Ævintýrahornið.

KLUKKAN

Eftir Hans Christian Andersen - í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar

Það var altítt í einni stórborginni, að þegar kvölda tók og sólin rann og skýin glóðu sem gull á milli efstu reykháfanna, þá heyrðu hinir og þessir í smástrætunum eitthvert undarlegt hljóð, eins og eim af kirkjuklukku, en það heyrðist ekki nema rétt í svip, því vagnaskröltið og hrópið á strætunum tók yfir og truflaði. "Nú er verið að hringja kvöldklukkunni," sögðu menn, "nú gengur sólin undir."

Þeir, sem voru á gangi fyrir utan borgina, þar sem húsin stóðu strjálar innan um trjágarða og smáekrur, sáu kvöldhimininn í enn meiri fegurðarljóma og heyrðu betur klukkuhljóðið. Það var eins og hljóðið bærist frá einhverri kirkju úr innstu fylgsnum hinna ilmandi skóga, og fólkið horfði þangað eins og gagntekið af einhverjum hátíðlegum anda.

Nú leið og beið, og stundum sögðu menn sín á milli: "Ætli það sé kirkja í skóginum þarna út frá? Þessi klukka er svo hljómfögur, að það gegnir undrum. Eigum við að gera okkur ferð þangað og skoða hann betur?" Og nú fór ríka fólkið akandi og fátæka fólkið gangandi, en það teygðist svo undarlega úr veginum, og þegar komið var þangað, sem pílviðir nokkrir stóðu í þyrpingu við skógarjaðarinn, þá var setzt niður og horft upp í trjágreinarnar langar og laufmiklar, og kunni fólkið sér ekki læti af feginleik yfir því að vera komið út í græna sumardýrðina. Sætabrauðsbakari nokkur kom þangað úr borginni og reisti upp sölutjaldið sitt, og svo kom annar sætabrauðsbakari og hengdi upp klukku rétt andspænis móti tjaldinu sínu, og meira að segja, það var klukka, sem var bikuð, til þess að hún skyldi þola regn og vætu, en kólfinn vantaði. Þegar nú fólkið fór heim aftur, þá sagði það, að þetta hefði verið svo dásamlega fagurt. Það voru einhverjir þrír, sem staðhæfðu, að þeir hefðu komizt í gegnum allan skóginn, og alltaf hefðu þeir heyrt undarlega hljóðið til klukkunnar, en þeim hefði látið svo fyrir eyrum, sem það kæmi úr borginni. Einn þeirra orti um það heilt kvæði og sagði, að klukkan hljómaði eins og móðurrödd við skýrleiks óskabarn, og ekkert sönglag væri fegra til en ómur klukkunnar.

Þessi tíðindi komu nú einnig fyrir keisarann í þessu landi, og hét hann því, að hver sá, sem með sönnu fengi uppgötvað, hvaðan hljóðið kæmi, hann skyldi fá þá nafnbót, að vera kallaður "heimshringjari", og það enda þó svo reyndist, að klukkan væri ekki til.

Eftir það fóru margir þessa erindis til skógarins, en það var ekki nema einn, sem kom heim aftur með einhvers konar skýringu leyndardómsins. Það hafði sem sé enginn brotizt nógu langt inn í skóginn, og hann þá ekki heldur, en svo mikið kvaðst hann þó vita, að klukkuhljóðið kæmi frá uglu nokkurri stórri sem byggi í holu tré, og það væri eins konar vísdómsugla, sem alltaf lemdi hausnum í tréð, en hvort hljóðið kæmi úr kolli hennar eða holum tréstofninum, það þóttist hann ekki geta sagt með áreiðanlegri vissu. Fyrir þetta var hann skipaður "heimshringjari", og samdi hann síðan á ári hverju eina vísindalega ritgerð um ugluna, en jafnfróðir voru menn eftir sem áður.

Það var nú einhvern dag, að börn voru fermd. Presturinn hafði haldið fagra og hjartnæma ræðu, og börnin höfðu viknað svo innilega, þetta var líka merkisdagur á ævi þeirra, því að nú áttu þau úr börnum að verða fullorðin svna allt í einu, og það var eins og barnssálin myndaði sig til að taka þessari breytingu. Það var glaðasólskin; fermingarbörnin gengu út úr borginni, og klukkan mikla og ókunna ómaði nú með undrasterkum hljómi úr skóginum. Þau urðu þegar í stað svo óðfús að komast þangað, öll þrjú. Eitt, sem var stúlka, varð að fara heim til að máta á sér danskjólinn sinn, því það var ekki vegna nokkurs annars en kjólsins og dansins, að hún var fermd í þetta skipti; hún hefði annars verið látin bíða. Annað barnið var fátækur drengur, sem hafði orðið að fá fermingartreyjuna sína og stígvélin að láni hjá syni húseigandans, þar sem hann átti heima, og átti hann að skila því aftur á tilteknum tíma. Þriðja barnið, sem líka var drengur, sagðist aldrei fara á nokkurn ókunnan stað, nema því aðeins að foreldrar sínir færu með. Hann hefði alténd verið hlýðið barn, og það ætlaði hann sér einnig að vera eftir ferminguna, og eiga menn ekki að gera gys að slíku, en það gerðu menn nú samt.

