Dýr

>Loka þessari vefsíðu<

 Ungar og kjúklingar.

Lýsing Íslenska landnámshænan.

Um 15 vikna aldur hætta ungarnir á framhaldsfóðrinu (Ungi II) og fara á varpfóður og um 5-6 mánaða fara að koma fyrstu eggin, eitt og eitt, mjög lítil í fyrstu en stækka með hverjum deginum sem líður, um 6 -7 mánaða eiga fuglarnir að vera komnir í varp, þá kallast fuglarnir Unghænur (alltaf gott að bera titil) og ársgamlir kallast þeir hænur (nema um karlfugl sé að ræða) En við höldum okkur við kvenfuglana.

Margir hafa haft samband út af ungunum og spurt um svokallað "áreiti eða einelti".

Þetta er eðlileg hegðun, þótt hún sé bæði ljót og leiðinleg en tíðkast hjá bæði mönnum og dýrum. Má kalla þetta "goggunarröðina" sem lítur að því hver sé númer eitt, hver númer tvö og svo framvegis. Þetta er sem sagt spurning um hver ræður og hver ekki.

Hænsnfuglar eru grimmir að eðlisfari og verður hver einstaklingur að sjá um sig og bjarga sér, annars lifir hann ekki af. Gildir þetta um alla, ekki bara hænsnfugla.

Eins og áður sagði er þetta sífelda gogg og högg í allar áttir afar hvimleitt og getur skaðað fuglana og ekki er óalgegnt að fugl sé drepinn . Sérstaklega á þetta við um unga frá 4 vikna gömlum og fram á fullorðins aldur en mest ber á þessu frá 5 - 6 vikna aldri og fram undir 12. vikuna.Talið er að þetta geti stafað af nokkrum ástæðum fyrir utan goggunarröðina og grimmdina og eru þær helstar að of þröngt sé á fuglunum, aðgerðarleysi og leiði. Svo eru jafnan í hópnum svokallaðir ófriðarseggir (böggarar) sem verða þeir aldrei til friðs. Fuglarnir þurfa því að hafa eitthvað fyrir stafni eins og flestir aðrir og láta daginn líða. Mest eru fuglarnir plokkaðir aftast á bakinu, stélinu og í kringum endaþarminn (eggjaopinu). Plokka þeir oft gat í endaþarminn og í kringum hann. Plokkaða fuglinum þá dauðinn vís ef ekkert er að gert nógu snemma.

Einelti minnkar ef sett er upp leikfang hjá þeim, t.d. bolti í bandi, borðar hengdir á vegg og ef fuglarnir geta verið útivið. Þó er aldrei hægt að koma algjörlega í veg fyrir þetta, þar sem þetta er í eðli fuglanna, en það er hægt að draga úr því.

Ef fugl verður fyrir einelti, fjaðrir tíndar af honum, sérstaklega stélfjaðrir, er hætta á að fari að blæða þar sem fjaðrastafirnir voru. Þá er eins og fjandinn verði laus í kofanum þar sem rauður litur og blóðbragð virðist æsa fuglana upp. Áríðandi er að fylgjast vel með hópnum þar sem þetta gerist skjótt og fjarlægja þá fuglinn sem er plokkaður. Nauðsynlegt er að hafa særða fuglinn sér, þar til hann er alveg gróinn, annars heldur áreitnin áfram þar sem frá var horfið. Einnig er gott að skipta um peru í kofanum og setja rauða 25 W peru (eins og notaðar eru í gömlu jólaútiljósaseríurnar). Það virðist villa um fyrir fuglunum og hefur gefið góða raun.Áreitið er einnig mikið ef um stóran hóp af kjúklingum er að ræða og í hópnum séu margir hanar,sérstaklega þegar fram líða stundir en þá fara hanarnir að sýna sig og sanna,berjast um fyrsta sætið og leita á hænurnar.Best er því að aðskilja kynin eða losa sig við alla umfram hana sem fyrst.

Það er til mjög gott efni hjá dýralæknum, sem heitir DUPHACYCLINE- SPRAY, þetta er á úðabrúsum, blátt að lit og er bæði græðandi og bakteríudrepandi. Blái liturinn virðist líka villa um fyrir fuglunum og plokkið minnkar eða hættir á þeim fugli sem skartar fallega bláum afturenda. Allir sem fást eitthvað við unga eða ungauppeldi ættu að eiga þetta spray. Úðið því á svæðið á fuglinum sem plokkað var (oftast á stélsvæðið), hafið fuglinn sér í nokkra daga og fylgist vel með honum. Þegar fuglinn er gróinn ætti að vera óhætt að sleppa honum aftur í hópinn en eins og áður sagði, fylgist vel með. Sjálfsagt eru til nokkur eða mörg önnur góð ráð við þessu einelti og eru allar upplýsingar vel þegnar svo að hægt sé að miðla þeim til annarra.

Reynslan leiðir mann alltaf vel áfram ef maður prófar hlutina og alltaf finna menn upp eða vita um góð ráð. Deilið því endilega með öðrum ef þið lumið á góðum ráðum.

Munið bara að ef fugl sýnir slíka hegðun snemma og heldur því áfram, að þá er best að losa sig við hann. Hann mun aldrei aðlagast hópnum og mun alla tíð "bögga"og áreita aðra fugla. Athugið líka vel að ef hani eða hanar sýna svona hegðun snemma, leggja t.d. aðra í einelti og eru á hlaupum á eftir hænunum, rífandi í þær,bæði bak og háls eða höfuð til að stoppa þær og koma vilja sínum fram; að losa ykkur við þá strax og setja ekki á undan þeim. Hana sem sýna árásarhneigð snemma, bæði gagnvart hinum fuglunum og mönnum, eru ógnandi og renna á mann, ætti aldrei að setja á. Ekki ætti heldur að unga út eggjum sem eru frjó eftir þá. Lógið þeim strax. Þeir eru og verða grimmir og geta orðið stórhættulegir, bæði mönnum og dýrum, svo ekki sé minnst á börn. Hanar geta skaðað mjög alvarlega og illa. Þessi hegðun kemur mjög snemma fram og ætti ekki að fara á milli mála hvað er á seyði.

Vona að þið getið nýtt ykkur þetta og að þetta hjálpi eitthvað.

 

>Loka þessari vefsíðu<

1

©2006 Globalsig./Sigfús Sig. Iceland@Internet.is