Sæfarinn.
Það var árið
1866, að sá kvittur kom upp og gekk staflaust um öll lönd,
að vart hefði orðið við sjóskrímsl eitt mikið og ilt.
Sumum fanst
nú samt fátt um þessa sögu, sem heyrðu hana í fyrsta
sinni. Sögðu þeir þetta mundu vera sæorminn alkunna, sem
kemur í ljós á hverju ári og hverfur aftur án þess að gera
nokkrum manni mein.
En í þetta
sinn urðu margir að láta sannfærast, þó ekki væru þeir
auðtrúa, því skrímsl þetta var séð af mörgum skipum og
hvað eftir annað. Einu sinni sást það frá tveim skipum í
senn, og var svo skamt frá þeim, að gera mátti áætlun um
stærð þess. Eftir því sem sagan sagði, var það miklu meira
vexti en nokkurt annað dýr, dautt eða lifandi, sem þekst
hefir í höfum jarðarinnar. Það fylgdi líka sögunni, að það
væri ærið hraðfara, því að á hálfsmánaðarfresti kom það í
ljós á tveim stöðum með þúsund mílna millibili.
Sögur um
sjóskrímslið vóru á hvers manns vörum. Blöðin fluttu
langar greinar um það, og gamanvísur vóru sungnar um það á
leikhúsunum.
Og lærðir
menn háðu harðar rimmur. Þeir gátu ekki borið á móti því
að skrímslið væri til, svo margir menn höfðu séð það og
svo var hitt, að í undirdjúpum hafsins þóttust menn vita,
að vera mundi risavaxinn gróður og var ekki ólíklegt að í
þeim miklu skógum hefðust við skrímsl og dýr ýmisleg, sem
öllum væru ókunn. Það var því ekki ólíklegt, að þetta
skrímsl hefði hröklast þaðan af tilviljun og flækst upp að
yfirborðinu.
En þá var
eftir að vita hvers konar skepna þetta var. Var það
risavaxinn kolkrabbi eða var hægt að skipa því í flokk með
hvölunum?
Sagnirnar sem
um það gengu vóru margar og misjafnar, svo lítið var á
þeim að byggja. Sögurnar um sjóskrímslið, sem gengið höfðu
í blöðum og manna munni bárust nú inn í vísindaleg tímarit
og urðu þar óþrotlegt þrætuefni.
Það var á
öndverðu ári 1867, að ég var á heimleið til Parísar úr
vísinda-leiðangri í Nebraska, og var staddur í
Nýju-Jórvík. Tíðindamenn stórblaðanna þefuðu mig uppi
þegar í stað, og leituðu álits míns um mál þetta, sem þá
var efst á baugi og mest um talað. Þótti þeim mikið undir
því komið, hvað ég segði um það, því ég var prófessor við
náttúrugripasafnið í París og höfundur bókarinnar: „Um
leyndardóma undirdjúpanna“. Ég gat ekki skorast undan því
með öllu, en reyndi þó að forðast allar staðhæfingar. Bar
ég það fyrir, að enn væri ókunnugt um eðli dýrsins og
náttúru. Þó þótti mér mest líkindi til, að þetta væri
risavaxið náhveli, eftir öllum líkum að dæma.
Að dýrið væri
hvalakyns, og einmitt af þessu tægi, réði ég af atviki,
sem kom fyrir, meðan ég stóð við í Nýju-Jórvík.
Það var í
aprílmánuði, að gufuskipið „Skotland“, eitt með stærstu og
fegurstu skipum Cunard-línunnar, var á ferð úti í
Atlantshafi, svo sem 150 mílur vestur af
Englands-ströndum. Veður var kyrt og fagurt og skipið
klauf sjóinn með jöfnum hraða. Þá vissu menn ekki fyr til,
en skipið kiptist við, eins og það hefði höggvið niður eða
rekist á eitthvað. Farþegarnir urðu þegar óttaslegnir og
Anderson skipstjóri átti fult í fangi með að telja um
fyrir þeim. Mikil hætta gat varla vofað yfir, því
innanrúmi skipsins var skift í 7 hluta með vatnsheldum
milligerðum, svo þó gat kæmi á skipið, og eitt rýmið
fyltist sjó, hlaut það að fljóta eftir sem áður.
Svo fór
skipstjóri niður hið bráðasta, að gæta vegsummerkja. Sá
hann þá, að sjór féll inn í 5. rými, til mikilla muna. Til
allrar hamingju vóru gufukatlarnir ekki þar, því hefði svo
verið og sjór komist í eldstórnar, gat verið voði á
ferðum.
Anderson stöðvaði skipið
og lét háseta einn fara fyrir borð og kafa undir það. Hann
kom upp aftur eftir fáar mínútur og sagði, að rifa mikil
væri á botni skipsins, á að gizka 3 álna löng. Engin
tiltök vóru á því, að gera við svo mikinn leka. „Skotland“
varð því að halda áfram ferðinni, þó með minni hraða en
áður, og náði heilu og höldnu höfn í Liverpool þrem dögum
eftir áætlun. Skipið var hið bráðasta lagt í þurkví og
menn fengnir til að athuga skemdirnar. Þeir ætluðu varla
að trúa eigin augum! Svo sem 4 álnum fyrir neðan
yfirborðslínu var stóreflis glompa á skipinu, í lögun eins
og jafnhliða þríhyrningur; járnþynnurnar kliptar sundur
svo rækilega og snyrtilega eins og það væri gert með
götunarvél.
Það dýr, sem
þessu hafði valdið, hlaut að hafa lagtönn mikla og
hræðilega, og afar tröllaukið hlaut það að vera, úr því
það gat rekið gat á járnskipið svo snögglega, að naumast
varð við vart. Það hlaut líka að hafa góð sundfæri, fyrst
það gat losað tönnina og hörfað frá nógu fljótt eftir
áreksturinn.
Þessi
atburður vakti mikla athygli um allan heim, og umtal manna
um sjóskrímslið breyttist nokkuð. Áður höfðu menn litið á
það, sem skringilegan fyrirburð, kveðið um það háðvísur og
hent gaman að því. En nú hætti mönnum að standa á sama um
það. Því var kent um urmul af skipbrotum, sem ekki var
fullkunnugt um, og sjófarendur vóru ekki óhultir um sig
fyr en þeir höfðu þurt land undir fótum.
Blöðin lýstu
skrímslinu sem skæðasta mannfélags-óvætt, og í öllum
mentuðum löndum var skorað á stjórnirnar, að gera út skip
til að elta það og ráða það af dögum.
England gerði
ráðstafanir til framkvæmda á þessu, en Ameríka varð fyrri
til, að ferðbúa skip. Um það leyti, sem skipið átti að
leggja af stað, kom bréf til mín frá flotamálaráðaneytinu
ameríska. Var mér boðið þar að fara með gufuskipinu
„Abraham Línkoln“ í hinn fyrirhugaða leiðangur, og fylgdi
það með, að Farragút flotaforingi hefði tilbúinn klefa
handa mér á skipinu.
Áður en mér
barst þetta bréf, hafði ég ekki ætlað mér annað fyrir, en
fara til Parísar og setjast að í litla húsinu, sem ég átti
í Grasafræðisgarðinum, og njóta lífsins meðal vina og
kunningja og—safnanna minna. Þegar ég var búinn að lesa
bréfið breyttist þessi fyrirætlun mín óðara. Mér fanst ég
mega til, að fara að elta náhvelið, eins og það væri
sjálfsögð skylda eða öllu heldur hlutverk mitt í lífinu.
Og svo
hugsaði ég sem svo: „allar leiðir liggja til Rómaborgar“;
hví mátti ekki segja það sama um París. Nú skyldi blessuð
skepnan verða svo hugulsöm, að láta okkur ná sér nálægt
ströndum Frakklands. Ekki var það óhugsandi.
„Konsæll!“
kallaði ég.
Konsæll
var þjónn minn. Hann hafði fylgt mér á öllum ferðalögum,
og var mér trúr og hollur, enda var mér vel til hans.
Konsæll var ættaður og upprunninn frá Flæmingjalandi, og
líkur löndum sínum í háttum og skapferli. Hann var
framúrskarandi hugrór maður, en þó djarfur og dáðrakkur.
Hann varð aldrei hissa á nokkrum hlut, skifti aldrei
skapi, var friðsamur og háttprúður, en hraustur og
handtakagóður, ef til þess kom. Hann var ákaflega
vanafastur og vanakær. Í fám orðum,—Konsæll var hreinasta
fyrirmynd, sem þjónn. En Konsæll hafði líka kreddur fyrir
sig, og lét aldrei af þeim. Aldrei nefndi hann mig í
ávarpi eða viðtali öðru vísi en í þriðju persónu.
„Konsæll!“
endurtók ég, og fór að taka saman dót mitt, því nú var
kominn í mig ferðahugur.
Konsæll
var mér eftirlátur,—óhætt var um það. Ég var ekki vanur að
spyrja, hvort hann vildi fylgja mér á ferðum mínum, það
var sjálfsagður hlutur. En nú stóð nokkuð óvanalega á. Það
var ófyrsjáanlegt hve löng þessi ferð mundi verða, og svo
áttum við í vændum, að fást við þessa voðaskepnu, sem gat
molað stærsta hafskip eins og eggskurn. Hvað skyldi
Konsæll segja til þess?
„Konsæll!“
kallaði ég enn.
„Var
húsbóndinn að kalla?“, svaraði Konsæll og vatt sér inn um
dyrnar.
„Já hafðu alt
tilbúið. Við leggjum af stað að tveim stundum liðnum.“
„Eins og
húsbóndanum þóknast“, svaraði Konsæll ofur rólega.
„En það
liggur mikið á. Láttu í koffortið mitt svo mikið, sem í
það kemst af fötum, nærklæðnaði og hálslíni. Vertu nú bara
fljótur.“
„En
safngripina húsbóndans?“
„Safngripina
mína—sendum við til Parísar.“
„Eigum við þá
ekki að fara til Parísar?“
„Ha? Ó-nei,
ekki nú þegar,“ svaraði ég út í hött.
„Gott“.
Við förum
dálítinn útúrkrók, Konsæll, við tökum okkur far með
„Abraham Línkoln“.
„Eins og
húsbóndanum þóknast“.
„Þú veizt
víst hvað stendur til,—að við ætlum að fara að eltast við
óargadýr, þetta illræmda náhveli, og þú mátt geta því
nærri, að höfundur bókarinnar: „Um leyndardóma
undirdjúpanna“,—sem er tvö bindi í 4. bl. broti—getur ekki
hafnað því tilboði, að verða með í förinni. Þetta er
heiðarlegt hlutverk, en hættulaust er það ekki. Ómögulegt
að segja, hvað fyrir getur komið.—Getur verið, að dýrið sé
ilt viðureignar, en Farragút flotaforingi, er nú líka karl
í krapinu.“
„Ég ætla að
fara með húsbóndanum“, svaraði Konsæll rólega.
„Hugsaðu þig
nú vel um, Konsæll minn“, sagði ég, „þetta getur orðið
óhappa ferð. Það getur vel farið svo, að við komum ekki
lifandi aftur“.
„Eins og
húsbóndanum þóknast!“
Að tveim
stundum liðnum stigum við á skip. Ég sagði Farragút
flotaforingja nafn mitt og svo var mér vísað á klefann,
sem mér var ætlaður. Á þilfarinu iðaði alt í einni bendu,
fólk og farangur, því þá var komið að burtfararstundu.
„Abraham
Línkoln“ var einkar fagurt skip, hraðskreið freigáta af
nýjustu gerð. Gufuþenslan í katlinum var komin á hámark.
Farragút lét kasta
landfestum og kallaði niður í vélrýmið:
„Áfram!“
Vélin komst á
hreyfingu og tók að snúa skrúfuspöðunum með sívaxandi
hraða.
Á ströndinni
stóð múgur og margmenni, og æpti endalaus húrraóp meðan
skipið var að skríða út höfnina, og veifaði höttum og
vasaklútum, til að veita okkur síðustu
fararheillaóskirnar.
Við héldum
suður með ströndum Suður-Ameríku að austanverðu. Í byrjun
júlí fórum við fyrir suðurodda Ameríku og stýrðum vestur í
Kyrrahafið, því að norðan til í því hafði hvalsins orðið
vart síðast.
Farragút
flotaforingi hafði með sér öll áhöld og tæki, sem notuð
eru við hvalaveiðar, sem eðlilegt var, úr því hann ætlaði
að veiða hval; en hann hafði og meira. Honum hafði tekist
að ráða til fararinnar, konung allra hvalveiðamanna, Ned
Land.
Ned Land var
frá Kanada. Hann var afburðamaður í iðn sinni. Hann var
sjóngóður, snarráður, ófyrirleitinn og hugrakkur, hverjum
manni fremur. Og svo fimur var hann að beita skutli, að
fáum hvölum var undankomu auðið, sem hann komst í skotmál
við.
Eins og aðrir
Kanadamenn talaði hann frönsku jafn vel og ensku. Ég held
honum hafi þótt gaman að tala frönsku. Það var víst helzt
þess vegna, að hann gaf sig meira að mér en öðrum á
þessari löngu sjóferð. Annars var hann heldur fátalaður.
Dagarnir vóru
langir og leiðir á þessari úthafsför. Ned Land var oft á
vakki fram á skipinu og horfði á hvernig það klauf
öldurnar fyrir ofurafli gufunnar. Ég gaf mig oft á tal við
hann og þá spjölluðum við um alla heima og geima. Brátt
varð ég þess var, að hann lagði lítinn trúnað á sögurnar
um náhvelið.
„Ég hefi elt
ótal hvali“, sagði hann, „skutlað fjölda og drepið marga,
en engan hefi ég séð svo stóran eða rammefldan, að honum
væri trúandi til, að reka gat á stórt járnskip“.
Ég reyndi að
sannfæra hann með því, að leiða honum fyrir sjónir, hve
oft það hefði komið fyrir á seinni öldum, að risastór
sjóskrímsli hefðu sést og stundum náðst.
Ned Land, sem
sí og æ tottaði tóbakspípuna, gerði þá ekki annað, en
spýta út um annað munnvikið, og nöldra með
fyrirlitningarróm: „Tómir kolkrabbar!“
Ég reyndi þá
að sannfæra hann um allar þær líkur, sem fengnar vóru með
tilstyrk vísindanna fyrir því, að náhveli væru til, og svo
benti ég honum á það, hvað fyrir hafði komið upp á
síðkastið, og vitnisburð fjölda merkra manna um það mál,
manna, sem hann þekti eins vel og ég.
Ned Land
hleypti brúnum og horfði á mig með háðsbros í munnvikunum.
Hann lagði ekki trúnað á eitt einasta orð, sem ég sagði.
„En heyrið
þér þá“, sagði ég loks, og hugsaði, að nú skyldi til
skarar skríða, „hvaða grein gerið þér þá fyrir skemdinni á
„Skotlandinu?““
Nú var Ned
Land kominn í klípu!
„Það er“,
stamaði hann, „það er . . . .“
„Hvað þá?“
„Haugalygi
frá upphafi til enda“.
Meira hafði
ég ekki upp úr honum; en ekki varð okkur þetta að
óvildarmáli.
Farragút
flotaforingi hafði heitið tvö þúsund dala launum, þeim
manni, sem fyrstur kæmi auga á náhvelið. Óðar en komið var
inn í Kyrrahafið fóru allir að skygnast eftir því.
Yfirmenn og hásetar vóru sí og æ uppi á þilfari, hvort sem
þeir áttu að vera þar eða ekki. Þeir sem höfðu sjónauka
miðuðu þeim út yfir sjónhringinn alla vega, en þeir, sem
þá höfðu ekki, urðu að beita berum augum. Þeir sem í
förinni vóru, höfðu auðvitað allan hugann á náhvelinu, og
þá drógu ekki tvö þúsund dalirnir úr áhuganum,—löngunin
eftir því, að „verða fyrstur“ hafði gagntekið alla eins og
megn hitasótt.
Ég mændi út
yfir hafið eins og hinir, og hafði ekki síður en þeir
hugann á náhvelinu; en mig langaði mest að vita hverrar
tegundar dýr þetta væri, og svo ákafur var ég orðinn upp á
síðkastið, að ég stóð á þiljum uppi frá morgni til kvölds,
og gaf mér varla tíma til að matast. En þegar svo langt
var komið, þá fanst Konsæl það vera skylda sín, að gefa
mér viðvörun. Með afar kurteisum og fáguðum orðtækjum bað
hann mig að ofreyna ekki sjónina lengur á þessu.
Samt gat
Konsæll ekki að því gert, að hann hafði glöggar gætur á
því, hvort ekki sæist neitt sérkennilegt á sjónum. Ned
Land var sá eini, sem lét sig þetta engu skifta. Það var
eins og hann forðaðist að líta út á sjóinn. Ég mátti til
að setja ofan í við hann fyrir það, því vel gat það komið
að liði, að hann var öllum mönum sjónhvassari, hefði hann
bara fengist til að beita augunum.
„Það er til
einkis“, sagði hann, „við önum þetta í blindni hvort eð
er. Það er sagt að þessi undraskepna hafi sést í
Kyrrahafinu. Það eru tveir mánuðir liðnir síðan, og hvar
er það nú? Ef það er eins fljótt í förum eins og sagt er,
þá er hætt við að það hafi fært sig eitthvað síðan“.
Það var í
raun og veru útlit fyrir, að Ned Land hefði rétt fyrir
sér. Freigátan strikaði úthafið þvert og endilangt, en
enginn varð var við náhvelið.
Og þar kom að
lokum, að áhuginn fór að dofna. Menn fóru að verða
þreyttir á þessu tilbreytingalausa og árangurslausa
ferðalagi. Þeim fór að leiðast, að horfa út yfir hafið
autt og endalaust! Það var hvort sem var alveg
árangurslaust! Smátt og smátt fóru menn að efast um, að
þessi undraskepna væri til í raun og veru, og svo mikil
brögð urðu að þessu, að skipshöfnin krafðist þess að
síðustu, að haldið yrði heim og leitinni hætt.
Það var komið
fram í nóvembermánuð og við vórum staddir vestan til í
Kyrrahafinu í nánd við Japan. Þá ákvað Farragút að
leitinni skyldi haldið áfram í þrjá daga. Yrði einkis vart
að þeim tíma liðnum, ætlaði hann að stýra „Abraham Línkoln“
heim á leið aftur.
Þetta glæddi
áhugann að nýju. Nú var um að gera, að nota tímann vel, ef
það átti að lánast, að ná í þessa tvö þúsund dali. Svo var
farið að skima eins og áður.
En svo liðu
þessir þrír dagar, að einskis varð vart. Fresturinn var
útrunninn að kvöldi hins fimta nóvember og þá breytti
Farragút stefnunni eins og hann hafði lofað og stýrði í
landsuður.
Ég var
staddur á þilfarinu, og var að tala við Konsæl, þegar
myrkrið færðist yfir. Tunglið óð í skýjum og varpaði
flögtandi birtu yfir öldurnar öðru hvoru. En þess á milli
grúfði niðsvart náttmyrkrið yfir úthafinu.
„Heimskulegt
flan er þessi för orðin“, sagði ég, „nær hefði okkur verið
að fara rakleitt heim.“
„Og raða upp
safngripunum húsbóndans“, sagði Konsæll.
„Og þar á
ofan verðum við hafðir að háði og narri!“
„Það er ef
til vill ekki rétt hjá mér, að segja sem svo . . . . .“,
sagði Konsæll.
„Láttu það
fljúga, Konsæll“.
„Mér datt í
hug, að það væri ekki hyggilegt af mönnum, sem eru eins
lærðir og húsbóndinn, að stofna sér . . . . .“.
Konsæll hætti
í hálfu kafi, því upp úr miðri næturþögninni drundi
málrómur Ned Lands alt í einu.
„Hæ-hó!
Sæormurinn mikli! Framundan á stjórnborða!“ æpti hann í
sífellu.
Á einni
svipstundu ruddust allir upp á þilfar; kyndarar og
vélamenn neðan af neðsta gólfi, hvað þá aðrir.
Það var að
eins ein hugsun, ein spurning, sem fyrir öllum vakti: Hvað
gat Ned Land hafa séð í biksvörtu náttmyrkrinu?
Eins og tvö
hundruð faðma frá skipinu var ljós blettur á sjónum,
líkastur því, sem birtu legði þar upp úr djúpinu. Ég sá
undir eins, að það var ekki maurildi; það var alt annar
blær á þessari birtu. Skrímslið hlaut að vera að eins fáa
faðma fyrir neðan yfirborðið, en birtan, sem ljómaði af
því, var með öllu óskiljanleg. Ljósbletturinn var eins og
bungumyndaður og skærastur í miðjunni.
„Þetta er
maurildi!“ kallaði einn yfirmannanna.
Ég laut fram
á öldustokkinn og athugaði furðusýn þessa.
„Nei“, sagði
ég, „maurildi ber ekki svona mikla birtu. Þetta er
eitthvað skylt rafmagnsljósi. En sjáið þið, það hreyfist,
það færist áfram, aftur á bak; það nálgast?“
Nú hætti
okkur að lítast á blikuna. Ljósbletturinn nálgaðist
freigátuna með miklum hraða en hávaðalaust. Menn æddu um
þilfarið og æptu af undrun og ótta.
„Kyrrir!“
hrópaði Farragút. „Stýrið á stjórnborða; fulla ferð aftur
á bak!“
Við þessa
skipun hljóp hver maður á sinn stað, og „Abraham Línkoln“
skreið aftur á bak í hálfhring.
„Stýrið á
bakborða, áfram!“ drundi skipstjórinn, og freigátan rann
af stað frá ljósblettinum.
Það er að
segja,—hún átti að fjarlægjast hann.
En þessi
undraskepna kom á eftir, með tvöfalt meiri hraða.
Þetta var
óskiljanlegt með öllu. Við stóðum á þilfarinu
aðgerðalausir og orðlausir af hræðslu. Dýrið gerði meira
en nálgast freigátuna, það synti hringinn í kringum hana,
og fór hún þó með fullum hraða.—Svo hvarflaði það frá, svo
sem mílu vegar, kom svo aftur með fleygiferð og stefndi á
„Abraham Línkoln“, staðnæmdist eins og tuttugu skref frá
skipinu og—hvarf. Það hafði auðsjáanlega ekki farið í kaf,
því birtan dvínaði ekki smátt og smátt, heldur þvarr alt í
einu, eins og þegar ljós sloknar. Rétt á eftir kom það í
ljós hinum megin við skipið, hvort sem það hefir nú synt
umhverfis það eða undir kjölinn. Við máttum búast við
árekstri þá og þegar, sem gat orðið okkur óhappadrjúgur.
Nú tók ég
eftir einu, sem ég hafði ekki athugað áður: Freigátan fór
á flótta í stað þess að sækja á. Hún var ofsótt í stað
þess að ofsækja. Ég hafði orð á þessu við Farragút
flotaforingja. En hann, sem annars var stillingin sjálf,
var nú auðsýnilega ruglaður og ráðþrota.
„Svo er það“,
sagði hann, „en ég veit ekki hvaða óvættur þetta er, og
þori ekki að ábyrgjast skipið í þessu myrkri, það væri
blátt áfram heimskulegt af mér að gera það. En á morgun
skiftum við um hlutverk“.
„Þér eruð þá
viss um að þetta sé eitthvert dýr?“
„Já“, svaraði
hann, „ekki er um það að villast; þetta er auðsjáanlega
risavaxið náhveli. En það er þrungið rafmagni, og ef það
hefir lagtönn eftir stærð, og löngun til að beita henni,
er það áreiðanlega mesta skaðræðisskepna, sem nokkurn tíma
hefir í söltum sjó lifað. Ég verð að fara varlega“.
Skipshöfnin
var á flakki alla nóttina. Engum kom til hugar að festa
svefn. „Abraham Línkoln“ hafði ekki undan hvort sem var,
og fór því með hálfum hraða; og náhvelið hagaði sér eftir
því. Það var auðséð, að það ætlaði ekki að renna af hólmi.
Um miðnætti
hvarf það samt, eða réttara sagt, slokknaði, svo við fórum
að halda að það hefði hundskast burtu. En einni stundu
síðar heyrðist heljar hvinur, eins og vatni væri þeytt út
um pípu með feikna afli.
Á þilfarinu
stóðum við Ned Land og Farragút.
„Ned Land“,
kallaði flotaforinginn, „hafið þér oft heyrt hvali öskra?“
„Já“, anzaði
Ned Land, „en ég hefi ekki heyrt hval öskra fyr, sem ég
hefi grætt á tvö þúsund dali, fyrir það eitt að sjá hann“.
„Tvö þúsund
dalina skuluð þér fá“, sagði flotaforinginn, „en ég vil fá
að vita hvort það er líkt þessu, þegar hvalir þeyta sjó út
um blástursholuna?“
„Já, svipað
því er þetta hljóð“, svaraði Ned, „en miklu sterkara“.
Klukkan tvö
sást ljósbletturinn aftur í nokkurri fjarlægð frá skipinu,
og við heyrðum greinilega að dýrið lamdi sjóinn með
sporðinum.
Á freigátunni
var hafður viðbúnaður mikill. Veiðarfærum var raðað með
borðum, svo hægt væri að ná til þeirra hvenær sem á þyrfti
að halda. Í framstafn voru látnar tvær fallbyssur. Var
önnur svo gerð, að með henni mátti skjóta skutli, en hin
var fyrir sprengikúlur.
Klukkan 6 um
morguninn fór að elda aftur. En þegar fyrsta
sólarbjarmanum sló á loftið, hvarf birtan af hvalnum aftur
í einum svip. Stundu síðar var orðið albjart, en þá
lagðist yfir þoka, svo niðdimm, að varla sá út úr augunum.
Ég fór upp í
reiðann, svo hátt sem kaðlaþrepin náðu, en sumir af
foringjunum fóru alveg upp að sigluhúnum. Svo störðum við
út í þokuna, sem valt í hægðum sínum yfir hafflötinn.
Ned Land varð
aftur fyrstur til að sjá dýrið.
„Sæormurinn!“
æpti hann. „Afturundan, á bakborða!“
Góðan kipp
frá skipinu grilti í dökkleitt ferlíki, sem stóð eins og
alin upp úr sjónum. Dýrið lamdi sjóinn svo afskaplega með
sporðinum, að drifhvítur froðuferill sást aftur af því
langa leið.
Freigátan
nálgaðist hvalinn, og gafst mér nú færi á að athuga hann
nákvæmlega. Frásagnirnar um lengd hans voru auðsjáanlega
orðum auknar. Hann var á að gizka 100 faðma langur.
Skrokkurinn var rennilegur, svo ætla mátti að hann væri
afar-hraðsyndur. Hann þeytti öðru hvoru sjó og andgufu upp
um blástursholuna; stóð sú stroka oft yfir 100 fet í loft
upp. Ég var nú ekki lengur í vafa um það, að þetta væri
eins konar hvalur.
Skipverjar
biðu með óþolinmæði eftir fyrirskipunum skipherrans.
Farragút virti hvalinn fyrir sér grandgæfilega og kallaði
svo á vélstjórann:
„Hafið þér
kynt undir kötlunum?“ spurði hann.
„Kyndið þér
meira! Eins og katlarnir þola!“
„Já“, svaraði
vélstjórinn.
Menn æptu af
fögnuði við þessa skipun. Nú átti til skarar að skríða.
Kolsvartir reykjarmekkir ultu upp úr reykháfum skipsins,
en gufukatlarnir nötruðu svo fyrir ofurmagni gufunnar, að
alt var sem á þræði léki.
Hvalurinn fór
ekki úr stað, fyr en ekki voru nema 50 faðmar milli hans
og skipsins; þá tók hann viðbragð og synti undan með sama
hraða og skipið skreið. Stóð svo þessi eltingaleikur í
þrjá stundarfjórðunga að hvorki dró sundur né saman. Var
ekki útlit fyrir að neitt ynnist með þessu móti.
Farragút réð
sér ekki fyrir reiði. Hann klóraði sér ákaft fyrir ofan
eyrað, svo húfan fór aftur á hnakka.
„Ned Land!“
hrópaði hann.
Ned Land gekk
til hans.
„Sýnist yður
ráðlegt að skjóta út bátum?“ spurði flotaforinginn.
„Fjarri fer
því“, svaraði Ned. „Hér er ekki við lamb að leika. Þessi
skepna fer að eigin geðþótta og lætur ekki leika á sig“.
„Hvað er þá
til ráða?“
„Ekkert annað
en auka hraðann. Ég ætla að setjast undir bugspjótið með
skutulinn minn, og nái ég til dýrsins, þá skal ég hitta“.
„Vélstjóri!“
hrópaði flotaforinginn, „leggið þyngra á öryggishanana.“
Ned Land
settist undir bugspjótið. Öryggishanarnir voru þyngdir og
kolum mokað á eldana að nýju. Skrúfan fór fjörutíu og þrjá
snúninga á mínútu og „Abraham Línkoln“ fór hálfa tíundu
sæmílu á klukkustundinni.
En náhvelið
synti líka hálfa tíundu mílu á klukkustundinni.
Gekk svo
heila klukkustund, að enginn munur varð á millibilinu. Var
þetta smán mikil fyrir hraðskreiðasta skip ameríska
flotans, enda voru skipverjar alveg hamslausir. Þeir stóðu
fram í stafni og jusu bölbænum og formælingum yfir dýrið,
en flotaforinginn reitti hárið af kollinum á sér af bræði.
Enn var
kallað á vélstjórann.
„Er
gufuþenslan á hámarki?“ spurði foringinn.
„Já“, svaraði
vélstjórinn.
„Hefir verið
þyngt á öryggishönunum?“
„Já, þenslan
er hálf sjöunda loftþyngd[1]“.
„Látið hana
verða 10 loftþyngdir!“
Þetta var
skipun, sem Vesturheimsmanni sómdi.
„Konsæll!“
kallaði ég, „nú springur skipið“.
„Eins og
húsbóndanum þóknast“, svaraði Konsæll.
Ég verð að
segja eins og satt er, að á þessu augnabliki var mér sama,
þó ég ætti það á hættu.
„Abraham
Línkoln“ jók skriðinn. Hann gnötraði allur frá sigluhún
ofan í kjöl og reykháfarnir virtust vera alt of þröngir,
svo þykkur var mökkurinn, sem ruddist upp úr þeim í
sífellu. Þrýstimælirinn sýndi 10 loftþyngdir, en
skriðstikan 10 mílna hraða.
En þetta kom
fyrir ekki, því hvalurinn synti líka með 10 mílna hraða,
alveg þrautalaust.
Ég get ekki
lýst tilfinningum mínum á þessari stundu. Ég var
gagntekinn af einhverju eirðarleysi. En Ned Land sat á
sínum stað, með skutulinn reiddan um öxl. Þar kom að
lokum, að saman fór að draga öðru hvoru.
„Við drögum
hann uppi, við drögum hann uppi!“ æpti Ned og laut fram
með reiddan skutulinn.
En í sömu
svipan tók dýrið viðbragð og rann áfram, með svo miklum
hraða, að sjálfsagt mundi nema 15 mílum á klukkustund. En
ekki nóg með það, það synti líka hringinn í kring um
freigátuna, og fór hún þó með fullum hraða. Skipverjar
voru hamslausir af bræði. Nú var komið hádegi og við vorum
engu nær en um morguninn. Farragút sá að svo búið mátti
ekki lengur standa og hugsaði sér að taka til annara ráða.
Fallbyssan á
framstafni skipsins var hlaðin í skyndi og henni miðað á
dýrið. Skotið reið af, en kúlan fór yfir hvalinn, og var
það ekki að undra, því færið var 1000 faðmar.
„Aftur!“
kallaði flotaforinginn. „Fimm hundruð dali skal ég gefa
hverjum þeim, sem getur lamað þessa djöfuls óvætt með
skoti.“ Þá gekk fram gamall maður gráskeggjaður,—mér er
sem ég sjái hann enn,—hvasseygur var hann og æðrulaus á
svip, en andlitsdrættir allir sem í stein væru markaðir.
Hann gekk að fallbyssunni, hagræddi henni og miðaði lengi.
Loks drundi skotið og fylgdi því fagnaðaróp skipverja.
Kúlan hitti
hvalinn, en—undur og bísn!—hún hrökk af skrokknum á honum
eins og hagl af húsþaki og féll í sjóinn langa leið frá.
