Latneska heitið á ljóni er Panthera leo. Ljónið hefur verið kallað konungur dýranna enda er það afar tignarlegt dýr. Á sléttunum í austurhluta Afríku hafa menn og ljón búið saman í mörg hundruð þúsund ár og mætti ímynda sér að ljónið hafi verið sú skepna sem frummaðurinn óttaðist mest þegar hann hélt út á gresjurnar í árdaga.

Ekki er ljóst hvenær ljón komu fyrst fram í þróunarsögunni en leifar ljóna hafa fundist í jarðlögum sem eru allt að 3,5 milljón ára gömul. Þess má geta að samkvæmt núverandi þekkingu komu tígrisdýr fram fyrir um 1,5 milljón ára, líklega af ljónum enda er ljónið náskylt tígrisdýrinu. Margt er þó enn á huldu varðandi þróunarsögu ljónsins og eflaust eiga nýjar athuganir á steingervingasögu stórkattar-ættkvíslarinnar Panthera eftir að bylta hugmyndum okkar um uppruna hennar.


Í dag finnast ljón aðallega
í Afríku sunnan Sahara eyðimerkurinnar en síðustu asísku ljónin (Panthera leo persica) lifa á vestanverðu Indlandi, nánar tiltekið í Girskógi. Það er eina svæðið þar sem ljón og tígrisdýr deila heimkynnum.

Fyrr á tímum var útbreiðsla ljóna mun meiri. Á Pleistocene-skeiðinu (1,5 milljón – 10.000 f. Kr.) lifðu ljón í allri Afríku, í Austurlöndum nær og alveg austur til Indlands. Þau voru einnig á Pýranea- og Balkanskaga og í Norður-Ameríku. Ljón hurfu hins vegar frá Norður-Ameríku fyrir 10.000 árum en frá Balkanskaga fyrir um 2.000 árum og síðustu ljónin fóru frá Palestínu á tímum krossfaranna.

Sérstaða ljóna liggur í félagskerfi þeirra. Þau eru einu kattardýrin sem lifa í hópum en meðlimir annarra tegunda fara einförum. Ljónahópurinn samanstendur af nokkrum kynslóðum kvendýra (ömmur, mæður og dætur) og einu eða tveimur karldýrum sem makast við kvendýrin og verja hópinn fyrir öðrum körlum. Stærð hópa getur verið frá fjórum dýrum og upp í tæplega 40 en algengt er að um 15 dýr séu í hverjum hópi. Dýrin helga sér yfirráðasvæði sem eru misstór. Þar sem mikið er af bráð eru yfirráðasvæðin aðeins um 20 km2 en þar sem minna veiðist geta þau verið allt að 400 km2.

Ljónshvolpa bíða ólík örlög. Ungu karldýrin eru hrakin frá hópnum þegar þau hafa náð um þriggja ára aldri. Þau gerast þá flakkarar og reyna annað hvort að stofna eiginn ættbálk eða taka yfir annan ljónahóp með því að hrekja ráðandi karldýr á brott. Þau ráða þó ekki við fullvaxin og lífsreynd karlljón fyrr en þau hafa náð að minnsta kosti fimm ára aldri. Sumum karldýrum tekst aldrei að mynda eiginn ættbálk og fara því einförum alla ævi. Kvenhvolparnir fá í flestum tilvikum að vera áfram í hópnum en þó þekkist það að kvendýr eru hrakin á brott og þurfa þá að koma sér í mjúkinn hjá öðrum hóp.

Á daginn halda ljónin sig í smáum hópum en þegar skyggja tekur hópa þau sig saman og halda á veiðar. Iðulega leggja ljónynjurnar af stað út á gresjurnar og reyna að klófesta stóra grasbíta eins og gnýja, sebrahesta eða vatnabuffalóa.

Nokkrar útdauðar deilitegundir ljóna eru kunnar úr jarðlögum og er hellaljónið (Panthera leo spelea) þeirra þekktust. Hellaljón voru útbreidd í Evrópu og Asíu en dóu út líklega nokkuð fyrir Kristburð.

