Ævintýrahornið.

PRINSESSAN  Á  BAUNINNI

 

Eftir Hans Christian Andersen - í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar

Einu sinni var prins. Hann vildi fá prinsessu fyrir konu en það átti að vera sönn prinsessa. Hann ferðaðist því um veröld víða til þess að finna eina slíka, en alls staðar var eitthvað að. Nóg var af prinsessum, en hvort það væru sannar prinsessur, það gat hann ekki almennilega komizt fyrir, því að alltaf var eitthvað, sem ekki stóð alls kostar heima. Kom hann svo heim aftur úr þessu ferðalagi og var hnugginn mjög, því hann vildi svo gjarnan eignast sanna prinsessu.

Eitt kvöldið gerði vonzkuveður og gengu þrumur og eldingar. Það rigndi eins og hellt væri úr fötum. Það var afskaplegt. Þá var barið á borgarhliðið, og gamli kóngurinn fór ofan sjálfur til að ljúka upp.

Það var prinsessa, sem stóð fyrir utan. En hvílík ósköp voru að sjá hana, eins og hún var til reika af rigningunni og illvirðinu! Vatnið rann niður úr hári hennar og fötum, það rann inn um tána á skónum hennar og út um hælinn og samt sagðist hún vera sönn prinsessa.

Já, við skulum nú ekki vera lengi að ganga úr skugga um það, hugsaði drottningin gamla með sér, en sagði ekki neitt. Fór hún svo inn í svefnherbergið, tók öll sængurfötin upp úr rúminu og lét baun ofan á rúmbotninn, tók síðan tuttugu dýnur og lagði ofan á baunina, og í tilbót tuttugu dúnsængur og hlóð þeim ofan á dýnurnar.

Þar átti nú prinsessan að hvílast um nóttina.

Um morguninn spurðu þau hana, hvernig henni hefði sofnazt.

"O, tarna var ljóta nóttin," sagði prinsessa. "Mér hefur varla komið dúr á auga alla nóttina. Hamingjan má vita, hvað hefur verið í rúminu! Ég hef haft eitthvað hart undir mér, svo ég er bæði blá og marin um allan kroppinn. Þvílík skelfing!"

Nú gátu þau séð að þetta var sönn prinsessa, þar sem hún hafði orðið vör við baunina í gegnum tuttugu dýnur og tuttugu dúnsængur. Svo hörundsár gat engin verið nema sönn prinsessa.

Prinsinn gekk að eiga hana, því að nú vissi hann, að hún var sönn prinsessa, og baunin var látin í gersemasafnið og þar er hún enn til sýnis, nema ef einhver skyldi hafa tekið hana.

Jæja, börnin góð! Þetta er nú áreiðanlega sönn saga.

 

SigfúsSig. Iceland@Internet.isSigfúsSig. Iceland@Internet.isSigfúsSig. Iceland@Internet.is

©2002 Sigfús Sig. Iceland@Internet.is