Einu sinni var
kaupmaður nokkur, sem var svo flugríkur, að hann hefði
getað þakið allt borgarstrætið sem hann bjó í með
silfurpeningum og nærliggjandi stræti einnig þó hann gerði
það ekki. Hann kunni betur að fara með peningana en svo.
Léti hann af hendi einn skilding, þá tók hann ríkisdal í
staðinn. Slíkur kaupmaður var hann — og svo dó hann.
Sonur hans erfði
nú alla þessa peninga og skemmti sér heldur en ekki glatt.
Hann sótti
grímudansleiki á hverri einustu nóttu, bjó til
pappírsskutlur úr peningseðlum, kastaði gullpeningum sem
væru þeir steinar, út á vatnið og lét þá fleyta kerlingar.
Með þessu hátterni var bara spurning hvenær peningarnir
gengju til þurrðar, og það gerðu þeir líka. Að lokum átti
hann ekki eftir nema fjóra skildinga,
og ekkert af klæðnaði nema einn gamlan slopp og eina
morgunskó. Nú kærðu vinir
hans sig ekkert um hann, úr því þeir gátu ekki haft af
honum fé —
nema einn þeirra, sem var vel innrættur og góður í sér.
Hann sendi honum gamalt koffort með svohljóðandi
fyrirmælum: „Farðu að láta niður!" Kaupmannssonurinn tók
vel í það, en hann átti ekkert til að „láta niður" og
settist því sjálfur ofan í koffortið.
Þetta var
skrýtið koffort.
Um leið og þrýst var á lásinn á því, gat koffortið flogið.
Nú var það gert, og óðara flaug það með kaupmannssoninn
upp í gegnum reykháfinn, hærra og hærra, skýjum ofar,
lengra og lengra burt. Það brakaði í botninum, og hann var
svo hræddur um að það færi í sundur. Þá hefði hann fengið
þokkalega byltu. En þegar koffortið loks lenti á jörðu
niðri var hann staddur í Tyrklandi.
Koffortið faldi
hann í skóginum undir laufhrúgu og sneri síðan á leið til
borgarinnar. Það gat hann óhræddur gert, því á Tyrklandi
gengu allir í sloppum eins og hann og með töflur á fótum.
Hann mætti barnfóstru með lítið barn. „Heyrðu,
Tyrkjafóstra!" sagði hann, „hvaða stórhöll er þetta hérna
rétt við borgina. Það er svo hátt upp til glugganna?"
„Í þeirri höll
býr dóttir konungsins," svaraði hún. „Því hefur verið spáð
fyrir henni, að hún eigi að rata í ógæfu út af unnusta, og
má þess vegna enginn koma til hennar, nema konungurinn og
drottningin séu með honum."
„Þökk fyrir!"
sagði kaupmannssonurinn. Síðan fór hann til skógar,
settist í koffortið sitt, flaug upp á þak hallarinnar og
skreið þar inn til kóngsdótturinnar. Hún lá sofandi á
legubekk, og svo var hún fögur að kaupmannssonurinn gat
ekki stillt sig um að kyssa hana.
Hún vaknaði og
varð dauðhrædd, en hann sagði henni að hann væri guðleg
vera kominn ofan af himnum til hennar, og varð hún þá
rórri.
Þarna
sátu þau nú hvort hjá öðru, og sagði hann henni margar
sögur um augun hennar, hvað þau væru ljómandi falleg, eins
og svört stöðuvötn, og að hugsanirnar lékju þar á sundi
eins og hafmeyjur. Og um ennið hennar sagði hann, að það
væri snæfjall með skrautlegum sölum og myndum, og hann
sagði henni frá storkinum sem kæmi með smábörnin
elskulegu. Já, það voru nú sögur í lagi. Síðan bað hann
kóngsdótturinnar og játaðist hún honum óðara.
„En þér verðið
að koma hérna á laugardaginn," sagði hún, „því þá drekka
þau te hjá mér, kóngurinn og drottningin. Þau munu ekki
verða ánægð með að ég skuli vilja giftast manni eins þér
og vilja sennilega fara heim snemma. Þér verðið þá að
segja þeim eitt verulega fallegt ævintýri, því á þess
konar hafa foreldrar mínir fjarska miklar mætur. Móðir mín
vill hafa það fallegt og einlægt, en faðir minn
spaugilegt, svo hlegið verði að því."
„Já, ég hef
ekkert annað að færa þeim en ævintýri," sagði hann og
skildu þau svo að sinni, en kóngsdóttirin gaf honum korða,
alsettan gullpeningum og komu þeir honum í sérstaklega
góðar þarfir.
Eftir það flaug
hann burt, keypti sér nýjan slopp og sat nú úti í skógi og
var að setja saman ævintýri. Það átti að vera tilbúið á
laugardaginn en slíkt er ekki alltaf svo auðvelt.