 

Ljón (Panthera leo), líkt og önnur kattardýr, eru rándýr og veiða sér önnur dýr til matar. Tennur þeirra eru því sérhæfðar til kjötáts og veiða.

Fullorðin ljón hafa 30 tennur: 12 framtennur (6 í hvorum gómi), 4 vígtennur og 14 jaxla, 8 í efri góm en 6 í þeim neðri. Í þessu svari er gert ráð fyrir að spyrjendur séu að forvitnast um stærðina á vígtönnunum, stærstu tönnunum í kjafti ljónsins.

Vígtennur ljóna eru á bilinu 7-10 cm langar eða svipaðar og hjá tígrisdýrum (Panthera tigris). Þar sem þær eru afar viðkvæmar fyrir þrýstingi reyna ljónin að verja þær í átökum við stærri bráðir. Þau beita því kjaftinum frekar á viðkvæman háls fórnarlambsins en hnakka þess, svo minni hætta sé á því að vígtennurnar verði fyrir skaða.

Jaxlar ljóna eru mun sterkbyggðari en vígtennurnar og þola meiri þrýsting. Bitkraftur ljóna er því mun meiri aftarlega í munninum þar sem jaxlarnir eru heldur en framan til í munninum þar sem stóru vígtennurnar sitja.

Þess má að lokum geta að fyrr á tímum voru uppi kattardýr sem voru bæði stórvaxnari og með stærri vígtennur en ljón. Má þar nefna hellaljón (Panthera leo spelea) og ekki síst
sverðtennta ketti af ættkvíslunum Homotherum og Smilodon

 

Líffræðingar telja að í Afríku séu á bilinu 30–100 þúsund villt ljón (Panthera leo). Útbreiðsla þeirra er aðallega bundin við austur- og suðurhluta álfunnar. Aðeins rúmlega 300 dýr eru eftir af asíuljóninu (Panthera leo persica) og einskorðast sá stofn við Gir-verndarsvæðið á Austur-Indlandi.



Sums staðar í Afríku, til dæmis í vestanverðri álfunni (svo sem í Kamerún), hefur ljónum fækkað upp á síðkastið. Þar lifa mörg ljón utan þjóðgarða og verndarsvæða og eru þau oft skotin, eða eitrað fyrir þeim, þar sem þau eiga það til að ráðast á búpening. Strangt til getið eru ljónin friðuð en erfitt er að viðhalda eftirliti á afskekktum svæðum víða í Afríku. Á verndarsvæðum eru stofnarnir stöðugir nú um stundir.

Á heildina séð er ekki gott að segja hvernig heildarstofnstærð ljóna mun þróast en á undanförnum 30 árum hefur villtum ljónum fækkað nokkuð vegna búsvæðaröskunnar. Helsta ógn ljóna (og annarra stórra rándýra) er fólksfjölgun sem er mikil í Afríku. Vegna hennar þrengir mjög að ljónum og að öllum líkindum á þeim eftir að fækka nokkuð fram eftir 21. öldinni.

Á sögulegum tímum lifðu ljón mun víðar, meðal annars um alla suðvestur-Asíu, Norður-Afríku og í Evrópu. Þeim var útrýmt af stórum svæðum með veiði og ofsóknum.

Tígrisdýr eru í mun meiri útrýmingarhættu og telja líffræðingar að nú séu aðeins um 5.000 dýr eftir villt í austanverðri Asíu. Fyrir einni öld voru tígrisdýrin um 100 þúsund og hefur þeim fækkað mjög hratt og reglulega á þessum 100 árum. Ekki er ljóst hvert þessi þróun stefnir en nokkrum deilitegundum hefur fækkað svo mikið að þeim verður nánast vart bjargað úr þessu, til dæmis suður-kínverska tígrisdýrinu (Panthera tigris amoyensis) sem telur nú aðeins um 20-30 dýr. Flest tígrisdýr tilheyra Bengal-deilitegundinni (Panthera tigris tigris) og hefur þeim fækkað síðastliðin 20 ár og telja nú á bilinu 3.500-3.700 dýr. Villtum tígrisdýrum fer þess vegna fækkandi þó að menn hafi víða náð árangri í svæðisbundinni verndun, svo sem í Síberíu.

