Hans
Christian Andersen
Danski
rithöfundurinn H. C. Andersen er í dag þekktur sem eitt
mesta sagnaskáld allra tíma og hafa ævintýri hans verið
þýdd á ótal tungumál og auðgað líf barna út um allan
heim og veitt þeim gleði. En Andersen skáldaði ekki
einungis upp ævintýri á prenti, því óhætt er að segja að
ævi hans hafi verið eitt samfellt ævintýri. Hvernig hann
sem fátækur alþýðudrengur, einn og umkomulaus, braust
áfram, með vonina eina í farteskinu, til hæstu metorða
er kannski mesta ævintýrið af þeim öllum og sýnir svo
ekki verður um villst að ævintýrin gerast enn.
Æska og uppvöxtur
Hans Christian
Andersen fæddist í Óðinsvéum (Odense) 2. apríl árið
1805. Faðir hans var fátækur skóari, en vel gefinn maður
og vel lesinn sem umhugað var um menntun sonar síns.
Móðir hans mun hafa verið blíðlynd kona og góðhjörtuð og
naut hann mikils ástríkis í uppvextinum.
Faðir hans
lagði sérstaklega mikla alúð við drenginn og á
sunnudögunum þegar hann átti lausan tíma bjó hann til
handa honum leikföng og las fyrir hann upp úr ,,Þúsund
og einni nótt", kómedíum Holbergs o. fl.
Í Óðinsvéum á
þessum tíma var að finna eina fast starfandi leikhúsið í
Danmörku utan Kaupmannahafnar. Hafði Andersen
gríðarlegan
áhuga á
því og einsetti sér fljótlega að gerast leikari. Dundaði
hann sér við að sauma föt á leikbrúður sínar og lét þær
leika leiki, sem hann bjó til upp úr sér eða setti saman
af því, sem hann hafði séð. Var hann ákveðinn í að semja
leikrit er hann yrði stór og þá var hann sífellt að
yrkja kvæði. Andersen var sólginn í sögur og gerði sér
far um að biðja fullorðið fólk að segja sér gamalar
þjóðsögur og ævintýri. Hefur hann búið vel að því þegar
hann gerðist rithöfundur að ævistarfi.
Af öllu þessu
þótti Andersen nokkuð sérstakur og átti ekki mikla
samleið með jafnöldrum sínum í Óðinsvéum. Og þó að sumir
hafi séð í honum það sem koma skyldi voru aðrir sem
töldu hann nánast fáráð.
Þegar Andersen
var 11 ára missti hann föður sinn og hafði þá móðir hans
ofan af fyrir þeim með þvotti og ýmissi annarri
íhlaupavinnu. Nokkru seinna giftist hún í annað sinn og
var seinni maðurinn skóari eins og faðir hans.
Þegar kom að
því að huga að framtíð drengsins vildi móðir Andersens
helst að hann gerðist skraddari, af því hann var svo
natinn að sauma utan á leikbrúður sínar, en það vildi
Andersen alls ekki. Hann vildi fyrir hvern mun verða
leikari. En slíkt kostaði peninga og þeir voru af
skornum skammti.
En fyrst varð
hann að ljúka almennri skólagöngu sinni, en það var í
skóla nokkrum fyrir fátæk alþýðubörn, þar sem ekki var
annað kennt en kristinfræði, skrift og reikningur. Þegar
hann lauk skólanum og var fermdur stóð til að hann færi
sem lærlingur hjá skraddara nokkrum, en það gat
Andersen ekki hugsað sér. Hann sárbændi móður sína um að
leyfa sér heldur að fara til Kaupmannahafnar. ,,Ég vil
verða frægur," sagði hann; ,,ég hef lesið um marga menn,
sem fæddir voru í sárri fátækt eins og ég, en urðu
frægir.”
Heldur til Kaupmannahafnar
,,Þar sem hann
sótti þetta svo fast, leitaði móðirin til spákonu einnar
og lét hana spá fyrir honum í spilum og kaffikorg. ,,Sá
tími mun koma," sagði spákonan, ,,að Odensebær verður
skrautlýstur honum til sæmdar." Þau orð gerðu útslagið
og fjórtán ára gamall lagði Andersen af stað til
Kaupmannahafnar þann 4. september árið 1819 með eina tíu
ríkisdali í vasanum og dálítinn fataböggul undir
hendinni.” Hann ætlaði sér að fá vinnu sem leikari í
höfuðborginni.
