Ævintýrahornið.

Astrid Lindgren

Tekið saman af Nínu Baldursdóttur og Tinnu Daníelsdóttur

Hver er þessi Astrid?

Astrid Anna Emilia Ericsson hét stúlka fædd í Vimerby í Svíþjóð árið 1907. Þar ólst hún upp ásamt foreldrum og þremur systkinum á búgarðinum þeirra

Näs. Astrid átti góða æsku og fengu þau börnin mikið frelsi frá

foreldrum sínum til leiks og starfa. Hún hafði alla tíð gaman af

skrifum og var einungis 14 ára þegar hún fékk grein eftir sjálfa sig

fyrst birta í dagblaði bæjarins. Þremur árum seinna var hún síðan

komin með fast starf sem blaðamaður hjá sama dagblaði. Eftir að hafa eignast son aðeins 18 ára gömul og þurft að gefa hann frá sér, fluttist hún ein síns liðs til Stokkhólms, hóf störf hjá Konunglega bifreiðafélaginu og fann þar lífsförunaut sinn, Sture Lindgren. Þau gengu í hjónaband árið 1931 og áttu saman eina dóttur, Karin. Seinna fékk hún svo son sinn Lars aftur og voru þau börnin henni mikill innblástur við skrif sín seinna meir. Árið 1941 flutti fjölskyldan sig um set og bjuggu hjónin þar alla tíð eftir það. Sture lést árið 1952, en Astrid einbeitti sér alfarið að skrifum sínum í kjölfarið en lést svo á heimili sínu

árið 2002.

...og þannig hófst fjörið

Börn Astridar voru ólm í sögur eftir móður sína, en hún sinnti skyldu sinni vel og sagði þeim ótal sögur eftir sjálfa sig þegar þau voru enn ung. Í fyrstu skrifaði hún sögurnar þó aldrei niður, því hún var einfaldlega hrædd við það. Á

grunnskólaaldri hafði hún orðið fyrir mikilli stríðni vegna rithæfileika sinna og jafnvel uppnefnd Vimerby s Selma Lagerlöf .

Dag nokkurn árið 1941 fékk þá hin sjö ára gamla Karin lungnabólgu. Astrid sat

tímunum saman við rúm dóttur sinnar og sagði henni sögur. Kvöld eitt spurði Astrid hana hvaða sögu hún vildi helst heyra og nefndi hún þá upp úr þurru Línu Langsokk (Pippi Långstrump). Hin skrýtna og skemmtilega Lína hélt svo áfram að þróast næstu ár, því að eftir þetta varð hún uppáhaldssögupersóna bæði Karinar og allra vina hennar.

Nokkrum árum seinna var Astrid á gangi um miðbæ Stokkhólms.

Það var fallegt veður og nýfallinn snjór yfir öllu. Undir snjónum leyndist

þó klaki sem varð til þess að hún datt harkalega og sneri á sér ökklann.

Hún komst ekki út úr húsi í nokkrar vikur, en það var einmitt þá sem hún

byrjaði að skrifa niður sögurnar um Línu.

Enginn verður óbarinn biskup

Eftir að hafa lokið við handritið að fyrstu bókinni um Línu ákvað hún að láta reyna á að senda það til stærsta útgefandans í Svíþjóð. Það gekk þó ekki eftir og henni var hafnað með þeim orðum að sagan væri of óhefðbundin og gæti vakið óæskilegar hugmyndir í litlum kollum. En hún dó ekki ráðalaus, og stuttu síðar sendi hún nýja sögu um stelpu sem hún kallaði Brittu- Maríu inn í sögusamkeppni fyrir stúlkur hjá útgefandanum Rabén & Sjögren. Fyrir vikið lenti hún í öðru sæti.

Árið eftir var síðan haldin önnur samskonar keppni, nema núna

var þemað barnabækur, og þorði Astrid nú aftur að reyna fyrir sér

með Línu(lagfærða útgáfu að sjálfsögðu) og sigraði þá keppni.

Lína Langsokkur sló algerlega í gegn hjá sænskum ungmennum.

Næsta ár sigraði hún aðra keppni á vegum sama útgefanda og eftir

það var hún komin á beinu brautina. Hún skrifaði ótal bækur til viðbótar, í heildina yfir 50 bækur, en einnig nokkur leikrit, smásögur og söngtexta. Samfara því vann hún sem barnabókaritstjóri hjá Rabén & Sjögren, en þar að auki vann hún þó nokkuð við útvarp, sjónvarp og kvikmyndir.

Það er ekkert sem heitir slæm umfjöllun

Þrátt fyrir velgengni sína fékk Astrid ekki bara góðar viðtökur. Margt sem kom fram í bókum hennar var með óhefbundnara sniði heldur en áður hafði tíðkast í barnabókum.