„Er þá skepna
þessi klædd með kvartils-þykkri járnhúð?“ sagði gamli
maðurinn, og var heldur ófrýnn.
„Fari það í
sjóðbullandi!“, varð Farragút á orði. Nú var eftirsóknin
hafin á nýjan leik.
„Ég held
áfram þangað til freigátan springur í loft upp“, sagði
flotaforinginn við mig.
Við vórum að
vona, að dýrið þreyttist af þessari aflraun, þegar til
lengdar léti. En því var ekki að skifta.
Svo leið hver
klukkustundin eftir aðra, að það hægði ekki vitund á sér.
Þetta var
voðalegt kapphlaup. Á þessum eina degi fórum við
áreiðanlega frekar 250 sæmílur. Þó vórum við engu nær en
daginn áður. Svo kom nóttin og niðamyrkur lagðist yfir
úthafið.
Ég hugsaði að
þessi viðureign væri nú á enda og allar fyrirætlanir okkar
að engu orðnar.
En klukkan 11
um kvöldið sást rafljósbjarminn enn á ný, í lítilli
fjarlægð. Það var því líkast, sem náhvelið lægi kyrt, og
væri mók á því eftir áreynsluna. En það var tækifæri, sem
Farragút ætlaði ekki að láta ónotað. Hann rendi nú skipinu
í áttina þangað, sem hvalurinn lá. Ned Land kom sér fyrir
undir bugspjótinu; hann hafði oft fengist við það áður, að
læðast að sofandi hvölum.
Skipið skreið
nú ofurhægt og svo hávaðalaust, sem unt var. Þegar ekki
vóru eftir nema 150 faðmar að hvalnum, var vélin stöðvuð.
Menn stóðu kyrrir og héldu niðri í sér andanum. Ég stóð í
stafninum, við bugspjótið og hallaðist fram á
borðstokkinn. Fyrir neðan mig sá ég hvar Ned Land sat, með
skutulinn reiddan um öxl, reiðubúinn að kasta honum,
hvenær sem færi gæfist.
Alt í einu
tók hann viðbragð og þeytti skutlinum. Ég heyrði glamur,
eins og skutullinn hefði lent á einhverju hörðu.
Rafmagnsbirtan af dýrinu hvarf, en tvær voðalegar
vatnsgusur hvolfdust ofan á þilfar freigátunnar, með svo
miklu afli, að alt lauslegt fór um koll og skolaðist til
og frá um þilfarið, eða féll út, bæði menn og munir. Ég
fann að skipið kiptist við afar-snögt, og áður en ég náði
handfestu á nokkrum hlut, steyptist ég á höfuðið í sjóinn.
Þetta var
ljóta kafförin; þó kom ekkert fát á mig, því ég er góður
sundmaður, þegar ég segi sjálfur frá. Þegar mér skaut upp
aftur fór ég að litast um eftir freigátunni. Höfðu þeir nú
tekið eftir því að ég féll útbyrðis?
Í austurátt
sá ég móta fyrir ferlíki, sem fjarlægðist óðum.
„Hjálp!
Hjálp!“ hrópaði ég.
En skipið
færðist sífelt fjær. Ég sá það á því, að rauða ljósið á
bakborða varð æ daufara og daufara. Mér var erfitt um
sundið, því fötin drógu mig niður. Ég ætlaði að fara að
sökkva, en þá fann ég að þrifið var í herðarnar á mér og
mér var haldið uppi.
„Ert það þú,
Konsæll“, stundi ég upp, „Þú hefir þá fallið fyrir borð
líka“.
„Ég hljóp út
á eftir húsbóndanum“.
„En hvað er
þá orðið um skipið?“ spurði ég.
„Það getum
við ekki hirt um frekar“, svaraði Konsæll. „Þegar ég hljóp
fyrir borð heyrði ég sagt, að skrúfan og stýrið hefði
brotnað“.
Þetta var
engin feginsfrétt; en hvað sem því leið, urðum við að
reyna að bjarga lífinu á einhvern hátt.
Konsæll
hjálpaði mér til að komast úr fötunum; svo syntum við til
skiftis, þannig, að sá sem hvíldi sig, lá á bakinu og hélt
sér í hinn.
En svona gat
það ekki gengið til lengdar. Hve lengi við höfum synt veit
ég ekki, en ég man, að ég var orðinn ákaflega þreyttur. Ég
gat varla haldið vitunum upp úr og var farinn að drekka
sjó ákaft.
Þá gægðist
tunglið fram undan skýjunum og brá birtu yfir öldurnar.
Var eins og ég hrestist við það nokkur augnablik. Ég lyfti
upp höfðinu og svipaðist um eftir freigátunni. Var hún þá
komin svo langt, að ég sá að eins móta fyrir henni. Nú
misti ég þróttinn að fullu; ég var að sökkva og heyrði
óglögt að Konsæll var að kalla á hjálp.
En þá heyrði
ég svarað einhversstaðar!
„Heyrðir þú
þetta?“ umlaði ég.
„Já“, svaraði
Konsæll, og gerði nú sitt ýtrasta til að hrópa „hjálp“ út
yfir eyðimörku hafsins.
Aftur var
svarað og ekki langt undan. Hvað gat þetta verið?
Nú gat ég
ekki haldið mér uppi lengur. Ég varð að eins var við, að
ég var dreginn af stað, rakst á eitthvað, sem þétt var
fyrir og að mér var tosað upp úr sjónum,—svo misti ég
meðvitundina.
Þegar ég
raknaði við til meðvitundar aftur, fann ég að verið var að
núa mig í ákafa.
„Konsæll!“
kallaði ég af veikum mætti.
„Húsbóndinn
hringir!“ heyrði ég að sagt var í málróm Konsæls. En maður
sá, sem laut ofan að mér var ekki Konsæll.
„Ned!“ sagði
ég.
„Rétt er
það“, svaraði hvalveiðakóngurinn.
„Hefir þú þá
fallið fyrir borð líka?“
„Já“, svaraði
Ned, „en ég var svo heppinn að hitta strax á fljótandi
eyju“.
„Eyju?“
„Já,—eða sama
sem, nefnilega sæorminn. Nú skil ég hvers vegna skutullinn
minn hrökk af dýrinu. Náhvelið þitt er búið til úr
hnoðnegldum járnþynnum, hr. prófessor“.
Ég reis upp í
flýti. Þetta dýr eða—hvað það átti að heita—þessi hlutur,
sem við vórum staddir á, var hálfur upp úr. Við hlið mér
sat Konsæll hálf rænulaus og illa útlítandi, ekki síður en
ég. Ég fór nú að athuga skepnu þessa. Þetta var ekki dýr,
það var af og frá! Um það var ekki lengur að villast, að
það var gert úr hnoðnegldum járnþynnum, eins og Ned Land
sagði.
Þetta var
ekkert náttúruafbrigði, heldur eitthvað enn furðulegra.
Það var einhver „ógerningur“, gerður af manna höndum.
„Neðansjávarskip!“ varð mér að orði. „Snildarlega gert,
með afar-sterkar vélar!—Við erum þá ekki langt frá mönnum;
okkur er borgið“.
Ned Land var
á öðru máli um það, og lá við að við færum að trúa því, að
hann hefði rétt fyrir sér. Við börðum á járnþynnurnar af
öllu afli og Ned Land stappaði með járnbryddu stígvélunum
alt hvað af tók. Þó urðum við einskis hljóðs varir inn í
skipinu.
„Það verður
skemtilegt, þegar hann fer í kaf“, sagði Ned.
Ekki þótti
mér það nú svo skemtileg tilhugsun. En við áttum ekki
annars úrkosti, en dvelja þar yfir nóttina, sem við vórum
komnir.
Þegar loksins
fór að lýsa af degi, heyrðum við skrölt í járnslám og
hlekkjum og sáum hlera opnast í þilfarinu. Þar kom maður
upp og skygndist um. Þegar hann sá okkur rak hann upp
hljóð, hvarf niður aftur og skelti hleranum á eftir sér.
Rétt á eftir komu átta karlmenn upp á þilfarið. Þeir tóku
okkur, án þess að mæla orð frá vörum og fóru með okkur
niður í skipið.
Hlemmurinn
féll aftur yfir höfðum okkar og við vórum staddir í
niðamyrkri. Við fórum ofan járnstiga og inn um dyr, sem
lokað var á eftir okkur. Þar vórum við látnir einir.
Þarna var svo
mikið myrkur, að ég hefi aldrei komið í annað eins. Ekkert
náttmyrkur getur jafnast á við það.
Ned Land lét
eins og óður væri. Hann sparkaði öllu um koll, sem
lauslegt var inni, og datt sjálfur um sumt af því.
„Það er
dálagleg gestrisni að tarna!“ þrumaði hann. „Og þar að
auki eru þetta sjálfsagt mannætur, þegar til kemur!“
„Við erum
ekki komnir á steikarateininn ennþá“, sagði Konsæll.
„Nei, en í
ofninn“, svaraði Ned Land.
Það var ekki
þar fyrir, það gat vel verið satt sem hann sagði, því ég
fann að þilin vóru úr járni alt í kring.
Alt í einu
varð svo bjart inni, að ég varð að láta aftur augun.
Kveikt hafði verið á ljósmiklum rafmagslampa, sem festur
var í loftið.
Við fórum nú
að litast um. Herbergi þetta var 4 álnir á hvern veg og
járn í öllum veggium og loftinu. Gólfið sá ég ekki, vegna
ábreiðu, sem á því lá. Á miðju gólfi stóð viðhafnarlaust
tréborð og 4 stólar.
Okkur gafst
ekki mikill tími til umsvifa því rétt í þessu opnaðist
hurðin og inn gengu tveir menn. Var annar þeirra lítill
vexti, en knálegur. Hann gekk á undan.
Hinn, sem á
eftir fór, var miklu hærri, og varð okkur þegar starsýnt á
hann. Hann var fagurlega vaxinn, fríður sýnum og hinn
höfðinglegasti. Hann hafði alskegg, stutt; augun voru dökk
og starandi,—nærri kaldranaleg—og ennið hátt. Það var
fljótséð að ekki mundi auðvelt að hafa áhrif á
tilfinningar þessa manns. En gáfaður maður hlaut hann að
vera. Það var auðséð á honum.
Hann var
auðsjáanlega yfirmaður skipsins, því þegar þeir vóru
komnir inn úr dyrunum, vék hinn sér til hliðar. Hann
staðnæmdist frammi fyrir okkur og starði á okkur langa
stund. Ekki hraut honum orð af vörum fyr en loks, að hann
ætlaði út aftur; þá talaði hann við förunaut sinn á máli,
sem ég skildi ekki.
Hvað átti ég
að taka til bragðs? Ég vonaði að hann skildi frönsku og
ávarpaði hann á því máli,—talaði svo skýrt og
skilmerkilega, sem mér var unt. Ég sagði honum nöfn okkar
og hvað manna við værum og hvernig á því stóð, að við
vórum þar komnir.
Ókunni
maðurinn hlustaði á mig með stillingu og kurteisi. En ekki
sást nokkur vottur þess, að hann skildi mig og ekki
svaraði hann.
Ned Land varð
auðvitað fokvondur. Hann endurtók alla frásögu mína á
ensku, og viðhafði all-ófögur orð með köflum. Hann endaði
mál sitt á því að heimta mat; sagði að við værum komnir í
dauðann af hungri og yrðum að fá mat.
En það leit
ekki út fyrir, að ókunni maðurinn skildi Ned Land heldur.
Ég var einmitt farinn að hugsa um að reyna latínu, en þá
segir Konsæll.
„Ef
húsbóndanum þóknast, gæti ég reynt þýzku“. Það hafði mér
ekki dottið í hug áður. Konsæll var flæmskur og talaði
auðvitað þýzku. Ég gat að eins lesið hana og—sannast að
segja—með herkjum. Ég var því fljótur til að samþykkja
það.
Í þriðja sinn
var honum nú sagt hverir við værum og hvers vegna við
værum þangað komnir. En í þetta sinn var það Konsæll sem
sagði frá, með allri þeirri kurteisi og formkreddum, sem
honum var lagið. En árangurinn varð alveg sá sami,—alls
enginn. Ókunni maðurinn snéri sér nú að förunaut sínum og
mælti við hann nokkur óskiljanleg orð. Svo fóru þeir út úr
herberginu báðir.
Skömmu seinna
opnaðist hurðin á ný og kom inn þjónn með þur föt. Þótti
okkur Konsæl gott að fá fötin, en Ned Land sefaðist ekkert
fyr en þjónninn loks kom með mat; þá var eins og hýrnaði
yfir Kanadamanninum.
Að lokinni
máltíð lögðum við okkur fyrir og sváfum vært og lengi.
Þegar við vöknuðum og vórum að nudda stírurnar úr augunum,
vissum við ekki fyr af, en skipstjórinn snaraðist inn í
herbergið. Hann stóð kyr stundarkorn og virti okkur fyrir
sér. Svo hóf hann máls og talaði á hreinustu frönsku:
„Herrar
góðir! Mér er jafnlétt um að tala frönsku eins og þýzku og
ensku. Ég skildi því mæta vel alt það sem þið sögðuð. En
ég vildi fyrst vita deili á ykkur og íhuga svo málið í
næði. Ég hefi verið í miklum vafa um, hvað gera skal við
ykkur. Þið eruð komnir hingað á skip mitt fyrir sakir
óhappaatvika. Þið hafið truflað lífsrás mína og rósemi . .
“
„Ósjálfrátt“.
greip ég fram í fyrir honum.
„Ósjálfrátt!“
át hann eftir. „Var það ósjálfrátt að „Abraham Línkoln“
var gerður út til að ofsækja mig? Var það ósjálfrátt að
þér fóruð með skipinu og tókuð þátt í ofsóknunum? Var það
ósjálfrátt að þið skutuð á skip mitt og Ned Land kastaði
skutli á það?“
„Við vissum
ekki annað en skip yðar væri sjóskrímsl, sem nauðsyn bæri
til að eyðileggja“, svaraði ég.
„En hefðuð
þið nú vitað að þetta var niðansjáfarskip; hefðuð þið ekki
elt það og skotið á það, alveg eins og sjóskrímsl?“
Mér varð
svarafátt. Ég fann með sjálfum mér, að Farragút
flotaforingi mundi ekki hafa gert neinn mun á því.
„Eins og þið
getið sjálfir séð og skilið“. sagði ókunni maðurinn, „ber
mér að skoða ykkur sem óvini mína. Vildi ég verða laus við
ykkur, þyrfti ég ekki annað en seta ykkur upp á þilfarið
og fara svo í kaf. Ég hefi fylsta rétt til að gera það“.
Hann talaði
ofur-rólega og reiðilaust, en þó stökk honum ekki bros.
Var auðséð að hann meinti það, sem hann sagði.
„En hvað sem
því líður“, bætti hann við, „þá hefi ég ákveðið að hafa
ykkur hérna á skipinu framvegis. Þið getið verið eins og
frjálsir menn og hreyft ykkur svo mikið sem rúm leyfir“.
„Er það
meiningin að við eigum að vera hér á skipinu alla æfi?“
spurði ég.
„Já“, svaraði
ókunni maðurinn, „þið megið hætta að hugsa um þurlendið,
því þangað komið þið aldrei framar, enda missið þið
einskis í við það“.
„Ég strýk
héðan undir eins og færi gefst“, sagði Ned Land.
„Yður er
heimilt að reyna það“, svaraði ókunni maðurinn þurlega.
Það var
sýnilega engrar tilslökunar að vænta af þessum manni. Við
urðum að sætta okkur við það, sem hann vildi vera láta.
„Er mér
leyfilegt að spyrja um nafn yðar?“ sagði ég.
„Gagnvart
yður er ég ekki annað en Númi skipstjóri. En gagnvart mér
eruð þér og félagar yðar farþegar með skipi mínu,
Sæfaranum“.
Númi
skipstjóri opnaði dyrnar og kallaði á þjón. „Það er búið
að bera mat á borð í herbergi ykkar„, sagði hann við Ned
Land og Konsæl. “Viljið þið fara með manni þessum“.
Svo snéri
hann sér að mér.
„Nú, hr.
Aronnax, má ég fylgja yður til borðs? Morgunverðurinn er
tilbúinn“.
Ég snæddi
morgunverð með skipstjóranum og var hjá honum það sem
eftir var dagsins. Fór hann með mig fram og aftur um
skipið og sýndi mér alt sem markvert var, sem var æði
margt. Var hann hinn þægilegasti viðmóts og leysti úr
öllum spurningum með alúð og nákvæmni.
Við fórum
fyrst eftir löngum gangi, sem var uppljómaður af
rafmagnsljósi. Þaðan fórum við inn í borðstofuna. Þar var
rúmgott inni og snyrtilega um gengið. Húsgögn vóru öll úr
eik og greipt fílabeini. Skápar vóru skreyttir dýrum
krystöllum og stóðu á þeim og svo borðinu skrautmunir úr
dýrum málmum og hreinu postulíni.
Þaðan fórum
við að skoða bókasafn skipsins. Bókaskáparnir þöktu
veggina frá gólfi og upp í loft. Borð mikið stóð á miðju
gólfi en legubekkir á tvær hendur, fóðraðir dýrindis
skinni. Öll vóru húsgögn þessi úr svörtum palísanderviði
og koparrend víða. Í safni þessu sagði Númi að væru tólf
þúsund bindi, og væri mér heimilt að nota það eftir vilja
og þörfum. Þessu boði varð ég mjög feginn, upp á
framtíðina.
Þar var
samankomið úrval úr bókmentum allra þjóða, og urmull af
vísindabókum, einkum ritum um náttúrufræði. Meira að segja
fann ég þar bókina mína: „Um leyndardóma undirdjúpanna“.
Loks komum
við inn í aðalsalinn. Það var stórt herbergi og
prýðilegt,—fimtán álnir á lengd og 9 álnir á breidd. Á
þiljunum héngu málverk eftir frægustu snillinga í Evrópu.
Marmaralíkneski, gerð í fornum stíl, stóðu þar í hornunum,
en lítil borð stóðu hér og hvar á gólfinu. Borðfletirnir
vóru úr skygndu gleri, en undir glerinu gat að líta fjölda
hinna fáséðustu dýrindismuna úr ríki hafsins. Þar vóru
meðal annars marmennilssmíði svo fögur, að ég hefi hvergi
séð önnur eins, og perlur svo stórar og hreinar, að mér
var blátt áfram ómögulegt að meta þær til verðs.
Forte-píanó stóð þar í einu horninu; það var opið, og leit
út fyrir að vera oft notað.
Úr aðalsalnum
héldum við áfram fram eftir skipinu, og varð fyrir okkur
gangur með tveimur hurðum á þilinu annars vegar. Vóru þar
tvö herbergi samhliða og var annað herbergi skipstjórans,
en hitt sagðist hann ætla mér til íbúðar, meðan ég dveldi
á skipinu. Ekki var það miður búið að þægindum öllum og
viðhöfn en önnur herbergi þar á skipinu.
Fremst í
skipinu var klefi með innibyrgðu, samanþjöppuðu
andrúmslofti, og annar samskonar sagði Númi að væri við
afturstafn skipsins.
Frá klefum
þessum var stöðugt nýju lofti veitt um alt skipið eftir
þörfum. Á hverjum morgni var farið upp að yfirborðinu og
nýjar loftbyrgðir teknar í klefana.
Klefi
skipstjórans var einfaldur og skrautlaus—ólíkur mjög öðrum
herbergjum skipsins, sem öll vóru búin skarti og dýrindis
húsbúnaði. Þegar við komum þangað inn, lýsti Númi fyrir
mér byggingu skipsins og gerð allri. Það var réttar 100
álnir á lengd og í lögun eins og vindill. Það var 12 álnir
að þvermáli um miðju. Byrðingurinn var tvöfaldur, en
tengdur saman alt umhverfis, með þverbitum úr járni. Þoldi
skipið því afarmikinn þrýsting. Hreifivélar skipsins vóru
knúðar með rafmagni og svo sterkar, að Sæfarinn gat
hæglega farið 15 mílur á vöku. Stýrið var eins og á öðrum
skipum, en auk þess vóru tveir láréttir spaðar eða vængir
utan á hliðunum, miðskipa. Þeim mátti halla fram og aftur
og beina á þann hátt stefnu skipsins upp á við og niður á
við, þegar gangur var kominn á það. Auk þessa vóru klefar
á skipinu eða hólf, sem fylt vóru sjó, ef skipið átti að
sökkva, en tæmd, þegar það átti að leita upp. Á sama hátt
mátti einnig ráða djúpstöðu þess, þó það væri á ferð. Á
framenda skipsins var dálítill turn og í honum
stýrishjólið. Gluggar vóru á turninum öllum megin og gat
stýrimaður séð þaðan til allra hliða. Á afturenda þess var
annar turn. Í honum var afar-skært rafljós, sem notað var
á nóttum og í kafförum.
Í
skipstjóraklefanum og aðalsalnum vóru ýms
skipstjórnaráhöld. Þar vóru hin vanalegu
skipstjórnaráhöld, svo sem sigurverk, sem gekk fyrir
rafmagni, loftvog, áttaviti og sólhæðarmælir. En auk þessa
vóru þar margs konar áhöld önnur, sem Númi hafði sjálfur
fundið upp, til að mæla með hraða, stefnu og djúpstöðu
skipsins.
Númi
skipstjóri skýrði fyrir mér, með mikilli nákvæmni, hvernig
áhöld þessi væru gerð og notuð. Hann sagði mér, hvernig
hann færi að því, að ná rafmagni úr ýmsum efnum í sjónum,
og hvernig hann hefði reiknað þetta alt út fyrirfram, áður
en hann byrjaði á skipssmíðinni. Var þetta alt svo flókið
og margvíslegt, að ég verð að sleppa því hér.
Ég var alveg
forviða á þessu öllu saman.
„Þér hafið þá
sjálfur staðið fyrir smíðinni, og gert allar teikningar og
áætlanir“, sagði ég.
„Já“, svaraði
skipstjórinn, „ég hefi stundað nám við háskólana í Berlín,
París og New-York og numið þar svo mikið, sem útheimtist
til þessa“.
„En hvernig
gátuð þér smíðað skipið svo, að ekki yrði hljóðbært um
allan heim?“
„Það skal ég
segja yður, Aronnax minn. Ég hefi fengið sinn hlutann úr
hverri áttinni. Kjölurinn er smíðaður hjá Krausot í
Frakklandi, skrúfumöndullinn hjá Pen & Co. í Lundúnum,
súðaþynnurnar hjá Lírd í Liverpool, skrúfan hjá Scott í
Glasgow, þéttiloftsklefarnir hjá Sail & Co. í París,
vélarnar hjá Krúpp í Essen, stafnfleygurinn í Motala í
Svíþjóð, verkfærin hjá Hart í New-York o. s. frv.
Verksmiðjurnar fengu þessar pantanir undir ýmsum nöfnum,
og áttu að senda hlutina á ýmsar hafnir. En svo lét ég
skip, sem ég átti sjálfur, smala öllu saman“.
„En þá var þó
eftir að laga þetta til og setja það saman“, sagði ég.
„Já, ég setti
upp verkstæði á óþektri eiðiey úti í miðju Kyrrahafi og
þar lauk ég smíðinni á Sæfaranum, með tilstyrk manna
þeirra, sem nú eru með mér hér. Þegar við vórum búnir að
því, brendum við öllu, sem eldur gat eytt, en köstuðum
hinu í sjóinn, svo engin vegsummerki sáust eftir“.
„Það hefir
kostað nokkuð, skipið yðar, get ég ímyndað mér“.
„Já“, svaraði
Númi, „með öllum áhöldum kostar það mig eina milljón, sex
hundruð og áttatíu þúsund krónur. En með öllum söfnum og
dýrgripum, eins og það er nú, er það ekki of hátt virt á
fimm miljónir króna“.
„Þér hljótið
að vera afar auðugur maður?“
„Já, hr.
prófessor, það er ég. Mér væri hægðarleikur að borga allar
ríkisskuldir Frakklands, tólf miljarða“.
Því næst
fylgdi Númi mér aftur á skipið, til þess að sýna mér
vélrýmið. Við fórum fram hjá eins konar strompi, og var á
honum hurð. Sá ég að járnstigi lá upp eftir honum og
spurði skipstjórann hvað gert væri við hann.
„Við förum
upp í bátinn eftir þessum stiga“, svaraði hann.
„Svo, þið
hafið þá bát“.
„Já, lokaðan
bát, af sömu gerð og Sæfarann, en miklu minni. Hann liggur
í dæld á þilfarinu og er festur með skrúfum. Á þilfarinu
er hleri og annar í botninum á bátnum. Þeir standast á.
Með því að opna hlerana get ég farið upp í bátinn.
Hleranum á þilfarinu er lokar á eftir mér, en sjálfur loka
ég hlerunum í bátnum. Svo losa ég um skrúfurnar og þá
þýtur báturinn upp að yfirborðinu í einum svip. Þegar ég
finn að báturinn flýtur ofansjávar, opna ég hlera á
þilfari hans, síðan reisi ég sigluna, set upp segl og sezt
við stýrið“.
„En hvernig
komist þér niður til skipsins aftur?“
„Það get ég
ekki. Sæfarinn verður að koma upp til mín. Báturinn er
tengdur við skipið með löngum látúnsvír, sem
rafmagnsstraumur leikur um, og fylgir það bátnum eftir
neðansjáfar. Þarf ég því ekki annað en þrýsta á tippi, ef
ég vil gefa því vísbendingu“.
Alt þetta var
svo einfalt og þó svo haganlega fyrirkomið, að það vakti
aðdáun mína.
Þegar við
komum lengra fram í ganginn, sá ég inn í herbergi Ned
Lands og Konsæls. Sátu þeir að snæðingi og vóru hraustir
og hressir að sjá. Ég sá matsuðuklefann, og hvernig
maturinn var soðinn við rafmagnshita. Við fórum framhjá
klefum skipverjanna, en ekki sá ég inn í þá, því hurðirnar
vóru aftur. Seinast skoðaði ég vélrýmið. Þar sá ég þessar
undravélar, sem gengu fyrir rafmagni og gátu snúið
skrúfuásnum tuttugu snúninga á sekúndunni.
„Nú ætla ég
að gefa yður næði til rannsókna yðar og vísindaiðkana“,
sagði skipstjórinn, þegar við komum inn í aðalsalinn
aftur. „Við erum núna staddir í nánd við Japan, eins og
þér sjáið á kortinu þessu. Braut skipsins er mörkuð á það
á hverjum degi, svo þér getið séð hvað ferðinni líður.
Bókasafnið og salinn er eður heimilt að nota eftir vild.
Með yðar leyfi ætla ég að hverfa frá um sinn“.
Númi fór nú
út, að svo mæltu, en ég sat einn eftir.
Hver var
hann, þessi undralegi maður? Hann var framúrskarandi að
gáfum og fróðleik, en fyrirleit þurlendið og mennina af
lífi og sál. Hver var hann? Og hvert ætlaði hann að fara
með mig?
Þessu var ég
lengi að velta fyrir mér, eftir að skipstjórinn fór. Ég
sat hugsi langa lengi, þar til loks ég stóð upp og gekk
inn í herbergi mitt, til að taka á mig náðir.
Árdegis
daginn eftir kom Konsæll og Ned Land inn í salinn til mín.
Þeim varð fyrst fyrir að spyrja, hvernig á þessu stæði og
hvar við værum staddir.
„Tuttugu og
fimm föðmum fyrir neðan yfirborð sjáfar“, svaraði ég.
„Þetta er
stór-merkilegt“, sagði Konsæll.
Ég sýndi
Konsæl öll þau undur af fágætum náttúrugripum, sem vóru í
salnum. Hann var vanur að fylga mér á söfnunum í París og
bar gott skynbragð á þess konar hluti.
Ned Land
spurði mig spjörunum úr, um Sæfarann og Núma skipstjóra.
Hann var á fjáður að vita hve skipshöfnin væri fjölmenn,
því hann hafði þegar hugsað sér að myrða alla skipverja,
eða byrgja þá inni, en taka skipið á sitt vald.
Ég reyndi að
telja um fyrir honum og fá hann ofan af þessu. En alt í
einu sloknaði ljósið í salnum og við stóðum eftir í
kolsvarta-myrkri.
Við stóðum
hreyfingarlausir og þegjandi og biðum þess, sem verða
vildi. Svo heyrðist glamur, líkt því sem járnþynna væri
dregin eftir skipshliðinni, og í sama vetfangi lagði skæra
birtu inn í salinn um tvo glugga. Í gluggum þessum vóru
afarþykkar glerrúður og lágu yfir þær sterkar koparstengur
til styrktar. Sáum við út um gluggana sterka rafljósbirtu,
sem lýsti upp sjóinn langa leið frá skipinu, í allar
áttir. Það var fögur sjón og stórkostleg. Ljósbrotið var
svo einkennilegt í vatninu að því verður ekki með orðum
lýst. Nálægt skipinu var sjórinn sem fljótandi eldhaf, en
smádofnaði er lengra dró frá og eyddist loks í sæmyrkrinu
yfir og undir og alt um kring.
Við horfðum
hugfangnir á þessa dásamlegu sjón. Brátt kom í ljós urmull
af fiskum og allskonar sædýrum. Fylgdu þeir skipinu eftir
og hringsóluðu kringum það, eins og fuglager í lofti.
Sumir þessara fiska vóru undursamlega fagrir, fór þar
saman blikandi litskrúð, fagurt sköpulag og aðdáanlega
mjúkar og skjótar hreyfingar.
Alt í einu
hvarf þessi töfrasjón. Hlerunum var rent fyrir gluggana og
ljósi brugðið upp á rafmagnslömpunum í salnum. En lengi á
eftir sátum við eins og í leiðslu og rifjuðum upp í
huganum þennan merkilega fyrirburð. Hann var svo
nýstárlegur og nærri yfirnáttúr legur að hugmyndalíf okkar
var snortið um langan tíma.
[1] Loftþyngd er sá þrýstingur kallaður, sem loftið
gerir á yfirborð jarðarinnar; en hann samsvarar hérumbil
15 punda þunga á hverjum ferþumlungi yfirborðs. Þýð.
Ég fór að una
æfinni betur á Sæfaranum þegar fram í sókti. Ég hafði
fyrir reglu að fara upp á þilfar á hverjum morgni, meðan
verið var að skifta um loft í skipinu. Þar hitti ég
vanalega stýrimanninn, sem fékst þar við mælingar og
athuganir. Ég reyndi oftsinnis að hafa tal af honum, en
það kom fyrir ekki. Hann skildi ekki eða lézt ekki skilja
eitt orð af því sem ég sagði. Hann mælti nokkur orð á
máli, sem ég skildi ekki, í hvert sinn sem hann ætlaði
ofan í skipið aftur.
Ég skildi það
sem skipun um að fara niður aftur og hagaði mér samkvæmt
því.
Á daginn sat
ég lengstum við bóklestur í salnum eða bókasafnsklefanum.
Ég varð lítið
var við Núma skipstjóra. Ég hefi ekki í fyrstu hugmynd um,
hve fálátur hann var og einförull, og var því farinn að
halda um tíma að hann væri farinn af skipinu.
Stöku sinnum
hitti ég hann uppi á þilfarinu á morgnana. En oftast var
hann þá svo hugsi og fámálugur, að engu tauti var við hann
komandi. Þó bar við, að hann var glaðari í bragði. Það var
helzt, þegar hann hafði sérstakan áhuga á einhverju, sem
hann var að gera, að hann kom og tók mig tali. En þá var
hann líka öllum mönnum alúðlegri og liprari. Listir og
vísindi vildi hann helzt af öllu tala um.
Hann elskaði
hafið. Ég varð þess var einn dag. Við stóðum saman á
þiljum uppi og nutum veðurblíðunnar. Loftið var hlýtt og
himininn heiður. Öldur úthafsins liðu eftir sæfletinum,
eins og spegilgljáandi fjallabungur. Númi benti út yfir
öldurnar og gat ekki varist þess, að dázt að hinni
stórfenglegu og óháðu tign úthafsins. Hann lauk máli sínu
með þessum orðum:
„Frá
öldufalli yfirborðsins og niður í myrkustu undirdjúp er
hafið á eilífri hreyfingu, þrungið lífi og lifandi verum.