Þessi þrjú fóru því ekki með, en hin örkuðu af stað. Sólin skein í heiði, og fuglarnir sungu, og fermingarbörnin sungu með og héldust í hendur, því enn sem komið var höfðu þau ekki fengið embætti og voru öll saman fermingarbörn fyrir guði.

En skammt var þess að bíða, að tvö minnstu börnin urðu þreytt, og sneru þau þá bæði aftur til borgarinnar. Tvær smámeyjar settust niður og fóru að knýta blómkerfi; ekki komust þær heldur með; en þegar hin börnin voru komin að píltrjánum, þar sem sætabrauðsbakarinn hafði búð sína, þá sögðu þau: "Skoðum til, nú erum við komin hingað. Klukkan er í rauninni ekki til, hún er ekki annað en einhvers konar hugarburður."

Í sama bili hljómaði klukkan langt inni í skóginum svo skært og blítt og hátíðlega, að fjögur eða fimm börn réðust í að halda nokkuð lengra inn í skóginn. En svo var hann þéttgróinn og laufmikill, að harðsótt var að komast áfram; það lá við, að blákukkurnar og krossgrösin væru of hávaxin, klukknablóm og brómberjaklasar héngu í löngum fléttum frá einu tré til annars, og þar söng næturgalinn dillandi og sólargeislarnir iðuðu. Ó, sá unaður, sem þar var! en ekki var smámeyjunum hent að fara þann veg, því hætt er við, að kjólarnir hefðu rifnað. Þar voru stórgrýtisbjörg og klappir, algrónar allavega litum mosa, og spruttu þar upp tærar lindir með suðandi nið, og var eins og þær segðu: "glúk, glúk!"

"Skyldi nú ekki þetta vera klukkan?" sagði eitt af fermingarbörnunum og lagðist niður til að hlusta betur; "það verður að rannsaka til hlítar." Og svo beið það kyrrt og hirti ekki um, þó hin börnin héldu áfram.

Það er nú af þeim að segja, að þau komu að húsi einu, sem gert var af berki og trjágreinum. Stórvaxið tré, sem bar villiepli, slútti ofan yfir það, eins og það ætlaði að hella allri ávaxtablessun sinni yfir þakið, sem var rósum vaxið. Löngu greinarnar á trénu seildust fram með gaflinum, og á honum hékk lítil klukka. Það skyldi þó ekki vera klukkan, sem til hafði heyrzt og eftir var leitað! Jú, jú! Allir voru samdóma um, að svo væri, nema einn. Hann sagði, að þessi klukka væri smáfelldari og lítilfjörlegri en svo, að það gæti heyrst til hennar þvílíkan óraveg eins glöggt og þeir hefðu heyrt hljóðið, og það væru líka allt aðrir hljómar, sem gætu gripið mannlegt hjarta svo innilega. Sá, sem þetta mælti, var kóngssonur, og þá var það viðkvæðið hjá hinum, að hann væri einn af þeim, sem þættust vitrari en allir aðrir.

Honum var þá lofað að fara einum, því hinum leizt ekki að fara lengra, og gekk hann leiðar sinnar áfram, en að því skapi sem honum miðaði áleiðis, eftir því varð hjarta hans æ gagnteknara af töfrum skógarkyrrðarinnar. Samt heyrði hann enn til litlu klukkunnar, sem honum líkaði svo vel, og stæði vindurinn þaðan, sem sætabrauðsbakarinn hafðist við, þá heyrði hann óminn öðru hverju, þegar fólkið var að syngja yfir tedrykkjunni, en dimmrödduðu klukkuslögin voru hljómmeiri og sterkari. Það fór að heyrast eins og leikið væri undir á orgel, og hljóðið kom frá vinstri hlið, þeirri hliðinni, þar sem hjartað slær.

Nú skrjáfaði í runnunum, og allt í einu stóð frammi fyrir kóngssyninum lítill piltur á tréskóm og treyjugarmi, æði ermastuttum, svo ekki náði fram á úlnliðina. Báðir þekktust, því þessi drengur var einmitt sá hinn sami, sem fyrr er um getið, að ekki komst með í ferðina, af því hann varð að fara heim og skila treyjunni og stígvélunum, sem hann hafði fengið að láni af syni húseigandans. Þessu hafði hann aflokið og síðan labbað af stað í fátæklegu flíkunum sínum á tréskónum, því klukkan dunaði fyrir eyrum hans með svo aflmiklum og undarlega djúpum hljómi. Hvað sem tautaði, varð hann að reyna að komast þangað út.