Börn voru látin gera prakkarastrik, sum voru munaðarlaus og hún var óhrædd við að fjalla um ósætti og dauða, en einnig ást og umhyggju þar á móti. Hún fór þó ekki oft út í að sýna venjulegt fjölskyldulíf í bókunum, rifrildi voru

fátíð og gleðin vanalega við völd. Heimurinn sem börnin lifðu í var oftar en ekki draumkenndur og sagði þar vanalega frá fjölskyldum á sveitabæjum

þar sem sól skein í heiði og allir voru vinir. Í ævintýralegri sögunum þurftu ekki að vera neinir foreldrar til staðar, eða þá að þeir voru kóngar eða sjóræningjar í fjarlægum löndum.

Börnin lifðu frjáls og höfðu vit fyrir sjálfum sér. Einna harðasta gagnrýni fékk Astrid þó fyrir bókina Bróðir minn Ljónshjarta sem kom fyrst út árið 1973. Sú bók sýndi bæði hve allt gat verið óskaplega fallegt í veröldinni en einnig hve illa heimurinn getur leikið mann.

Hörð barátta milli lífs og dauða var háð, hatur og óvissa réðu ríkjum, en samt var alltaf eitthvað fallegt og gott sem hélt voninni í bræðrunum. Mörgum sem bókina lásu fannst það einnig nokkuð athugavert að bræðurnir dóu ekki aðeins einu sinni, heldur tvisvar!

Raddir gagnrýnenda voru háværar og sálfræðingur nokkur komst svo að orði: Aldrei gæti ég lesið síðustu línur bókarinnar fyrir nokkurt barn í heiminum og

annar vildi meina að svona ævintýri ættu ekki að vera til í barnabók.

Astrid svaraði því þó léttúðlega, að því oftar sem þú deyrð, því betur

venst þú því. Seinna sama dag fékk hún símtal frá stúlkunni sem lék

Ídu litlu í kvikmyndinni um Emil í Kattholti og þakkaði hún

Astrid fyrir að hafa endinn á bókinni svona fallegan.

Bókin Elsku Míó minn gerist einnig í ævintýraheimi, en sömuleiðis

mjög frábrugðnum heimi bræðranna Ljónshjarta. Þær eiga það þó eitt sameiginlegt að byrja báðar í okkar heimi, en fara svo yfir í nýrri og betri heim, eða það halda þeir að minnsta kosti. Það vakti eftirtekt að Míó vildi alltaf finna hvort allt væri raunverulegt, því hann sá svo margt stórkostlega fallegt á ferðum sínum. Einnig var bókin full af endurtekningum sem settu mikinn svip á stíl bókarinnar hvað áhrif á lesandann varðaði.

Nöfnin á persónunum (Míó, Jum-Jum) gefa það líka í skyn að sagan er ævintýri, því að þau eru svo fjarri raunveruleikanum.

Sveitasælan

Astrid var þó einna leiknust við að skrifa sögur fyrir yngri börnin sem gerðust í litlum sveitaþorpum og bæjum, enda er ekkert athugavert við það, sjálf ólst hún upp á sveitabæ með þremur öðrum ólátabelgjum. Hún skrifaði því um það sem henni var kunnugt og notaðist oft við eigin reynslu og ástvina sinna við sögugerðina. Sem dæmi má nefna að hún studdist að miklu leyti við sögurnar af

prakkarastrikum föður síns þegar hún skrifaði Emil í Kattholti. Sagan af fimmeyringnum sem lenti óvartofan í maganum á Emil er til dæmis alveg dagsönn! Áhyggjufullir foreldrarnir þurftu að koma litla prakkaranum til læknisins í Vimerby í sögunni, en það er einmitt sami bær og faðir hennar ólst upp í.

Emil var þó aldrei skammaður illilega, því að eftir allt saman var hann svo sætur lítill snáði, að allra mati nema vinnukonunnar Línu. Einnig má nefna bækurnar Börnin í Skarkalagötu og Ólátagarði, en þær bækur eru að mörgu leiti keimlíkar. Þar er fjallað á fallegan hátt um tengsl systkina en einnig ríginn á milli þeirra og almenna aldursmismunun.

Börnin í Ólátagarði eru samheldnari hópur, því að þau eru öll á svipuðum aldri, og þó að einhverjum sé bannað að vera með á þeim forsendum að hún/hann sé of lítil/l er það fljótlega gleymt og grafið. Í Börnunum í Skarkalagötu er munurinn meiri milli systkina, því tvö þeirra eru á svipuðum aldri en Lotta, sem er mun yngri, er bara svo lítil og vitlaus að hún má aldrei vera

með. Þrátt fyrir það er hún ein eftirminnilegasta sögupersóna Astridar, og hún fær mann einnig til að velta fyrir sér hvort hún sé ekki Karin

litla dóttir hennar í dulargervi. En þrátt fyrir að Lotta sé alltaf voðalega frek og

yfirgengileg, þá bjargar hún vanalega deginum að lokum og fær systkini sín til þess að viðurkenna að hún sé ekki alveg jafn lítil og vitlaus og þau héldu. Bjartir litlir, sólskin, gróður og brosandi börn einkenna allar myndir í báðum bókunum, enda eru þær allar eftir sama listamann, aldavinkonu Astridar, Ilon Wikland. Hún hefur einmitt verið einn aðalmyndskreytir Astridar frá því hún hóf skrif.