Það vekur undrun og ótta mannanna. Þeir hræðast hyldýpið,
en ég hræðist það ekki. Þegar ég er á Sæfaranum er mér
sama hvar ég hvíli í faðmi hafsins“.
Ned Land og
Konsæll komu oft til mín inn í aðalsalinn og hafði ég
gaman af heimsóknum þeirra, því þeir vóru sífelt að ybbast
og kýta—oftast í góðu þó. Ned Land hafði alt á hornum sér.
Hann kunni ekki við að vera innibyrgður, kvartaði undan
mataræðinu, hvað það væri tilbreytingarlaust og var
sárreiður við Núma skipstjóra, sem lét eins og hann heyrði
ekki, þegar sem hæst gekk hranaskapur og umkvartanir Ned
Lands.
Konsæll var
þvert á móti, ánægður með alt. Hann hafði lag á því að
haga sér eftir kringumstæðunum, og mín vegna var hann í
sjöunda himni yfir því, hvað mér gæfist gott færi á að
rannsaka hafið og sædýralífið. Gluggarnir á skipshliðinni
vóru opnir tvo tíma á dag að jafnaði. Þá tíma notuðum við
Konsæll kostgæfilega, til að athuga sjóinn. Þegar ég kom
auga á einhvern fisk, sem við höfðum ekki séð áður, flýtti
Konsæll sér að ákveða hvaða flokki eða tegund hann ætti að
teljast með. Konsæll hafði vel vit á því og var heldur en
ekki upp með sér af þeirri fræði. Hann sagði oft við Ned
Land, að hann væri ekki annað en óseðjandi magi, sem
skifti fiskunum í tvo flokka, eftir því hvort þeir væru
ætir eða óætir.
En Ned Land
þekti fiskana á annan hátt: af eigin reynslu og eftirtekt
og hann fór ófögrum orðum um „safnhúsavizku“ Konsæls, sem
hann svo kallaði.
Við héldum
stöðugt í suðurátt, fórum yfir miðjarðarlínuna og komum
loks á siglingaleiðir verzlunarskipanna.
Dag einn sat
ég í aðalsalnum og var að lesa í bók. Ned Land og Konsæll
sátu við gluggana og horfðu út í sjóinn. Alt í einu spratt
Konsæll upp og gekk þangað sem ég var.
„Vill ekki
húsbóndinn koma út að glugganum sem snöggvast“, sagði hann
og virtist vera mikið niðri fyrir.
Ég brá við og
leit út um gluggann. Sá ég þá eitthvert svart ferlíki
liggja grafkyrt í sjónum skamt frá skipinu. Ég neytti
augnanna því betur, sem nær dró.
„Skipsflak!“
kallaði ég upp yfir mig.
„Já“, sagði
Ned Land, „það er sokkið og möstrin eru brotin“. Það var
sem hann sagði. Slitrin úr reiðanum héngu á köðlum út af
borðunum. Skipið hallaðist á bakborða og var fult af sjó.
Það hlaut að vera nýsokkið, því mastrastúfarnir, sem stóðu
upp úr þilfarinu, vóru hreinir. Í dyrum eins
þilfarsklefans sáum við liggja lík ungrar konu og hafði
hún kornbarn í fanginu. Lengra hafði hún ekki komist þegar
slysið vildi til. Á þilfarinu láu 4 hásetar dauðir og
flæktir í reiðaköðlunum. Var hræðileg sjón að sjá, hvernig
þeir vóru útlits. Þeir höfðu barist við að losa sig úr
köðlunum fram í andarslitrin.
Við stóðum
eins og steini lostnir og horfðum á þessa hroðasjón, meðan
Sæfarinn rendi framhjá. Og áður en við mistum sjónar á
flakinu, sáum við hákarlana steðja að úr öllum áttum, með
glóandi glirnum og gapandi kjöftum.
Þetta var í
fyrsta sinn, sem mér varð óhægt innanbrjósts, síðan ég kom
á Sæfarann.
Ég fór að
leggja þungan hug á Núma skipstjóra og gat þó varla gert
sjálfum mér grein fyrir, af hverju það stafaði. Mér hafði
hingað til staðið á sama um fálæti hans og fáskifti, ég
hafði hugsað mest um rannsóknir mínar og bóklestur. En nú
fanst mér alt í einu, sem eitthvað væri óhreint við þetta
háttalag skipstjórans og skipverja, eitthvað undarlegt og
tortryggilegt.
Það leið
heldur ekki á löngu, að þessi skoðun mín fékk nýja átyllu.
Eitt sinn
snemma dags kom ég upp á þilfarið. Stóð stýrimaðurinn þar
og benti á vissan stað í sjónhringnum, en Númi skipstjóri
starði þangað gegnum sjónauka sinn. Svo lét hann
sjónaukann síga og fór að ganga um gólf á þilfarinu, án
þess að skifta sér af mér. Stýrimaður var allur á hjólum,
eins og honum væri mjög mikið niðri fyrir. Hann ávarpaði
skipstjórann öðru hvoru á máli, sem ég skildi ekki og Númi
svaraði á sama máli. Rétt á eftir tóku þeir sjónaukana
aftur og beindu þeim á þenna sama stað. Ég neytti augnanna
af fremsta megni, en sá ekkert athugavert. Hljóp ég því
ofan í salinn og sótti þangað sjónauka. Þegar ég kom upp
aftur setti ég sjónaukann fyrir augun, en í sama vetfangi
var hann hrifsaður af mér.
Númi
skipstjóri stóð frammi fyrir mér. Hann var rólegur á
svipinn, eins og hann var vanur, en hann var meira en
rólegur, andlit hans var kalt og stirðnað að sjá, eins og
lífvana steingerfingur. Hann kreisti aftur munninn og beit
á jaxlana, en augun vóru sem í eldsglóð sæi. Ég fann þó
fljótt að hann ætlaði ekki að láta reiði sína bitna á mér.
Hann gat ekki haft augun af deplinum, sem hann horfði á
áður og bægði mér frá að athuga.
Loks var eins
og hann áttaði sig og fengi vald yfir sjálfum sér. Hann
sagði nokkur orð við stýrimanninn, sem hvarf þegar ofan í
skipið, og snéri sér svo að mér.
„Ég verð að
byrgja yður inni“, sagði hann.
„Þér hafið
auðvitað vald til þess“, sagði ég. „En má ég spyrja yður
einnar spurningar?“
„Nei“.
Númi fór
aftur að horfa út yfir hafið. Ég fann að vélin komst á
hreifingu og skrúfan tók að knýja skipið áfram með vaxandi
hraða.
Ég fór niður
til þeirra Ned Lands og Konsæls. Þar vóru fyrir fjórir af
hásetum skipsins og fóru þeir með okkur inn í sama
herbergið, sem við vórum í fyrsta morguninn, sem við vórum
á skipinu. Þeir spurðu mig spjörunum úr, en ég hafði ekki
annað að segja en það, sem fyrir mig bar uppi á þilfarinu.
Ned Land var í versta skapi.
Að vörmu
spori kom þjónn inn og bar mat á borð fyrir okkur.
Sefaðist þá vonzkan í Ned Land, um stund. Konsæll hvatti
mig til að borða mig vel saddan, „því það er ekki víst að
við fáum mat aftur í bráðina“, sagði hann, „það er eins
víst að þeir gleymi okkur alveg“.
Ned Land tók
þriflega til matar síns, eins og hans var vandi, og ég lét
ekki mitt eftir liggja.
Að lokinni
máltíð lagðist Ned Land endilangur á gólfið og
steinsofnaði. Rétt á eftir lagðist Konsæll fyrir líka og
sofnaði. Þótti mér það slæmt, því mér fanst full þörf á að
vaka og hafa gát á öllu.
En nú brá
undarlega við. Ég varð altekinn af máttleysi og þreytu og
varð að leggjast á gólfábreiðuna líka. Hugsunin
sljóvgaðist smátt og smátt, og einhver undarleg þyngsli
sigu yfir höfuðið á mér, svo ég gat naumast haldið augunum
opnum. Ég man það síðast, að ég heyrði að hlerunum var
lokað og skipið hætti að velta; en það var merki þess, að
það var komið í kaf. Svo misti ég meðvitundina alveg og
féll í fastan, draumlausan svefn.
Morguninn
eftir vaknaði ég og var þá inni í klefanum mínum. Mér var
það nú fullljóst, að Númi skipstjóri hafði blandað
svefnlyfi í morgunmatinn okkar daginn áður. Ég reis á
fætur og fór inn í salinn, því hann stóð opinn. Bjóst ég
við að hitta skipstjórann þar, og fá hjá honum skýringu á
máli þessu.
Rétt á eftir
kom hann út úr klefa sínum og gekk inn í salinn. Hann var
þögull eins og vant var og fór að ganga um gólf, án þess
að veita mér nokkra athygli.
En alt í einu
staðnæmdist hann frammi fyrir mér.
„Eruð þér
læknir?“ spurði hann.
„Já“, sagði
ég, „ég stundaði lækningar í mörg ár, áður en ég fékk
embætti við jurtasafnið í París“.
„Einn af
hásetum mínum er veikur. Viljið þér skoða hann?“
„Já“.
„Komið þá með
mér“.
Mér flaug
þegar í hug, að veiki þessi mundi standa í sambandi við
það, sem gerst hafði daginn áður, og var meira í mun að fá
vissu fyrir því.
Númi fór með
mig aftur í skipið og lauk upp einum hásetaklefanum. Komum
við þar inn í rúmgott herbergi, og var það uppljómað af
rafljósi. Maður lá í fleti út við þilið gengt dyrunum. Sá
ég þegar, að hann var sár en ekki sjúkur. Ég laut niður að
honum og losaði um blóðugan léreftsrenning, sem bundinn
var um höfuð honum. Hann kveinkaði sér ekki hið minsta, en
starði á mig með stirðu og sljóu augnaráði.
Sárið var
hroðalegt. Hauskúpan var brotin og heilinn skaddaður
mikið. Bólga var farin að myndast í sárunu og hafði þegar
gert manninn alveg tilfinningarlausan.
„Hvernig
hefir maðurinn hlotið þetta sár?“ spurði ég.
„Skipið rakst
á“, sagði Númi. „Við það brotnaði járnteinn í vélrýminu og
féll í höfuð honum“.
Ég horfði
steinþegjandi á særða manninn. Hann var ungur að aldri,
fríður sýnum og svipmikill og bar sömu þjóðerniseinkenni
og aðrir þar á skipinu.
„Hann skilur
ekki frönsku“, sagði Númi, „svo yður er óhætt að tala“.
„Hann verður
dauður að tveim stundum liðnum“, sagði ég.
Númi
skipstjóri brá hendinni fyrir augun og mér virtist ég sjá
tár hrynja.
„Verður honum
með engu móti hjálpað?“ spurði hann.
„Nei“.
„Jæja, þá
þarf ég ekki yðar aðstoðar með“.
Ég fór út úr
herberginu, en Númi var eftir hjá manninum dauðvona,
niðurlútur og harmþrunginn.
Ég hvarf inn
í herbergið mitt aftur, þungt hugsandi. Ég gat ekki um
annað hugsað allan daginn en banasængina aftur í skipinu
og þennan óskiljanlega árekstur, sem skipið hafði orðið
fyrir, meðan við lágum í dvala, undir áhrifum
svefnlyfsins.
IV.
Við fórum
fyrir norðan Ástralíu og vórum komnir inn í Indlandshaf í
janúarmánuði 1868. Ég veitti því eftirtekt, að Númi hagaði
ferðinni öðruvísi þegar þangað kom. Í Kyrrahafinu fór
Sæfarinn með fullum hraða eftir ákveðinni stefnu. En þegar
dró nær ströndum Vestur-Indlands, hægði hann skriðinn og
stýrði þá sitt á hvað, ýmist í norður eða suður. Liðu svo
nokkrir dagar að við hringsóluðum um sama svæði, en fórum
svo að þokast suður á við.
Það bar við
einn dag, að ég sat í aðalsalnum, út við gluggann, og var
að horfa á urmul af fiskum, sem safnast hafði utan um
skipið. Þá kom Númi skipstjóri inn og gekk rakleitt til
mín, út að glugganum.
„Við erum
bráðum komnir til Ceylon“, sagði hann formálalaust.
„Perlutekjan er að vísu lítil á þessum tíma árs. Þó getur
verið, að nokkrir menn fáist við það núna. Langar yður
ekki til að sjá þá kafa, prófessor?“
Ég var
fljótur að játa því, en mig furðaði á því, að Númi skyldi
alt í einu fá löngun til að nálgast þurlendið og mennina.
„Það er langt
til Ceylon enn“, sagði ég, „og fari Sæfarinn ekki hraðara,
en undanfarna daga, þá . . . .“
Númi tók fram
í fyrir mér:
„Við verðum
komnir þangað á morgun“, sagði hann.
Hann horfði
stöðugt út í sjóinn, og mér varð líka litið þangað, en
hnykti við heldur en ekki.
Ég kom auga á
mann í sjónum, ekki liðið lík, sem barst með straumnum,
heldur bráðlifandi mann, sem klauf sjóinn með sterklegum
sundtökum, fór upp að yfirborðinu til að anda og kafaði
svo aftur niður í djúpið.
„Þarna er
maður sem liggur við druknun“, sagði ég. „Við verðum að
bjarga honum!“
Númi svaraði
ekki, en laut fast að gluggarúðunni.
Maðurinn í
sjónum kom rakleitt að glugganum, lagði andlitið að
rúðunni að utanverðu og skifti nokkrum merkjum og
bendingum við Núma skipstjóra. Svo synti hann upp að
yfirborðinu aftur og sá ég hann ekki framar.
Þó mér þætti
þessi óvænti atburður furðu gegna, hafði þó einn hlutur
vakið athygli mína. Þegar menn þessir nálguðust hvor
annan, sinn hvoru megin við gluggarúðuna, sá ég óðara, að
þeir vóru af sama kyni báðir. Flaug mér þá í hug, að þessi
undarlegi skipstjóri mundi vera Indverji, enda þótt hann
talaði eins og mentaður Vesturlandamaður. Sundmaðurinn
leit út fyrir að vera almúgamaður, en eftir látbragði Núma
og andlitsfalli að dæma, mátti ætla að hann væri
frjálsborinn aðalsmaður af góðu bergi brotinn.
Númi
skipstjóri fór yfir í hinn enda salsins og opnaði kistu,
sem stóð þar. Hann tók upp úr henni bögla marga, athugaði
þá vandlega og raðaði þeim svo niður aftur. Í bögglum
þessum var tómt gull. Gizkaði ég á, að í kistunni væru
fimm miljónir króna í gulli.
Þegar Númi
var búinn að láta alt ofan í aftur, læsti hann kistunni
vandlega, og hringdi bjöllu að því búnu. Þá komu inn 4
menn og báru kistuna út. Heyrði ég á fótatakinu að þeir
báru hana að stiganum. Rétt á eftir fór Sæfarinn upp á
yfirborðið; hlerarnir vóru opnaðir og kistunni bisað upp á
þilfarið.
Árla morguns
daginn eftir kom Númi inn og settist að morgunverði með
okkur. Hann var óvanalega málhreifur, en mintist þó ekki
einu orði á það, sem gerst hafði daginn áður.
„Við skulum
nú borða okkur sadda“, sagði hann, „það getur orðið langt
þangað til við fáum mat aftur“.
Matur var
nógur á borðum, eins og vant var, og réttir margir. Sá ég
að sumir þeirra vóru búnir til úr fiski, en hvaða efni var
í sumum var mér ómögulegt að renna grun í, og hafði ég þó
borðað þá mörgum sinnum. Þeir vóru einkennilegir á
bragðið, en mér var þó farið að fallast á þá upp á
síðkastið.
„Þér vitið
ekki hvað það er, sem þér borðið“, sagði Númi skipstjóri.
„En ég get fullvissað yður um, að það er holl fæða og
nærandi. Það er langt síðan ég og mínir menn höfum borðað
annan mat“.
„Eru þessir
réttir fengnir allir úr sjónum?“ spurði ég.
„Já“, sagði
skipstjórinn. „Ég þarf ekki annað en festa net utan á
skipið, svo er það orðið fult af fiski eftir litla stund.
En stundum fer ég á dýraveiðar í neðansjávarskógunum; þar
eru veiðiföng bæði mikil og góð“.
„Ég get vel
skilið, hvernig þér veiðið í net, en hitt er mér
torskildara, hvernig þér farið að því, að veiða dýr í
skógunum neðansjávar„, sagði ég, “og undarlegt þykir mér
það, að aldrei skuli vera kjötmeti á borðum yðar“.
„Kjöt af
landdýrum sést hér aldrei“.
„En hvers
konar steik er þetta?“ spurði ég og benti á einn diskinn.
„Þetta er
kjöt að vísu“, sagði skipsjórinn, „en það er af
sæskjaldböku. Þetta, sem þér haldið líklega að sé
svínakjöt, er höfrungalifur. Matsveinninn minn er vel að
sér í tilbúningi matar. Rjóminn er þeyttur úr hvalamjólk,
og sykurinn er búinn til úr eins konar þangtegund“.
Ég varð að
samsinna því, að matsveinninn væri stöðu sinni vaxinn, því
maturinn var ljúffengur.
Númi tók til
máls aftur: „Ekki nóg með það, að ég hafi öll matarföng úr
hafinu. Klæðnaður minn er líka sniðinn af efnum þess.
Þráðurinn, sem klæðið er ofið úr, er rakinn úr einskonar
sætágum. Sængurdýnurnar eru troðnar út með afar-smágerðu
þangi.
Í stuttu máli
sagt, get ég fengið úr sjónum allar lífsnauðsynjar mínar“.
Að lokinni
máltíð fórum við inn í bókaklefann og reyktum vindil, sem
auðvitað var vafinn úr blöðum af nikótínkendri sæurt. Númi
sagði mér að ætlun sín væri að skoða grynningarnar við
Mandor, en þar er mest perlutekja í heimi.
„Eruð þér
tilbúinn?“ spurði skipstjórinn, lagði frá sér vindilinn og
stóð upp. „Félagar yðar verða ef til vill með í förinni?“
„Það held ég
sjálfsagt“, sagði ég og stóð upp. „En nú liggur Sæfarinn
við botn og hér er 30 feta dýpi“.
„Það er svo
til ætlast“, svaraði skipstjórinn.
„En getum við
komist í bátinn fjórir?“ spurði ég.
„Nei, við
förum fótgangandi“.
„Fótgangandi!“ át ég eftir, „—á mararbotni?“
„Já, einmitt
það“.
Hann kallaði
á Ned Land og Konsæl og fór með okkur miðskipa.
Mér datt í
hug, að annaðhvort væri skipstjórinn brjálaður, eða hann
væri að gera skop að okkur. En svo fór hann með okkur inn
í klefa einn og þá fór ég að renna grun í hvað í ráði
væri. Á þilunum héngu kafarafatnaðir margir og nokkrir
menn vóru þar til taks að hjálpa okkur til að fara í
kafarafötin. Föt þessi vóru úr togleðri og öll ein
samfella, skálmar, bolur, ermar og vetlingar. Undir
iljunum vóru þung og þykk blýstykki. Sterkar látúnsgjarðir
héldu fötunum frá brjóstinu, svo ekki skyldi þrengja að
öndunarfærunum.
En hvaðan
átti svo andrúmsloftið að koma? Númi skipstjóri hafði séð
ráð við þeim vanda. Þegar við vórum búnir að setja upp
sterkan eirhjálm, sem festur var með látúnskraga við
upphlutinn, var pípa, sem lá úr honum, sett í samband við
hylki eitt, sem við höfðum á bakinu. Í hylki þessu var
samþjappað loft. Fann ég að hreint loft streymdi inn í
hjálminn þegar búið var að setja þetta saman. Um mittið
girtum við belti og var í því hnífur, rafmagnsgeymir og
rafmagnslampi, sem kveikja mátti á og slökkva eftir vild.
Svo vórum við
fullbúnir til ferðarinnar. Búningur þessi var svo þungur,
að ég gat ekki hreyft mig úr sporunum. En Númi hafði líka
gert ráð fyrir því. Tveir menn tóku hvern okkar og bisuðu
okkur inn í hliðarklefa. Að því búnu lokuðu þeir hurðinni
vandlega.
Í klefa
þessum var niðamyrkur. Ég heyrði sterkan hvin og fann
kulda leggja upp eftir líkamanum. Klefinn var orðinn
fullur af sjó, sem hleypt hafði verið inn í hann. Dyr vóru
opnaðar á skipshliðinni og lagði inn um þær daufa
dagsskímu. Gengum við út á mararbotninn gegnum þessar dyr.
Þegar þangað
kom fann ég ekki til þyngslanna á kafarabúningnum. Mér var
létt um allar hreyfingar og gat ég séð til allra hliða
gegnum glerrúður í hjálminum.
Birtu lagði
niður í djúpið, skærari en ég hafði búist við. Ég gat vel
greint hluti í 100 faðma fjarlægð. Þegar lengra dró hurfu
myndirnar í bláa móðu, sem döknaði smátt og smátt og hvarf
að síðustu í svarta-myrkri.
Sjórinn
umhverfis okkur var líkur andrúmsloftinu, eins gagnsær og
það, en miklu þéttari í sér. Hátt yfir höfði mér sá ég
móta fyrir yfirborði sjávarins.
Við gengum
eftir smágerfum, ljósum sandi. Að baki okkur sáum við
Sæfarann liggja eins og svartan, ílangan klett á botninum,
en eftir nokkra stund hvarf hann okkur sýnum.
Annað veifið
gengum við fram á fiska, sem þutu upp af hræðslu, eins og
hrossagaukar í mýri. Steinar lágu á sandsléttunni til og
frá, þaktir lindýrum og sægróðri. Upp á háum klettum stóðu
skankalangir krabbar og störðu á okkur.
Alt í einu
fór að halla undan fæti og gengum við niður brekkuna.
Dagsbirtan varð æ daufari og daufari og að síðustu sáum
við ekki annað en daufa rauðleita rökkurglætu.
Fram undan
okkur var að sjá eins og svartan vegg. Það var
neðansjávarskógur.
Eikurnar vóru
eins konar trjákendir þönglar, stofnarnir þráðbeinir og
greinarnar líka. Var mjög torvelt að komast áfram í skógi
þessum. Trén stóðu svo þétt, að við urðum að sveigja þau
til hliðar til að komast áfram; en trén sóktu í sama
horfið aftur svo leiðin luktist að baki okkar.
Það var nú
orðið svo dimt, að við urðum að bregða upp ljósi. Varð þá
bjart umhverfis okkur sem um hádag væri. Virtist mér
gróðurinn svo fjölbreyttur eins og væri ég staddur í
suðrænum frumskógi. En undarlega kom hann mér fyrir augu,
þessi fáséði myrkviður, þá er ég hafði virt hann fyrir mér
stundarkorn. Var örðugt að gera greinarmun á dýrum og
jurtum, svo mjög líktist hvað öðru. Ruglaði ég saman
sæplöntum og lindýrum, skelfiskum og þarastönglum.
Það var afar
örðugt að komast áfram í skógi þessum. Þegar við vórum
komnir spottakorn inn í hann gerði Númi okkur vísbendingu
um að nema staðar. Við lögðumst niður á þarabing til að
hvíla okkur. Varð ég feginn hvíldinni, því ég var orðinn
þreyttur. Það fór fyrir mér eins og öðrum köfunarmönnum,
að mig sótti svefn. Eftir nokkra stund lét ég aftur augun
og steinsofnaði.
Ekki veit ég,
hve lengi ég hefi sofið, en þegar ég lauk upp augunum,
spratt ég á fætur í ofboði.
Nokkur skref
frá mér sé ég standa sækönguló meira en álnar háa, og var
svo að sjá sem hún ætlaði þegar að ráða á mig. Ég varð
skelkaður í svipinn, enda þótt ég vissi, að kafarafötin
mundu verja mig biti hennar. Í sömu svifum vöknuðu félagar
mínir. Réðist Númi skipstjóri á óféti þetta og barði það
niður með byssuskeftinu.
Eftir
viðureignina við dýr þetta, sem var jafn andstyggilegt sem
það var meinlaust, datt mér í hug að hæglega gæti ég
rekist á dýr, sem kafarfötin væru ekki einhlít fyrir. Mér
hafði ekki hugkvæmst það áður. En upp frá þessu ásetti ég
mér að vera var um mig.
Við lögðum af
stað aftur, og vórum klukkustund að komast gegnum skóginn.
Númi stýrði förinni og fór jafnan fremstur. Þegar komið
var út úr skóginum fór að hækka undir fæti, og birta í
sjónum.
Loks nam hann
staðar. Sjórinn var hreinn og tær umhverfis okkur og
uppljómaður af sólskini. Fram undan okkur sáum við
grynningar þaktar perluskeljum.
Númi benti
með hendinni yfir grynningarnar. Skeljarnar héngu á mjóum
taugum við klappir og steina. Það vóru fádæma auðæfi, sem
lágu þarna á mararbotni.
Við reikuðum
til og frá og skoðuðum skeljarnar. Ned Land flýtti sér að
tína saman stærstu og fallegustu perlurnar.
Að liðnum tíu
mínútum nam skipstjórinn staðar alt í einu og benti okkur
að fylgja sér í var, undir stórum kletti. Skamt frá okkur
sáum við svertingja kafa niður. Var hann að freista
hamingjunnar að ná í eitthvað, áður en perlutekjan byrjaði
alment. Yfir höfðum okkar sá ég í botninn á bátnum hans,
sem ruggaði hægt á yfirborðinu. Við annan fótinn á sér
hafði hann bundið þungan stein til að verða fljótari að
komast til botns. Þegar hann náði botni, losaði hann
steininn við sig, lagðist á hnén og fór að tína skeljar í
poka. Að því var hann svo sem hálfa mínútu. Svo fór hann
upp að yfirborðinu aftur, dró steininn upp í bátinn á
taug, sem fest var við hann, sótti í sig veðrið og stakk
sér til botns aftur. Gekk svo koll af kolli. En hvort hann
hefir fundið nokkra perlu í öllum þessum skeljum er
ómögulegt að segja, þó hann legði lífið í hættu fyrir þá
von.
Við fengum
fljótt sönnun fyrir því, hvað vinna þessi er hættuleg.
Eitt sinn þegar svertinginn stakk sér til botns og var að
leggjast á hnén tók hann viðbragð og snéri aftur upp til
bátsins. Þá sá ég eitthvað dökkleitt í sjónum fyrir ofan
hann. Það var hákarl, og synti beint að svertingjanum, með
gapandi gini. Svertinginn vatt sér snögglega til hliðar,
en þá sló hákarlinn sporðinum á hann, svo hann féll til
botns. Hákarlinn snéri að honum aftur og sýndist þá öll
von úti um svertingjann. Í sömu svipan óð Númi skipstjóri
fram móti hákarlinum og mundaði hnífinn. Hákarlinn sá hann
og snéri þegar að honum. Númi lét sér ekki bregða, en
þegar hákarlinn hugðist að gleypa hann, varpaði hann sér
til hliðar og lagði hnífnum á kaf í kvið hákarlinum.
Sjórinn litaðist blóði og sá ég ekki hverju fram fór í
nokkrar sekúndur. Þegar þeir komu í ljós aftur, sá ég að
Númi hélt sér föstum á bæxli hákarlsins og lét hnífinn
ganga í skrokkinn á honum, en náði þó ekki að leggja hann
í hjartað. Hákarlinn braust um ákaflega. Mynduðust iðuköst
í sjónum út frá honum alla vega, svo mikil, að mér lá við
falli. Númi misti loks taksins og féll til botns. Þótti
mér þá sem úti væri um hann. Ég ætlaði að skunda til og
hjálpa honum, en þessi voðasjón fékk svo mikið á mig, að
ég stóð sem steini lostinn og komst ekki úr sporunum. Í
sömu svipan sá ég hvar Ned Land óð fram og hafði á lofti
skutulinn. Þegar hann náði til hákarlsins, rak hann
skutulinn á kaf í skrokkinn á honum. Sjórinn varð að nýju
svo litaður blóði, að ég sá ekki hverju fram fór um hríð.
Ég skreiddist nú á vettvang og var Númi þá staðinn upp.
Hann gekk að Ned Land og tók í hönd honum fast og
innilega.
Svertinginn
var horfinn. Hann hafði komist aftur upp í bátinn sinn, án
þess við tækjum eftir því. Hátt uppi í sjónum sáum við
svart ferlíki. Það var hákarlshræið sem flaut þar og barst
burt með straumnum.
Það var liðið
langt á dag og farið að skyggja. Við urðum því að hafa
hraðann á, að komast til skipsins aftur. Númi valdi nú
aðra leið, styttri og greiðfærari. Við gengum í tvær
stundir eftir sandsléttum. Vóru þær víðast auðar, en
sumstaðar var sægróður mikill, þang og þaraflækjur, taugar
og tágar, sem flæktust um fætur okkar og seinkuðu
ferðinni. Það var nærri aldimt orðið þegar við sáum loks
ljósin á Sæfaranum. Varð ég alls hugar feginn þegar við
náðum loks skipinu, og tókum á okkur náðir eftir ferðalag
þetta.
Sæfarinn hélt
áfram förinni. Hann rann um veglausan sægeiminn eins og
kólfi væri skotið, dag eftir dag. Ég sat lengstum í salnum
við lestur og rannsóknir. Nóg var úr að velja í bókasafni
skipsins. En mest var þó vert um hina miklu bók
náttúrunnar, sem Númi skipstjóri fletti upp fyrir mér á
hverjum degi, á þann hátt að renna hlerunum frá gluggunum.
Sjórinn sjálfur og sædýraríkið var óþrotlegt
rannsóknarefni fyrir mig. Ég fann það brátt, að rit mitt
„Um leyndardóma undirdjúpanna“ þurfti mikilla umbóta við,
því margt reyndist mér þar rangt eða ónákvæmt. Svo hafði
ég mörgu við að bæta, svo næsta útgáfa hlaut að verða
miklum mun stærri.
Leiðin sem
við fórum var mörkuð á kortið daglega, eins og Númi hafði
sagt. Ég fylgdi stefnunni með athygli, vegna rannsókna
minna, því á þeim hafði ég allan hugann og gætti naumast
dagatals eða tímalengdar.
Númi stýrði
gegnum Persaflóann og þaðan inn í Rauðahafið. Hann hélt
stöðugt í norðurátt og þótti mér það furðu gegna, þegar
svona var langt komið.
Lesseps var
að grafa Suezskurðinn mikla um þetta leyti, en hann var
ekki kominn nærri alla leið gegnum eiðið. Hvað ætlaði
skipstjórinn fyrir sér? Ég var stöðugt að hugsa um það,
því mér var farið að þykja nóg um.
Dag einn kom
Númi inn í salinn og spurði ég hann þá þegar, hvert hann
ætlaði að fara.
„Hvers vegna
spyrjið þér svona! Ég ætla auðvitað yfir í
Miðjarðarhafið“, svaraði hann snúðugt. „Ég býzt við að
komast þangað á morgun“.
„Á morgun?“
„Já,
prófessor góður. Eruð þér hissa á því?“
„Það er nú
komið upp úr á mér að vísu, að falla í stafi, þó eitthvað
furðulegt beri við á skipi þessu. En—þá megið þér herða
skriðinn freklega, ef þér ætlið að sigla suður fyrir
Afríku og verða kominn inn í Miðjarðarhaf á morgun“.
„Suður fyrir
Afríku, segið þér hr. prófessor!—Hvaða erindi eigum við
þangað?“
„Ég hélt að
Sæfarinn væri ekki vel fallinn til að ferðast landveg. Og
komist hann ekki yfir eiðið . . . . ?“
„Þá fer hann
undir það“.
„Er það
fært?“
„Já, ég hefi
fundið göng mikil neðansjávar, sem liggja gegnum eiðið,
djúpt í jörðu. Þau kalla ég Arabisku göngin“.
