Útungun..
Þegar
velja á egg til útungunar er gott að hafa fáein atriðið í
huga, hvort sem setja á eggin undir hænu eða unga út í
vél. Veljið eggin sem líkust að stærð og lögun, ekki egg
sem eru afbrigðileg, t.d. ílöng, mjó í báða enda eða
skurnin er ekki slétt og góð. Egg sem fara eiga í útungun
má ekki þvo og eiga að geymast í 14 -16° hita, upp á
endan og þarf að snúa þeim á hverjum degi ef fá á sem
best út úr þeim. Eggin má geyma í allt 14 daga en best
hefur mér reynst ef þau eru ekki mikið eldri en 8 daga
gömul.
ATH:
Frjósemin minnkar í eggjunum eftir 4-5 daga um allt að
1,5% og um 1% á dag eftir það . Útungunaregg eiga ekki að
vera í kæli, það getur dregið niður frjósemina í þeim.
Munið svo að hafa eggin ekki of gömul og að kæla þau
ekki, ef þið ætlið að vera öruggari en ella með útkomuna
úr útunguninni. Margir halda að haninn þurfi að troða
hænuna í hvert skipti til þess að öll egg séu frjó, en
það er ekki rétt. Ef hani treður hænuna í dag ættu eggin
hjá henni að vera frjó í 5-7 daga á eftir, gott er að
miða við lægri töluna til að vera öruggur. Eggjakerfi
hænunnar er þannig gert að hún heldur eftir sæði hanans
í sér í nokkra daga og verpir því frjóum eggjum í nokkur
skipti. Miðað er við að það sé einn hani fyrir hverjar
7-8 hænur til að fá sem besta útkomu við frjóvgun. Þremur
dögum fyrir innsetningu í vélina eða undir hænuna, skal
leggja eggin á hlið og láta þau vera þannig þar til þau
fara í útungun og snúa þeim á hverjum degi.
Hitinn
í vélinn á að vera 37,5° - 38°, rakinn um 45 - 50% og
tekur útungunin um 21 dag. Þó er algengt að fyrstu
ungarnir fari að koma á 18. - 19. degi, en það er
misjafnt. Ef vélin er ekki alsjálfvirk, það er að hún
snýr eggjunum ekki sjálf, þarf maður að gera það sjálfur
og skal snúa eggjunum 2 - 3svar á dag og fylgjast með að
hita og rakastig sé rétt og stöðugt. Síðustu þrjá dagana
eða á 18. degi skal hætta að snúa eggjunum og fjarlægja
vatnsbakkana. Ef of mikill raki er í vélinni, verða
ungarnir klístraðir og blautir í eggjunum, geta ekki
brotist út og er það oftast ástæðan fyrir því að að
fullskapaður ungi kemst ekki úr eggi en drepst á síðustu
dögum útungunar.Þetta getur einnig átt við ef of mikill
hiti er í vélinni,þá verður unginn lamaður eða slappur og
hefur ekki kraft til að brjóta skurnina. Á 23. degi ættu
allir ungar að vera komnir úr eggjunum. Það er góð regla
að skoða þau egg sem ekki ungast út, til að sjá hvort
frjósemin sé í lagi. Ef eggið er fúlt, hefur kviknað líf
í því en það drepist á fyrstu dögunum og ef það er hvíta
og rauða í egginu er það ófrjótt. Ungarnir koma úr egginu
með forða úr rauðunni í maganum, sem dugar þeim í tvo
sólarhringa eða svo. Á meðan taka þeir ekki fóður og
þurfa ekki aðra næringu. Hafið ungana í sólarhring í
vélinni, ekki skemur, eða þar til þeir eru orðnir þurrir
og vel brattir og flytjið þá síðan þangað sem þeim er
ætlað að vera. Hafið hitaperu(r) yfir þeim fyrstu 3 - 4
vikurnar og eftir það má flytja þá á stærra svæði eða
slökkva á hitaperunum ef þeir eiga að vera áfram á sama
stað.
Hitaperan
(150 W) á að vera í u.þ.b.b. 30 cm hæð yfir ungunum og
hitinn undir henni um 38°. Ein pera á að anna um 50-60
ungum. Athugið vel að ef ungarnir þjappa sér undir peruna
er hún of hátt uppi og hitinn ekki nógur hjá þeim, lækkið
þá peruna, ef þeir raða sér í kringum peruna er hitinn
góður en ef ungarnir leita frá perunni, út í jaðarinn á
búrinu eða jafnvel út í horn, er hitinn of mikill. Hækkið
þá peruna. Alltaf er nú gaman að leyfa hænu að liggja á
eggjunum sjálfar og sjá hvað þær eru miklar mömmur í sér.
Íslenska hænan er mjög góð móðir og umhyggjusöm og ver
egg sín og unga af krafti. Og alltaf er skemmtilegt að
sjá hana vappa um með litla hópinn sinn. Yfirleitt þarf
ekki að skipta sér af ungum sem eru undir hænu, nema til
að passa það að aðrar hænur nái ekki til þeirra, þar sem
þær geta drepið þá. Gott er að útbúa skjól í kofanum, þar
sem ungarnir geta flúið undir en stærri fuglar komast
ekki. Ætti þeim að vera borgið með því. Best er þó að
geta haft hænuna með unga út af fyrir sig í 2 - 3 vikur
og ætti þeim að vera borgið eftir það. Fylgist bara vel
með þegar þið hleypið hænu með unga saman við hópinn svo
aðrar hænur höggvi þá ekki og drepi. Ef fólk er með
nokkrar hænur sér til gamans og nytja, ætti ekki að vera
nauðsynlegt að eiga útungunarvél, heldur láta hænuna unga
út úr nokkrum eggjum til að eiga til endurnýjunar, en þá
ber að athuga að fólk getur setið uppi með nokkra hana
sem það þarf svo að losna við eða farga. Reglan er sú að
um 50% af ungunum eru hanar og 50% hænur en það er að
sjálfsögðu breytilegt, en oftast samt nálægt þessu. Best
er þó, ef komið er að endurnýjun, að kaupa kyngreinda
unga og þá er ekkert vesen og engir óvelkomnir
aukafuglar.
Gangi ykkur vel.
>Loka þessari vefsíðu< |