Í margar aldir hefur verið uppi orðrómur um tilvist hvítra ljóna í Suður-Afríku. Á fjórða áratug síðustu aldar sá Joyce nokkur Mostert hvítt ljón á Timbavati-verndarsvæðinu sem liggur við Kruger-þjóðgarðinn í Suður-Afríku og er það talið í fyrsta skipti sem einhver af evrópskum uppruna leit slík ljón augum. Næstu áratugi á eftir gengu sögur um hvít ljón en það var ekki fyrr en á áttunda áratugnum sem þau voru fest á filmu í fyrsta sinn.

These two baby white lion cubs were born at West Midland Safari Park in January. [West Midland Safari Park] Árið 1975 vann bandaríski náttúrufræðingurinn Chris McBride að rannsóknum á ljónum á Timbavati-verndarsvæðinu. Þar fann hann, ásamt fjölskyldu sinni, tvo ljónahvolpa sem voru „hvítir sem ísbirnir“. Hvolparnir voru hvor af sínu kyni og var karldýrið nefnt Temba en kvendýrið Tombi.



McBride fylgdist með dýrunum og komst að þeirri niðurstöðu að liturinn gerði þeim lífsbaráttuna erfiðari. Hvíti liturinn vekti allt of mikla athygli annarra dýra, hvort sem væri veiðidýra eða keppinauta, og þeim gengi ekki eins vel að dyljast eins og gulbrúnum ljónum.

Temba, karldýrinu, vegnaði verr en ljónynjunni enda eru lífslíkur hvítra kvendýra meiri en karldýra. Ástæðan er sú að frá fæðingu halda kvendýrin til í hópnum en ung karldýr eru hrakin á brott af ráðandi karldýrum og þurfa að draga fram lífið ein þangað til þeim tekst að koma sér upp nýjum hópi. Ljón eru stór og þung og hlaupa ekki langar leiðir á eftir bráð sinni. Þau reyna heldur að komast nálægt veiðidýrinu og taka síðan sprettinn. Því er gott að falla vel inn í umhverfið líkt og venjuleg ljón gera en það reynist hvítum ljónum erfitt. McBride tók eftir því að Temba gekk illa að veiða og svalt heilu hungri.

Áhyggjur McBride af afkomu hvítu ljónanna í náttúrunni urðu til þess að dýrin voru fönguð og flutt í dýragarð í Pretoríu í Suður-Afríku. Temba dó þar án þess að eignast afkvæmi en Tombi lifði til ársins 1996 og eignaðist nokkra hvolpa. Núna er ekki vitað um nein hvít ljón sem lifa í villtri náttúru en á þriðja tug hvítra ljóna eru til í dýragörðum.



The cubs are naturally white and are part of the only pride of white lions in the UK. Here they are with their mum, Natasha. [West Midland Safari Park] Hvít ljón eru ekki albínóar í ströngustu merkingu þess orðs þar sem litarefni er til staðar í augum og loppum þótt það vanti í húð og feld. Hvolparnir eru nánast alveg hvítir á feldinn en þegar dýrin eldast dökknar feldurinn og verður rjómalitaður. Hvíti liturinn stafar líklega af víkjandi geni.

Rannsóknir hafa staðfest að dánartíðni hvítra ljóna er mun hærri en hjá öðrum ljónum og jafnvel þótt þau búi við bestu lífskilyrði þá dregur það óverulega úr dánartíðninni. Að mati dýrafræðinga er það liturinn sem gerir þeim erfiðara fyrir við veiðar og er meginástæða þess hversu illa þeim farnast.

 

Upplýsingar af Vísindavefnum.

©2007 Globalsig./ Sigfús Sig. Iceland@Internet.is