„Hvernig stóð
á því að þér funduð þau?“
„Það skal ég
segja yður“, svaraði skipstjórinn. „Ég hafði veitt því
eftirtekt að í Miðjarðarhafinu og Rauðahafinu vóru nokkrar
fiskitegundir af sama tagi. Kom mér þá til hugar að
samband mundi vera milli hafanna. Nú er sjávarhæðin meiri
í Rauðahafinu og hlaut því að falla straumur úr því yfir í
Miðjarðarhafið. Ég gerði tilraun til að ganga úr skugga um
þetta á þann hátt, að ég veiddi nokkra fiska nálægt
Suezeiðinu, festi eirhringi við sporðinn á þeim og lét þá
svo lausa. Þegar ég kom upp undir Sýrlandsstrendur nokkrum
mánuðum seinna, var ég svo heppinn að rekast á nokkra af
þessum fiskum. Ég átti nú ekki annað eftir en finna opið á
göngunum á botni Rauðahafsins, og það hepnaðist mér um
síðir. Ég hætti mér inn í göngin og komst í gegnum þau
slysalaust. Síðan hefi ég farið um þau mörgum sinnum“.
Mér þótti
þessi frásaga næsta merkileg og flýtti mér að segja
félögum mínum af þessu. Konsæll komst á loft af ánægju, en
Ned Land ypti öxlum.
„Neðansjávargöng“, át hann eftir; „slíkt og þvílíkt hefi
ég aldrei heyrt talað um!“
„Hafið þér
heyrt talað um Sæfarann?“ spurði Konsæll. „Til er hann þó,
og hitt er engu ótrúlegra, að þessi göng séu til“.
„Já, við
verðum víst að vona að svo sé“, sagði Ned, „því fljótar
komumst við inn í Miðjarðarhafið“.
Um hádegisbil
daginn eftir fór Sæfarinn upp að yfirborðinu. Við
félagarnir fórum þegar upp á þilfar. Land var að sjá langt
til austurs, en ógreinilega þó, því þokuslæðingur lá yfir.
Við vórum að
spjalla saman nokkra stund. En alt í einu þagnaði Ned Land
og benti út yfir hafið.
„Lítið þið
á“, sagði hann.
„Ég sé
ekkert“, svaraði ég. „Ég hefi ekki augun yðar“.
„Sjáið þér
ekkert á hreifingu framundan á stjórnborða?“
Ég neytti
sjónarinnar af fremsta megni og kom loks auga á stóra
skepnu, með langan og dökkleitan skrokk.
„Koma fyrir
hvalir í Rauðahafinu?“ spurði Konsæll.
„Það ber við
að þeir flækjast þangað“, svaraði ég.
Ned Land
hafði ekki augun af dýrinu. „Þetta er ekki hvalur“, sagði
hann. „Ég þekki hvalina og þeir þekkja mig“.
Sæfarinn
nálgaðist skepnuna óðfluga.
„Hvaða
herjans dýr er þetta!“ hrópaði Ned Land. „Það hefir ekki
klofinn sporð, eins og hvalur, og önnur sundfæri þess
líkjast klunnalegum útlimum á landdýri“.
„Það er
sækýr, ef húsbóndanum þóknast“, sagði Konsæll.
„Nei, það er
ekki sækýr“, sagði ég. „Það er eins konar hvalur af
höfrungakyni, sem er orðinn mjög fágætur. Hann er kallaður
dýkingur.“
Ned Land
hafði ekki augun af hvalnum. Honum stóð alveg á sama um
nafnið. En svona hval hafði hann ekki séð áður, og brann
nú í skinninu af vígahug.
„Svona hval
hefi ég aldrei drepið“, sagði hann.
Í þessum
svifum kom Númi skipstjóri upp á þiljur og heyrði hvað Ned
Land sagði.
„Munduð þér
vera fáanlegur til að taka upp fyrri starfa yðar, rétt í
þetta sinn?“ spurði Númi.
Ned Land
þreif ósjálfrátt báðum höndum til skutulsins.
„En ég vil
ráða yður til að missa ekki marks. Það getur riðið yður
sjálfum á miklu“, bætti Númi við.
Ned Land
setti upp kæruleysis- og fyrirlitningarsvip, en svaraði
engu.
„Eru þeir
illir viðureignar, dýkingarnir?“ spurði ég.
„Já, í meira
lagi“, svaraði Númi. „Það eru dæmi þess að þeir hafa
ráðist á hvalveiðamenn og hvolft bátunum undir þeim. Ég er
ekki hræddur um Ned Land, þó ég segði svona. Ég sagði það
af því ég veit, að honum þykir gott kjöt, en kjötið af
dýkingnum er mesta sælgæti“.
Númi kallaði
niður í skipið og komu þá 7 menn upp að vörmu spori. Þeir
losuðu bátinn og settu hann á flot. Sex menn settust undir
árar en einn fór að stýrinu. Við félagarnir þrír komum
okkur fyrir í skutnum. Númi varð eftir í Sæfaranum.
Skipverjar
ýttu frá og lögðust á árarnar. Sóttist róðurinn fljótt og
vórum við komnir í námunda við hvalinn innan lítillar
stundar. Þegar fáir faðmar vóru eftir, hægðum við ferðina.
Ned Land fór fram í stafninn og stóð þar með reiddan
skutulinn. Skutultaugin var ekki föst í bátnum, eins og
vanalegast er, heldur var endinn á henni festur við dufl,
sem flaut á yfirborðinu, en línan var í sjó. Mátti sjá af
því hvað skutlinum leið.
Þessi
dýkingur var óvanalega stórvaxinn, ýkjulaust 10 álnir á
lengd. Hann lá í sjóskorpunni og hreyfði sig ekki, heldur
en hann væri sofandi. Mátti því komast mjög nærri honum.
Báturinn
nálgaðist smátt og smátt, þangað til ekki vóru eftir nema
3 faðmar; þá vóru árarnar lagðar upp.
Ned Land stóð
í stafni með reiddan skutulinn. Alt í einu heyrðist hvinur
mikill og hvarf dýkingurinn í sömu svipan. Skutullinn
hafði auðsjáanlega geigað frá beinni stefnu.
„Fari hann í
sjóðbullandi!“ öskraði Ned Land í bræði sinni. „Hann slapp
undan skutlinum“.
„Ekki alveg“,
sagði ég. „Hann hefir fengið skeinu talsverða, því sjórinn
er blóðlitaður“.
„Skutulinn!“
hrópaði Ned Land.
Hásetarnir
þrifu árarnar og reru þangað sem duflið flaut. Þegar
skutullinn var kominn upp í bátinn var farið að elta
dýkinginn.
Hann var ekki
særður til muna, því hann synti hratt. Hásetarnir lögðust
á árarnar af öllum mætti. Við komumst í skotmál hvað eftir
annað, og Ned Land var að því kominn að kasta skutlinum,
en þá fór dýkingurinn jafnan í kaf, svo að við mistum
hans. Þessi eltingaleikur stóð yfir í fulla klukkustund.
Ég var farinn að halda að við yrðum að hætta við svo búið,
en þá varð sú breyting á, að dýkingurinn snéri við alt í
einu og kom rakleitt á móti okkur.
Ned Land var
viðbúinn að taka á móti honum.
„Varið ykkur
piltar!“ sagði hann.
Stýrimaðurinn
sagði nokkur orð á sínu máli, sem að líkindum þýddu
eitthvað svipað því sem Ned Land hafði sagt.
Það fór eins
og við höfðum búist við, að dýkingurinn réði þegar á
bátinn og velti honum á annað borðið svo sjór féll inn.
Var það snarræði stýrimannsins að þakka, að bátnum hvolfdi
ekki. Hvalurinn beit því næst í borðstokkinn og vó bátinn
á loft með kjaftinum, hvað eftir annað. Ned Land hélt sér
með annari hendi, en í hinni hafði hann skutulinn og lét
hann ganga jafnt og þétt í skrokkinn á hvalnum. Við
kútveltumst hver um annan þveran í bátnum og hefðum
eflaust bráðlega hlotið meiðsl eða bana, ef Ned Land hefði
ekki tekist að leggja dýkinginn í hjartað. Hann linaðist í
átökunum, tennurnar urguðu við járnið; svo misti hann
taksins og sökk.
Duflinu skaut
upp að vörmu spori og hvalnum rétt á eftir. Hann var þá
dauður. Við festum taug við sporðinn á honum, og hinum
endanum við bátinn. Svo rerum við í áttina til Sæfarans
með hvalinn í eftirdragi.
Seinna um
daginn átum við kjöt af honum að miðdagsverði. Var það
bragðgott og engu líkara en nautakjöti.
Daginn eftir
héldum við áfram norður á bóginn, í hægðum okkar. Um
náttmálaskeið var Sæfarinn við yfirborðið og fór ég þá upp
á þilfar. Mig var farið að langa til að sjá sægöngin sem
skipstjórinn hafði sagt mér af, og fór nú að athuga hvar
við værum staddir. Þoka var yfir og myrkt af nóttu. Ég sá
grylla í rauðleitt ljós í nokkurri fjarlægð.
„Fljótandi
viti“, var sagt við hliðina á mér.
Það var Númi
skipstjóri sem talaði.
„Þetta er
vitinn í Suez“, sagði hann. „Við erum þá og þegar komnir
að göngunum“.
„Er ekki
vandfarið gegnum göngin?“ spurði ég.
„Ójú, ég er
vanur að vera í stýrisklefanum sjálfur og segja fyrir um
stefnuna. En nú verðum við að fara niður“.
Þegar við
vórum komnir niður, var öllum hlerum lokað og búið um
vandlega. Sjór var tekinn inn í einn klefann og sökk þá
Sæfarinn niður í 6 faðma dýpi.
Ég ætlaði að
hverfa til herbergis míns, en Númi skipstjóri kallaði á
mig.
„Langar yður
ekki til að koma með mér inn í stýrisklefann, prófessor
góður?“ spurði hann.
„Jú, ég tek
mér til þakka“.
Stýrisklefinn
var 3 álnir á hvern veg og lítið eitt hærri. Stýrishjólið
var í honum miðjum. Glerrúður kúptar og sterkar vóru á
hverri hlið og mátti sjá út um þær í allar áttir frá
skipinu.
Ekkert ljós
var þar inni. En skímu lagði inn um gluggana frá
ljóskerunum utan á skipinu. Maður stóð við stýrishjólið og
hélt báðum höndum um húnana. Hann var mikill vexti og
þreklegur.
Rafmagnsþræðir láu úr klefanum niður í vélrýmið og var sá
umbúnaður við endana, að Númi gat ráðið stefnu skipsins og
hraða með mestu nákvæmni. Hann hægði þegar ferðina að
miklum mun.
Ég stóð við
gluggana á bakborða, og virti fyrir mér háa hamra, sem við
fórum með fram. Númi hafði ekki augun af áttavitanum. Hann
sýndi stýrimanni með bendingum hvernig hann ætti að stýra.
Þegar klukkan
var 15 mínútur gengin í 11 tók skipstjórinn sjálfur
stýrið. Sáum við þá eins og hellismunna heljarstóran fram
undan okkur. Inn í hann stefndi Sæfarinn. Úti fyrir
heyrðist óvanalegur hávaði og straumur. Það var sjórinn úr
Rauðahafinu, sem hallans vegna braust með heljar afli
gegnum göngin, út í Miðjarðarhafið. Sæfarinn barst með
straumnum eins og kólfi væri skotið og hafði þó vélin
aftur á af öllum mætti.
Ég var með
öndina í hálsinum af undrun og aðdáun. Göngin vóru svo
þröng, að skipið straukst nærri með hliðveggjunum. Var sem
eldrákir með öllum litum regnbogans flýgju fyrir gluggana,
vegna birtunnar sem lagði á bergið frá skipinu.
Klukkan 5
mínútur yfir hálf 11 slepti Númi stýrishjólinu og snéri
sér að mér.
„Miðjarðarhafið!“ sagði hann.
Ferðin undir
eyðið hafði ekki staðið yfir nema 20 mínútur.
Morguninn
eftir hitti ég Ned Land og Konsæl á þilfarinu. Þeir höfðu
sofið báðir á leiðinni gegnum sægöngin og ekki haft
hugmynd um hvað fram fór.
„Þá erum við
nú komnir í Miðjarðarhafið“, sagði ég.
„Ekki held ég
það sé nú orðið enn“, sagði Ned Land.
„Svo er það
ei að síður“, sagði ég. „Ströndin sem við sjáum móta fyrir
í suðri er Egiptaland“.
„Já, annað
hvort það, eða eitthvað annað“, svaraði Ned.
„Úr því
húsbóndinn segir að svo sé, þá verðið þér að trúa
húsbóndanum“, sagði Konsæll.
„Þér, Ned
Land, sem hafið svo hvassa sjón, hljótið að sjá
hafnarvirkin í Port Said“, sagði ég.
Ned Land
horfði þangað stundarkorn. „Jæja, það er fyrirtak“, sagði
hann. „Við erum þá í Miðjarðarhafinu í raun og veru.
Heyrið þér prófessor, við getum þá farið að ráða ráðum
okkar“.
Ég vissi vel
hvað Ned Land átti við, en ég lét sem ég skildi hann ekki.
„Er ekki
einmitt núna tækifæri til að strjúka frá Sæfaranum?“ hélt
hann áfram.
„Það er nú
hægar ort en gert“, sagði ég.
Ned Land var
bráðlátur eftir frelsinu, og orðinn heldur skapstyggur upp
á síðkastið.
„Það getur nú
verið“, sagði hann. „En einhver endir verður að vera á
þessu“.
Ég vissi það
vel, að Ned Land átti óþolandi æfi á skipinu. Hann var
vanur sjálfræði og svaðilförum á hvalaveiðum. Það lamaði
þrótt hans og heilsu, að vera einangraður svona í
iðjuleysi. En ég reyndi að draga flóttann á langinn, því
ég átti margt eftir óséð og órannsakað í hafinu.
„Alt hefir
einhvern enda“, sagði ég. „Þegar við komum í námunda við
Frakkland, England eða Norður-Ameríku, getur vel farið svo
að betra færi bjóðist, þegar minst varir“.
„Þegar við
komum þangað eða þangað“ sagði Ned og ygldi brúnina. „En
nú erum við í Miðjarðarhafinu.—Er það ekki eins gott og
allir hugsanlegir staðir aðrir?“
Ned hafði
rétt að mæla, svo að ekki varð á móti borið. Ég vissi ekki
hverju ég átti að svara.
„Hvað heldur
Konsæll um þetta?“ spurði Ned Land.
Konsæll sagði
það sannast, að hann hefði enga hugmynd gert sér um þetta.
Hann átti enga vini eða ættingja, sem þráðu hann. Hann var
allur þar sem ég var. Hans skilningur á málinu var, í fám
orðum sagt, „eins og húsbóndanum þóknaðist“.
Ég var
neyddur til að fastákvarða eitthvað.
„Ég er
hræddur um, að við getum ekki bygt neitt á Núma
skipstjóra“, sagði ég. „Okkur er kunnugt um leyndarmál
hans og þess vegna lætur hann okkur ekki lausa. Við verðum
því að nota fyrsta færi sem gefst til að strjúka frá
Sæfaranum“.
„Það er
einmitt það sem ég hefi í hyggju“, svaraði Ned.
„En fyrsta
tilraunin verður að lánast“, sagði ég. „Lánist hún ekki,
verður okkar gætt svo vandlega, að færið gefst aldrei
aftur. Við verðum að fara varlega“.
„Rétt er
það“, sagði Ned Land. „En gefist gott tækifæri,—ætlið þér
þá að vera tilbúinn að nota það?“
„Já“.
Ned Land
hafði hugsað sér, að annaðhvort yrðum við að synda í land,
ef Sæfarinn flyti nálægt landi að nóttu til, eða við
tækjum bátinn og rerum til lands á honum. En þetta
hvorttveggja var ógerlegt, eins og nú stóð á. Sæfarinn
hélt sig langt frá löndum og var lengstum í kafi; rétt
eins og skipstjórinn hefði eitthvert hugboð um ráðagerð
okkar.
Einn dag sem
oftar var ég sokkinn niður í rannsóknir mínar, inni í
salnum. Við vórum þá komnir suður fyrir Krít. Kom þá yfir
mig svo mikill hiti, að ég varð að losa um föt mín. Ég
skildi ekki í því hvaðan sá hiti stafaði. Við vórum
staddir á 10 faðma dýpi, en þar er hitinn litlum
breytingum háður. Mér datt í hug að einhver veiki væri að
leggjast á mig. En hélt þó áfram við iðju mína; en hitinn
óx og varð með öllu óþolandi. Ég ætlaði að fara burt úr
salnum, en í því kom Númi skipstjóri inn, og gekk að
hitamælinum.
„Fjörutíu og
tvö stig“, sagði hann.
„Já, hvaðan
sem þessi hiti stafar, þá er hann óþolandi“, sagði ég.
„Hann verður
ekki meiri en við viljum vera láta“, sagði Númi.
„Þá finst mér
að þér ættuð að draga úr honum“, sagði ég.
„Það get ég
ekki“, sagði skipstjórinn. „En ég get siglt burt frá
honum“.
„Kemur hann
utan að?“ spurði ég.
„Já, skipið
flýtur í sjóðheitum sjó“.
Í sömu svipan
var gluggahlerunum skotið frá. Sá ég þá að sjórinn var
hvítur umhverfis Sæfarann. Alt var ein gufuólga eins og í
sjóðandi hver.
Ég studdi
hendinni á rúðuna, en varð að kippa henni að mér hið
bráðasta, vegna hitans.
Númi sagði að
við værum í nánd við eldfjall neðansjávar, sem væri að
gjósa.
Ég leit út um
gluggann. Sæfarinn lá kyr, því engin leið var að komast
lengra, vegna hitans. Sjórinn breytti lit og roðnaði smátt
og smátt. Stafaði sá litur frá síndri og ösku sem
þyrlaðist í sjónum eins og ryk í lofti. Brennisteinsfýlu
megna lagði um skipið, en í nokkurri fjarlægð brutust fram
lyfrauðar logatungur, svo bjartar, að rafljós Sæfarans
varð að engu fyrir þeim.
Nú var ekki
viðlit að haldast við lengur vegna hitans.
Númi skipaði
að snúa við. Stundarfjórðungi síðar drógum við að okkur
svalt og hreint loft á yfirborði sjávar.
VI.
Við vórum
komnir út í Atlantshaf.
Ned Land var
inni hjá mér. Við höfðum enga tilraun getað gert til að
flýja á leiðinni gegnum Miðjarðarhafið. Nú sat hann þarna
brúnaygldur og beit á jaxlinn.
„Það er engin
ástæða til að láta hugfallast“, sagði ég. „Nú förum við
upp að Portúgalsströndum. Frakkland og England eru skamt á
burtu. Ég trúi ekki öðru en færi gefist eftir nokkra
daga“.
Ned Land leit
á mig og opnaði munninn.
„Það verður
að gerast í kvöld“, sagði hann.
Mér hnykti
við. Ég hafði satt að segja ekki búist við svo skjótri
breyting á högum mínum. Mér varð orðfátt í svipinn.
„Í kvöld
verðum við örfáar mílur undan landi“, sagði Ned Land.
„Nóttin er dimm og vindur stendur á land. Þér hafið heitið
að láta ekki standa á yður, hr. prófessor“.
Ég svaraði
engu.
„Klukkan
níu!“ sagði hann ennfremur. „Þá er Númi inni í klefa sínum
og skipverjar geta ekki heyrt til okkar. Í bátnum eru
árar, mastur og segl. Ég hefi fengið mér skrúflykil,
mátulegan fyrir skrúfurnar sem báturinn er festur með. Alt
er til taks. Konsæll verður með mér, þegar ég fer að losa
bátinn, en þér bíðið í bókaklefanum þangað til ég gef yður
vísbendingu“.
Ned Land gekk
út, og beið ekki eftir að ég svaraði. Og þegar á alt var
litið,—hverju átti ég að svara? Það var rétt sem hann
sagði, við urðum að nota tækifærið. Við gátum verið komnir
langt út í haf daginn eftir.
Ég hélt til í
herberginu mínu það sem eftir var dagsins. Ég var í svo
mikilli geðshræringu, að ég var hræddur um að Númi veitti
því eftirtekt, ef hann sæi mig. Tilfinningar mínar voru
tvískiftar: Ég hlakkaði til að verða aftur frjáls maður og
komast til vina og vandamanna. En mér leiddist að skilja
við hið mikla furðuverk mannlegrar snildar, Sæfarann, og
vera ekki hálfnaður með vísindaleg störf og rannsóknir sem
ég hafði með höndum. Það var ljóti dagurinn. Ýmist
hugleiddi ég alla þá ánægju, sem ég nyti þegar ég kæmi á
land, eða ég óskaði með sjálfum mér að eitthvað kæmi
fyrir, sem hindraði Ned Land að fremja fyrirætlun sína.
Miðdagsmatinn
át ég ekki fyr en kl. var orðin sjö. Þá vóru einir 2 tímar
eftir! Óþreyjan ætlaði að gera út af við mig. Ég gat ekki
setið kyr, en varð að fara að ganga um gólf. Mér datt í
hug að alt gæti komist upp áður en við kæmumst burt frá
skipinu. Og svo yrðum við dregnir fyrir Núma skipstjóra,
sem yrði stórreiður, eða það sem verra var, hryggur yfir
því, að ég skyldi bregðast honum. Ég fékk ákafan
hjartslátt.
Ég gekk inn í
salinn til að sjá enn einu sinni herbergið, sem ég hafði
lifað í svo margar ánægjustundir og drukkið af bikar
vísindanna, og virða fyrir mér í síðasta sinn öll þau
furðuverk, sem þar vóru geymd.
Klukkan sló
átta.
Ég leit á
skipstjórnaráhöldin. Áttavitinn sýndi að við héldum áfram
norðureftir, með fram ströndinni. Hraðinn var ekki mikill
og djúpstaða skipsins var 10 faðmar. Alt þetta var svo
hentugt sem orðið gat fyrir fyrirætlun okkar.
Svo snéri ég
aftur inn í herbergið mitt, fór í hlýjan fatnað, tók saman
skjöl mín öll og annað sem ég þurfti að hafa meðferðis.
Svo var ég ferðbúinn.
Þegar klukkan
var að verða níu, lagði ég eyrað við hurðina á
skipstjóraklefanum og hleraði, en varð einskis var. Ég
yfirgaf herbergið mitt og fór inn í salinn. Þar var
hálfbjart og enginn maður inni.
Ég opnaði
dyrnar að bókaklefanum, þar var jafn draugalegt. Ég
staðnæmdist við hurðina sem lá að miðskips-ganginum og
beið þar eftir vísbendingu frá Ned Land.
Alt var kyrt
og hljótt. Snúningshnykkir vélarinnar var eina hljóðið sem
heyrðist. En meðan ég stóð þarna og hlustaði, urðu þeir
smátt og smátt strjálli og hægari og hættu loks með öllu.
Hvað var nú á
seyði? Dauðaþögn var alt umhverfis. Blóðið suðaði fyrir
eyrum mér eins og ég væri með hitasótt.
Ég varð var
við dálítinn kipp, sem ég kannaðist við. Sæfarinn var að
leggjast á mararbotninn, en engin vísbending kom frá Ned
Land.
Alt í einu
opnaðist hurðin að salnum og Númi skipstjóri kom inn.
„Þér eruð þá
hérna“, sagði hann, „ég hefi verið að leita að yður
alstaðar. Eruð þér kunnugur sögu Spánverja?“
Ég var svo
ruglaður, að ég mundi ekki í svipinn eitt orð úr sögu
Spánar. Að eins örfá nöfn flugu mér í hug: Philip—númer
eitthvað og Karl—Karl fimti. En það var víst ekki þetta,
sem skipstjórinn átti við.
Ég heyrði
hann endurtaka spurninguna, og gerði nú mitt ítrasta til,
að koma fyrir mig orði.
„Ég er mjög
illa að mér í henni“ svaraði ég.
Númi ypti
öxlum og settist niður. Ég settist líka, eins og
ósjálfrátt.
„Þá skal ég
segja yður dálitla sögu“, sagði Númi. „Lúðvík 14. konungur
yðar gerði sonarson sinn að konungi á Spáni, eins og yður
er kunnugt um. Lúðvík lét alt eftir sér, sem hann gat.
Spánverjum mátti líka standa nokkurn veginn á sama hvort
þeim var illa stjórnað af frönskum prins eða austurrískum,
enda létu þeir svo búið standa. En Holland, Austurríki,
England og Þýzkaland bundust samtökum til að koma honum
frá völdum og setja í stað hans erkihertoga frá
Austurríki.
Spánverjar
höfðu hægt um sig. Það var það eina sem þeir gátu gert.
Filippus gerði slíkt hið sama. Hann gerði það eina sem í
valdi hans stóð, en það var að senda til Ameríku eftir
peningum. Síðari hluta ársins 1702 stefndu nokkur skip,
hlaðin gulli, að ströndum Spánar. Þeim fylgdi franskur
herfloti undir forustu Chateau-Renards. Þeim var ætlað að
lenda í Kadiz; en sú borg var þá í hervörzlum enskra
skipa. Chateau-Renard fór þá vestur með landi og inn í
Vióflóann við útnorðurströnd Spánar. Þar ætlaði hann að
koma gullinu á land. En þá risu borgararnir í Kadiz upp
öndverðir og andmæltu því. Þeir áttu einkarétt á að
afferma öll skip, sem komu frá amerísku nýlendunum, og
héldu nú fast á þessum rétti sínum. Filippus var gunga og
þorði ekki annað en gera að vilja þeirra. Flotinn lá í
Vióflóanum þangað til enskur floti, miklu stærri, kom og
réði á hann 22. október.
Chateau-Renard
varðist í lengstu lög. En þegar hann sá ekkert undanfæri
lengur kveikti hann í skipunum og þar sukku öll auðæfin í
sjávardjúp“.
Ég heyrði
tæplega hvað Númi sagði, og því síður að ég fylgdist með
efninu. Ég hafði allan hugann á fyrirætlun okkar
félaganna, og beið eftir því sem verða vildi.
Númi horfði á
mig með háðslegu augnaráði, og reyndi ég þá að láta svo
sem ég veitti máli hans glögga athygli.
„Núna erum
við staddir í Vióflóanum“, sagði hann. „Viljið þér líta á,
prófessor?“
Númi stóð upp
og gekk inn í salinn. Ég fór á eftir honum. Ekki var ljós
þar inni, en gluggarnir vóru opnir og sjórinn uppljómaður
kring um skipið.
Rafljósið bar
birtu langan veg yfir mararbotninn til allra hliða og
mátti glögt greina alla hluti sem nálægir voru, eins og um
hádag væri, á þurru landi. Botninn var sléttur og þakinn
hvítum sandi. Skipsflök láu til og frá og kringum þau
breiður af kössum, kirnum og alls konar hlutum öðrum.
Innanum alt þetta láu dyngjur af gulli, slegnu og óslegnu,
silfri og gimsteinum. Nokkrir menn af Sæfaranum vóru að
vinnu kringum skipið, klæddir kafarabúningi. Þeir söfnuðu
gulli og gimsteinum í stórar byrðar og báru inn í
Sæfarann. Fór svo fram um stund.
Mér fanst svo
mikið um þessa sjón, að ég gætti í svipinn einskis annars,
en virða fyrir mér auðæfin, sem dyngt var inn í skipið.
„Skilst yður
nú að ég sé auðugur?“ spurði Númi. „Svo er víst“, svaraði
ég, „en hvað getið þér gert við alt þetta fé?“
„Hvað ég geri
við féð!“ át hann eftir. Svo stóð hann hugsi stundarkorn
og horfði út í sjóinn. Gremjulegt bros lék um varir hans,
þegar hann tók til máls aftur: „Þér haldið auðvitað að ég
sé með öllu skilinn að skiptum við þurlendið og þá, sem
það byggja. En þegar ég nú segi yður, að svo er ekki, þá
skilst yður sjálfsagt, að ég hafi nóg við féð að gera“.
Númi settist
niður við gluggann, snéri sér að mér og tók aftur til
máls:
„Ég sé að þér
skiljið það, þér vitið eins vel og ég, að alt má kaupa
fyrir peninga þar efra. Það er ekki nóg að fórna lífi sínu
og sinna, þó hver einstaklingur heillar þjóðar úthelli
blóði sínu fyrir fósturjörðina,—hver hirðir um það!
Hjartablóð heillar þjóðar er einskis virði í kauphöllinni.
Alt er að engu metið nema peningar, miklir peningar!„ Númi
spratt upp og krepti hnefana. “Kaupmenn, kaupmenn!“
þrumaði hann. „Dýrslega sinnaðir, samvizkulausir . . . “
Hann þagnaði
alt í einu, eins og hann þættist hafa sagt meira en hann
ætlaði. Eftir stundarþögn snéri hann sér aftur að mér og
var þá búinn að ná aftur sínum vanalega svip hörku og
stillingar.
„Margir eru
bágstaddir þar efra og þurfa hjálpar með“, sagði hann og
fór út úr salnum.
Mér varð
litið út og sá að mennirnir vóru enn að bera inn gullið.
En ég festi ekki hugann við það frekar.
Mér skildist
það á því sem Númi sagði, að hann mundi hafa verið flæmdur
út úr mannfélaginu og að hann hefði lagt mikið í sölurnar
fyrir eitthvert málefni. En hvaða málefni? Og hver var
hann?
Ég var alveg
búinn að gleyma flóttatilraun okkar. Ég lá andvaka
mestalla nóttina og var að brjóta heilann um Núma
skipstjóra.
Morguninn
eftir kom Ned Land inn til mín og vakti mig. Hann
staðnæmdist fyrir innan þröskuldinn, stakk höndunum í
vasana og var alt annað en hýr á svipinn.
„Það varð
lítið úr þessu, í gær“, sagði ég til að rjúfa þögnina.
„Já,
skipstjóra-þrælbeinið þurfti nauðsynlega að koma út í því
ég ætlaði upp í bátinn“, svaraði Ned.
„Hann var að
taka út peninga í gærkveld“, sagði ég.
Ned Land leit
við mér gremjulega. Hann var ekki á því að taka gamni.
Ég sagði
honum frá öllu sem ég hafði séð og heyrt, kvöldið áður. En
það hafði alls engin áhrif á hann.
„Við verðum
að reyna aftur í kvöld“, sagði hann.
„Í hvaða átt
höldum við núna?“ spurði ég.
„Veit það
ekki“.
„Jæja, við
skulum athuga það um hádegið“.
Ned Land fór
aftur inn til Konsæls. Þegar ég var klæddur, fór ég inn í
salinn. Áttavitinn spáði ekki góðu. Sæfarinn stýrði í
suður—landsuður. Við snérum baki við Evrópu!
Ég beið með
óþreyju eftir því, að leið skipsins yrði mörkuð á kortið.
Klukkan hálf tólf vóru sökkviklefarnir tæmdir og Sæfaranum
skaut upp að yfirborðinu. Ég flýtti mér upp á þilfar. Ned
land var kominn þangað á undan mér.
Við sáum
hvergi til lands. Ekkert annað en endalausa hafbreiðuna og
nokkur segl út við sjónhringinn. Ylgja var í sjóinn og
skýjafar mikið á lofti. Það var stórviðri í aðsigi.
Ned Land náði
ekki upp í nefið á sér fyrir gremju. Þegar dró frá sólu
rétt á eftir, leitaði hann landa með augunum, en varð
einskis var. Næstráðandi notaði tækifærið til að taka
sólarhæðina.
Stundu síðar
leit ég á kortið. Við vórum 100 mílur undan landi. Öll von
um undankomu var úti að þessu sinni.
Ned Land féll
það þungt, en mér varð aftur hughægra, og fór nú að gefa
mig við rannsóknum mínum í ró og næði, eins og áður.
Númi
skipstjóri kom inn til mín um kvöldið og spurði með mestu
alúð, hvort mig langaði ekki til að vera með sér á útgöngu
á mararbotni.
„Þér hafið
jafnan verið á þess konar ferðum að deginum. Langar yður
ekki til að fara eina ferð að næturlagi?“ sagði hann.
Ég þektist
það.
„Ég skal
segja yður það fyrir, að þetta verður löng og ströng
ganga. Við förum upp á hátt fjall og vegirnir eru illa
ruddir hér í djúpinu“, bætti hann við og brosti.
Ég kvaðst
vera við öllu búinn. Svo fórum við niður að hafa
fataskifti. Ég þóttist vita að við ættum að vera tveir
einir, því Númi hafði ekki boðið félögum mínum að vera með
í förinni.