Í
Kaupmannahöfn þekkti hann engan og því var er óhætt að
segja hann hafi rennt blint í sjóinn. Og það var heldur
ekki mikið sem hann hafði upp á að bjóða. Hann þótti
ekki sérlega fríður og ekki hafði hann líkamsburði til
að gerast dansari. En eitt hafði hann þó með sér sem
stóð honum til tekna. Hann vissi hvað hann vildi og var
ófeiminn að sækja það.
Fljótlega
kynntist hann Síbóni, sem var söngmeistari við
konunglega leikhúsið, ítölskum manni, skáldinu Baggesen
og tónsnillingnum Weyse. Ósvikin og einlæg framkoma
Andersens verkaði strax sterkt á þessa menn. Baggesen
spáði því snemma að það mundi rætast úr þessum undarlega
pilti og Weyse gekkst fyrir samskotum til brýnustu þarfa
hans. Síbóni tók að sér að kenna honum söng, því
Andersen hafði góða söngrödd. En þegar söngnámið stóð
sem hæst komst hann í mútur, og þar með var sá draumur á
enda runninn.
Árið 1822
virtist útséð um allan frama Andersens á
leiklistarbrautinni og hann var látinn hætta í skólanum.
En þó svo að þessi tilraun hans hafi ekki gengið að
óskum bjó hann að þessu námi alla ævi og hefur það aukið
honum skilning á sögum og sjónleikjum og samspilinu við
áhorfendur og/eða lesendur.
Upp úr þessu
fór hann að einbeita sér að því að skrifa leikrit og
reyndi fyrst við sorgarleiki. Sendi hann handritin til
leikhússtjóra í þeirri von að þeir tækju einhvern þeirra
til sýninga, en fékk ávallt synjun og heldur óvæga
gagnrýni. Samt fannst sumum sem drengnum væri ekki alls
varnað og þyrfti einungis að fá haldbetri menntun til að
ná árangri. Hafði Andersen vingast við áhrifamikinn mann
í borginni, Jonas Collin, sem ákvað ásamt fáeinum öðrum
að styrkja hann til náms. Fékk hann því einnig framgengt
,,að konungur veitti Andersen 400 rd. ársstyrk í 3 ár
til að ganga í latínuskóla.”
Var ákveðið að
Andersen færi í Slagelse latínuskólann og yrði í umsjá
rektorsins þar S. Meisling. Bjó Andersen á heimili hans
og var undir hans verndarvæng. Þegar Meisling færði sig
um set yfir til Helsingjaeyrar fylgdi hann honum. En
sambúð þeirra Meislings gekk ekki sem skyldi. Hafði hann
enga samúð með skáldadraumum Andersens og reyndi með
öllum ráðum að fá hann ofan af þeim. En Andersen sat
fast við sinn keip og á endanum tók Collin hann úr
skólanum og fékk honum einkakennslu í Kaupmannahöfn.
Lauk hann svo stúdentsprófi árið 1828, þá 23 ára gamall
með aðra einkunn.
Hlýtur viðurkenningu sem rithöfundur
,,Um þessar
mundir hafði Andersen ort hið fræga kvæði sitt Det
döende Barn og fleiri, sem vöktu athygli manna; þá
samdi hann og En Fodrejse fra Holmens Kanal til
Östpynten af Amager , húmoríska sögu, sem bar
talsverðan keim af þýzka ævintýraskáldinu Hoffmann.”
Kvæðasöfn komu út eftir hann 1830—33 og '47, og þrátt
fyrir að mörg kvæða hans séu ágæt verða þau seint til að
halda nafni hans á lofti.
Árið 1833
hlaut Andersen styrk til að ferðast til útlanda en
ferðalög voru alla tíð mjög stór hluti af lífi hans.
Telst mönnum til að hann hafi farið í 29 ferðalög til
annarra landa og dvalið erlendis því sem nemur 9 árum. Í
þessari ferð fór hann til Frakklands og Ítalíu þar sem
hann dvaldi um veturinn og skrifaði söguna The
Improvisatore sem var gefin út árið 1835. Þá urðu á
vegi hans þekktir menn sem hann hafði gaman af að hitta.