"Við getum þá orðið samferða," sagði kóngssonurinn. En fátæki fermingarpilturinn á tréskónum varð feiminn við, strauk um stuttu treyjuermarnar og sagðist ekki treysta sér til að ganga nógu hart, svo hann gæti fylgzt með; auk þess hélt hann, að það yrði að leita klukkunnar þeim megin, sem til hægri handar vissi, því að þeirri hliðinni hneygðist allt, sem veglegt er og mikilfenglegt.

"Þá er ekki að hugsa til að við finnumst," segir kóngssonurinn og kinkar kolli til fátæka drengsins. Fór þá sá fátæki inn í skóginn, þar sem hann var þykkastur og skuggalegastur og allur þyrnum gróinn, enda rifnuðu líka föt hans, og fætur hans og hendur urðu blóðrisa. Kóngssonurinn fékk líka margan skinnsprett, en sólin skein þó á hans leið, og skulum við nú fylgja honum eftir, sem vert er, því hann var dugandi drengur.

"Klukkuna vil ég og skal ég finna," sagði hann, "og það þó ég ætti að ganga á heimsenda."

Ófrýnir apar sátu uppi í trjánum og glottu, svo að skein í tanngarðinn. "Eigum við að lemja hann? Eigum við að lumbra á honum? Hann er kóngssonur."

En hann brá sér ekki við það og gekk inn í skóginn lengra og lengra, þar sem hann var gróinn kynlegustu blómum; þar stóðu bjartar stjörnuliljur með dreyrrauðum duftþráðum, himinbláar hjálmrósir, sem blikuðu í vindblænum, og eplatré með eplum, sem glóðu álengdar eins og gljágeislandi sápubólur; það má nærri geta, hvað falleg tré þessi voru í sólskininu. Allt umhverfis ljósgræn engin, þar sem hjörturinn og hindin leikur sér í grasinu, gnæfðu laufskrýddar eikur og beykitré, og væri börkurinn sprunginn á einhverju trénu, þá uxu bæði grös og langflæktar, öngóttar jurtir út úr sprungunum. Þar voru skóglendi mikil með lygnum stöðuvötnum, og syntu á þeim fannhvítir svanir og böðuðu vængjunum. Kóngssonurinn stóð oft við og hlustaði, og þótti honum stundum eins og klukkan sendi óminn upp til hans úr þessum djúpu vötnum, en hann fann í hvert sinn, að klukkuhljómurinn kom ekki þaðan, heldur lengra innan að úr skóginum.

Nú settist sólin, og loftið varð rauðglóandi sem eldur, það varð svo hljótt og svo rótt í skóginum. Þá féll hann á kné og söng kvöldsálminn sinn og sagði: "Aldrei finn ég það, sem ég leita eftir, nú rennur sólin og nú kemur nóttin, hin dimma nótt. Þó veit ég ekki, nema ég geti ennþá einu sinni séð kvöldsólina kringlótta og eldrauða, áður en hún hverfur alveg undir jörðina. Ég ætla að komast upp á klettana þarna, þar sem þeir gnæfa jafnhátt hæstu trjánum."

Og hann þreif í rætur og tágar og klifraðist upp eftir votum steinunum, þar sem vatnssniglarnir hringuðu sig og froskpaddan glennti upp skoltinn, eins og til að gelta að honum, en upp komst hann samt, áður en sólin var alveg gengin undir, og var sjón að sjá hana úr þeirri hæð. Ó, hvílík dásemdarprýði! Hafið, hið mikla og dýrðlega haf, sem velti löngum bylgjum inn að ströndinni, lá opið fram undan honum, og sólin glóði eins og gullaltari út við yztu brúnina, þar sem haf og himinn mættust. Allt rann saman í leiftrandi litadýrð. Skógarnir sungu og hafið söng og hann söng með. Öll náttúran var ein stór og heilög kirkja, þar sem tré og sveimandi ský voru súlurnar, þar sem blóm og grös voru glitofin gólfábreiða og himinninn sjálfur hvelfing hins mikla musteris. Hið efra slokknuðu rauðu litirnir, þegar sólin hvarf, en þá tendruðust þúshundruð stjörnur, og þá lýstu þúshundruð demantslampar, og kóngssonurinn breiddi faðminn móti himninum, móti hafinu og skóginum, og rétt í sama bili kemur fátæki drengurinn með stuttu ermarnar, á tréskónum, út úr hægra hliðargangi. Hann var þá kominn jafnsnemma hinum og kominn það á sínum vegi, og nú runnu þeir í fangið hvor á öðrum og héldust í hendur í hinni miklu kirkju náttúrunnar og skáldskaparins. Yfir þeim hljómaði hin ósýnilega, heilaga kirkja, og kringum hana svifu sælir andar í danshring með fagnandi lofgerðarröddum.

SigfúsSig. Iceland@Internet.isSigfúsSig. Iceland@Internet.isSigfúsSig. Iceland@Internet.is

 

©2002 Sigfús Sig. Iceland@Internet.is