Það gekk
fljótt að koma okkur í kafarafötin. Þéttiloftshylkin vóru
bundin á bak okkur, en það leit út fyrir að þeir ætluðu að
gleyma rafljóskerunum, og hafði ég orð á því við
skipstjórann.
„Við þurfum
ekki á þeim að halda“, sagði hann.
Ég hélt að
mér hefði misheyrst, en varð of seinn til að endurtaka
spurninguna, því Númi var þá búinn að setja upp hjálminn.
Mér var fenginn járnsleginn stafur í höndina. Að því búnu
gengum við út á botn Atlantshafsins á hundrað og fimmtíu
faðma dýpi.
Klukkan var
tólf um nóttina, þegar við lögðum af stað. Ljósin á
Sæfaranum lýstu okkur á veg en hurfu brátt sýnum. Vórum
við þá staddir í nyðamyrkri.
Númi benti
mér á rauðleitan depil í svo sem mílu fjarlægð. Þegar
lengra dró varð hann bjartur sem eldur og bar svo mikla
birtu um sjóinn, að vel var ratljóst.
Mararbotninn
var sléttur en fór hækkandi. Hallinn var þó svo lítill að
við urðum hans varla varir. Við þrömmuðum áfram jafnt og
þétt og stefndum á ljósdepilinn. Förin gekk þó heldur
seint. Víða sukkum við niður í aurbleytu eða flæktumst í
þangbeðjum, og innanum þetta var krökt af skelstönglum og
hellusteinum.
Ég heyrði
yfir höfði mér einskonar snark, eða smelli, sem urðu
stundum svo hvellir, að þeir líktust stöðugri skothríð.
Þetta var stórfeld rigning, sem dundi á yfirborðinu. Var
þetta, með öðru fleira merki þess, hve glögt hljóð heyrist
gegnum vatn. Mér flaug í hug sem snöggvast, að nú mundi ég
verða holdvotur í rigningunni. En svo hló ég að sjálfum
mér. Ég hafði gleymt því í svipinn, að ég var staddur
niðri í vatni í vatnsheldum kafarafötum.
Eftir hálfrar
stundar göngu urðu fyrir okkur klettar og urðir. Vóru
allar gjótur fullar af blikdýrum, sæfjöðrum og öðrum
óþektum skeldýrum, sem öll loguðu í maurildisglæringum, en
steinarnir vóru þaktir sæurtum og íglum. Var heldur sleipt
undir fæti sumstaðar og kom mér nú stafurinn í góðar
þarfir. Þegar ég leit aftur, sá ég móta fyrir ljósinu á
ljóskeri Sæfarans, en mjög ógreinilega sökum
fjarlægðarinnar.
Það vakti
athygli mína, að grjóturðirnar, sem við fórum yfir, vóru
einkennilega reglulega lagaðar. Sumstaðar sá ég langar
glufur eða gjótur, sem lágu eitthvað út í myrkrið, svo
hvergi sá fyrir endann á þeim. Ég varð líka var við, að
eitthvað var alt af að brotna undir blýskónum mínum. Var
brothljóðið líkast því, sem það væru þur bein. Ég laut
niður og tók um einn af þessum hlutum. Kom þá í ljós að
þetta var í raun og veru bein, og ég gat ekki betur séð en
það væru mannsbein.
Ljósið sem
við stefndum á, fór alt af stækkandi, eftir því sem nær
dró. Var það nú að sjá sem stórkostlegt bál, út við
sjónhringinn. Ég fór nú að verða forvitinn, en var þó við
öllu búinn. Ég var búinn að sjá og reyna svo margt
furðulegt á þessum sæferðum. Skyldi vera mannabygð þarna,
hugsaði ég með sjálfum mér. Ætli skipstjórinn eigi nú ekki
vini þarna, sem hann ætlar að heimsækja, menn sem hafa
verið reknir í útlegð og fundið griðastað þarna á
mararbotni, menn sem hafa verið orðnir fullsaddir af lýgi,
ranglæti og yfirdrepskap mannkynsins!
Ekki var það
óhugsandi. Ég var orðinn auðtrúa eftir öll þau undur og
kraftaverk, sem ég hafði reynt af Núma skipstjóra. Það gat
hugsast að hér væri bygð borg af vitrum mönnum og
hugrökkum, sem þektu tökin á lögmálum náttúrunnar og
skildu leyndardóma hennar.
Það lýsti
meir og meir umhverfis okkur. Skínandi birtu lagði upp af
fjallstindi fram undan okkur, á að gizka 800 feta háum. Ég
sá þó ekki ljósið sjálft, en birtan brotnaði í sjónum og
barst til allra hliða. Ljóslindin sjálf, hver sem hún svo
var, hlaut að vera hinum megin við fjallið, því sú hliðin,
sem að okkur snéri var hulin skugga, en hnúkar og
hamraskörð báru við ljóshafið hins vegar.
Númi skálmaði
áfram hratt og hiklaust, yfir urðir og ógöngur og hvað sem
fyrir varð. Var auðséð, að hann hafði farið hér um áður og
var kunnur öllum leiðum. Ég fylgdi eftir hiklaust og
ósmeikur. Ég dáðist að Núma og hafði á honum tröllatrú;
mér kom ekki einu sinni til hugar, að hann gæti farið
afvega.
Eftir
klukkutíma göngu komum við að fjallsrótunum. Varð þar
fyrir okkur einstigi eitt mjótt og ilt yfirferðar, en ekki
mátti annan veg komast upp í fjallshlíðina. Til beggja
hliða var trjáskógur mikill og hrikalegur. Ekki vóru það
lifandi lauftré sem við sáum, heldur lauflausir og lífvana
steingervingar sem mynduðu þennan mirkvið. Var hann líkur
afarstórri kolanámu, sem enn hafði ekki orðið fyrir
þrýstingi þungra jarðlaga. Trén stóðu á sterkum rótum í
botninum, en kolsvartar greinarnar gnæfðu upp í skínandi
sjóinn líkt og kliptar bréfmyndir, límdar á gluggarúðu að
kvöldi dags. Gatan var gróin íglum og þara og þakin
aragrúa af skeldýrum. Við gengum ýmist eða klifruðum yfir
kletta og klungur, klofuðum yfir fallna trjástofna og
tróðumst gegnum þaraflækjur, sem fléttaðar vóru milli
trjágreinanna.
Að baki okkur
grilti ég klettaklungrin svört og hrikaleg, en fram undan
glóði rauður ljósbjarminn og geislastafirnir stefndu í
allar áttir, með undarlegum litbrigðum og ljósbroti. Hér
og hvar losnuðu stórir steinar undan fótum okkar, og ultu
ofan brekkuna með dynkjum og skruðningi, sem skriða félli.
Til beggja handa lágu gjár og glufur kolsvartar og svo
langar, að ekki sá fyrir endann. Sumstaðar urðu fyrir
okkur bjartir gangar og greiðir stígar, eins og væru það
vegir ruddir af manna völdum. Ég bjóst við að mæta sæbúum
þessum þá og þegar.
Númi hélt
stöðugt áfram upp brekkuna og ég vildi ógjarna dragast
aftur úr. Kom nú stafurinn í góðar þarfir, því mjó og tæp
var gatan sumstaðar, en hengiflug að neðan. Furðu greitt
gekk þó ferðin, og ekki fann ég til lofthræðslu. Stundum
hljóp ég yfir hyldýpisgjár, sem mér hefði óað við uppi á
þurlendinu, eða ég stiklaði yfir þær á völtum trjástofnum.
Það var eins og ég yrði ekki var við hættuna, svo var
hugur minn gagntekinn að hrikafegurð eyðimerkur þessarar.
Á stöku stað slúttu klettarnir fram yfir undirstöðu sína,
eins og þeir væru að leika sér að því, að bjóða
jafnvægislögmálinu byrginn, og enn sá ég þar háa og
hornótta steindranga gnæfa við himininn, svo hallfleytta
og mjóa að neðan, sem væru þeir með öllu undanþegnir
þyngdarlögmálinu.
Þéttleiki
vatnsins olli því, að mér var ótrúlega létt um allar
hreifingar. Kafarafötin vóru ákaflega þung; ég hafði
koparhjálm á höfði og þykka blýsóla undir iljunum; þó
stiklaði ég eins og steingeit upp snarbrattar brekkur og
fann ekki til þreytu eða mæði.
Að liðnum
tveim stundum frá því við fórum af stað, vórum við komnir
út úr skóginum. Enn þá vóru hundrað faðmar eftir upp að
fjallsgnýpunni. Mergð af fiskum þaut upp undan fótum
okkar, eins og fuglar flýgi upp úr grasi. Hér og hvar vóru
djúpar gjótur og glufur í klöppunum. Vóru þær fullar af
alls konar dýrum og ófreskiskvikindum. Urguðu þau saman
klóm og gripklumbum niðri í myrkrinu, svo ægilega, að
hrollur fór um mig allan. Verra þótti mér þó þegar langar
og hrikalegar griptengur lögðust þversum fyrir framan
fætur mína, svo ég komst ekki áfram. Niðri í myrkrinu
glóðu þúsund glyrnur, eins og í eld sæi. Það vóru augu
risastórra kolkrabba og humra. Var að heyra urg og ískur
eins og sargað væri saman járnum, þegar þeir jöpluðu
skoltunum. Fleira var þar ferlegra dýra. Afarstórir
krabbar hvíldu þar á bumbunni eins og fallbyssur á
stálstöplum, og biðu eftir bráð, og ægilegir smokkfiskar
teygðu angana í allar áttir eins og lifandi höggorma.
Ég hafði séð
margt og reynt og þó brast mig kjark meðal þessara ferlegu
kvikinda, sem ógnuðu mér frá öllum hliðum. En Númi lét
ekki þetta á sig fá. Hann hélt áfram hiklaust og óhræddur
og ég var til neyddur að fylgja honum eftir.
Við komumst
upp á stall, breiðan og víðáttumikinn, og bar mér þar enn
fyrir augu ávænt sjón. Það vóru rústir af
byggingum,—verulegum mannvirkjum. Innan um þústir og
þyrpingar gat að líta hús og hallir og háreist musteri,
alt sígróið sæliljum, þönglum og þaragresi.
Hvert var það
undraland, sem hér hafði sokkið í sæ fyrir árdaga allrar
sögu? Hvaða þjóð hafði átt þá fornaldarfrægð, sem hér var
fallin í gleymsku og dá og Númi skipstjóri leyfði mér
einum að líta?
Mig langaði
til að spyrja Núma um þetta. Það var komið að mér að
svifta hjálminum af höfði mér, til þess að geta talað. En
Númi gerði ekki annað en benda upp á fjallstindinn, eins
og hann ætlaði að segja:
„Höldum
áfram! lengra, lengra!“
Ég gerði mitt
ítrasta til að hafa við Núma og eftir nokkra stund komumst
við upp og stóðum á fjallstindinum.
Þeim megin,
sem við komum upp var fjallsgnýpan ekki nema 800 fet upp
frá jafnsléttu. En hinum megin var hafið helmingi dýpra og
mændi tindurinn tignarlega út yfir hyldýpið. Útsýn var
glögg og geipivíð.
Niður undan
var slétta allstór og brann þar bál ógurlega mikið. Fjall
þetta var eldfjall. Af tindinum var ekki lengra en sem
svaraði sjötíu fetum niður að afarstórum eldgýg. Upp úr
honum þeyttist glóandi gjall og hraunleðja, sem valt fram
í logandi hringiðum og straumköstum, eins og fossandi
eldflóð. Þessi heljarmikli kyndill bar svo mikla birtu, að
allur mararbotninn var uppljómaður svo langt sem augað
eygði.
Og þarna
niður undan tindinum vóru leyfarnar af stórri borg, sem lá
í rústum á mararbotni, umturnuð og eyðilögð. Hrunin hús og
musteri, brotnir bogar og raðir af föllnum steinsúlum. Þar
gat að líta leyfar af stórkostlegri vatnsveitu, háreistu
höfuðvígi, umkringdu mörgum musterum, hafnarveggjum, sem
eitt sinn höfðu staðið fyrir brimróti hafsins og veitt
vernd og skjól fjölda skipa. Enn mátti sjá löng og breið
torg og stræti og umhverfis alt þetta stóra garða af
hrundum borgarmúrum.
Hvar var ég
staddur og hver var þessi borg?
Ég þreif í
handlegginn á Núma til að láta hann skilja, að ég yrði að
fá einhverja vitneskju um þetta.
Hann tók upp
stein, sem líktist krít, gekk að hellubjargi, sem var þar
nærri og skrifaði á það að eins eitt orð—: „Atalanta“.
Það var
nóg.—Mér flugu í hug gamlar grískar sagnir um borgina, sem
hafið gleypti á einni svipstundu. Munnmælasögur fornar,
sem margsinnis höfðu verið dæmdar markleysa ein.
Þetta land,
sem sögurnar sögðu frá, hafði þá verið til í raun og veru,
og ég stóð nú á jörð þessa lands! Land þetta var afarstórt
flæmi, vestur af Afríku og Evrópu. Það sökk í sæ, svo að
eins hæstu fjöllin stóðu upp úr, þau sem nú eru kölluð
Asoreyjar og Madeira.
Í fulla
klukkustund sátum við þarna og virtum fyrir okkur þessa
fágætu sýn. Hraunflóðið magnaðist öðru hvoru og jók
birtuna. Fjallið nötraði undir fótum okkar og dunur og
dynkir bárust til eyrna okkar gegnum vatnið.
Mér datt í
hug hvort ekki mundi nú einhverntíma sá dagur koma, að ný
náttúrubylting lyfti þessu landi upp aftur, og myndaði með
því brú milli Evrópu og Ameríku, og drægi fram í dagsins
ljós hin stórkostlegu, mörg þúsund ára gömlu mannvirki.
Númi
skipstjóri sleit upp úr þessum hugleiðingum mínum. Hann
reis á fætur, rendi augunum í hinsta sinn yfir borgina
sokknu og tók mig við hönd sér, til marks um það, að við
skyldum halda af stað.
Okkur gekk
greiðlega ferðin niður fjallshlíðina. Þegar við vórum
komnir gegnum skóginn, sáum við móta fyrir ljósinu á
Sæfaranum, eins og ofurlítilli stjörnu í fjarska, og
stefndum við á ljósið úr því. Þegar við loks komum heim í
Sæfarann, var farið að elda aftur og móta fyrir dagrenning
á yfirborði hafsins.
VII.
Við héldum
áfram ferðinni næstu daga og stefndum í suður, eftir miðju
Atlantshafinu. Ned Land var ergilegur sem von var, því á
þessum slóðum var engin von til að við gætum komist frá
skipinu. Land var hvergi í nánd, ekki svo mikið sem eyja
eða hólmi nokkurs staðar.
Við vórum þó
ekki vonlausir um að Númi mundi sleppa okkur, þegar ferðin
umhverfis hnöttinn væri á enda, ef við hétum því þá við
drengskap okkar, að þegja yfir leyndarmáli hans. Mér datt
í hug, hvort ég ætti að tala við Núma og stinga upp á
þessu við hann. Það var að líkindum þýðingarlaust. Númi
var svo oft búinn að láta það á sér heyra, að vegna þessa
leyndarmáls væri hann til neyddur að halda okkur á skipinu
áfram. Ég færði þetta í tal við Konsæl, en hann var engu
ráðnari í því en ég, hvað gera skyldi. Okkur kom þó saman
um það, að vekja ekki tortrygð Núma með því að brjóta upp
á þessu við hann, það mundi verða árangurslaust,—bíða
heldur og sjá hvernig skipaðist um atvik og ástæður.
Því lengra
sem suður dró, því fastar lagðist sá grunur í mig að mér
mundi aldrei framar auðnast að sjá ættjörð mína og
ástvini.
Ég varð lítið
var við Núma skipstjóra þessa dagana. Hann var
niðursokkinn í störf sín og rannsóknir í klefa sínum, og
þá sjaldan ég hitti hann í bókasalnum, var hann annars
hugar og afskiftalaus.
Sæfarinn hélt
sig jafnaðarlega við yfirborðið, og var þar fátt á sveimi.
Að eins einu sinni sáum við skip; þar á vóru
hvalveiðamenn, og skutu þeir þegar út báti og reru áleiðis
til okkar,—héldu auðsjáanlega að þar væri góð veiðibráð,
sem við vórum. Númi skipstjóri vildi ekki eyða tíma og
kröftum manna þessara að óþörfu og fór því í kaf með
Sæfarann. Þetta var atvik, sem Ned Land lét ekki
athugalaust fram fara. Ég held honum hafi gramist sárlega,
að hvalveiðamennirnir skyldu ekki geta lagt til dauðs
járnhvalinn okkar með skutlum sínum.
Það bar við á
þessum slóðum, að við hittum fyrir stóra hákarla. Flugu
mér þá í hug ýmsar sögur um þá, sem ég svo sagði Konsæl.
Það er ef til vill varasamt að trúa öllu, sem farmenn
segja frá, en það er dagsatt að það sem hér fer á eftir er
haft eftir sjómönnum: Í maga á stórum hákarli fanst einu
sinni höfuð af amerískum vísundi og heill kálfur. Í öðrum
fundust tvær hnísur og sjómaður í einkennisbúningi. Í þeim
þriðja var hermaður með alvæpni og í þeim fjórða hestur
með riddara og reiðtýgjum. Þetta er nú að vísu ekki sem
trúlegast, en þó get ég ekki samkvæmt eigin eftirtekt
sannað að það sé ósatt. Við fengumst sem sé ekki við
hákarlaveiðar.
Hinn 13. marz
ákvað Númi skipstjóri að gera tilraun eina, sem mér þótti
meir en lítið til koma.
Við vórum
staddir á 45. breiddarstigi og 37 stigi vestlægrar
lengdar, á þeim stað, þar sem ameríska freigátan „Kongress“
stikaði eitt sinn dýpið og hafði ekki botn með fimmtán
þúsund eitt hundrað og fjörutíu metrum.
Hér ætlaði nú
Númi að reyna að komast til botns, og bjó ég mig undir að
athuga nákvæmlega hvernig sú tilraun lánaðist. Gluggarnir
á aðalsalnum vóru opnaðir og við nálguðumst hyldýpið.
Það var
ekkert viðlit að sökkva skipinu á þann hátt að fylla
sjóklefana. Að vísu gat það þyngst svo mikið við það, að
það sykki til botns. En þá var eftir að komast upp aftur,
og var mikil tvísýna á því, hvort vélarnar mundu geta
þrýst vatninu út aftur, undir því voðafargi, sem hlaut að
hvíla á skipinu í þessum reginhyl.
Númi lét
halla hliðarspöðum skipsins í hálft horn og lét svo
skrúfuna ganga með fullum hraða.
Sæfarinn
nötraði eins og þaninn strengur á fiðlu undir átökum
vélarinnar og skrúfunnar, en áfram rann hann jafnt og
stöðugt niður á við.
Við Númi
vórum staddir í aðalsalnum og athuguðum þrýstimælirinn.
Við vórum komnir á sex þúsund metra dýpi,—langt niður
fyrir neðstu takmörk sædýralífsins. Í þessu djúpi gat
engin lifandi skepna haldist við. En Sæfarinn hélt áfram
niður á við, dýpra og dýpra. Sjórinn umhverfis skipið var
auður og aldauða, en aðdáanlega hreinn og tær.
Einni
klukkustund síðar vórum við komnir niður í þrettán þúsund
metra dýpi og þó sást ekki enn til botns. Á fjórtán þúsund
metra dýpi fór að grilla í klettanibbur niður undan okkur.
En það gátu verið fjallatindar, eins háir og Mont-Blanc
eða Himalaya, og gat því enn verið eftir óskaplegt dýpi.
Sæfarinn hélt
enn áfram og var þó þrýstingurinn orðinn voðalegur.
Járnþynnurnar svignuðu og ískraði í samskeytunum,
járnbitar og bindingar kýttust svo, að brakaði og tísti
alt umhverfis.
Við höfðum af
að komast niður í sextán þúsund metra dýpi. Var þá
þrístingurinn á skipinu orðinn sextán hundruð loftþyngdir,
en það er sama sem þrjú þúsund og tvö hundruð pund á hvern
fersentímeter á skipinu.
Númi
skipstjóri réð af að hætta tilrauninni.
„Við skulum
fara upp aftur“, sagði hann, „það tjáir ekki að leggja
skipið undir meira farg. Haldið yður fast!“
Ég var ekki
nógu fljótur að átta mig á því, hvað Númi meinti með
þessari skipun, og vissi því ekki fyr af, en ég lá flatur
á gólfinu.
Skipstjórinn
hafði fyrirskipað að stöðva vélina og snúa hliðarspöðunum
svo, að röndin vissi upp. Sæfarinn flaug upp með
feyknahraða, eins og laus lofbelgur, og risti sjóinn svo
hvein við. Það var engin leið að gera neinar athuganir. Á
örfáum mínútum rann hann þessa sextán þúsund metra leið á
enda, flaug eins og kólfur upp úr yfirborði sjávar hátt í
loft upp, féll svo aftur í hafið með voðalegum gusugangi
og boðaföllum.
Við héldum
eftir þetta af stað suður á bóginn—alt af í suður. Þegar
við komum á móts við suðurodda Ameríku hélt ég að Númi
mundi beygja vestur fyrir, inn í Kyrrahafið og ljúka þar
með við hringför sína um hnöttinn. En því var ekki að
heilsa. Sæfarinn hélt stefnunni óbreyttri. Hver var svo
tilgangur skipstjórans? Ætlaði hann að halda suður í
heimskaut, suðurskautið! Það var óðs manns æði! En það var
ekki á hann að ætla, Núma skipstjóra, fífldirfsku hans var
alt ætlandi. Það var ekki furða þó Ned Land væri ekki
hollur í hamsi.
Ned hafði
talað fátt upp á síðkastið; fálæti hans ágerðist svo, að
varla var hægt að toga út úr honum orð. Ég sá að hann
þoldi illa þetta varðhald og fyltist æ meir og meir hatri
og lífsleiða. Þegar hann hitti Núma skipstjóra, brann
honum eldur úr augum og ég var farinn að verða hræddur um,
að í hart slægi milli þeirra bráðlega.
Hinn 14. marz
komu þeir Konsæll inn í herbergið mitt. Ég sá að Ned hafði
eitthvert erindi og var talsvert niðri fyrir.
„Hvað haldið
þér að margir menn séu á Sæfaranum?“ spurði hann.
„Svei mér ef
ég veit það“, svaraði ég.
„Það getur
varla þurft marga menn, til að stjórna þessum hólk“, sagði
Ned.
„Nei, til
þess ætti ekki að þurfa nema svo sem tíu menn“.
„Og hvaða
ástæða væri þá til að hafa fleiri?“
Ég skildi
fullvel hvað Ned Land fór, og hvesti á hann augun.
„Hvaða
ástæða!“ endurtók ég. „Eftir því sem mér skilst, er
Sæfarinn ekki einungis skip, heldur einnig heimili og
griðastaður manna, sem hafa sagt sig úr lögum við
mannfélagið, á líkan hátt og Númi skipstjóri“.
Þá tók
Konsæll til máls:
„Sæfarinn
getur þó ekki rúmað nema vissa tölu manna. Gæti ekki
húsbóndinn reiknað út, hvað þeir gætu verið flestir?“
„Hvernig þá,
Konsæll minn?“
„Húsbóndinn
þekkir burðarmagn skipsins, og getur því reiknað hve mikið
loft það rúmar. Þegar svo við bætist að húsbóndinn veit
hvað hver maður þarf mikið loft, og að loftið í skipinu
verður að endurnýja einu sinni á sólarhring hverjum, þá .
. . .“
Konsæll
talaði ekki út, en ég skildi hvað hann fór.
„Já, þetta er
auðvelt að reikna“, svaraði ég. „En það er hætt við að
útkoman verði ekki ábyggileg“.
„Það gerir
ekkert til“, sagði Ned Land. Hann vildi komast að
einhverri niðurstöðu.
„Jæja“,
svaraði ég, „einn maður eyðir um hverja klukkustund öllu
því súrefni, sem felst í eitt hundrað lítrum af
andrúmslofti, eða sama sem tvö þúsund og fjögur hundruð
lítrum af lofti á sólarhring. Þá er eftir að finna, hve
mörgum sinnum tvö þúsund og fjögur hundruð lítrar af lofti
rúmast í Sæfaranum“.
„Einmitt
rétt“, sagði Konsæll og brosti út undir eyru. Konsæll
hafði víst hugann meira á því, hve fljótur ég var að
reikna, en hinu, hver útkoman yrði. En Ned Land sat
hnípinn og óþreyjufullur.
„Burðarmagn
Sæfarans er fimtán hundruð smálestir“, bætti ég við; „og
hver smálest er eitt þúsund lítrar. Sæfarinn rúmar þá
fimtán hundruð þúsund lítra af lofti, sem deilt með tveim
þúsundum og fjórum hundruðum gerir . . . .“
Ég flýtti mér
að reikna út á pappírsblaði.
„. . . . .
gerir sex hundruð tuttugu og fimm. Það er, með öðrum
orðum, nægilegt loft í Sæfaranum fyrir sex hundruð tuttugu
og fimm menn í tuttugu og fjórar klukkustundir.“
Ned Land
hnykti við. „Sex hundruð tuttugu og fimm!“ át hann eftir.
„Já, en það
er áreiðanlega ekki einn tíundi hluti þess mannfjölda hér
á skipinu“, sagði ég.
„Þó svo sé.
Það eru of margir móti þrem mönnum ei að síður“, svaraði
Ned.
Ég ypti öxlum
ósjálfrátt.
„Þér verðið
að vera þolinmóður, Ned“.
Ned anzaði
engu, en hristi höfuðið og strauk hendinni um ennið.
Ég kendi sárt
í brjósti um Ned, og vildi feginn verða honum að liði. En
hvað átti ég til bragðs að taka, eða öllur heldur, hvað
gat ég gert?—Ekkert.
Ned Land
hafði engu öðru vanist, en sigla frjáls og frí um höfin og
drasla í hvaladrápi. Nú var hann hneptur iðjulaus í
þröngum klefa, og hafði ekki annað að gera en hugsa. Og
hvað gat hann svo hugsað um, annað en það, hvernig hann
gæti náð frelsi sínu aftur?
En Númi
stýrði stöðugt í suður og var því að svo stöddu engin
undankomu von.
Það vildi þó
svo vel til, að þennan sama dag kom fyrir dálítill
atburður, sem hresti skap Kanadamannsins, og rifjaði upp
fyrir honum endurminningar glaðari daga.
Um
hádegisbilið flaut Sæfarinn í yfirborðinu. Hittum við þá
fyrir hvalatorfu mikla, sem kom á móti okkur. Mér kom það
ekki á óvart, því ég vissi að hvalirnir leituðu æ nær og
nær heimskautunum, undan hóflausum ofsóknum
hvalveiðamanna.
Hvalirnir
hafa að þessu leyti haft töluverða þýðingu í landfundasögu
jarðarinnar. Við hvalaeltingar hafa fyrst Baskar og
Astúrar og seinna Englendingar og Hollendingar ratað á
lönd og staði, áður óþekta. Þá er sú saga til, að
hvalveiðamenn, sem vóru að elta hval, komust svo langt
norður, að ekki vóru nema 10 mílur eftir að
norðurheimskautinu. Þetta getur verið lygi, en líklega
reynist það samt satt þegar minst varir.
Við sátum
uppi á þiljum. Veður var fagurt og særinn spegilsléttur.
Ned Land varð auðvitað fyrstur til að koma auga á hvalina,
í nokkurra mílna fjarlægð.
„Væri ég nú
bara kominn á hvalveiðaskip!“ hrópaði hann upp yfir sig.
„Það vildi ég að . . . . . “
Ned stappaði
niður fótunum, svo glumdi í járnþynnunum, og jós úr sér
formælingum yfir Núma og alt sem hann snerti.
„Yður langar
víst alt af á hvalaveiðar?“ sagði ég.
„Langar!“ át
hann eftir. „Það er eitt af því sem enginn getur gleymt,
herra prófessor“.
„Hafið þér
aldrei stundað veiðar hér í suðurhöfum?“
Ned Land lét
sem hann heyrði ekki til mín.
„Sjáið þið,
hvar þeir koma!“ sagði hann. „Þeir vita sem er að ég get
ekkert gert þeim“.
Ned Land var
allur á nálum.
„Eru
hvalirnir hérna eins stórir og í norðurhöfunum?“ spurði
hann.
„Naumast svo
stórir“.
„Ég hefi séð
hvali hundrað feta langa, herra prófessor. Og ég hefi
jafnvel heyrt getið um, að þeir gætu orðið hundrað og
fimmtíu feta langir“.
„Það held ég
sé nú orðum aukið“, svaraði ég. „Þessir hvalir, eins og
líka búrhvelið, eru vanalega minni en sléttbakurinn“.
„Jæja“, sagði
Ned, „ég hefi nú samt heyrt að þeir væru sumir ákaflega
stórir, jafnvel svo stórir, að menn sem hafa séð þá fljóta
í vatnsskorpunni, þakta þangi og skeljum, hafa haldið að
það væru eyjar, fárið á land á þeim, kveikt upp eld og . .
. “
„Og bygt á
þeim hús“, skaut Konsæll inn í.
„Þvaður!“
sagði Ned.
„Þér trúið
því þó víst ekki sjálfur?“ sagði ég.
„Það má trúa
öllu um hvali“, sagði Ned. „Það er fullyrt að þeir geti
synt umhverfis hnöttinn á hálfum mánuði“.
„Það er ekki
óhugsandi“.
„Þér vitið ef
til vill ekki, prófessor góður, að á þeim tímum þegar
jörðin var sköpuð, vóru hvalirnir miklu hraðsyndari en
nú?“
„Ónei, ekki
vissi ég það, Ned minn. Hvernig stóð nú á því?“
„Það skal ég
segja yður, þá var sporðurinn á þeim eins og á öðrum
fiskum, og blöðkurnar snéru upp og niður. En þegar Guð
almáttugur veitti því eftirtekt, að þeir vóru alt of
hraðsyndir, tók hann þá og snéri upp á sporðinn, og síðan
hafa þeir verið svona“.
„Er það satt
að hvalir geti hvolft skipum?“ spurði Konsæll.
„Því trúi ég
tæplega“, svaraði ég. „Það er þó sagt að árið 1820 hafi
hvalur ráðist á skipið „Essex“ og rekið það aftur á bak,
með svo miklu afli, að það skreið nákvæmlega fjóra metra á
sekúndunni, þar til sjórinn fossaði yfir þilfarið aftur á
og skipinu hvolfdi“.
Ned leit á
mig og kýmdi borginmannlega. Í svona umræðum lét hann ekki
fara með sig í gönur.
„Einu sinni
sló hvalur svo óþyrmilega undir bátinn minn“, sagði hann,
„að við félagarnir, sem í honum vóru, hrukkum tólf álnir í
loft upp. En sá hvalur hefir auðvitað verið eins og
svolítill hvolpur í samanburði við hval prófessorsins“.
Konsæll réð
sér ekki fyrir forvitni.
„Verða
hvalirnir gamlir?“ spurði hann.
„Þúsund ára“,
svaraði Ned viðstöðulaust.
„Hvernig
vitið þér það, Ned?“
„Af því það
er sagt svo“.
„Hvernig geta
menn sagt um það?“
„Af því menn
vita það“.
Hvalirnir
færðust nær, og var eins og Ned ætlaði að gleypa þá með
augunum.
„Sjáið þið!“
sagði hann, „þeir eru fleiri en einn og fleiri en tveir.
Þarna eru tíu, tuttugu, stór hópur. Ilt er nú að vera
svona tjóðraður og ná ekki til þeirra“.
„Farið og
talið um þetta við skipstjórann“, sagði Konsæll.
Ned Land lét
ekki segja sér það tvisvar. Hann þaut eins og örskot niður
í skipið til að leita að Núma. Eftir örstutta stund kom
hann aftur og skipstjórinn með honum.
„Á ég ekki að
skutla einn handa yður?“ spurði Ned, „svona til að gleyma
ekki gamalli iðju“.
„Hvaða gagn
er að því?“ spurði skipstjórinn og leit yfir hvalatorfuna.