En loks tókst
honum að ljúka við ævintýrið og nú var laugardagur runninn
upp. Konungurinn, drottningin og hirðin öll biðu hans hjá
kóngsdótturinni. Fékk hann þar hinar prýðilegustu
móttökur.
„Ætlið þér þá að
segja okkur ævintýri?" mælti drottningin, „Vonandi verður
það vel ígrundað og lærdómsríkt."
„En þó svo, að
hlegið verði að því," mælti konungurinn.
„Já, ég skal
reyna það," sagði hann, ,,og bið ég ykkur nú að taka vel
eftir.”
Einu sinni var
eldspýtnabréf og voru eldspýturnar í því ákaflega stoltar
yfir ættgöfgi
sinni. Ættmóðir þeirra, það er að segja furutréð stóra sem
þær voru smáflísar úr, hver um sig, —hafði verið stórt og
virðulegt tré í skóginum. Eldspýturnar lágu nú uppi á
hillu milli eldfæra og gamals járnpotts og voru að segja
þeim frá æsku sinni. — Já, það má nú segja að við vorum
sannarlega á grænni grein, bæði sumar og vetur.
En þá komu
skógarhöggsmennirnir. — Það var nú bylting eins og þær
gerast verstar — og þá tvístraðist fjölskylda okkar í
allar áttir. Óðalsherrann varð stórsigla á
skrautlegu skipi, sem siglt gat um heim allan. Hinar
greinarnar lentu annars staðar og við höfum nú það starf
að kveikja á ljósunum fyrir almenning. Þannig atvikaðist
það að við stórmennin erum komin hér í eldhúsið."
„Já,
öðruvísi er nú háttað um mig," sagði járnpotturinn, sem
stóð við hlið eldspýtnanna. „Allt frá því ég kom út í
heiminn, hef ég verið fægður mörgum sinnum og oft verið
soðið í mér. Ég hef það starf á hendi, sem mestu máli
skiptir og í raun er ég æðstur allra hér í húsinu. Mína
einu ánægju hef ég, þegar búið er að borða, því þá stend
ég hreinn og þokkalegur á hillunni og spjalla í
rólegheitunum við félaga mína.
En
að undanskilinni vatnsfötunni, sem einstöku sinnum kemur
niður í húsgarðinn, þá erum við alltaf inni við. Einu
fréttirnar sem okkur berast eru frá torgkörfunni, en hún
talar af heldur miklum æsingi um stjórnina og þjóðina. Já,
því var það hérna um daginn, að einum gömlum potti varð
svo bilt við þetta, að hann datt niður og mölbrotnaði.”
„Nú gerist þú
heldur margmáll," sögðu eldfærin, og eldstálið sló í
tinnuna svo að gneistaði úr. „Eigum við ekki að gera
eitthvað skemmtilegt í kvöld?”
„Já, tölum um
hver tignastur er," sögðu eldspýturnar.
„Nei, mér er
ekki um það gefið að tala um sjálfa mig," sagði
leirgrýtan. „En látum nú kvöldskemmtunina hefjast. Ég skal
byrja, — ég skal segja frá einhverju þess konar sem hver
og einn hefur lifað og reynt. Þá er eins og hver sjái
sjálfan sig og það er svo ánægjulegt. „Við Eystrasalt, í
beykiskóginum danska...."
„Þetta er
ljómandi góð byrjun," sögðu allir diskarnir, „þetta verður
áreiðanlega skemmtileg saga."
„Já, þar lifði
ég æsku mína hjá fjölskyldu, sem hafði hægt um sig. Þar
voru stofugögnin fægð og gólfin þvegin og ný gluggatjöld
hengd upp tvisvar í mánuði."
„En hvað þér
segið vel frá," sagði sópurinn. „Það er auðheyrt að það er
kvenmaður, sem segir frá. Það er einhver hreinlætisbragur
á þessu."
,Já, það er
auðfundið," sagði vatnsfatan og hoppaði upp af gleði, svo
að small í gólfinu.
Grýtan
hélt áfram að segja söguna og niðurlagið var eins gott og
upphafið hafði gefið fyrirheit um. Allir diskarnir
glömruðu af fögnuði, og sópurinn tók græna steinselju og
krýndi grýtuna með henni, því hann vissi, að það mundi
verða hinum til gremju. Svo hugsaði sópurinn líka með
sjálfum sér: „Ef ég krýni hana í dag, þá krýnir hún mig
kannski á morgun."
„Nú vil ég
dansa," sagði eldtöngin og hóf dansinn án þess að bíða
eftir viðbrögðum frá hinum. Sú gat nú aldeilis spennt
annan fótinn hátt í loft upp. Gamla áklæðið á stólnum
lengst úti í horni rifnaði af því einu að horfa á. „Ég vil
líka láta krýna mig." sagði eldtöngin — og var það látið
eftir henni.