Eldri lesendur, meiri spenna

Astrid hugsaði ekki einungis um yngstu lesendur sína, því hún skrifaði einnig margar bækur sem höfðuðu meira til eldri barna og unglinga. Þekktastar eru ef til vill sögurnar um hana Kötu sem ferðaðist um víða veröld, Rasmus fer á flakk og Leynilögreglumaðurinn Karl Blómkvist. Þar er atburðarásin heilsteyptari, og sagan nær því að vera trúverðug. Einnig þar finnast ótíndir glæpamenn og ástvinir sem lenda í vandræðum, enþar sem þær sögur eru nær raunveruleikanum þá eru þeir skúrkar kannski of hræðilegir fyrir ung börn. Í sögunni af Rasmusi tekur Astrid einnig á höfnun sem börn finna oft fyrir, Rasmus er munaðarlaus og ósköp venjulegur strákur með dökkt, slétt hár, og getur ekki ímyndað sér að nokkur myndi vilja ættleiða strák eins og hann. Í staðinn tekur hann málin í sínar eigin hendur og fer á flakk með Óskari flækingi sem kennir honum á lífið. Þeir félagar lenda í ýmsu á ferðum sínum, en komast þó auðvitað heilir á leiðarenda. Kalli Blómkvist lifir hins vegar auðveldara lífi með foreldrum sínum og dreymir um ævintýri og glæpi til þess að leysa.

Allt tekur enda um síðir

Astrid Lindgren hlaut á 94 ára ævi sinni fjöldann allan af verðlaunum og viðurkenningum fyrir störf sín. Í lokin var það orðið svo að hún fékk verðlaun nánast árlega, enda einn merkasti og þekktasti barnabókahöfundur í heimi. Það er þó ekki að furða að hún hafi hlotið svona mörg alþjóðleg verðlaun, því að bækur hennar hafa verið þýddar á yfir 60 tungumál. Á sama tíma er gaman að líta til baka og hugsa um hve illa henni var tekið í upphafi, og hversu mikil umsvif hún hafði í seinni tíð. Koma hennar inn á barnabókamarkaðinn var vel tímasett, því það var löngu orðið tímabært að taka börnin inn í raunveruleikann þar sem fólk deyr og á við ýmsa erfiðleika að stríða.

Hún fylgdi alltaf sannfæringu sinni og samdi bækur sem henni fannst skemmtilegar, en vonaði þó á sama tíma að ef þær væru ekki teknar upp til lærdóms að þær væru þá alla vega notaðar til dægrastyttingar.

Eitt sinn fékk hún lítinn miða í hönd frá ókunnugri konu sem á stóð Þakka þér

fyrir að færa ljós inn í drungalega æsku mína. Það var það eina sem Astrid Lindgren þurfti.

 

Heimildir

Lindgren, Astrid. 1990. Börnin í Ólátagarði. Mál og menning, Reykjavík

Lindgren, Astrid. 1997. Börnin í Skarkalagötu. Mál og menning, Reykjavík

Lindgren, Astrid. 1985. Elsku Míó minn. Mál og menning, Reykjavík

Lindgren, Astrid. 1987. Rasmus fer á flakk. Mál og menning, Reykjavík

Lindgren, Astrid. 1987. Sögur og ævintýri ( Emil í Kattholti og Bróðir minn Ljónshjarta).

Mál og menning, Reykjavík

Lindgren, Astrid. 2005, 10. janúar. Astrid Lindgren. Sótt 5. apríl 2005 af :

http://www.astridlindgren.se/omastrid/lejonkritik.htm

Lindgren, Astrid. 2005, 10. janúar. Astrid Lindgren. Sótt 5. apríl 2005 af :

http://www.astridlindgren.se/omastrid/album5.htm

Lindgren, Astrid. 2003. Astrid Lindgren (1907-2002). Sótt 3. apríl 2005 af :

http://www.kirjasto.sci.fi/alindgr.htm

Lindgren, Astrid. 2005, 23. febrúar. A Norstedts article. Sótt 31. mars 2005 af :

http://www.astrid- lindgren.com/astridlindgren/nor

 

 

 

SigfúsSig. Iceland@Internet.isSigfúsSig. Iceland@Internet.isSigfúsSig. Iceland@Internet.is

 

©2002 Sigfús Sig. Iceland@Internet.is