Ævintýrahornið.

VATNSDROPINN

Eftir Hans Christian Andersen - í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar

Þú munt víst þekkja stækkunargler, svona kringlótt sjóngler, sem gerir alla hluti hundrað sinnum stærri en þeir eru? Þegar maður tekur það og heldur því fyrir auganu og horfir á vatnsdropa úr tjörninni þarna úti, þá sér maður þúsundmörg undarleg dýr, sem maður sér annars aldrei í vatninu, en þau eru þar, og það er alls engin missýning. Það er líkast til að líta eins og diskur, fullur af marþvörum, sem stökkva hverjir innan um aðra. Þeir eru svo glefsandi og slíta kræklur og lappir, totur og skækla hverjir af öðrum, en eru þó glaðir og ánægðir eftir sínum hætti.

Nú var einu sinni gamall karl; almenningur kallaði hann Iða-Skriða, enda var það nafn hans. Hann vildi ætíð hafa það, sem bezt var úr hverjum hlut, og þegar það vildi ekki heppnast, þá hafði hann það með göldrum.

Nú situr hann einn dag og heldur stækkunarglerinu fyrir auganu og rýnir í vatnsdropa; hann var tekinn úr polli, sem stóð úti í skurðinum. En hvað iðaði og skreið í honum, því trúir enginn; öll þessi þúsund smádýr hentu sér og hoppuðu, rifu og toguðu hvert í annað og átu hvert annað.

"Já, -en þetta er, sannast að segja, viðbjóðslegt," mælti Iði-Skriði gamli. "Getur maður þá ekki fengið dýrin til að lifa í friði og gegna sínu?" Og hann var að hugsa um þetta, en komst enga leið, og var þá ekki annað fyrir en að galdra. "Ég verð að setja á þau lit, svo þau geti komið greinilega í ljós," sagði hann og lét eins og dálítinn dropa af rauðleitu víni í vatnsdropann, - en það var galdrablóð af langfínasta tagi á tvo skildinga, þá urðu öll þessi kynjadýr rósrauð á skrokkinn, - það var tilsýndar eins og heil borg, sem naktir villimenn bjuggu í.

"Hvað hefurðu þarna?" spurði annar gamall galdrakarl, sem hafði það til síns ágætis, að hann var nafnlaus.

"Takist þér að geta í kollinn, hvað það er," sagði Iði-Skriði, "þá skal ég láta þig fá það að gjöf, en það er ekki auðgetið, þegar maður veit það ekki."

Og galdrakarlinn nafnlausi horfði á í gegnum stækkunarglerið. Það var sannarlega eins og heil borg, þar sem allir voru á hlaupum allsberir. Það var hryllilegt, en það var ennþá hryllilegra að sjá, hvernig þeir rysktust og rifust, bitust og toguðu hver í anna. Það, sem neðst var, átti að verða efst, og það, sem efst var, átti að verða neðst. Sko, sko! þarna er einn, sem er fótlengri en ég; svei! fótinn af honum! Þarna er einn með ofurlítinn nabba bak við eyrað, en nabbinn kvelur hann, og þá skal hann kverjast af honum enn meir; og þeir hjuggu í hann og þeir toguðu hann og átu hann vegna nabbans. Einn sat þarna, hægur og stilltur eins og jómfrú, og óskaði einskis annars en að mega vera í friði og ró, en það fékk jómfrúin ekki, það varð að draga hana fram, og þeir toguðu í hana og rifu hana í sig.

"Þetta er ódáði skemmtilegt," sagði galdrakarlinn.

"Já, en hvað heldurðu að það sé?" mælti Iði-Skriði. "Geturðu ráðið þá gátu?"

"Hún er auðráðin," svaraði hinn, "Það er Kaupmannahöfn eða einhver önnur stórborg, þær eru allar hver annarri líkar. En stórborg er það."

"Það er forarvatn," sagði Iði-Skriði.

SigfúsSig. Iceland@Internet.isSigfúsSig. Iceland@Internet.isSigfúsSig. Iceland@Internet.is

 

©2002 Sigfús Sig. Iceland@Internet.is