Í París voru það stórskáldin Heinrich Heine og Victor
Hugo og í Róm hitti hann Íslendinginn Bertel Thorvaldsen
myndhöggvara.
Með útkomu
bókarinnar The Improvisatore 1935 urðu þær
breytingar á högum hans að menn fara að taka hann
alvarlega sem rithöfund, enda fékk bókin ágæta dóma.
Síðar á sama ári kom svo fyrsta ævintýrasafnið fyrir
börn út.
Á löngum en
gæfuríkum ferli skrifaði Andersen fleiri skáldsögur sem
lítið eru þekktar í dag, Þá skrifaði hann nokkrar
ferðasögur, enda ferðaðist hann mikið eins og áður hefur
verið nefnt og hitti margt merkilegt fólk á ferðum
sínum. Sem leikritaskáld var Andersen einnig mjög
afkastamikill og voru nokkur þeirra færð á svið, en fá
leikrit hans hafa staðið tímans tönn.
,,Best af
leikritum hans er talið (vera) Den ny Barselstue” , sem
var léttur gamanleikur og hefur verið leikinn nokkrum
sinnum.
Fyrstu ævintýrin líta dagsins ljós
En það eru
fyrst og fremst ævintýrin sem hafa haldið nafni hans á
lofti og gera enn þann dag í dag og svo vel að hann er
kunnasti rithöfundur Dana fyrr og síðar. Eins og áður
sagði kom fyrsta heftið með ævintýrum hans út árið 1835
og síðan komu ný ævintýri út með reglulegu millibili.
Í
fyrstu þótti mönnum lítið til þessara ævintýra koma og
sérstaklega í Danmörku, og sannast þar hið fornkveðna að
enginn er spámaður í eigin föðurlandi. En fljótlega fóru
þau að vekja eftirtekt og urðu brátt mjög vinsæl, ekki
síst utan Danmörku. En ekki leið á löngu þar til Danir
tóku hann einnig í fulla sátt og nú hafa ævintýrin verið
þýdd á fjölda tungumála og hvarvetna hlotið mikið lof og
miklar vinsældir. Alls urðu ævintýrin um 150 talsins svo
það er af nógu að taka.
Það er gaman
að geta þess hér að Íslendingar kunnu snemma að meta
ævintýri H. C. Andersen. Jónas Hallgrímsson byggði
t.a.m. sitt ævintýri Leggur og skel á
ævintýrinu Toppen og Bolden eftir Andersen og
þá skrifaði Grímur Thomsen hlýlega um ævintýrin árið
1855. Minntist Andersen sjálfur þeirrar greinar með
þakklæti í sjálfsævisögu sinni.
Það er óhætt
að segja að í ævintýrunum hafi Andersen fundið sér
farveg fyrir þann skáldskap sem bjó í honum og hann
þurfti að koma frá sér. Frásagnarmátinn hentaði honum
einstaklega vel og í honum tryggði hann sér það listræna
frelsi sem honum var eðlislægt. Þar fær einlægnin að
njóta sín og barnið í honum, en um leið skilar hann
sínum boðskap til lesandans á fumlausan hátt, boðskap
sem á ekki síður erindi til fullorðinna og er tímalaus í
eðli sínu.
Ævintýrið heldur áfram
Andersen
var ókvæntur alla tíð og má segja að hann hafi verið
giftur list sinni, enda ekki víst að hann hefði getað
sinnt skáldskapnum eins vel og hann vildi ef sú ábyrgð
bættist við hann. Hann þurfti t.a.m. alltaf að vera
frjáls ferða sinna og geta ferðast hvert sem hann vildi,
hvenær sem hann vildi. Það gaf honum innblásturinn í ný
ævintýri að koma á nýja staði.
Ævintýrið
um H. C. Andersen heldur áfram að lifa; ævintýrið um
fátæka soninn sem hélt út í hinn stóra heim með ekkert
nema hyggjuvitið að vopni og stóð á endanum uppi sem
sigurvegari.
Hans
Christian Andersen andaðist sjötugur að aldri í
Kaupmannahöfn 4. ágúst 1875.