„Þetta er þá
ekki annað en skríll," sögðu eldspýturnar. Nú átti
tekannan syngja, en hún sagðist vera kvefuð. Hún gæti ekki
sungið nema þegar syði á sér. En þetta voru eintóm
látalæti, því hún vildi ekki syngja, nema þegar hún stóð á
borðinu hjá húsbændunum.
Í glugganum lá
gamall fjaðurpenni sem vinnukonan var vön að skrifa með.
Það var ekkert merkilegt við hann nema það, að honum hafði
verið dýft of langt niður í blekbyttuna, en af því þóttist
hann nú mikill. „Vilji tekannan ekki syngja," sagði hann,
„þá þarf hún þess ekki fremur en hún vill. Það hangir
hérna fyrir utan búr með næturgala í. Hann getur sungið.
Reyndar hefur hann ekkert lært, en um það skulum við ekki
vera að fást núna í kvöld."
„Mér virðist það
mjög ósæmilegt," sagði teketillinn, sem var
eldhússsöngvari og hálfbróðir tekönnunnar, „að vera að
hlýða á útlendan fugl. Er það þjóðræknislegt? Ég vil að
torgkarfan segi sitt álit um það mál."
„Ég segi það
satt, mér er gramt í geði," sagði torgkarfan, „mér er svo
gramt í geði sem framast má verða. Er það sómasamlegt að
eyða kvöldinu á þennan hátt? Ætli það væri ekki nær að
koma öllu í röð og reglu hér í húsinu? Það ætti hver að
vera á sínum rétta stað, og ég svo að stjórna öllu saman.
Það yrði mun skárra."
„Við skulum nú
öll gera ærsl og hávaða," sögðu þau öll hin. En í sama
bili var lokið upp dyrunum. Það var vinnukonan, og sló þá
öllu í dúnalogn og enginn bærði á sér.
Vinnukonan
tók eldspýturnar og kveikti upp eld með þeim. En hvað þær
fuðruðu og loguðu!
„Nú má þó öllum
vera ljóst," hugsuðu þær, „hvílíkur ljómi stendur af
okkur! Hvílíkt ljós!" — Og í sama vetfangi voru þær
útbrunnar.
„Þetta var ágætt
ævintýri," sagði drottningin, „mér fannst ég vera komin í
eldhúsið til eldspýtnanna. Já, nú skaltu fá hana dóttur
okkar."
„Já, svo skal
vera," mælti konungurinn. „Á mánudaginn skal hún verða
konan þín!
Nú var þá
brúðkaupið ákveðið og kvöldið áður var öll borgin
skrautlýst. Allir fengu bollur, kringlur og sætabrauð eins
og þeir vildu. Því var þeytt út á meðal fólksins.
Götustrákarnir blésu og blístruðu í fingur sér. Mikið gekk
á og mikil var viðhöfnin.
„Nú, já, já,"
hugsaði kaupmannssonurinn, „ég má ekki láta mitt eftir
liggja," og nú
keypti hann sér púðurflugur, hvellbaunir og alls konar
flugeldadót, lét það í
koffortið sitt og flaug með það í loft upp.
Þvílíkt og annað
eins! Hvað það fuðraði og neistaði!
Allir hoppuðu um
í gleði. Slíkt og annað eins hafði ekki nokkurn maður séð.
Nú
skildu þeir að það var enginn venjulegur maður sem ætlaði
að ganga að eiga kóngsdótturina.
Undir eins og
kaupmannssonurinn var kominn aftur niður í skóginn með
koffortið, þá fór hann að hugsa með sér: „Ég held það sé
best að ég fari inn í borgina, svo ég fái að vita hvað
þeim þótti um sýninguna þegar ég flaug upp." Þegar hann
spurði fólkið kom öllum saman um að sýningin hefði verið
ljómandi falleg. „Ég sá Tyrkjaguðinn sjálfan," sagði einn,
„augun í honum voru eins og blikandi stjörnur og skeggið
eins og freyðandi foss."
„Hann flaug í
eldskikkju," sagði annar, „og yndisleg englabörn gægðust
fram úr fellingum hennar."
Já, fallegt var
það, sem hann fékk að heyra um sig og daginn eftir átti
brúðkaupið að standa. Nú sneri hann aftur til skógar og
ætlaði að setjast í koffortið — En hvar var það? Hvað
hafði gerst? Jú, það var greinilegt. Koffortið var brunnið
til ösku. Neisti úr flugeldunum hafði orðið eftir í því og
af neistanum hafði kviknað í. Það var ekkert eftir nema
askan, og nú gat hann ekki framar flogið og ekki komist
til brúðarinnar.
Af henni er það
að segja, að hún stóð allan daginn uppi á þakinu og beið
og beið, og bíður víst enn — en kaupmannsonurinn fer um
víða veröld og lifir á því að segja ævintýri. Ekki eru þau
eins glaðleg nú og ævintýrið, sem hann sagði um
eldspýturnar.
Þýðing af Steingrímur Thorsteinssonar |