestar hafa svo þýðan gang, að knapinn getur haldið á fullu glasi og það skvettist ekkert úr því, þó hesturinn hlaupi hratt. En sumir hestar geta verið hastir eða styggir. 

Áður voru engar brýr yfir árnar á Íslandi. Íslensku hestarnir hafa lært að vaða og synda með mann á bakinu yfir hættuleg stórfljót, jafnvel jökulár. Einn maður sagði frá: "Þú situr á hestinum úti í miðri á. Þú sérð ekki botninn.því vatnið er leirugt jökulvatn. Botninn er ójafn og vatnið er kalt. Ef þú dettur í ána, getur þú frosið í hel. Það eru stórir ísjakar í ánni, sem geta rekist á hestinn og þig. Hesturinn hikar og leitar að réttri leið með hófunum. Allt í einu fer hann að synda með þig á bakinu. Þú getur ekkert gert, það er bara hesturinn, sem veit hvað á að gera. Þú lokar augunum og heldur þér fast í hnakkinn. Ískalt vatnið skolast yfir ykkur. Eftir langa stund finnur hesturinn botn. Þið komið að hinum bakkanum og gangið á þurrt." 

Íslenskir hestar geta næstum því klifrað. "Ég var 10 ára þegar ég fór á hesti um fjallshlíð eftir mjóum stíg. Beint upp frá mér var hundrað metra bjarg og annað eins beint niður. Stígurinn var ójafn og á honum voru stórir steinar. Allt í einu gengur hesurinn upp brekku. Og svo niður brattan halla. Ég lokaði augunum. En hesturinn gekk eins og á gólfi."

Íslenski hesturinn hefur bjargað lífum margra íslendinga í 1100 ár. Þeir elska hestinn sinn. Það er sagt, að íslendingar yrki fleiri ljóð um hestana sína en um konurnar sínar. Þeir vilja reyna að vernda hestinn óbreyttan.
Það er bannað að flytja graðhesta út frá Íslandi. En í Þýskalandi eru menn að reyna að rækta hesta með því að para íslenskar hryssur með hestum frá öðrum löndum. Folöldin verða notuð til að krossrækta falska íslenska hesta.

 

 

 

 

 

 

 

 

Þróun hestsins.

 
Hestar (Equus caballus) eru hófdýr af ættinni Equidea. Í fornöld tóku menn hestinn í sína þjónustu enda er hann auðtaminn. Í dag eru til ótal ræktunarafbrigði af þessu gresjudýri. Í fyrstu notuðu menn hesta sem veiðidýr. Í eina tíð lifðu ættbálkar manna af indóevrópskum uppruna á sléttum sem nú tilheyra sunnanverðu Rússlandi og er talið að þeim hafi fyrst tekist að temja hesta.

Hestar eiga margt sameiginlegt með öðrum sléttugrasbítum. Þeir eru leggjalangir og geta náð miklum hraða og haldið honum lengi, líkt og algengt er meðal gresjudýra sem lifa við sömu vistfræðilegu aðstæður og villihestar gerðu í fyrndinni. Hestar hafa stór augu og mjög vítt sjónskyn. Það gerir þeim kleift að sjá rándýr og flýja í tæka tíð.

Franski dýrafræðingurinn Buffon greifi (1707-1788) kvað einu sinni uppúr að hesturinn væri dýrlegasti sigur mannsins yfir náttúrunni. Þeir voru jarðaðir við hlið Skýþíukonunga og faraóa Forn-Egyptalands. Hestar hafa veitt mörgum listamanninum innblástur, allt frá hellamálverkum frummanna til teikninga ítalska snillingsins Leonardó da Vincis og frá kínverskum höggmyndum fornaldar til nútíma myndlistar.

Þróunarsaga hestsins er einstaklega vel skráð enda hafa leifar hans og áa varðveist vel í jarðlögum. Fræðimenn telja að tegundir af ættinni Equidae hafi fyrst komið fram á Eocene tímabilinu fyrir um 50 milljón árum. Þessi tegund var frekar smávaxið hófdýr sem fræðimenn nefna Hyracotherium en er stundum nefndur Eqippus. Steingerðar leifar þessa frumhests hafa fundist á tempruðum svæðum Norður-Ameríku og Evrópu.



Frumhestararnir voru mjög ólíkir hestum eins og við þekkjum í dag. Hyracotherium var smávaxið dýr, 30-60 cm á hæð, og af tanngarði hans að dæma virðist hann hafa verið frekar ósérhæfður grasbítur, ólíkt nútímahestinum.

Þær meginbreytingar sem urðu á hestum frá frumhestinum Hyracotherium til hesta nútímans eru einkum aukin líkamsstærð, hestarnir urðu leggjalengri, heilinn varð flóknari og stærri, og miklar breytingar urðu einnig á hófum. Nútímahestar hafa eina tá á hverjum fæti ólíkt frumstæðum áum hans. Að lokum má nefna að snoppan lengdist en það er megineinkenni á andlitsfalli nútímahesta.


Skoðið einnig svör við eftirfarandi spurningum


Mynd af þróun hestsins er fengin af vefsetri
University of Texas at Austin
Mynd af hestum:
Wild Horse Spirit
Mynd af hesti Leonardós:
Leonardo da Vinci's Horse

Jón Már Halldórsson. „Hvað er hestur?“. Vísindavefurinn 22.8.2002.

 

Jón Már Halldórsson,
líffræðingur

 

> Loka þessari vefsíðu <

 

 

© 2006 Globalsig./ Sigfús Sig. Iceland@Internet.is