„Hvers vegna drepa til gamans og að óþörfu? Ég veit það
vel, að það eru sérréttindi, sem mennirnir hafa tekið sér;
en ég kæri mig ekki um að hafa dráp til dægrastyttingar.
En hvað sem um það er, þá er nóg búið að gera að
hvaladrápi, meira en nóg. Hvalirnir eiga nógu marga
meinlega óvini, þar sem eru búrhveli og sverðfiskar, svo
ég held okkur sé sæmra að láta þá óáreitta“.
Ned Land varð
súr á svipinn við þennan siðalærdóm. Að tala svona við
veiðimann er að eyða orðum að óþörfu. Ned botnaði
auðsjáanlega ekkert í því sem Númi sagði. Hann stakk
höndunum í vasana og gekk á burt blístrandi.
Númi virti
fyrir sér hvalina um stund og snéri sér svo að mér.
„Nú skuluð
þér sjá, að ég hafði rétt fyrir mér, þegar ég sagði, að
hvalirnir ættu nóga óvini. Sjáið þér svörtu deplana þarna
suður frá?“
„Já“.
„Það eru
búrhveli, grimmar skepnur og skaðlegar, sem rétt er og
nauðsynlegt að útrýma“.
Ned Land
snéri sér við skjótlega og skipstjórinn tók eftir því.
„En það er
þarflaust að stofna lífi sínu í voða af þeirri ástæðu“,
sagði Númi. „Sæfarinn hefir trjónu, sem er fyllilega eins
traust vopn og gott eins og skutull Ned Lands“.
Ned Land dró
ekki dulur á tilfinningar sínar. Hve nær hafði annað eins
heyrst! Hann ypti öxlum og spýtti út úr sér.
Búrhvelin
nálguðust óðfluga. Þau höfðu auðsjáanlega orðið vör við
hvalina og bjuggust til atlögu. Það var fyrirsjáanlegt,
hver endir mundi verða á þeim leik.
Skíðishvalirnir höfðu engar verjur móti búrhvelunum. Þau
vóru afar kjaftstór og höfðu 25 tennur í skoltinum.
Númi hervæddi
Sæfarann móti illhvelunum. Hann fór til stýrisins, en við
félagarnir þrír settumst við gluggann í aðalsalnum. Að því
búnu fór skrúfan að snúast og auka skriðinn á skipinu.
Viðureignin
var þegar hafin, er Sæfarinn kom inn í illhvelaþvöguna.
Svo var að sjá fyrst í stað, sem búrarnir gæfu ekki mikinn
gaum þessum nýja gesti, sem gekk þar ókvaddur að orustu.
En það varð annað ofan á, þegar fram í sótti.
Slík og
þvílík aðsókn! Það kvað svo ramt að, að Ned Land var frá
sér numinn. Númi skipstjóri beitti Sæfaranum eins og
heljarmiklum skutli. Hann rann á hvalina og skifti
skrokkunum í sundur í miðju, svo bútarnir sprikluðu
lifandi í sjónum. Sporðaslögin dundu á Sæfaranum, en þess
gætti ekki. Hann gekk á röðina og drap hvern búrann á
fætur öðrum, snérist í hring, fór ýmist upp eða niður,
ýmist aftur á bak eða áfram, svo hvalirnir gátu á engan
veg flúið, en tættust í sundur fyrir stáltrjónu Sæfarans.
Þessi blóðugi
bardagi stóð yfir heila klukkustund. Stundum slóu sér
saman tíu til tólf hvalir og ætluðu að mylja Sæfarann
undir sér. Við sáum út um gluggana upp í gapandi ginin á
þeim, alsett tönnum, og heiftþrungnar, rauðar glirnurnar.
Ned Land réð sér ekki; hann jós yfir þá óbóta hrakyrðum,
því ekki fékk hann annað að gert. Við fundum að þeir réðu
á skipið, eins og soltnir hundar á hræ. En Sæfarinn varð
ekki forviða. Þeir vóru eins og fis fyrir honum, þó þungir
væru og stórvaxnir.
Loks var
þessi orusta á enda og við fórum upp að yfirborðinu.
Hlerunum var skotið upp og við flýttum okkur upp á
þilfarið.
Sjórinn var
þakinn sundurflettum skrokkum. Sterkasta púðursprenging
hefði ekki tætt kjötþjósir hvalanna meir í sundur. Sjórinn
var blóði litaður svo langt, sem til sást. Örfáir hvalir
sáust á flótta út við sjónhringinn.
Númi
skipstjóri kom upp á þilfarið og snéri sér að Ned Land.
„Jæja Ned
Land, hvað segið þér nú?“
„Mikið er að
gert að vísu“, sagði hann, „en verkið . . . . .“
„Það eru
skaðræðisskepnur, sem ég hefi drepið“.
„Ég vil
heldur vera veiðimaður en slátrari“, sagði Ned.
„Þér viljið
heldur drepa til gamans, en gagns“.
Ég var orðinn
dauðhræddur um að þeim mundi lenda saman í illdeilum, út
af þessu. En Ned sýndi nú, eins og áður, fyrirlitningu
tóma. Hann var búinn að kalla Núma slátrara og þá var hann
ánægður. Hann stakk höndunum í vasana, ofur rólega, snéri
baki við Núma og fór niður í klefann sinn.
VIII.
Hinn 14. marz
sáum við fyrst ís á floti. Út við sjónhringinn í suðri var
hvítleitt belti og glampaði á það í sólskininu. Það var
hafís. Fram úr þessu fórum við að sjá reglulega fjalljaka.
Grænar gárur vóru í sumum þeirra, eins og eirgræna, en
sumir vóru kristallsglærir. Jökunum fjölgaði eftir því sem
lengra dró suður.
Númi var
stöðugt á þiljum uppi og athugaði leiðina gaumgæfilega.
Við hittum fyrir ákaflega stóra fjalljaka, og fór þeim alt
af fjölgandi. Var svo að sjá stundum, sem allar leiðir
væru lokaðar. En alt af fann Númi eitthvert sund.
Hinn 16. marz
kl. 8. árdegis fórum við yfir heimskautsbauginn. Jakaísinn
var nú orðinn svo mikill og þéttur, að lítt hugsandi var
að komast lengra. Sumir jakarnir stóðu sjötíu og áttatíu
metra upp úr sjónum. En alt af varð Núma eitthvað til. Alt
af hélt hann áfram lengra og lengra, þó þröng væru sundin
sumstaðar.
Við vórum nú
úr öllum efa um það, að Númi mundi ætla sér að komast alla
leið að suðurheimskautinu.
En brátt var
öllum sundum lokað og ómögulegt að komast lengra áleiðis.
Fram undan vóru hafþök af samfeldum ís og engin geil eða
smuga sjáanleg.
Númi var þó
ekki alveg á því, að hætta við svo búið. Hann rendi
Sæfaranum á ísinn hvað eftir annað, með svo miklu afli, að
klakaflísarnar flugu í allar áttir og dundu niður á okkur
eins og haglél. Stundum rendi hann skipinu upp á ísinn,
svo hann brotnaði undan þyngslum þess. Ruddi hann sér
braut dálítinn spotta á þennan hátt. Biksvört þoka lagðist
yfir. Fylgdi henni ákafleg fannfergja og stormhviður af
ýmsum áttum.
Loksins eftir
langt strit og erfitt sat Sæfarinn fastur í ísnum og mátti
sig hvergi hræra. Það var 18. marz.
Hvert sem
litið var, var ekki annað að sjá en ís. Var hann ákaflega
úfinn og ósléttur. Sumstaðar stóðu hundrað feta háar
ísstrýtur upp úr breiðunni. Sumstaðar hólar og höfðar,
þverhníptir íshamrar og afarstórar jakahyrnur. Sumstaðar
vóru slétt svell og klakaþil, sem sendu geisla eins og
spegilgler, ef til sólar sá. Dauðaþögn hvíldi yfir þessari
ísauðn; lífsmörk sáust ekki.
Ég stóð á
þiljum og sá að vökin, sem Sæfarinn flaut í, var alt af að
þrengjast og skarirnar að færast nær skipinu. Frostið var
svo hart, að ekki var viðlit að halda vökinni þýðri til
lengdar.
Númi
skipstjóri vatt sér að mér og tók mig tali.
„Jæja, herra
prófessor, hvernig lízt yður nú á?“
„Mér lízt svo
á, að við förum ekki lengra“.
„Því á ég
bágt með að trúa. Ég ætlaði mér að komast að
suðurheimskautinu“.
Það vissi ég
vel að Númi var áræðinn, blátt áfram ofdirfskufullur. En
hér var farartálmi, sem engin leið var til að yfirvinna.
„Sæfarinn
getur ef til vill flogið“ sagði ég.
„Nei“,
svaraði Númi, „en kafað getur hann“.
„Já,
auðvitað“.
Mér flaug
þegar í hug hvað Númi mundi ætla sér.
„Já, við
skiljum víst hvor annan“, sagði Númi og brosti. „Hæstu
jakarnir eru ekki yfir hundrað metra á hæð. Þeir standa
því ekki öllu lengra niður en þrjú hundruð metra. Og hvaða
tálmi er það fyrir Sæfarann!“
„Sama sem
enginn, herra skipstjóri“.
„Nei, en
erfiðleikinn er innifalinn í því, að vera lengi í kafi, og
geta ekki endurnýjað loftið í skipinu“, svaraði Númi.
„Loftklefarnir í Sæfaranum rúma mikið, svo það verður að
líkindum nægjanlegt“.
„En þá er
eftir að vita, hvort það er auður sjór við heimskautið. Ef
til vill komumst við ekki upp og verðum að snúa aftur“.
„Heimskautið
og kuldaskautið liggja ekki saman“, sagði ég, „svo vel
getur verið, að við finnum auðan sjó“.
„Það er
einmitt það, sem ég hafði hugsað, hr. prófessor. Nú er um
að gera, að nota tímann vel“.
Númi kallaði
á næstráðandann og töluðust þeir við um hríð, á máli, sem
ég skildi ekki eitt orð í.
Ekki sá ég að
næstráðanda brygði, hvort sem það nú kom til af því, að
honum var áður kunn ætlun Núma, eða hinu, að honum óx ekki
í augum áhættan.
Þó var enginn
eins skaprór og Konsæll. Þegar ég sagði honum að ætlun
okkar væri, að komast til heimskautsins, varð honum ekki
annað að orði en þetta: „Eins og húsbóndanum þóknast“. Þar
með var það mál útkljáð af hans hálfu.
Ned Land tók
þessu alt öðruvísi. Hann ypti öxlum og sagði í
hálfkæringi:
„Mér þykir
mikið fyrir að heyra þetta, vegna yðar og þessa Núma
skipstjóra“.
„Þér haldið
ef til vill að við náum ekki heimskautinu?“
„Það er mjög
líklegt, að við komumst þangað, en þaðan aftur komumst við
ekki“.
Ned hvarf til
klefa síns, „til að valda ekki vandræðum“ að hann sagði.
Nú var tekið
til að búa alt undir þessa glæfraför. Loftdælurnar vóru
settar af stað og loftinu þjappað svo í klefana, sem unt
var.
Tólf
skipverjar komu upp á þilfar, með haka og járnkarla og
tóku að brjóta lagnaðarísinn frá skipinu. Var það auðgert,
því ísinn var þunnur enn, þó 20 stiga frost væri á.
Klukkan fjögur fóru allir niður í skipið. Hlerarnir vóru
látnir aftur og festir ramlega með skrúfum. Sjó var hleypt
inn í sökkviklefana og Sæfarinn seig niður í djúpið.
Ég tók mér
sæti við gluggann í aðalsalnum og Konsæll við hlið mér. Á
þrjú hundruð metra dýpi komumst við niður úr ísnum, eins
og Númi hafði fyrir sagt. En Sæfarinn fór ekki að halda í
áttina fyr en hann var kominn niður í átta hundruð metra
dýpi. Leiðin sem við áttum fyrir hendi að fara, var tvö
hundruð og fimmtíu mílufjórðungar. Sæfarinn hélt af stað
með tíu mílna hraða á vökunni. Við gátum því búist við að
verða komnir til heimskautsins að liðnum tuttugu og fjórum
klukkustundum, ef alt gengi vel.
Ég var á
fótum kl. fimm morguninn eftir og fór þegar út að
glugganum. Ég varð þess var að Sæfarinn leitaði upp á við,
hægt og gætilega, með því að dælt var sjó út úr
sökkviklefunum. Hjá mér glæddist þegar von um, að nú
mundum við hitta fyrir auðan sjó, en hún brást skjótlega.
Snöggur kippur gaf til kynna, að skipið hefði rekist á
ísinn. Ég hraðaði mér að þrýstimælinum. Við vórum staddir
í fjögur hundruð metra dýpi. Ísinn var miklu þykkari hér.
Fjögur hundruð og fimmtíu metra þykk hafíshella lá yfir
okkur. Þetta var lítið gleðiefni.
Sæfarinn
reyndi fyrir sér hvað eftir annað þennan dag, en hitti
jafnan ís fyrir. Stundum náði ísinn niður í sjö hundruð og
fimmtíu metra dýpi. Þar var því ísinn níu hundruð metra
þykkur,—eitt hundrað og fimmtíu metrar stóðu upp úr sjó.
Svo liðu
þessar tuttugu og fjórar klukkustundir, að ekki vænkaðist
útlitið. Alt af varð ís fyrir okkur á fjögur til fimm
hundruð metra dýpi. Enn var nægilegt andrúmsloft í
skipinu. En hve lengi gat það enzt?
Mér kom ekki
dúr á auga næstu nótt. Ég var sí og æ að athuga
þrýstimælirinn, og alt af var Sæfarinn að reyna fyrir sér.
Klukkan þrjú um morguninn sá ég loks að Sæfarinn „rak sig
ekki upp undir“ fyr en á fimmtíu metra dýpi. Ísinn var að
þynnast!
Ég hafði ekki
augun af þrýstimælinum. Undirborð íssins fláði upp á við,
svo smátt og smátt grynkaði á skipinu. Við fórum svo nærri
ísnum sem unt var. Ísinn glampaði og glitraði fagurlega í
geislum rafljóssins og varð mun þynnri við hvern
kílómeter, sem lengra dró.
Loks kom Númi
inn í salinn klukkan 6 um morguninn—þann 19. marz—og
flutti mér fagnaðartíðindi:
„Auður sjór!“
Ég hraðaði
mér upp á þilfar. Ísjakar vóru á reki til og frá umhverfis
okkur, annars var autt haf á alla vegu, ýmist sægrænt eða
dökkblátt á lit. Aragrúi fugla sveimaði í loftinu yfir
okkur og út í frá. Hafísinn var langt að baki okkur og sá
að eins móta fyrir honum við sjónhvörf í norðri.
„Erum við nú
komnir í heimskautið?“ spurði ég.
„Ég veit það
ekki“, svaraði skipstjórinn, „við sjáum til um hádegið“.
„Ef við
verðum þá svo hepnir að sjá til sólar“.
„Það þarf
ekki nema ofurlítinn geisla“.
Í suðri
mótaði fyrir hæðum, nokkur hundruð metra háum. Það var
auðsjáanlega land. Sæfarinn stefndi þangað. Við fórum
hægt, af ótta fyrir skerjum. Að stundu liðinni náðum við
ströndinni.
Land þetta
var eyja og fórum við í kring um hana á tveim stundum.
Land var að sjá í suður frá eynni og mjótt sund á milli.
Hve stórt það var gátum við ekki séð fyrir þokudumbungi.
Sæfarinn
lagðist að landi og varpaði akkerum. Sandur var upp frá
ströndinni og klettafell fyrir ofan. Báti var skotið út og
fórum við í hann fimm saman, Númi skipstjóri, Konsæll og
ég og tveir skipverjar; þeir fluttu með sér mælingaáhöld.
Ned Land lét ekki sjá sig. Klukkan var tíu þegar við létum
að landi.
Eftir nokkur
áratog rendi báturinn upp í sandinn. Konsæll ætlaði að
hlaupa í land, en ég hélt honum aftur.
„Núma
skipstjóra ber fyrstum manna að stíga fæti á land
suðurheimskautsins“, sagði ég.
Númi stóð upp
í bátnum og leit í kringum sig brosandi.
„Hér hefir
enginn áður komið“, sagði hann, steig upp á hástokkinn og
stökk á land. Við Konsæll hlupum á eftir honum.
Fyrir ofan
sandinn tók við brimsorfið stórgrýti, en illfærar
hraunurðir, brunagrjót og gjall þegar lengra dró. Var ekki
um að villast, að þar mundi vera eldgígur allskamt á
burtu. Brennisteinssvælu lagði upp úr gjótum og glufum hér
og hvar. Mátti af því ráða að jarðeldur sá, sem að
líkindum hafði myndað landið, mundi ekki vera kulnaður með
öllu. Af jurtagróðri sá ég þar ekki annað, en nokkrar
óverulegar mosategundir á steinum í stöku stað og að eins
eina tegund af þangi, sem brimið hafði kastað upp á
ströndina.
Hafið hlaut
að vera mjög fiskisælt. Réði ég það af því, að alt var
krökt af fugli. Þar vóru álkur, veiðibjöllur, fýlungar,
endur og fjöldi annara fuglategunda. Alt úði og grúði í
fugli, jörð loft og lögur, og alstaðar eilíft garg og
kliður.
Þoka var
stöðugt svo mikil, að byrgði alla útsýn. Um hádegið vissum
við ekki einu sinni í hverri átt sólar var að leita. Við
gátum því ekki að þessu sinni vitað, hvort við vórum
staddir í heimskautinu eða ekki, og olli það Núma
skipstjóra mikillar gremju.
„Við reynum
aftur á morgun“, sagði hann, þegar við snérum á leið til
bátsins aftur. Snjór tók að falla úr þokunni, og varð
brátt af hlaðkafald svo mikið, að varla sá handa skil.
Daginn eftir
var blind-bilur, og ekki fært upp á þilfar. Heyrði ég
niður í salinn gargið í veiðibjöllunum og fleiri fuglum,
sem hröktust fyrir ofviðrinu úti. Sæfarinn skreið í hægðum
sínum suður með landi. Einu sinni sáum við bjarma af sól,
niður við hafflöt í norðri, en ekki var birtan meiri en
svo, að vel var ratljóst. Við færðumst suður um tíu mílur
þann dag.
Daginn eftir
var stytt upp, og gátum við búist við að geta gert
athuganir. Þokan var horfin og komið hreinviðri með
tveggja stiga frosti.
Við fórum á
land klukkan um ellefu. Jarðvegur var samur hér, og þar
sem við höfðum áður komið; urðir, klettar og hraun. Fuglar
vóru hinir sömu, en auk þeirra var hér mikið um sel og
önnur sæspendýr. Selir og rostungar lágu uppi á ströndinni
og á ísjökum, sem flutu nærri landi. Ekki stygðust þeir þó
við kæmum nær, en gláptu á okkur stórum augum og
forvitnislegum.
Við klifruðum
upp á blágrýtisklett, skamt frá ströndinni og færðum
þangað mælingaáhöldin. Við stóðum lengi og störðum í
norður. Við vissum að sólin var komin upp; en niður við
sjónhringinn var þokubakki, sem geislar hennar megnuðu
ekki að rjúfa.
Leið svo af
hádegi að við sáum ekki til sólar, og þótti okkur nú illa
áhorfast. Var nú útséð um að við gætum ákveðið jarðlegu
staðarins þennan daginn. En daginn eftir var jafndægurt.
Það var seinasti dagurinn, sem unt var að gera athuganir,
því eftir það gekk sólin undir með öllu og kom ekki upp
aftur fyr en að liðnum sex mánuðum.
En við þessu
mátti enginn gera, og urðum við að snúa aftur til skipsins
við svo búið.
Morguninn
eftir var ég á fótum klukkan fimm og fór þá upp á þilfar.
Þar var þá staddur Númi skipstjóri.
„Hann er að
létta til“, sagði Númi. „Tilraunir okkar hljóta að lánast
í dag. Við förum í land eftir morgunverð“.
Ég fór niður
til að hitta Ned Land og telja hann á að vera með í
förinni. Honum óx gremja og geðvonzka með hverjum degi,
upp á síðkastið, og gat ég með engu móti fengið hann til
að fara. Mér þótti vænt um það í aðra röndina, því uppi í
fjörunni var krökt af sel og hefði víst veitt full erfitt
að halda Ned Land frá óþörfum blóðsúthellingum.
Við fórum á
land að enduðum morgunverði. Sæfarinn hafði þokast einni
mílu sunnar um nóttina og lá nú fram undan felli, fjögur
til fimm hundruð metra háu. Tveir hásetar fóru með okkur
og báru mælingaáhöldin, klukku, sjónauka og loftvog.
Við lentum
kl. níu. Var þá komið heiðskírt veður og síðustu
skýbólstrarnir að hverfa niður í suðri. Við lögðum af stað
upp á fellið, því þar ætluðum við að gera mælingarnar. En
gangan var erfið upp þangað, eintómar urðir og skriður,
brúnhvassar hraunhellur og afsleppir hnullungar á víxl.
Við vórum tvær klukkustundir að komast upp á fellið.
Loks komumst
við upp á efstu hæðina. Var fagurt útsýni þaðan. Í
suðurátt var að sjá yfir endalausar flatneskjur, sem
nýfallin mjöllin lá yfir, hrein og bláhvít. Þegar langt
dró suður hækkaði landið unz við tóku fjöll og firnindi,
fannabungur og skriðjöklar, en kolsvartir tindar og
drangar mændu upp úr jöklinum hér og hvar. Himininn var
skafheiðríkur og sló rauðbleikri slíkju á blámann. Í
norðri stóð sólin við sjónhring, eins og afarstór skygður
eirskjöldur og snart neðri röndin hafsbrúnina. Nær landi
var sjórinn dimmblár og spegilsléttur. Þar lá Sæfarinn
eins og sofandi hvalur innan um drifhvíta hafísjaka. En
yzt út við sjónhvörf sást samfeldur hafís, eins og
tindóttur fjallgarður.
Hið fyrsta
sem við gerðum var að mæla hæðina með loftvoginni.
Fjórðungi
stundar fyrir hádegi var sólin hæst á lofti og varpaði
daufum geislum út yfir þessa eyðimörku, sem enginn maður
hafði áður fótum troðið.
Númi
skipstjóri horfði stöðugt á sólina gegnum sjónaukann,
meðan hún var að ganga undir aftur. Væri sólin hálf gengin
undir klukkan tólf, var það merki þess, að við værum í
heimskautinu. Ég hélt á klukkunni og beið þess með óþreyju
að vísirinn þokaðist á töluna tólf.
„Hádegi!“
kallaði ég.
„Suðurheimskautið“, svaraði Númi og fékk mér sjónaukann.
Var þá réttur helmingur sólkringlunnar siginn í sjó.
Ég lét
sjónaukan síga og horfði hugfanginn út yfir víðáttuna,
auða og kyrra, sem síðustu sólgeislarnir sendu
skilnaðarkveðju um langan tíma.
En ég hafði
fleira í huga en hrikafegurð náttúrunnar. Sólsetrið við
hafísinn minti mig á þjóðirnar fyrir norðan ísinn, í
heimlöndunum gömlu og þektu. Ég dáðist að starfsþreki
þeirra, fróðleiksfýsn og óþreytandi elju. Ég sá þá í anda
senda skip til fjarlægra, óþektra staða. Hvalveiðar teigðu
skipstjórana norður og suður. Vindar og straumar höfðu, á
þeim tímum, þegar siglingalistin var á lágu stigi, hrakið
menn til heimskautalandanna og orðið þeim svo að
aldurtila. Svo komu leiðangrar, vel búnir að vistum og
fararefnum, í þeim tilgangi einum að finna ný lönd. Margar
hugprúðar hetjur höfðu barist við óblíðu náttúrunnar í
þessum köldu löndum og látið lífið fyrir það að komast
nokkrum skrefum lengra, en áður hafði verið farið. Og
baráttan færðist breiddarstig af breiddarstigi, alt af
lengra og lengra, meðan áratugir og aldir liðu fram. Og nú
var ég staddur hér, á því takmarki, sem allir höfðu eftir
kept. Og hingað var ég kominn fyrir hyggindi, fróðleik og
hugdirfð eins einasta manns.
Ég fékk
hlýjan hug til þessa merkilega manns, og ég dáðist að
honum. Mig langaði alt í einu til að segja honum frá því
og tjá honum þakklæti mitt með handabandi. Ég snéri mér að
Núma í því skyni. Hann var í þungum hugleiðingum, en
rankaði við sér, þegar ég hreyfði mig. Hann leit á mig og
var ánægjublandinn sigurhróssvipur í augnaráðinu. En það
stóð ekki nema eitt augnablik. Á næstu sekúndu var kominn
yfir hann sami kæruleysis og hörkusvipurinn, sem hann bar
jafnan, svo kaldur og fráfælandi, að mér féllust orð og
hendur.
Ég þagði eins
og steinn, en Númi benti í norður. Sólin var að hverfa og
skuggar að teygja sig út yfir landið niður undan okkur.
Það var kominn tími til að halda af stað til skipsins og
fórum við því að feta okkur niður fjallshlíðina.
Klukkan sex
morguninn eftir fórum við að búa okkur til burtferðar. Var
þá hin langa heimskautsnótt að færast yfir og orðið
hálfrökkvað. Stjörnur vóru að koma í ljós á himninum og
skein hið fagra stjörnumerki, „Suðurkrossinn“ skærast á
miðju hálofti.
Vindkulið var
helkalt og 30 stiga frost á mælinum. Rekaísinn varð
þéttari og þéttari og milli jakanna var að myndast
dökkleitur lagnaðarís. Eftir lítinn tíma hlaut sjórinn að
vera allagður og engin leið að komast að
heimskautslandinu.
Sökkviklefarnir vóru fyltir og seig Sæfarinn niður í þrjú
hundruð metra dýpi. Skrúfan tók að snúast og skipið rann
af stað í norðurátt. Um kvöldið vórum við komnir langa
vegu inn undir hafþökin.
Ég eyddi
tímanum við lestur, því gluggarnir á salnum vóru byrgðir
að utan. Var það gert til að fyrirbyggja að ísjakar
rækjust í þá. En oft dvaldi hugur minn við þessa
viðburðaríku heimskautsför og alt sem á dagana hafði
drifið þessa fimm mánuði, sem við vórum búnir að vera
neðansjávar. Við vórum búnir að fara sjö þúsund mílur og
sjá margt afar merkilegt og fágætt. Ég hafði grætt mikinn
og margvíslegan fróðleik á þessari ferð. Vakandi og
sofandi sökti ég mér niður í nýstárlegar og furðulegar
rannsóknir, sem hafið gaf mér tilefni til að stunda.
Klukkan þrjú
um nóttina vaknaði ég við snöggan kipp. Ég þaut upp í
rúminu, horfði út í myrkrið og hlustaði, vissi ég þá ekki
fyr til en ég fleygðist úr rúminu fram á mitt gólf.
Sæfarinn hlaut að hafa rekist á eitthvað og hrokkið
afturábak.
Ég klæddi mig
í snatri og skreiddist meðfram þilinu inn í aðalsalinn.
Þar var bjart inni. Ýms húsgögn lágu þar á víð og dreif um
gólfið, en til allrar hamingju vóru dýrustu
myndastytturnar og borðin, með merkustu gersemunum svo vel
fest, að þau hafði ekki sakað. Veggmyndirnar á bakborða
héngu langt út frá þiljunum að neðanverðu. Sæfarinn lá á
stjórnborðshlið og hreyfðist ekki heldur en jarðfastur
klettur.
Framan úr
skipinu var að heyra þrusk mikið og mannamál. Ég ætlaði að
fara út úr salnum, en þá komu þeir Konsæll og Ned Land í
flasið á mér.
„Hvað er um
að vera?“ spurði ég.
„Ég ætlaði
einmitt að fara að spyrja húsbóndann að því sama“, svaraði
Konsæll.
„Það fór eins
og mig grunaði“, sagði Ned Land. „Sæfarinn hefir rent upp
á grynningar og liggur svo illa sem hugsast getur“.
„Vitið þið
hvort við erum ofansjávar?“ spurði ég.
„Nei“,
svaraði Konsæll.
„Við skulum
fara og vita hvers við verðum vísari!“
Ég skundaði
þangað sem þrýstimælirinn var, og varð ekki lítið forviða
þegar ég sá að við vórum staddir á þrjú hundruð og sextíu
metra dýpi.
„Hvernig í
ósköpunum stendur á þessu!“ varð mér að orði.
„Við skulum
fara og spyrja skipstjórann“, sagði Konsæll.
„Það er nú
svo, en hvar er skipstjórinn?“ spurði Ned Land.
„Komið þið
með mér!“
Við fórum út
úr salnum og inn í bókasafnsklefann. Hann var mannlaus.
Datt mér þá í hug að Númi mundi náttúrlega vera við
stýrið. Við kusum heldur að bíða en fara þangað og snérum
því aftur inn í salinn.
Ned Land
brann í skinninu. Ég lofaði honum að rausa og geysa, eins
og hann vildi og svaraði engu. Ég sat og hlustaði
stundarkorn þangað til Númi alt í einu vatt sér inn úr
dyrunum. Það var óvanalegur asi á honum og lét sem hann
sæi okkur ekki, en fór að athuga þrýstimælirinn og
áttavitann. Þegar hann var búinn að því, snéri ég mér að
honum og spurði hvað fyrir hefði komið.
„Óhappa
slys“, svaraði hann.
„Eru mikil
brögð að því?“
„Um það er
ekki full vissa fengin enn“.
„Hefir skipið
laskast?“
„Já“.
„Hvernig
vildi það til“.
„Því valda
ófyrirsjáanleg atvik. Jafnvægislögmálið fylgir sínum
kreddum og má ekki fyrir því gera“.
Ég skildi
ekki enn hvað hann fór.
„Hver eru þau
óhappaatvik, sem þér talið um?“ spurði ég.
Númi mælti:
„Þegar straumar mæða lengi á stórum fjalljökum, þá eyðast
þeir að neðan, eins fer ef þeir berast út í hlýjan sjó, þá
bráðnar utan af þeim hlutanum sem í kafi er. Fer þá svo að
lokum að þeir steypast kollhnýs. Það er svona atvik, sem
við höfum orðið fyrir nú. Fjalljaki hefur kolloltið og
lent á skipshliðinni annari. Skipið hefir hrokkið fyrir,
byltst til og orðið ofan á nokkrum hluta jakans.“
„Mætti ekki
létta skipið með því að tæma sökkviklefana?“ spurði ég.
„Það er
einmitt verið að því núna“, svaraði skipstjórinn.
„Sæfarinn er að lyftast upp, eins og þið sjáið á
þrýstimælinum. En jakinn lyftist líka að sama skapi, svo
við erum engu nær fyr en ef svo vill til, að hann rekst á
eitthvað“.
Það fór eins
og Númi hafði sagt. Áttum við nú á hættu að jakinn bærist
með skipinu upp undir fastaísinn og molaði það þar.
Þegar þessu
hafði farið fram um hríð, kom alt í einu önnur hreyfing á
Sæfarann. Hann var að rétta við. Veggmyndirnar lögðust
smátt og smátt að þilunum. Við stóðum þegjandi og biðum
þess sem verða vildi. Liðu svo tíu mínútur. Þá var
Sæfarinn kominn á réttan kjöl.
„Við erum á
réttum kili“, sagði ég.
Númi samsinti
því og gekk á dyr.
„En erum við
á floti?“ spurði ég.
„Það hlýtur
að vera“, svaraði skipstjórinn. „Það er verið að létta á
sökkviklefunum og Sæfarinn er því á uppgaungu“.
Rétt eftir að
Númi var farinn út stöðvaðist skipið. Var það hyggilegt af
Núma að láta ekki berast hærra upp, því ella gátum við átt
á hættu að rekast upp undir fastaísinn. En það varð hann
að forðast.
„Er okkur
borgið?“ spurði Konsæll.
„Já“, svaraði
ég. „Lánið var með okkur í þetta sinn og mátti ekki miklu
muna, að við yrðum innibyrgðir og köfnuðum í loftleysi.“
„Það er nú
svo“, sagði Ned Land.
Í þessu var
hlerunum skotið frá gluggunum og lagði inn birtu utan að.
Sæfarinn var á floti. En í tíu metra fjarlægð frá báðum
borðum vóru þverhníptir, gljáandi ísveggir, sömuleiðis
fyrir ofan skipið og neðan. Jakinn sem við flúðum undan
hafði rekist á fastaísinn og við vórum komnir inn í geil
eða göng, þrjátíu metra á hæð og breidd. Var nú ekki annað
fyrir en komast út úr göngunum, aftur á bak eða áfram,
síga nokkur hundruð metra niður í djúpið og halda svo
ferðinni áfram.
Ljósið í
salnum var slökt, en inn um gluggana lagði svo sterka
birtu, að full-ljóst var eftir sem áður. Birta þessi
stafaði frá ljóskerum Sæfarans, en magnaðist margfaldlega
af geislabrotinu í ísnum. Hver ójafna, sprunga og nibba í
ísnum ljómaði í ótal litbrygðum eins og kristalsgler væri.
Það var eins og við værum staddir í afarstórum helli,
alsettum bláum, rauðum og grænum gimsteinum, sem skáru í
augun af ljósmagni og litbrygðum.
Þessi sjón
var svo fögur og tíguleg að Ned Land varð hrifinn af
henni, hvað þá við hinir. En á þessu varð skjót breyting.
Konsæll hljóðaði upp yfir sig og við tókum ósjálfrátt
höndunum fyrir augun.
Sæfarinn var
lagður af stað og skreið hratt. Öll þessi ógnamergð
ljósgeisla og lita var komin á hreifingu. Var því líkast
sem dynjandi eldregn flýgi fyrir gluggann, og stungu
geislarnir augun eins og nálaroddar.
Hlerunum var
skotið fyrir gluggana og gátum við þá tekið hendurnar frá
augunum, en sviðatilkenning höfðum við í sjáaldrinu lengi
á eftir.
Klukkan fimm
um morguninn urðum við varir við snöggan kipp. Gátum við
þess til, að framstafn skipsins hefði rekist í ísnibbu, og
mundi það hæglega geta sneitt fyrir hana. En brátt varð ég
þess var, að skipið skreið aftur á bak.
„Við förum
aftur á bak!“ sagði Konsæll.
„Já“, svaraði
ég. „Göngin hafa verið byrgð í þennan endann. Við verðum
að leita útgöngu annarsstaðar“.
Ég var í
mikilli geðshræringu, en reyndi að dylja hana fyrir
félögum mínum. Mér eirði ekki að sitja lengur. Ég fór inn
í bókaklefann, þaðan inn í salinn og svo inn í bókaklefann
aftur, tók bók og fór að blaða í henni, en las ekki stakt
orð.
Konsæll kom
inn til mín.
„Er það
skemtileg bók, sem húsbóndinn er að lesa núna?“ spurði
hann.
„Já, mjög
skemtileg“, svaraði ég.
„Mér datt það
í hug. Það er víst 'Um leyndardóma undirdjúpanna'“.
Bókin mín! Ég
skelti aftur bókinni og gekk inn í salinn.
Ég beið með
óþreyju þess sem verða vildi og var alt af annað veifið að
athuga mælingaverkfærin. Á þrýstimælinum sá ég að við
vórum alt af í þrjú hundruð metra dýpi, og áttavitinn
sýndi að við héldum í suður; en skriðstikan mældi 5
sæmílna hraða á klukkustundinni. Það var hratt farið í svo
þröngum farvegi. En Númi skipstjóri varð að hafa hraðann
á, því hver mínúta var dýrmæt.
Þegar klukkan
var gengin tuttugu og fimm mínútur í níu, rakst skipið á
að nýju. Og nú var það skuturinn sem mætti fyrirstöðunni.
Ég fölnaði af
ótta, og förunautar mínir spruttu upp og staðnæmdust hjá
mér. Ég tók í höndina á Konsæl.
Í sömu svifum
kom Númi skipstjóri inn úr dyrunum.
„Við erum
innibyrgðir“, sagði hann.
Mér varð
litið framan í Núma. Hann var að sjá jafn skaprór og hann
átti vanda til. Hann staðnæmdist á miðju gólfinu, brá
handleggjunum í kross á brjóstinu og var hugsi um hríð.
Sæfarinn
hreyfðist ekki.
Loks tók Númi
til máls, jafn stillilega og vant var:
„Það verður
líklega út úr, að við köfnum hérna“.
„Er
þéttiloftið komið að þrotum?“ spurði ég.
„Við höfum
enn nægilegt loft í fjörutíu og átta klukkustundir“.
„Er engin von
um að fram úr rakni fyrir okkur, fyrir þann tíma?“
„Við verðum
að reyna að brjótast gegnum ísinn. Sæfarinn er nú að
leggjast á botninn á þessum göngum. Svo sendi ég nokkra
menn út til að grenslast eftir hve ísinn er þykkur og hvar
tiltækilegast muni að leita útgöngu“.
Að svo mæltu
fór Númi. Sæfarinn seig niður á við hægt og hægt og náði
loks botni á þrjú hundruð og fimmtíu metra dýpi.
„Við erum í
miklum vanda staddir“, sagði ég.
„Svo er
víst“, svaraði Ned Land, „og er nú sízt tími til ill-lynda
og nöldurs. Ég get beitt íshöggi engu síður en skutli, og
vil nú bjóða Núma skipstjóra liðveizlu mína“.
Við fylgdum
Núma þangað, sem skipverjar vóru að fara í kafarafötin.
Boði hans var vel tekið, og sá ég ekki að hann væri seinni
að búa sig, en hver hinna.
Meðan þessu
fór fram, hafði hlerunum verið skotið frá gluggunum á
salnum. Gátum við Konsæll því séð, hverju fram fór
umhverfis skipið. Að vörmu spori komu tíu menn út úr
skipinu og gengu út á ísinn. Mátti sjá hvar þeir fóru,
Númi skipstjóri og Ned Land, því þeir vóru öðrum miklu
meiri á vöxt.
Áður byrjað
væri að brjóta ísinn, var hann kannaður rækilega með
löngum ísnöfrum. Fyrst var borað í hliðarstálin til beggja
handa, og náði nafarinn 15 metra inn í ísinn, en komst þó
ekki í gegn. Þótti þá vonlaust, að reyna frekar í þá átt.
Þá var borað niður í botninn. Þar reyndist ísinn að vera
tíu metra þykkur. Var nú ekki annað fyrir, en höggva þar
gat á ísinn, svo stórt, að Sæfarinn kæmist niður um það.
En til þess að það gæti tekist, varð að höggva upp sex
þúsund og fimm hundruð teningsmetra af ís.
Var nú
umsvifalaust tekið að brjóta ísinn. Númi markaði fyrir um
svo stóran blett, sem svaraði ummáli skipsins. Þegar farið
var að höggva ísinn, kom í ljós einkennilegt fyrirbrygði,
sem varð mikill hægðarauki við vinnuna. Klakaflísarnar,
sem losnuðu, vóru léttari en vatnið, og leituðu því upp á
við jafnharðan og staðnæmdust upp við ísþekjuna í göngum
þessum. Varð hún því að sama skapi þykkari, sem gólfið
varð þynnra.
Eftir tvær
klukkustundir kom Ned Land inn í salinn aftur, og var þá
all-dasaður orðinn. Tók þá við nýr flokkur manna af hinum,
og vórum við Konsæll í þeirra hóp. Þeim flokki stýrði
næstráðandi skipsins.
Mér þótti
sjórinn kaldur fyrst í stað, en mér hitnaði brátt af
erfiðinu. Var mér þó furðu hægt um hreyfingar allar, þrátt
fyrir þrjátíu loftþyngda þrýsting, sem hvíldi á okkur.
Þegar ég kom
inn í skipið aftur, að liðnum tveim stundum, til að
hvílast og matast, fann ég talsverðan mun á því, hve
loftið í skipinu var verra en það loft, sem við höfðum
andað að okkur við vinnuna. Í herbergjum skipsins hafði
ekki verið skift um loft í fjörutíu og átta klukkustundir,
og var það því orðið talsvert mengað af kolsýru.
Fór svo fram
um tólf stundir, að flokkarnir skiftust á um að brjóta
ísinn. Var þá dældin orðin einn meter á dýpt. Með sama
áframhaldi þurfti enn að vinna í fimm nætur og fjóra daga,
til þess að ljúka verkinu.
Fimm nætur og
fjóra daga! Það vóru illar horfur. Og nú áttum við ekki
meira loft eftir en svo, að vart mundi endast í tvo
sólarhringa.
„Já, og ekki
nóg með það“, sagði Ned Land, þegar ég hafði orð á þessu
við hann, „þó við höfum af að komast niður úr ísnum, erum
við engu bættari, fyr en við komumst út úr ísnum og náum
lofti í auðum sjó“.
Ástæður okkar
vóru óneitanlega slæmar, en við vórum samhuga um það
allir, að duga eftir mætti fram á síðustu stund.
Um nóttina
var dældin enn dýpkuð um einn meter. En þegar ég byrjaði
að vinna morguninn eftir, veitti ég því eftirtekt, að
ísgeilin, sem við vórum í, var að þrengjast. Hliðarnar
færðust nær. Ennþá einn háskinn á ferðinni! Það var ekki
um að villast, sjórinn umhverfis okkur var að frjósa, og
hlaut sá endir á því að verða, að frostið kreisti Sæfarann
saman í heljargreipum sínum.
Þegar ég kom
inn í skipið aftur, vakti ég máls á þessu við Núma
skipstjóra. En kjarkur þessa manns var óbilandi.
„Ég veit
það“, sagði hann. „En við því er ekki annað að gera, en
vinna hraðar en frostið,—verða á undan því“.
Þann dag vann
ég marga tíma af mesta kappi. Vinnan hélt við hugrekki
mínu, og svo var annað, sem hvatti mig til vinnunnar.
Loftið í Sæfaranum var orðið æði þungt og þrungið af
óheilnæmi, en við vinnuna höfðum við hreint loft, sem
tekið var úr loftforða skipsins og látið í lofthylkin, sem
við bárum á bakinu.
Um kvöldið
vórum við enn komnir einum meter dýpra. En loftið í
Sæfaranum var nú orðið svo fult af kolsýru, að Númi varð
að opna einn þéttiloftsklefann og hleypa hreinu lofti út í
skipið.
Daginn eftir
tók ég til starfa að nýju. Var nú ísinn kominn svo nærri
til beggja hliða og að ofan, að mér duldist ekki að hann
mundi læsa sig utan um skipið áður en við gætum bjargað
því. Ég var að því kominn að láta hugfallast. Til hvers
var að strita lengur, fyrst svo átti að fara hvort sem
var, að þetta steingerða vatn kreisti úr okkur lífið! Það
var því líkast sem óargadýr væri að leggja skoltana utan
um okkur.
Í sama bili
gekk Númi hjá mér. Ég benti með hendinni á ísinn. Á
stjórnborða hafði ísinn þokast nær um fjóra metra. Númi
skildi hvað ég átti við og benti mér að koma með sér.
Snérum við inn í skipið aftur, fórum úr kafarafötunum og
gengum inn í aðalsalinn.
„Við verðum
að finna eitthvert úrræði, prófessor góður; ella er úti um
okkur“.
„Já, en hvað
á það að vera?“
„Ég vildi að
Sæfarinn væri sterkari en ísinn!“ sagði Númi. „Þá mundi
hann geta sprengt ísinn, eins og ís sprengir stein, og við
þyrftum ekkert fyrir að hafa“.
„Nei færum
við að reyna það, þá yrði Sæfarinn að járnklessu“.
„Já, satt er
það. Við verðum að hamla frostinu að ná okkur. Það er ekki
einungis til hliðanna, sem ísinn færist nær, heldur einnig
til beggja enda“.
„Hve mikið
loft er eftir?“
„Ekki meira
en svo, að leyfarnar þrjóta í fyrramálið“, svaraði Númi
dræmt og leit til mín.
Mér spratt
kaldur sviti í enni. Var þó þetta engin nýjung, því ég
vissi vel að svona hlaut að fara. Nú vóru liðnir fimm
sólarhringar síðan hreint loft var tekið seinast.
Ég leit á
Núma og sá að hann var annars hugar. Það var að sjá sem
honum hefði hugkvæmst eitthvað, sem hann var að velta
fyrir sér.
Eftir nokkra
þögn mælti Númi; „Það er ekki mikill sjór umhverfis okkur.
Ef heitu vatni væri dælt út úr skipinu, ætti það að geta
hamlað upp á móti frostinu“.
„Það ættum
við að reyna“.
„Komið þér
með mér“.
Númi fór með
mig inn í matreiðsluklefann. Þar vóru stór og margvísleg
eimingaráhöld, sem höfð vóru til að ná neyzluvatni úr
sjónum. Eimíkerin vóru fylt vatni og hleypt gegnum þau
sterkum rafmagnsstraumi. Hitnaði þá vatnið svo að segja á
augabragði og mátti þegar í stað dæla því út sjóðheitu.
Að liðnum
þrem stundum sýndi mælirinn utan á skipinu sex stiga
frost. Það var einu stigi minna en þegar tilraunin
byrjaði. Enn liðu tvær stundir, og var þá frostið ekki
orðið meira en fjögur stig.
Þegar leið á
nóttina var frostið orðið að eins eitt stig. Hærra var
ekki unt að komast. En þetta dugði, því saltvatn þarf
tveggja stiga kulda til að frjósa. Var því nú afstýrt að
við frysum inni á þennan hátt.
Að kvöldi
hins næsta dags var búið að höggva svo mikinn ís, að þróin
var orðin sex metra djúp. Þá vóru eftir fjórir
metrar,—sama sem fjörutíu og átta klukkustunda vinna.
Loftið í
skipinu varð nú ekki endurnýjað oftar. Það sem til var af
óspiltu lofti, varð að treina handa þeim, sem unnu að
klakahögginu. Loftið var því nær banvænt orðið.
Ég varð
altekinn af þróttleysi og doða, sem ætlaði að gera út af
við mig. Klukkan þrjú um daginn elnaði ógleði mín og sóttu
á mig geispar svo tíðir og langir, að við sjálft lá að
kjálkarnir gengju úr eðlilegum skorðum. Því næst kom yfir
mig doðamók, svo nærri lá að ég misti meðvitundina. En ég
átti hauk í horni þar sem Konsæll var. Hann hélt í höndina
á mér og reyndi á allan hátt að hughreysta mig og var hann
þó jafn illa haldinn og ég.
Þegar svona
var orðið ástatt í skipinu má geta nærri að við urðum
fegnir að komast út til vinnunnar. Okkur stóð á sama þó
verkið væri erfitt, þó við yrðum yfirkomnir af þreytu. Við
gátum dregið andann meðan stóð á vinnunni, og það var
aðalatriðið.
Þegar þessi
dagur var á enda vóru eftir að eins tveir metrar milli
lífs og dauða. En loftið var á förum.
Það var
óttaleg nótt sem í hönd fór, og næsti dagur þó enn verri.
Ég kvaldist af höfuðverk og svima og reikaði eins og
drukkinn maður, þegar ég stóð upp.
En Númi
skipstjóri lét ekki hugfallast af stritinu og þrautunum,
sem hann átti sömu hlutdeild í og við.
Hann einn
réði betur fram úr vandræðunum en við allir hinir. Hann
afréð að gera tilraun til að bjarga okkur á auðveldari
hátt en íshöggið var. Þróin sem búið var að höggva, var á
stærð við Sæfarann að innanmáli og í botninum var ísinn að
eins einn meter á þykt. Númi lét nú bora göt gegnum ísinn
til og frá. Að því loknu skipaði hann að lyfta Sæfaranum
þaðan sem hann lá og sökkva honum niður í þróna. Þegar
skipverjar vóru komnir inn í skipið, var hlerunum lokað
vandlega og vatni hleypt inn í sökkviklefana. Klefarnir
rúmuðu eitt hundrað teningsmetra af sjó. Við það varð
skipið tvö þúsund tíufjórðungavættum þyngra en áður.
Við biðum
óþreyjufullir úrslitanna.
Þrátt fyrir
suðið í eyrum mér, heyrði ég glögt ísinn bresta undan
kjölnum á Sæfaranum. Alt í einu brast hann allur sundur
með braki miklu, og skipið sökk eins og steinn í djúpið.
„Við erum
komnir niður úr“, sagði Konsæll.
Ég kom ekki
upp orði, en tók í höndina á Konsæl fast og alúðlega.
Sæfarinn féll
eins og steinn í lausu lofti, sökum vatnsþyngslanna, sem í
honum vóru.
Dælurnar vóru
settar af stað á augabragði til að þrýsta út sjónum úr
skipinu. Dró því brátt úr fallhraðanum og eftir stutta
stund mátti sjá á þrýstimælinum að skipið var farið að
leita upp á við aftur. Var nú vélin sett af stað og haldið
áfram norðureftir með fylsta hraða.
En nú var
eftir að vita hve langt var norður úr ísnum. Lengur en
einn dag enn var óhugsandi að nokkur maður í skipinu héldi
lífi.
Ég var hættur
að vita hvað tímanum leið. Ég vissi það eitt, að ég var
kominn fram í andarslitrin og hlaut að deyja.
Skyndilega
lifnaði yfir mér aftur og ég teigaði að mér hreint loft.
Vórum við komnir út úr ísnum og upp á yfirborðið?
Nei, ekki var
því að heilsa. En Ned Land og Konsæll höfðu fundið ögn af
lofti í einu kafarahylkinu og létu mig anda því að mér, í
stað þess að neyta þess sjálfir.
Ég ætlaði að
ýta því frá mér, en þeir héldu á mér höndunum meðan ég var
að svelgja hreina loftið.
Mér varð
litið á klukkuna. Hún var ellefu. Það var liðið nær
hádegi, hinn 28. marz. Ég fann að skipið hristist ákaft af
átökum vélarinnar.
Eftir
þrýstimælinum að dæma vórum við ekki nema tuttugu fet
fyrir neðan yfirborð sjávar. Ísinn var orðinn tiltölulega
þunnur og ekki óhugsandi að takast mætti að brjótast upp
úr honum. Að minsta kosti ætlaði Númi að gera tilraun til
þess. Sæfarinn lagðist skáhallur, svo stafninn vissi upp á
móti ísnum. Til að ná þeirri aðstöðu þurfti ekki annað en
fylla sökkviklefa aftur í skipinu. Svo rann hann undir
ísinn og beitti stáltrjónunni. Gekk svo um hríð og
brotnaði ísinn að mun í hverri atrennu. Loks rann hann í
gegnum ísinn og upp á skörina, sem þegar brast undan þunga
skipsins.
Þiljuhlerunum
var hrundið upp í einni svipan og hreint loft lagði niður
í skipið.
Hvernig ég
komst upp á þilfar veit ég ekki. Ned Land og Konsæll hafa
að líkindum hjálpað mér upp; en ég andaði að mér hreinu
lofti—og það var mér öllu öðru dýrmætara. Menn sem setið
hafa í svelti um langan tíma, verða að gæta varúðar, þegar
þeir fá aftur nægan mat. En þess þurftum við ekki. Við
svelgdum loftið svo mikið sem þörfin krafði.
„Hér er gott
að koma. Hér er nóg af blessuðu loftinu“, sagði Konsæll.
Ned Land,
sagði ekkert, en hann gapti svo ákaflega, að það hefði
gert hvern meðalhákarl skelkaðan. Þvílík lungu! Þau sogugu
og kvæstu, eins og stærsti smiðjubelgur.
Við náðum
okkur aftur furðu fljótt og ég flýtti mér að þakka félögum
mínum fyrir umönnun þeirra á mér. Ég er viss um að án
þeirra aðstoðar hefði ég ekki haldið lífinu.
Eftir nokkra
töf fór Sæfarinn aftur í kaf og hélt áfram ferðinni
norðureftir. Við stefndum á suðurodda Ameríku. En hvert
var ferðinni heitið? Hvort ætlaði hann að beygja vestur
fyrir Ameríku, út í eyðivíðáttu Kyrrahafsins, eða austur í
Atlantshafið, meðfram ströndum Evrópu eða Ameríku?
Það var
vafamál, sem skifti miklu.
Ég bjóst við
að Númi mundi stýra í vestur og ljúka svo hringför sinni
umhverfis hnöttinn. En sú ætlun brást. Hann beygði til
austurs og hélt norður með ströndum Ameríku.
Hinn 16. dag
aprílmánaðar höfðum við landsýn. Vórum við þá fjórar mílur
undan Marteinseyjum.
Ned Land fór
að hyggja á flótta að nýju. En við vórum of langt frá
löndum enn sem komið var.
Við
félagarnir höfðum langa samræðu um flóttaundirbúninginn.
Kom þá Ned Land fram með uppástungu, sem mér var í meira
lagi um geð. Hann sagði að nú ætti ég að fara og hitta
Núma skipstjóra að máli tafarlaust, og fá að vita fyrir
víst, hvort hann ætlaði sér að halda okkur á skipinu
framvegis. Þetta þótti mér ekki hyggilega ráðið og
líklegra til að spilla ráðagerð okkar. Ég vænti einskis
góðs af Núma, og taldi okkur verða mundi vandara ráða, ef
hann fengi nokkurn grun um þessa fyrirætlun. Auk þess var
Númi orðinn óvanalega einrænn og fálátur, upp á síðkastið.
Það var svo að sjá sem hann forðaðist mig, enda varð hann
sjaldan á vegi mínum. Áður var hann vanur að rannsaka með
mér ýmsar nýjungar, sem fyrir okkur bar í ríki sævarins og
fræða mig um hitt og annað. En nú var hann alveg hættur
því og kom því nær aldrei inn í salinn.
Mér var
óskiljanlegt af hverju þetta stafaði. Það gat verið að
honum mislíkaði vist okkar á Sæfaranum. En ekki gat ég
samt trúað honum til að gefa okkur lausa.
Tuttugasta
apríl vórum við í fjórtán hundruð metra dýpi. Mararbotninn
var ósléttur mjög og stórgrýttur. Vóru víða gjár og gjótur
milli klettanna, svo djúpar að ekki sá til botns. Á
klettunum uxu afar stórir þönglar og þarategundir ýmsar.
Við
félagarnir sátum út við gluggann og athuguðum það sem
fyrir augun bar. Barst þá talið að sædýrum ýmsum, sem
verða hvert öðru að bráð, eftir stærð og færleik.
Ned Land var
ekki ætíð samdóma okkur Konsæl og lagði hann lítinn trúnað
á sögur, sem sagðar eru um stóra kolkrabba.
„Ég hefi
sjálfur séð kolkrabba draga stórt hafskip í kaf“, sagði
Konsæll í mestu einlægni.
„Það er svo“,
sagði Ned Land. „Hvar skeði það nú?—ef ég má spyrja“.
„Í St. Maló“,
svaraði Konsæll.
„Á höfninni?“
spurði Ned háðslega.
„Nei í
kirkjunni“.
„Hvað á þetta
að þýða?“
„Jú-ójú,—þar
er málverk, sem sýnir þetta mjög greinilega“.
Þá hló Ned
Land og skaut svo málinu undir minn úrskurð. Ég kannaðist
við það, að mynd þessi væri að vísu hugarburður; en því
hélt ég fram, að kolkrabbar gætu orðið afar stórvaxnir.
Vórum við að
skeggræða um þetta fram og aftur og gættum ekki að hverju
fram fór, þar til Konsæll kallaði til okkar alt í einu.
Varð okkur litið út um gluggann og sáum við þá óvænta
sjón. Það var skrímsl, afar stórt og svo hræðilegt, að það
hefði vel getað átt heima í kynlegustu lygasögu.
Þetta var
kolkrabbi, sjálfsagt átta metra langur. Hann synti aftur á
bak í sömu átt og Sæfarinn og jafn hratt. Hann hafði átta
anga alsetta sogskálum og var hver um sig tvöfalt lengri
en skrokkurinn. Goggurinn var afar stór og sterklegur og
svipaður arnarnefi í lögun. Hann skifti litum í sífellu,
var ýmist stálgrár eða móbrúnn.
Fyrir
tilviljun höfðum við rekist á eina af þessum skepnum, sem
við vórum að tala um. Þótti mér bera vel í veiði og ætlaði
ekki að láta tækifærið ónotað. Tók ég því ritblý í snatri
og fór að draga mynd af dýrinu.
En brátt komu
fleiri kolkrabbar í ljós. Urðu þeir sjö talsins á stuttum
tíma, stjórnborðsmegin. Þeir fylgdust með skipinu og
hnitmiðuðu hraðann svo nákvæmlega við ferð skipsins, eins
og væru þeir fastir við það. Hefði vel mátt draga mynd af
þeim með því móti, að líma gagnsæjan pappír á rúðuna og
gera merkilínur á hann. Að vísu skreið Sæfarinn heldur
hægt.
Í einni
svipan stöðvaðist skipið og varð af harður kippur, svo
gnast í öllum samskeytum.
„Höfum við
rekist á sker?“ spurði ég.
„Hvort sem
það er eða ekki, þá erum við á floti enn“, svaraði Ned
Land.
Sæfarinn var
á floti.—Það var satt. En hann lá kyr. Að vörmu spori kom
Númi inn og næstráðandi með honum.
Ég hafði ekki
séð hann áður jafn svipþungan og nú. Hann heilsaði
ekki,—hefir ef til vill ekki tekið eftir okkur—en gekk
rakleiðis að glugganum, athugaði kolkrabbana um stund og
sagði svo nokkur orð við næstráðandann.
Næstráðandi
fór þegar út. Nokkru síðar var gluggunum lokað og
rafljósið tendrað.
Ég gekk til
Núma.
„Laglegt
kolkrabbasafn þetta“, sagði ég.
„Já, hr.
náttúrufræðingur“, svaraði hann, „og við verðum að berjast
við þá“.
„Berjast“, át
ég eftir. Mér var ekki ljóst hvað Númi átti við.
„Já, ég
ímynda mér að eitt af þessum dýrum hafi gripið um
skrúfuspaðana og haldi þeim föstum. Þess vegna komumst við
ekki áfram“.
„Hvað er við
því að gera?“
„Við verðum
að fara upp að yfirborðinu og ráðast á þá með vopnum og
bareflum“.
„Og skutli,
ef þér viljið þyggja lið af mér“, sagði Ned Land.
„Það þygg ég
gjarna“, svaraði Númi.
Að svo mæltu
fórum við til stigans, sem farið var eftir upp á þiljur.
Þar vóru fyrir tíu menn vopnaðir. Höfðu sumir íshögg og
barefli af ýmsu tagi. Við Konsæll fengum okkur sitt
höggvopnið hvor, en Ned Land hafði skutulinn.
Sæfarinn fór
upp að yfirborðinu. Skipverji einn, sem efstur stóð í
stiganum fór að losa um skrúfurnar, sem þiljuhlerunum var
fest með. En áður hann fengi lokið því verki, var hlerunum
svift upp af afli miklu. Kolkrabbi einn hafði sogið sig
fastan við hlerann og tekið svo snögt viðbragð.
Rétt í sömu
svipan kom angi og fálmaði niður um hleragatið. Númi var
fljótur til og hjó í sundur angann svo hann valt niður
stigann og engdist viðbjóðslega á gólfinu.
Skipverjar
ruddust fast og sóttu upp stigann. Komu þá niður tveir
angar, vöfðust utan um einn hásetann og sveifluðu honum
upp um hleragatið.
Númi hljóðaði
upp yfir sig og rann upp stigann eins og kólfi væri
skotið. Við hinir fórum þegar á hæla honum.
Kolkrabbinn
hélt manninum hátt upp og kramdi hann með sogskálunum.
Maðurinn braust um af megni og kallaði á hjálp, en gat
engri vörn við komið.
Númi sótti
þegar að dýrinu og hjó af því einn angann. Næstráðandi
átti í höggi við annan kolkrabba, sem hafði sogið sig
fastan við skipið. Gengu skipverjar vel fram og drógu ekki
af sér. Við Konsæll beittum íshöggunum en Ned Land
skutlinum. Lögðum við vopnunum hvað eftir annað á kaf í
grænleitar þjósir skrímslanna. Lagði af þeim megnan óþef,
ekki óáþekkur moskuslykt.
Ég hélt um
eitt skeið að manninum væri borgið. Þá var búið að höggva
af dýrinu alla angana nema þann, sem hélt manninum. En þá
sendi dýrið yfir okkur voðamikla gusu af svörtum legi, sem
blindaði okkur alveg í svipinn. Þegar við gátum neytt
augnanna aftur var það horfið í djúpið með manninn.
Eftir þetta
sóttum við að ófreskjunum hálfu ákafar en áður. Höfðu
dýrin þá læst sig á skipið tíu eða tólf saman, bæði á
súðirnar og þilfarið. Varð skipið á svipstundu atað blóði
og svörtum legi, en afhögnir limir engdust eins og
höggormar til og frá um þilfarið. Ned Land beitti
skutlinum af miklu kappi og hiltist til að leggja dýrin í
augun. Þá vildi svo til að kolkrabbi sló einum anganum á
hann, svo hann féll fyrir.
Ég skundaði
til og ætlaði að hjálpa Ned Land, en Númi varð fyrri til.
Keyrði hann höggvopnið upp í ginið á dýrinu og var þá Ned
borgið. Spratt hann á fætur og tvíhenti skutulinn á dýrið
svo stóð í hjarta.
Þessi bardagi
stóð yfir í einn stundarfjórðung, og fanst okkur það þó
ærið langur tími. Fór svo að lokum að kolkrabbarnir fóru á
flótta, þeir sem svo vóru færir. Vóru flestir illa
útleiknir, særðir og sundurtættir.
Númi var
allur ataður blóði eftir viðureignina. Stóð hann lengi á
þilfarinu og horfði út á hafið, sem lukti nú yfir einn af
félögum hans, og hrundu honum tár af augum.
Eftir það sá
ég ekki Núma í nokkra daga. Hann lokaði sig inni í klefa
sínum og var ekki mönnum sinnandi.
Sæfarinn
sveimaði til og frá um þessar sömu slóðir þá dagana. Loks
héldum við áfram ferðinni norðureftir og nálguðumst
strendur Norður-Ameríku. En við fórum langt frá landi og
veður vóru hörð um þessar mundir, þó það bitnaði lítið á
okkur.
Dag einn kom
Ned Land inn til mín.
„Þetta verður
að hafa einhvern enda“, sagði hann. „Númi stýrir nú í
norður. Ég er búinn að fá nóg af Suðurskautinu og ætla
ekki að vera með til Norðurskautsins“.
„Hvað eigum
við að gera, Ned Land?“
„Þér verðið
að tala við skipstjórann. Að öðrum kosti ætla ég að gera
það. Við nálgumst Ameríku,—erum komnir í námunda við
Kanada, ættland mitt. Ég vil komast héðan hvað sem það
kostar“.
Ned Land var
þrotin þolinmæðin. Hann gat ekki unað þessari æfi lengur.
Ég var líka orðinn annars hugar, en ég var fyrir sjö
mánuðum. Allan þennan tíma hafði ég verið einangraður frá
viðskiftum við aðra menn og vissi ekki hverju fram fór í
heiminum. Númi var orðinn gjörbreyttur. Áður var hann mér
til ánægju og aðstoðar í rannsóknum mínum, en nú var því
með öllu lokið.
Það þurfti
flæmskan mann, eins og Konsæl, til að una svona æfi til
lengdar.
„Þér viljið
þá að ég spyrji hann, hvað hann ætlar sér fyrir með
okkur?“ sagði ég.
„Já“.
„En ég hitti
hann sjaldan. Hann forðast að verða á vegi mínum“.
„Því meiri
ástæða er til að reyna að komast að einhverri niðurstöðu í
þessu“.
„Ég skal
reyna, Ned“.
„Hve nær?“
„Þegar ég
hitti hann“.
„Viljið þér
að ég nái í hann?“
„Nei, látið
mig einan um það. Á morgun . . . .“
„Nei, í dag“,
sagði Ned með áherzlu.
„Þá það. Ég
skal finna hann í dag“.
Ned Land fór
út, og ég einsetti mér að koma þessari fyrirætlan í
framkvæmd þegar í stað.
Ég gekk að
skipstjóraklefanum og hleraði. Númi var inni. Ég barði að
dyrum.—Enginn anzaði. Ég barði aftur og lauk svo upp
hurðinni. Númi var þar og laut fram yfir skrifborðið. Hann
hafði að líkindum ekki heyrt til mín. Þegar ég gekk til
hans, rétti hann úr sér og leit við mér reiðulega.
„Hvað viljið
þér?“ spurði hann.
„Mig langar
að tala við yður nokkur orð“.
„Ég er vant
við látinn; ég er að vinna“.
Þetta vóru
ekki glæsilegar viðtökur, en ég hugsaði mér að gefast ekki
upp fyr en í fulla hnefana.
„Það er
mikilsvarðandi málefni, sem ég ber fyrir brjósti, hr.
skipstjóri“.
„Það er svo“,
svaraði Númi háðslega. „Hafið þér dottið ofan á eitthvert
hugvitsráð? Eða hafið þér komist að einhverju leyndarmáli
í ríki hafsins, sem mér er ókunnugt?“
Ég var í vafa
um, hvernig ég ætti að hefja máls á erindinu. En áður ég
fengi sagt nokkuð tók Númi aftur til máls og benti um leið
á handritabunka, sem lá á borðinu fyrir framan hann:
„Hérna eru
ritverk mín. Í þeim er öllu lýst, sem fyrir mig hefir
borið á sæferðum, það sem snertir náttúru hafsins og
þeirra dýra, sem það byggja. Ég held þeim áfram væntanlega
langan tíma enn og bæti mörgu við. Ég ætla líka að skrifa
æfisögu mína“.
Númi hallaði
sér aftur í stólnum og horfði í heim fram stundarkorn. Ég
lagði við hlustirnar.—Ætlaði hann að fara að segja mér
æfisögu sína?
„Það var í
indverska stríðinu“, sagði hann. „Þá var ég ungur; þá átti
ég fagrar vonir; þá gat ég borið traust til mannanna.
Ojá,—ekki var
ég þó gamall, þegar gremja og hrygð fóru að sverfa að mér.
Ég hafði lengi horft á þjóð mína þjakaða og hrakta. Alt
stóð í stað, sem til umbóta mátti horfa, en heimska og
sérdrægni sátu á valdastóli. Margra alda menning okkar var
fótum troðin og alþýða manna kúguð. Sérdrægir og
óhófsgjarnir valdhafar læstu klónum í þjóðina og sugu úr
henni blóð og merg. En hefndin kom—hlaut að koma. Það var
ég, sem fyrstur hóf merkið og fylkti þjóð minni til orustu
gegn kúgun og ófrelsi. En það var að eins
hefndin,—endaslepp hefnd!“
Númi stóð upp
og gekk um gólf í ákafa. Það fór hrollur um mig, þegar ég
hugsaði til þess hve Indverjum hafði blætt meðan
uppreisnin stóð yfir. Hve margar þúsundir þeirra höfðu
verið myrtar og svívirtar á allan hátt, svo flestum
mentuðum þjóðum ofbauð. Og þessi maður, Númi skipstjóri,
var þá indverski konungssonurinn, sem stýrði uppreisninni.
Númi
staðnæmdist fyrir framan mig.
„Það varð alt
árangurslaust“, sagði hann með skjálfandi rómi. „Og hvar
er sú þjóð stödd, sem fargað hefir frelsi sínu. Hún er
svift öllum skilyrðum fyrir því að vera þjóð og geta tekið
eðlilegum framförum! Kúgun er verri en dauði. Það er
réttur og skylda hvers manns að fórna lífi sínu fyrir
frelsið.—En ranglætið er réttinum yfirsterkara“.
Númi þagnaði
og settist aftur á stólinn. Ég reyndi að tengja saman það
sem honum var nú ríkast í hug og það, sem mér bjó í
brjósti.
„Þegar þessum
handritum yðar er lokið,—hvað verður þá um þau?“
„Þau verða
látin í lokað hylki, sem ekki getur sokkið og sá maður,
sem lengst lifir á skipinu fleygir því í sjóinn“.
„Það væri
mjög undir tilviljun lagt“, sagði ég, „og ekki gott að
vita í hvaða höndum það lenti. Þér gætuð ráðstafað því á
tryggilegri hátt. Ef þér létuð mig fá það og . . . . . . .
“.
„Það geri ég
aldrei“, svaraði Númi.
„Ef þér létuð
okkur lausa“, bætti ég við.
„Léti ykkur
lausa!“
„Já, það er
um það, sem ég ætlaði að tala við yður“, svaraði ég. „Nú
erum við búnir að vera hérna á skipinu í sjö mánuði. Ég og
félagar mínir verða að fá að vita, hvort það er ætlun yðar
að halda okkur hér á skipinu framvegis“.
„Hr. Aronnax,
ég hefi sagt yður það fyrir sjö mánuðum, að hver sem kemur
á Sæfarann, verður að vera þar upp frá því“.
„Það er þá
blátt áfram þrælkun“.
„Kallið það
hvað sem yður þóknast“.
„En þrælnum
er þó heimilt að taka sér frelsi, ef hann getur“.
„Hefi ég
bannað yður það? Held ég yður í fjötrum?“
Númi stóð með
krosslagðar hendur og hvesti á mig augun.
„Hr.
skipstjóri“, sagði ég. „Þér hafið vakið hjá okkur hlýjan
hug til yðar. Við höfum orðið hrifnir af snilli yðar og
hughreysti. Þér hafið bannað okkur að auðsýna yður þá
samhygð, sem alt háleitt og fagurt skapar í brjóstum
manna. Þér hafið valdið fáleikum milli okkar, sem gerir
okkur lífið gleðisnautt. Þér talið um frelsi. Þér hafið
barist fyrir frelsi, og hafið öðlast að sjálfur, en neitið
okkur um það. Hvað haldið þér að verði úr þessu? Ég hefi
með höndum vísindalegar rannsóknir, sem ég get unan við
nokkurn tíma enn. En hvað haldið þér að verði úr félaga
mínum, Ned Land? Hann hlýtur að leggja hatur á yður“.
Númi stóð upp
úr sæti sínu.
„Mér stendur
svo hjartanlega á sama hvað Ned Land hugsar eða ályktar“,
sagði Númi. „Ég gerði það ekki að gamni mínu að taka ykkur
á skipið. Þetta er í fyrsta sinn, sem þér talið við mig um
þetta mál, hr. prófessor, það verður líka að vera í
síðasta sinn“.
Ég fór út úr
klefanum í þungu skapi og skýrði félögum mínum frá því,
sem okkur Núma fór á milli.
„Nú vitum við
hvað í vændum er“, sagði Ned Land. „Við verðum að flýja,
hve nær sem færi gefst“.
Þegar komið
var norður undir Long-Island, breytti Sæfarinn stefnu og
stýrði í landsuður. Ned Land varð óður og uppvægur, en við
þessu máttum við ekki gera. Við fórum þvert yfir
Atlantshafið á skömmum tíma. Fengum við landsýn af Írlandi
og Englandi og stefndum inn í Ermarsund.
Við flutum í
yfirborðinu hinn 1. júní. Ég var staddur í aðalsalnum; kom
þá svo mikill hvellur, að ég þaut upp á þilfar til að
grenslast eftir hvað um væri að vera. Ned Land og Konsæll
vóru komnir þangað á undan mér.
„Hvaða
hvellur var þetta?“ spurði ég.
„Fallbyssuskot“, svaraði Ned Land og benti á skip, í svo
sem mílu fjarlægð, sem stefndi á okkur.
„Þetta er
herskip, það þori ég að veðja um“, sagði Ned Land.
„Það vildi ég
að hamingjan gæfi að það kæmi og gæti skotið í kaf þennan
bölvaðan Sæfara“.
„Hverrar
þjóðar er skipið?“ spurði ég.
Ned Land
hleypti brúnum og hvesti sjónina af fremsta megni. „Ég get
ekki sagt um það, það hefir ekki uppi fána. En eftir
reiðanum að dæma er þetta herskip“.
Við stóðum í
stundarfjórðung og athuguðum skipið. Það færðist nær smátt
og smátt. En ekki var unt að segja með vissu, hvort það
hafði tekið eftir Sæfaranum; því síður hvort menn þar
höfðu rétta hugmynd um eðli hans.
Eftir nokkra
stund fullyrti Ned Land, að þetta væri bryndreki með
vígtrjónu og þrennum þilförum. Þykkan kolamökk lagði upp
um reykháfinn. Ekki dró það fána á stöng og ekki var unt
að sjá litina í toppveifunni.
„Komi það
einum mílufjórðungi nær, þá steypi ég mér í sjóinn“, sagði
Ned Land. „Ég ræð ykkur til að fylgja mér eftir“.
Ég ætlaði að
svara þessu, en þá gaus hvítur reykjarmökkur út úr
framstafni skipsins og þungur hlutur skall á sjónum skamt
fyrir aftan Sæfarann, svo gusurnar gengu hátt í loft upp.
Rétt á eftir heyrðist snarpur hvellur.
„Þeir skjóta
á okkur!“ kallaði ég.
„Þetta eru
menn að mínu skapi“, sagði Ned Land.
„Með leyfi
húsbóndans . . . . . . já já“, sagði Konsæll og hristi af
sér sjóinn, sem ný kúla jós yfir hann. „Ég ætlaði að fara
að segja, að nú þættust þeir vera að skjóta á náhvelið
alræmda“.
„Þeim ætti að
vera vorkunnarlaust að sjá okkur“, sagði ég.
„Það hafa
þeir gert að líkindum“, svaraði Ned Land.
Mér flaug
nýtt í hug. Nú var að líkindum orðið lýðum kunnugt, hvers
eðlis þetta náhveli var. Eftir viðureignina við „Abraham
Línkoln“ hafði Farragút komist að raun um, að þetta var
neðansjávarskip, miklu hættulegra en nokkurt
yfirnáttúrlegt sjóskrímsl og nú vóru skip á sveimi um öll
höf, til að reyna að eyðileggja þessa morðvél.
Og Sæfarinn
var sannkölluð morðvél, þegar Númi beitti honum í hefnda
skyni, og var full ástæða til að halda, að hann gerði það.
Það hafði hann gert í Indlandshafinu kvöldið góða, þegar
við vórum lokaðir inni í klefanum. Af þeirri ástæðu hafði
hásetinn sem særðist á höfðinu, látið lífið. Að minsta
kosti mæltu allar líkur með því. Það var deginum ljósara
að á þessu skipi, sem nú var í nánd, átti Númi ramma
óvini, sem ekki hlífðu okkur og sem Númi mundi við engu
hlífa.
Skothríðin
jókst ákaft; en kúlurnar lentu í sjónum og hittu ekki
Sæfarann. Okkur furðaði á því að Númi kom ekki upp. Var þó
skothriðin orðin allhættuleg Sæfaranum, því herskipið var
komið mjög nærri okkur.
„Við verðum
eitthvað til bragðs að taka“, sagði Ned Land. „Ég geri
vísbendingu. Ættu þeir þá að geta skilið, að hér er við
heiðursmenn að eiga“.
Ned Land tók
upp vasaklút og ætlaði að veifa honum. En í sama vetfangi
var honum slengt flötum á þilfarið, af afli miklu.
„Afhrakið
yðar!“ þrumaði skipstjórinn. „Þér eigið skilið að ég bindi
yður framan á stafnfleyginn, áður en ég kaffæri þetta
skip“.
Á sama
augnabliki skall kúla á þilfarinu, en hrökk af járninu
langt út í sjó. Skipstjórinn ypti öxlum.
„Það er ykkur
sjálfum verst“, heyrði ég hann segja.
Svo vék hann
sér að okkur og sagði:
„Viðureignin
er hafin, herrar mínir. Farið þið niður!“
„Ætlið þér að
greiða atlögu?“ spurði ég.
Númi kinkaði
kolli til samþykkis.
„Gerið það
ekki“, sagði ég í bænarrómi.
„Fyrir
tilviljun hafið þér orðið margs vísari“, sagði hann.
„Farið þér niður“.
Við áttum
ekki annars úrkosti en hlýða skipstjóranum. Áður en ég fór
niður sá ég nokkra skipverja skipa sér um Núma og horfðu
þeir á skipið með reiðulegum svip og látbragði; en
kúlurnar dundu á Sæfaranum og umhverfis hann.
Þegar ég var
kominn niður í klefann minn fór Sæfarinn af stað og skreið
út úr skotmáli. En það fór eins og mig grunaði, að
herskipið elti hann. Þegar klukkan var orðin fjögur um
daginn eirði ég ekki kyrsetunni lengur. Ég fór út í
miðskipsganginn. Hlerarnir vóru opnir og ég hætti mér upp
á þilfar. Númi var að ganga um gólf á þilfarinu og gaf
gætur að herskipinu annað veifið. Það var nú í einnar mílu
fjarlægð og leit út fyrir að Númi væri á báðum áttum,
hvort hann ætti að granda því eða ekki. Ég gerði enn eina
tilraun til að miðla málum. En ekki var ég fyr búinn að
opna munninn en Númi kom rakleitt til mín og staðnæmdist
fyrir framan mig. Svipur hans var svo breyttur, sem væri
hann orðinn ári eldri en að morgni þessa dags. Hatur og
heift skein úr augum hans, þegar hann tók til máls.
„Rétturinn er
á mína hlið. Þarna er kúgarinn, hann sem hefir svift mig
öllu sem ég elskaði: Föðurlandi og frændum, konu og
börnum. Ég hata hann!“
Ég leit í
síðasta sinn til herskipsins feiga, sem sótti nú svo ákaft
eftir Sæfaranum, og fór svo niður til félaga minna.
„Við skulum
flýja héðan!“ sagði ég.
„Hvaða skip
er þetta?“ spurði Ned Land.
„Ég veit það
ekki. En hitt er víst, að það verður sokkið niður á
mararbotn áður þessi dagur er allur. Og af tvennu illu er
betra að farast með því, en taka hér þátt í hryðjuverki,
sem við vitum ekki hversu réttmætt er“.
„Ég er á sama
máli“, sagði Ned Land. „En við verðum víst að bíða með það
til næturinnar“.
Leið svo af
dagurinn og nóttin færðist yfir. Alt var með kyrð og spekt
á Sæfaranum. Hann hélt áfram með jöfnum hraða, alt af í
sömu átt, og ruggaði þægilega í öldufallinu.
Við ráðgerðum
að flýja þegar herskipið væri komið svo nærri, að við
gætum látið heyra eða sjá til okkar. Tungl var í fyllingu
og glaðbjart úti. Gerði það okkur hægra fyrir að flýja.
Lítil líkindi vóru til þess, að við gætum varið herskipið
fyrir áhlaupi Sæfarans, þó við kæmumst út á það. En við
ætluðum að gera alt sem í okkar valdi stóð, til að koma í
veg fyrir manntjón. Hvað eftir annað héldum við að stundin
væri komin. Sæfarinn lét herskipið komast mjög nærri, en
fór þá jafnan undan aftur.
Liðu svo
nokkrar klukkustundir af nóttinni, að ekkert bar til
tíðinda. Við biðum albúnir að grípa hvert tækifæri, sem
byðist. Ned Land ætlaði að fleygja sér í sjóinn, en ég
fékk hann ofan af því. Ég gerði ráð fyrir, að Sæfarinn
yrði ofansjávar, þegar hann réði á herskipið og þá mundi
okkur helzt verða undankomu auðið.
Klukkan þrjú
um nóttina fór ég upp á þilfar. Númi stóð þar enn og
horfði stöðugt á herskipið.
Kyrð og
friður hvíldi yfir náttúrunni. Himininn var heiður og
hafið spegilslétt. Herskipið fór eftir ljósinu á Sæfaranum
og var nú tæp hálf míla á milli skipanna. Ég sá ljóskerið
á frammastrinu og hliðarljósin,—grænt og rautt. Á
herskipinu var kynt svo ákaft undir kötlunum, að eldbjarma
lagði upp um reykháfinn og brá birtu á reiðann. Fylgdi því
ákaflega þykkur reykur og neistaflug.
Ég stóð á
þilfarinu þangað til klukkan fimm um morguninn. Skipið
nálgaðist óðum. Hóf það skothríðina á ný, þegar fór að
birta af degi.
Næstráðandi
kom nú upp á þilfar og nokkrir menn með honum. Tóku þeir
upp handriðið, sem var utan með þilfarinu. Turninum sem
ljóskerið var í, var hleypt niður í skipið. Sömuleiðis
þeim, sem var yfir stýrishjólinu og byrgt yfir opin
vandlega. Var þá skipið orðið alveg ójöfnulaust að utan.
Ég fór niður í aðalsalinn. Það var farið að birta.
Morgunroðinn brotnaði í bárugjálpinu og sendi öðru hvoru
rauðann bjarma inn um gluggann til okkar. Þetta var 2.
júní,—dagur sem mér líður aldrei úr minni. Sæfarinn hægði
skriðinn. Þóttist ég nú vita að stundin væri komin.
Skothríðin jókst ákaft. Kúlurnar ristu sjóinn svo hvein
við.
„Nú skulum
við leggja af stað!“ sagði ég.
Við gengum
gegnum bókasafnsklefann og út í ganginn; en þegar við
komum að stiganum var hlerunum skelt aftur. Ned Land
ætlaði að ryðjast á hlerann og hrynda honum upp, en ég
aftraði honum frá því. Ég heyrði hvin neðan úr skipinu,
sem ég kannaðist vel við. Það var verið að fylla
sökkviklefana, og Sæfarinn seig nokkra metra niður í
sjóinn. Við urðum of seinir fyrir! Sæfarinn fór í kaf til
þess að leggja að skipinu sem næst kjölnum, því þar var
það ekki brynvarið. Við vórum inniluktir að nýju, og
neyddir til að vera sjónarvottar að þeim ægilega
hildarleik, sem nú var fyrir hendi. Ég skundaði inn í
klefann minn aftur. Ég varð alveg utan við mig,—vissi ekki
í þennan heim né annan um stund og hefði víst hvorki heyrt
né skilið, þó annarhvor félaga minna hefði talað til mín.
Sæfarinn herti skriðinn. Hugsanir mínar og eftirtekt
beindust allar að því, að athuga hreyfingar skipsins og
atferli. Sæfarinn nötraði fyrir átökum válarinnar og ég
bjóst við árekstri þá og þegar. Aldrei hefi ég lifað jafn
kvíðvænlega og hryllilega stund eins og þessa.
Ég rak upp
hljóð, ósjálfrátt! Ég varð var við kipp, tiltölulega hægan
þó. Ég heyrði að stáltrjóna Sæfarans murði í sundur tré og
járn og hvað sem fyrir varð. Sæfarinn gekk í gegnum
skipið, eins og saumnál í gegn um klæði. Ég spratt upp í
otboði og þaut inn í aðalsalinn. Númi var þar fyrir. Í
sömu andránni var hlerunum skotið frá gluggunum og ljósin
slökt í salnum. Mér varð ósjálfrátt litið út um gluggann.
Ég sá eitthvert dökkleitt ferlíki vera að sökkva, svo sem
tíu metra frá Sæfaranum. Á því var stór glompa, sem
sjórinn beljaði inn um með miklum hávaða. Svo komu raðir
af súðgluggum og fallbyssuopum og síðast blasti við
þilfarið alskipað lifandi verum, sem börðust við dauðann.
Gagntekinn af skelfingu skundaði ég aftur inn í herbergi
mitt.
.
Það var dimmt
og þögult á Sæfaranum fyrst í stað eftir þetta. Ferðinni
var haldið áfram. En hvort var haldið í suður eða norður?
Ég vissi það ekki og hirti ekki um að vita það. Mig hrylti
við Núma skipstjóra. Hversu mikinn órétt sem hann hafði
orðið að þola af öðrum mönnum, þá var rangt af honum að
hefna sín á þennan hátt. Enda þótt ég ætti engan þátt í
þessu verki, hafði ég þó verið sjónarvottur að því, sem
gerðist og það var meir en nóg. Ljósi var brugðið upp
aftur í skipinu, þegar liðið var nær hádegi. Reyndi ég þá
að hressa mig upp og fór því inn í salinn. Þar var
mannlaust. Ég leit á mælingaverkfærin. Sæfarinn stýrði í
norður, með 7 sæmílna hraða á klukkustundinni, og var
ýmist upp við yfirborð, eða í 10 metra dýpi. Við vorum
komnir út úr Ermarsundi og fórum norður með
Írlandsströndum. Mér kom ekki dúr á auga næstu nótt. Ég
lagðist fyrir að vísu, en endurminningar nýafstaðinna
viðburða vóru mér svo ríkar í hug, að ég varð andvaka.
Sæfarinn hélt í hægðum sínum norður Atlantshafið næstu
daga á eftir. Niðdimm þoka var yfir hve nær sem við litum
til veðurs. Var nú ferðinni heitið til Norðurskautsins?
Eða til Spitzbergen? Eða til Nowaja Semlja? Það var ekki á
að ætla. Tíminn leið, en ég fylgdist ekki með í
tímatalinu. Ég var hættur að hafa hugmynd um, hvort heldur
var kvöld eða morgun, nótt eða dagur. Mér fanst eitthvað
ógeðfelt við alt, sem í kringum mig var. Ég var hneptur
undir yfirráð og hugsunarhátt óskyldrar, hálfsiðaðrar
þjóðar, sem ég gat ekki haft samneyti við í hugsun eða
athöfnum. Ég veit ekki með vissu hve langan tíma þessi
ferð hefir tekið; líklega hálfan mánuð eða þrjár vikur.
Það er ekki unt að segja hvar þetta hefði lent, hefði ekki
komið fyrir óvæntur atburður, sem batt á þetta
endahnútinn. Núma skipstjóra sá ég ekki allan þennan tíma;
ekki heldur næstráðanda né neinn af skipverjum. Við vorum
allajafnan í kafi. Þegar við komum upp úr til þess að
skifta um loft, vóru hlerarnir opnaðir með vélaútbúnaði.
Ekki vissi ég heldur hvar við vórum staddir, því leiðin
var ekki mörkuð á kortið. Ned Land var orðinn svo úrvinda
af leiðindum, að ekki var hægt að fá út úr honum orð.
Jafnvel Konsæll fór ekki varhluta af ógleði þeirri, sem á
okkur hvíldi. Við félagarnir vórum hættir að hafa afskifti
hver af öðrum. Við sátum hver í sínu horni fullir
örvæntingar. Þetta gat ekki gengið svona til lengdar. Eina
nótt svaf ég fram á morgun,—ég veit ekki hvaða dag það
var. Þegar ég vaknaði stóð Ned Land við hvílustokkinn og
laut yfir mig.
„Nú verðum
við að flýja“, hvíslaði hann.
„Hve nær?“
spurði ég og þaut upp í rúminu.
„Í nótt, þeir
eru hættir að hafa gætur á okkur. Eruð þér tilbúinn?“.
„Já; hvar
erum við staddir?“
„Það sér til
lands,—ég tók eftir því áðan,—í svo sem tveggja mílna
fjarlægð á bakborða“.
„Hvaða land
ætli það sé?“
„Það veit ég
ekki, enda skiftir það engu. Héðan verðum við að komast“.
„Já“.
„Það er úfinn
sjór og talsverður stormur“, sagði Ned Land. „En þó
slarkfært. Ég hefi laumað nokkrum vistum upp í bátinn og
fáeinum vatnsflöskum“.
„Það er
ágætt“.
Ned Land gekk
út að svo mæltu. Þegar ég var kominn í fötin fór ég upp á
þilfar. Skipið ruggaði svo ákaft, að ég átti fult í fangi
með að standa. Hvassviðri var á og ljótt útlit í lofti. Ég
grilti land gegnum þokubræluna. Nú urðum við að láta til
skarar skríða; það mátti ekki dragast lengur. Mér var
farið að leiðast og líða illa á Sæfaranum og vildi öllu
til hætta, að komast á burt sem fyrst. Ég fór aftur niður
í salinn. Mig hálf-langaði að sjá Núma skipstjóra einu
sinni enn og kveið þó fyrir því í aðra röndina. Hvað átti
ég að segja við hann? Gat ég dulið skap mitt fyrir honum?
Nei, það var hyggilegra að finna hann ekki,—reyna að
gleyma honum. Mér fanst dagurinn—að líkindum sá síðasti,
sem ég átti eftir að lifa á Sæfaranum,—vera hræðilega
lengi að líða. Ég var einn allan daginn, því félagar mínir
vöruðust að koma inn til mín, til þess að vekja ekki grun
um áform okkar. Miðdegisverð borðaði ég ekki fyr en kl. 6
og var þá svo lystarlaus, að ég varð að neyða ofan í mig
nokkrum munnbitum, til þess að halda kröftum. Klukkan hálf
sjö kom Ned Land inn til mín.
„Við sjáumst
ekki aftur fyrir flóttann“, sagði hann. „Tunglið verður
ekki komið upp kl. 10; við verðum að láta myrkrið skýla
okkur. Þá skuluð þér koma upp í bátinn. Við bíðum yðar
þar“.
Ned Land fór
út, en ég gekk inn í salinn, til þess að athuga
mælingaáhöldin. Við vórum á fimmtíu metra dýpi og fórum
með fullum hraða í norður-landnorður. Ég rendi augunum
yfir salinn í síðasta sinn og virti fyrir mér öll
listaverkin, sem hann hafði að geyma og hin fágætu
náttúruundur og aðrar vísindagersemar, sem ekki lá annað
fyrir en týnast í hafinu ásamt manni þeim, sem þeim hafði
safnað. Hryggur í huga snéri ég til dyra og fór inn í
herbergið mitt. Ég hafði fataskifti og fór í skjólgóðan
klæðnað, tók saman öll ritverk mín og stakk þeim inn á
mig. Ég hafði ákafan hjartslátt og fann að ég mundi ekki
geta dulið geðshræringar mínar fyrir Núma skipstjóra, ef
ég hitti hann. Svo lagðist ég fyrir í rúmið og reyndi að
sefa skap mitt. Tókst það vonum framar, en hugur minn
hvarflaði frá einu til annars og vakti upp endurminningar
frá veru minni á skipinu, um ýmsa atburði illa og góða,
sem þar höfðu komið fyrir. Mér fór smátt og smátt að
finnast meira um Núma skipstjóra. Hann var þó indverskur
þjóðhöfðingi, hvað sem öðru leið. Enda þótt það í sjálfu
sér væri engin afsökun, gat það þó meðfram verið orsök
þess, að hann beitti valdi sínu svona, til að koma fram
miskunnarlausum hefndum. Hin djúpsæja og víðtæka speki
hans, þrek og hugrekki, hófu hann í áliti mínu hátt upp
yfir aðra almenna indverjahöfðingja, yfir þjóð hans alla,
jafnvel yfir alt mannkynið. Hann var yfirmenskur
afburðasnillingur.
Klukkan sló
hálf tíu.—Ég fann til þyngsla í höfðinu og tók um það
báðum höndum, lét aftur augun og reyndi að beina
hugsuninni að einhverju lítilvægu efni. Nú var að eins
hálftími eftir—hálftími, sem ætlaði að firra mig vitinu. Á
þessu augnabliki bárust forte-píanóhljómar að eyrum mér
innan úr salnum. Það vóru stórfeldir samhljómar innan um
hrærigraut af lónum, sem skáru hver annan. Svo jafnaðist
lagið smátt og smátt og leið eins og hægur draumur. Það
var eins og í því lægi sárasta sorg, sem í brjósti getur
búið, eins og hyldýpi harma og hugarangurs, og dó svo út
hægt og blíðlega í viðkvæmu, sármjúku samræmi. Svo kom
hressandi lag, stuttur, magnþrunginn hergönguslagur. Það
var sem hnífi væri stungið í brjóstið á mér, Númi
skipstjóri var í salnum! En gegnum salinn varð ég að fara,
til þess að komast út. Ég hlaut að hitta hann og mátti
búast við að hann tæki mig tali. Útlit mitt og jafnvel
eitt einasta orð af vörum mínum gat komið upp um mig, og
þá var öll von úti. Klukkan sló tíu. Ég varð að fara. Ég
opnaði hurðina með mestu hægð og virtist þó verða af því
hræðilegur hávaði. Ég læddist fram eftir ganginum og
staðnæmdist í öðru hvoru spori til að jafna mig. Loks
komst ég að saldyrunum og opnaði þar. Þar var myrkur inni.
Skipstjóraklefinn var andspænis og hurðin hnigin á gátt.
Lagði ljósskímu um gættina inn í salinn. Ég læddist á
tánum gegnum salinn og gægðist inn í klefa skipstjórans.
Gegnt dyrunum var stór mynd, að líkindum af konu hans og
barni. Sjálfur sat hann við skrifborðið, niðursokkinn í
störf sín. Dyrnar að bókaklefanum stóðu opnar. Þar fór ég
í gegn og út í ganginn í áttina til bátsins. Ég skundaði
upp stigann og tróð mér upp um opið í þilfarinu til félaga
minna.
„Af stað!
Undir eins!“ sagði Ned Land.
Hlerinn var
lagður yfir þilfarsopið og festur vandlega með skrúfum.
Hleraopið í botninum á bátnum sömuleiðis. Ned Land fór að
losa um skrúfurnar, sem tengdu bátinn við skipið. Þá
heyrðist alt í einu þrusk mikið neðan úr skipinu, köll og
mannamál. Vóru skipverjar orðnir áskynja um flótta okkar?
Ned Land fékk mér hníf í hendina. Hann hætti að skrúfa um
stund. Ég varð þess brátt vísari, að þessi gauragangur
stóð ekki í sambandi við flóttatilraun okkar. Réð ég það
af orði einu, sem nefnt var hvað eftir annað. Það var ekki
úr óþektu máli, því ég skildi það vel. Röstin! var sagt.
Mér er sem ég heyri það enn í dag. Röst—einmitt á þessu
augnabliki, þegar við vórum að losa bálhornið okkar frá
Sæfaranum. Við vórum komnir inn í röst, og gat það naumast
annarsstaðar verið en við Lófótinn. Fyrir vangá—eða
jafnvel af ásettu ráði—var Sæfarinn kominn inn í röstina.
Hann fór að snúast í harðri hringiðu og færðist smátt og
smátt inn að henni miðri. Báturinn fylgdist með—fyrst í
stað. Skipið sveiflaðist með fleygiferð og við stóðum, á
öndinni af ótta.
Boðaföllin
beljuðu með þrumandi hávaða.
„Við verðum
að vera þar sem við erum komnir“, sagði Ned Land og fór að
skrúfa á aftur rærnar, sem hann var búinn að losa. En í
því kvað við hár brestur. Síðustu skrúfurnar hrukku sundur
og báturinn þeyttist eins og steinn úr slöngu út í
hringiðuna. Ég steyptist á höfuðið niður í bátinn og féll
í öngvit.
Ég veit ekki
hverju fram fór eftir þetta, hvernig báturinn komst út úr
röstinni og hvernig við náðum landi. En þegar ég raknaði
við aftur, lá ég í rúmi í kofa fiskimanns eins við
Lófótinn. Ned Land og Konsæll stóðu við hvílustokkinn.
Eftir lítinn tíma var ég kominn til Parísar.
Svona er nú
sagan um þessa merkilegu ferð. Ætli nokkur maður leggi
trúnað á hana? Ég get ekkert um það sagt, enda gildir mig
það einu. Ég hefi sagt frá viðburðunum eins og ég hefi
reynt þá, og hvergi hallað réttu máli. Og nú þekki ég
hafið. Ég hefi farið á tæpum tíu mánuðum umhverfis
hnöttinn neðansjávar og séð öll undur og stórmerki, sem
falin eru í skauti hafsins. En hvað er orðið af Sæfaranum?
Hefir hann losnað úr heljargreipum rastarinnar? Er Númi
skipstjóri enn á lífi? Hafa ekki blóðfórnirnar sefað enn
að fullu hefndarþorsta hans? Ætli öldurnar skoli ekki eitt
sinn handritasafni hans á land, svo vitneskja fáist um
þennan merkilega mann og æfiferil hans? Ég vona að svo
fari. Ég vona að undraskipið sem gert hefir undirdjúpin að
alfaravegi, hafi komist klaklaust út úr ægisvelg
rastarinnar, sem svo mörg skip önnur hafa farist í. Ég
vona að Númi lifi enn í þessum nýju heimkynnum sínum,
úthöfunum, og haldi þar áfram að rannsaka „leyndardóma
undirdjúpanna“. En þá hefir enginn átt kost á að rannsaka
eins vel og Númi skipstjóri og ég.